Saga Cliftons

Hér á Orkneyjum eru margir kynlegir kvistir  og einn kvisturinn, maður að nafni Clifton Praamsma, byrjaði nýlega á einni af stöð Scottish Sea Farms hér á eyjunum vindbörðu.  Clifton þessi er frá Suður-Afríku og á sér nokkuð merkilega sögu en hann var fallhlífarstökkshermaður í Suður-Afríska hernum.

Hann barðist í Angóla í frægum bardaga sem nefnist "Operation Firewood" en bardaginn stóð yfir í sjö klukkustundir þar sem hátt á annað hundrað hermenn féllu (m.a. 6 úr fallhlífastökksdeild Cliftons) og tugir særðust.  Eftir herþjónustu í Suður-Afríku fór Clifton til Ísrael til þess að vinna hjá háttsettum manni í Ísraelska hernum en þar vann líka ung stúlka og þau felldu hugi saman og urðu síðar hjón.

Meðan á Ísraelsdvölinni stóð var hann eltur á röndum af ísraelsku lögreglunni af þeirri ástæðu að hann var ekki Ísraelskur ríkisborgari.  Hann var handtekinn þrisvar.  Í eitt skiptið var hann  eltur um þröng stræti Tel Aviv þar til hann var króaður af í húsasundi og handtekinn, tveimur vikum fyrir brúðkaup sitt og nokkrum dögum fyrir fæðingu fyrsta barns síns.  Hann var látinn laus í tæka tíð fyrir brúðkaupið en var búinn að fá nóg af því að vera alltaf á flótta undan lögreglunni þannig að stuttu síðar flutti hann aftur til Suður Afríku.   Eftir stöðugt ógnandi tilburði blökkumanna í Suður-Afríku þar sem hann óttaðist stöðugt um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar fékk hann  nóg og flutti með fjölskylduna til Orkneyja þar sem leiðir okkar hafa nú legið saman.  Fyrir u.þ.b. tveimur vikum féll Clifton niður af fóðurpokastæðu og sleit liðbönd í hnénu og þegar ég hitti hann í Tesco nokkrum dögum síðar var hann mjög niðurdreginn og vonsvikinn með lífið.  Af svipnum á honum að dæma var eins og konan hans hefði stungið af með öðrum manni og tekið allar Bruce Springsteen plöturnar.  Og hundinn líka.  Þetta er erfitt fyrir mann sem er vanur að hreyfa sig mikið, hlaupa, hjóla synda og þar frameftir götunum en hann fékk þær upplýsingar hjá lækninum að hann þyrfti að hafa hægt um sig  frá vinnu í sex vikur.  Clifton var ekki af baki dottinn, fékk tíma hjá öðrum lækni og sá hleypti honum umsvifalaust í vinnu aftur, hann getur lítið beitt sér líkamlega en getur allavega siglt bátnum og önnur létt störf þannig að vonandi fer lífið nú að brosa við Clifton sem er afar geðþekkur og hógvær, svo hógvær að hann er nánast ósýnilegur.  Já hann er eiginlega gull af manni.


Bardaginn við Jótland

Í dag var fremur óvenjulegur dagur hér á Orkneyjum en í dag var þess minnst að 100 eru liðin frá einum mesta sjóbardaga í sögu Stóra - Bretlands, Bardaganum við Jótland (Battle of Jutland) þar sem Bretar mættu með 151 herskip gegn 99 herskipum Þjóðverja.  Það er ekkert smáræði, 250 gríðarstór herskip samankomin í bardaga á tiltölulega litlu svæði.  Í þessum bardaga varð mesta mannfall breskrar stríðssögu en um 6000 ungir breskir hermenn týndu lífi og 14 herskipum Breta var grandað.  Þjóðverjar misstu um 2500 menn og 11 herskip í þessum bardaga sem átti sér stað fyrir nákvæmlega 100 árum.

Af þessu tilefni var þjóðarleiðtogi vor, David Cameron, að spássera um stræti og torg hér í Kirkwall í dag á milli þess sem hann hélt ræður og var viðstaddur hina ýmsu viðburði.  Einnig mættu í partýið anna prinsessa og þýski forsetinn Joachim Gauck.  Til stóð að Filipus prins, eiginmaður Elísabetar drottningar vorrar yrði hér líka en hann boðaði forföll á síðustu stundu vegna veikinda, enda orðinn 94 ára karlinn. Það var líka ljóst fyrir helgi að eitthvað stóð til af því að skyndilega fjölgaði í lögregluliði Orkneyja og tilkynningar um lokanir á flestum götum í miðbænum fóru að berast.

