Til Íslands og til baka

Nú er ég kominn til baka eftir tveggja vikna frí á Íslandi.  Það er erfitt að lýsa því hvað er gott að komast aftur til Íslands eftir árs útlegð.  Þetta er einna líkast því þegar maður kemur úr kafi og fær að anda að sér fersku lofti.  Ekkert jafnast á við að keyra yfir Öxi og sjá Verufjörðinn opnast, keyra upp hæðina hjá Hátúni og sjá yfir að Fýluvogi, já eða fara upp á Bóndavörðu og horfa yfir þorpið fjörðinn og á fjöllin.   Á Íslandi gerði ég allt sem mig langaði að gera, sem sagt ekki neitt nema að vera með fjölskyldu og vinum og mestum tímanum eyddi ég með börnunum og því var lítið gert af tilgangslausum hlutum eins og að vera á Facebook eða horfa á sjónvarp, enda fannst mér það litla sem ég sá af RÚV í þessu fríi einstaklega leiðinlegt áhorfs.  Selfoss í 50 ár, er eitthvað óáhugaverðara og ódýrara sjónvarpsefni til?  Kannski var það bara ágætt þegar ekkert sjónvarp var í júlí.  En það var ekki bara sjónvarpið sem var slæmt.  Verðlagið var afleitt.  Meira að segja verslanir sem gefa sig út fyrir að vera ódýrar eins og Bónus og Krónan voru með óeðlilega hátt verðlag, munurinn er kannski sá að þar var mjög dýrt en ekki ógeðslega dýrt.  Einhver er að græða einhversstaðar, hvort sem það er milliliður, heildsali, smásali, flutningsaðili eða einhver annar, þetta á ekki að þurfa að vera svona.

Alla jafna er ég passasamur með að mæta tímanlega í flug og vil hafa allt á hreinu þegar ég ferðast.  Fjölskyldan fór til Íslands um miðjan maí og því var tilhlökkunin orðin gríðarlega mikil.  Ég gerði ferðafötin tilbúin fyrstu helgina í júlí og lagði þau á sófann, tók fram ferðatöskuna um miðjan júlí og byrjaði að setja í hana það sem ég ætlaði að hafa með auk þess sem ég hringdi í Íslandsbanka og bað um nýtt PIN númer fyrir debetkortið mitt af því að ég var löngu búinn að gleyma því.  “Ertu með leyninúmer á reikningnum?” spurði stúlkan sem hafði það hlutverk að úthluta PIN númeri. Er ég með leyninúmer? Hvernig á ég að muna leyninúmerið ef ég man ekki PIN númerið.  Nei ég er ekki með leyninúmer.  “Ég má ekki gefa þér upp PIN númerið í gegnum síma en ég get sent það í pósti á heimilisfang þitt á Íslandi”  sagði stúlkan.  “Það er fínt,  það verður allavega komið áður en ég kem til Íslands” sagði ég.  Svo rann ferðadagurinn upp.  Einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri meiningu að það væri nóg að mæta hálftíma fyrir brottför eins og í innanlandsflugi á Íslandi.  26 mínútum fyrir brottför var ég mættur á flugvöllinn til þess að innrita mig.  “Því miður það er búið að loka, það var lokað fyrir 4 mínútum, þú ert of seinn”. Sagði afgreiðslustúlkan.  Hvert þó í logandi.  Hvað geri ég nú? ég verð að komast til Íslands, hugsaði ég.  Á ég að hundskast aftur heim á mitt Orkneyska heimili og skammast mín? Á ég að leggjast í gólfið og grenja?  Á ég að taka brjálæðiskast og taka starfsmenn í gíslingu, hóta öllu illu nema mér verði hleypt í flugið eða á ég að þykjast vera á barmi taugaáfalls og leita eftir meðaumkun?  Ég valdi síðasta kostinn. ´Ég verð að komast í þetta flug, ég hef ekki hitt fjölskylduna mína í þrjá mánuði” sagði ég á eins örvæntingarfullan hátt og ég gat.  “Bíddu ég skal tala við strákana” sagði hún og hvarf á bak við vegginn.  Skömmu síðar kom hún aftur og sagði að mér yrði hleypt í gegn í þetta skipti en framvegis yrði ég að að mæta tímanlega.  Ég tók við farmiðanum og lofaði öllu fögru.  Ég lofaði líka máttarvöldin fyrir að hitta ekki á rangan tíma mánaðarins hjá stúlkunni sem reyndist mér svona vel.  Svo fór ég í miklum flýti í gegnum öryggisleitina og beinustu leið að brottfararhliðinu.  Þar tók sama stúlka á móti miðanum en þá kom í ljós að tvíbókað hafði verið í sætið.  “Því miður þú verður að koma út úr röðinni og bíða” sagði hún.  Frábært, hugsaði ég, búið að tvíbóka og nú er vélin full og ég kemst ekki með.  Ég var hættur við að láta mér líka vel við stúlkuna sem áður hafði verið hjálpleg.  Að lokum stóðum við tveir eftir, ég og maðurinn sem átti sama sæti og ég.  Stuttu síðar var komið með nýja miða til okkar og þegar út í vél var komið kom í ljós að örfáir farþegar voru um borð og langt frá því að vera yfirbókað.  Það tók nánast alla flugferðina til Edinborgar að jafna sig á þessum taugatrekkjandi mínútum sem ég hafði átt á flugvellinum á Orkneyjum. 