Ástæðan fyrir því að Orkneyjar eru miðpunktur alls þessa umstangs er sú að stór hluti breska flotans lagði af stað í bardagann héðan frá Orkneyjum, en hér var ein aðal flotastöð Breta í heimsstyrjöldunum. Þá er þess einnig minnst um þessar mundir að á sunnudaginn eru 100 ár frá því að herskipið HMS Hampshire varð fyrir tundurdufli og sökk um tvo kílómetra frá landi hér við vestanverðar Orkneyjar en herskipið hafði einmitt tekið þátt í bardaganum við Jótland.

Hér hafa menn líka minnst fallinna hermanna og margir skarta rauðu blómi af draumsóleyjaætt sem þeir kalla “poppy”.  Hér í Kirkwall hefur verið útbúið listaverk af þessu tilefni, svokölluð innsetning, þar sem blómin flæða út um einn glugga kirkjunnar eins og tár og nefnist verkið Grátandi gluggi eða Weeping window og hefur hann vakið töluverða athygli.

13062403_10153565704737592_7008415402620300137_n


Einn á ný

Halló aftur.  Miklar annir undanfarnar vikur hafa gert það að verkum að ég hef ekki tímt að sjá af þeim litla frítíma sem ég hef haft í tölvuhangs eða bloggskrif.  Við erum búnir að flokka fiskinn okkar fyrir sumarið og nú er ekkert annað framundan en að sjá til þess að hann stækki og dafni og verði tilbúinn til slátrunar í haust.  Í sept/okt í fyrra þegar við fengum seiðin voru þau 80 gr en nú er meðalþyngdin á stöðinni um 1,2 kg og við stefnum á að vera komnir með fiskinn yfir 4 kg í október.  Brunnbáturinn sem við notuðum við flokkunina heitir Ronja Pioneer og getur hann tekið 135 tonn af lifandi fiski um borð sem okkur þykir alveg ágæt stærð en sennilega þykir slíkur brunnbátur fremur lítill í Noregi þar sem gjarnan eru notaðir brunnbátar sem geta tekið 350 – 650 tonn af lifandi fiski um borð.  Það hefur ekki skemmt fyrir að veðrið hefur verið nokkuð hagstætt með sólskini og hlýindum sem er afskaplega gott þegar verið er að skipta um net, smala fiski og allt það sem tilheyrir.

rp (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annað sem á dagana hefur drifið er að nú sit ég eftir einn þar sem hinn hlut fjölskyldunnar er kominn aftur til Íslands til þess að njóta íslenska sumarsins. Það var vissulega alls ekki ánægjulegt að þurfa að kveðja en þau munu án nokkurs vafa njóta lífsins betur á Íslandi en hér þó að þeim hafi verið farið að líka ágætlega við Orkneyjar eftir erfiðan vetur.  Sem betur fer hefur verið mikil vinna þannig að maður hefur haft um nóg að hugsa og ekki hefur verið tími til að sakna eða hafa heimþrá og sá frítími sem ég fæ næstu mánuði verður notaður til þess að sjá eitthvað nýtt og upplifa eitthvað spennandi.


Shakespeare og skipstjórnarréttindi

Um þessar mundir halda Bretar upp á tvo viðburði, annars vegar afmæli drottningarinnar, sem varð níræð s.l. fimmtudag, 21. apríl og hins vegar að 400 ár eru liðin frá því að ein af þjóðargersemum Breta, William Shakespeare, lést en hann lést þann 23. apríl 1616 en talið er að hann hafi einmitt fæðst þann 23. apríl (skv júlíönsku tímatali) líka en árið 1564, fæðingardagurinn er samt ágiskun eins og flest allt sem menn telja sig vita um Shakespeare (ef nafnið hans var raunverulega stafsett svona).  Menn vita ekki nákvæmlega hvernig hann leit út en menn vita að hann skrifaði leikrit sem eru í miklum metum hjá fólki um allan heim

Á föstudaginn, þegar ég kom heim að loknum löngum vinnudegi beið mín ánægjuleg sending á eldhúsborðinu en það var umslag með svokölluðu Yachmaster Coastal skírteini en það eru skipstjórnarréttindi sem gefur mér leyfi til að stjórna bát allt að 24 m að lengd, innan 20 sjómílna frá öruggri höfn að degi sem nóttu, sem þýðir að maður getur í raun farið með bát í kringum Bretland eða niður til Miðjarðarhafsins svo dæmi sé tekið. Námið tekur rúman mánuð, bæði bóklegt og verklegt og skírteinið gildir víðast hvar í heiminum.


Skara Brae

Hér á Orkneyjum er landslag vandfundið, jú, það er hægt að finna 3 – 4 staði sem eru alveg fínir, en bara ef væri hægt að skella niður nokkrum fjöllum, fossum og klettum hér yrði þetta afskaplega fínt.  Trúin flytur fjöll ekki satt?   Það er sagan sem er hvað merkilegust hérna. Saga Orkneyja einkennist af þremur megin tímabilum.  Elsta tímabilið var fyrir 4-5000 árum en enginn veit neitt um hvað var í gangi.  Fólk reisti steinhringi en enginn hvers vegna og hvernig fólk fór að því, bjó til grafhýsi að því er talið er en gæti samt verið eitthvað annað. Að öðru leiti tengist saga Orkneyja ofbeldi, blóðsúthellingum og stríði sem er nokkuð merkilegt fyrir þessa friðsömu og kurteisu bændur sem hér búa.  Víkingatímabilið er annað mikilvægt tímabil í sögu Orkneyja en þá heyrðu eyjarnar undir Noregskonung og með hans tilskipun ríktu hér jarlar sem sumir hverjir fóru í ránsferðir suður til Skotlands, Englands og Írlands.  Þriðja megin tímabilið er tvískipt, heimsstyrjöldin fyrri og heimstyrjöldin síðari en þá var flotastöð Breta hér við Orkneyjar.

Í dag fórum við að skoða eitt af þessum merkilegu sögustöðum, Skara Brae, sem eru rúmlega fimmþúsund ára gamlar rústir steinaldarþorps og Skaill House sem er 19. aldar hefðarsetur opið almenningi til sýnis.  Ég hafði áður skoðað Skara Brae en hin 75% fjölskyldunnar höfðu ekki séð þetta merkilega fyrirbæri.  Ég þurfti að greiða 14,10 pund í aðgangseyri sem meira en það sem mér fannst sanngjarnt að borga margfaldað með þremur.  Rústirnar uppgötvuðust árið 1850 þegar mannskaðaveður og sjógangur rifu upp sjávarbakkann við Skara Brae og sennilega verður Skara Brae að teljast eitt það merkilegasta sem hægt er að berja augum á Orkneyjum. áður en gengið er út að rústunum geta gestir farið í gegnum agnarlítið safn þar sem steinaldarlífið er útskýrt og svo er gengið í gegnum söguna, byrjað á 1969 þegar fyrsti maðurinn steig á tunglið og svo haldið áfram fram hjá pýramídunum í Egyptalandi og þar til maður er kominn 5100 ár aftur í tímann að steinaldarþorpinu á Skara Brae. Þegar gengið er um rústirnar er merkilega auðvelt að sjá fyrir sér lífið í þorpinu en steináhöld, bein tré og eldur var nánast það eina sem fólk hafði til þess að gera lífið auðveldara.

Í Skaill House er gengið í gegnum herbergin þar sem alls konar gamalt dót í Downtown Abbey stíl er til sýnis og það sem gerði ferðina ánægjulega fyrir alla fjölskyldumeðlimi var að á báðum stöðum var eitthvað fyrir börnin að skoða og leika sér en það er nú aldeilis mikilvægt á öllum túrista stöðum sem vilja fá fjölskyldur til sín.

Bæði í Skara Brae og Skaill House eru að sjálfsögðu túristaverslanir, báðar með meira framboð af könnum, diskamottum og isskápasegulstálum en ég hef þörf fyrir en getur verið skemmtilegt að skoða fyrir þá sem eru í túristabransanum. Við fórum því á kaffihúsið sem er þarna og fengum okkur kakó og köku, sem kostaði 15,90 pund, kakókið var duft blandað með mjólk og kakan var frekar þurr en ég geri ráð fyrir að þannig eigi hún að vera og að Skotum þyki hún góð.  Þrátt fyrir þennan endi á ferðinni var hún ánægjuleg og allir fóru brosandi heim.

skara brae


Muse og drónarnir

Í gær fór ég í örstutt en eftirminnilegt ferðalag á tónleika með Muse í Glasgow. Lagt var af stað frá litla sæta flugvellinum í Kirkwall (sem er með nákvæmustu og hægustu öryggisleit sem ég hef kynnst) í hávaðaroki, en spáð hafði verið vindi yfir 20 – 25 m/s, og þegar út í flugvél var komið hristist hún öll og skalf í veðurofsanum þannig að manni fannst ólíklegt að hún færi nokkurn tímann í loftið.  Og þar sem ég sat í vélinni og horfðist í augu við dauðann renndi hún sér átakalítið af stað og tók mjúklega á loft og ég verð að segja eins og er að þetta var eitt það þægilegasta flug sem ég hef farið í, engin ókyrrð eða hristingur.

Fljótlega eftir komuna til Glasgow var haldið á tónleikastað en tónleikarnir fóru fram í SSE Hydro Arena í Glasgow sem er þriggja ára gamalt sýningarhús sem tekur um 13.000 manns en ef eitthvað er þá er svona staður of