Þegar svo lent var á Keflavíkurflugvelli í Sandgerðishreppi kom í ljós að PIN númerið fyrir debetkortið hafði ekki skilað sér og því þurfti ég að komast í næsta Íslandsbanka, sem var í Keflavík til þess að redda því.  Á leiðinni frá flugvellinum í bankann undirbjó ég heljarmikla skammarræðu um vanhæfni bankanna til að leysa einföldustu verkefni, ofurlaun yfirmanna bankanna og hvernig bankarnir mergsjúga viðskiptavini sína með alls kyns ósanngjörnum vöxtum, afgreiðslugjöldum, þjónustugjöldum, gjöldum fyrir að taka út úr hraðbönkum.  Þegar í bankann var komið var mér vísað á starfsmann sem sat afsíðis, stráklingur um tvítugt, ábyggilega nýkominn af Þjóðhátíð í Eyjum, með úttroðna efri vör af tóbaki.  Ég hélt smá inngang um vandræði mín og var að fara að úthúða bönkum og bankastarfsmönnum þegar hann greip fram í og sagði:  “Ertu með netbanka og auðkennislykil?” “Nei, ég er með Netbanka en auðkennislykillinn er í Skotlandi”. “OK þetta er ekkert mál, hér er auðkennislykil, þarna er tölva, farðu inn á Netbankann og þar getur þú sótt PIN númer”. Sem ég og gerði.  Ég þakkaði tóbakskjaftinum fyrir og fór út og sá eftir þeirri orku sem fór í að semja skammarræðuna löngu sem var farin í vaskinn.  Nokkrum tímum síðar var ég kominn á Djúpavog.

Ferðin til baka var ekkert betri.  Áður en ég fór frá Orkneyjum rétt kíkti ég á farmiðapöntunina og þar stóð greinilega 17. ágúst klukkan 11:10.  Ég mætti tímanlega í þetta sinn á flugvöllinn, var kominn þangað klukkan rúmlega 8 miðvikudaginn 17. ágúst og fór beint að innritunarstöð þar sem ég setti vegabréfið í skannann.  Af þeim flugum sem birtust á skjánum var engin til Edinborgar.  Ég sló því inn staðfestingarnúmerið en sama sagan, ekkert flug til Edinborgar var í boði.  Jæja ég þarf að fá einhvern starfsmann til að hjálpa mér með þetta og skoðaði flugpöntunina.  Þá rak ég augun í það að áætlaður lendingartími í Edinborg var kl 11:10 og brottför 7:10.  Ég var því búinn að missa af fluginu og engin indæl Orkneysk stúlka þarna sem gat reddað mér.  Nú var eini möguleikinn að hundskast heim og skammast sín.  Dagurinn fór því að stórum hluta í að redda flugi út daginn eftir og það kostaði mig um 80.000 krónur, eitthvað sem mér þótti sársaukafullt að þurfa að reiða fram en auka dagur á Íslandi var þess virði.

Nú tekur við tveggja mánaðatörn áður en ég kemst aftur til Íslands.  Þá reynir maður nú að hafa allt á hreinu.  Best að fara að taka til ferðafötin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

HE HE FÖT GETURÐU FENGIÐ ALLSTAÐAR- EN HAFÐU farmiðann og tímann auk dagsetnigar á tæru !

 RÁÐLEGG ÞER HER MEÐ AÐ PRENTA ÞETTA ÚT OG KAUPA VEKJARAKLUKKU MEÐ BJÖLLUM !

Erla Magna Alexandersdóttir, 23.8.2016 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband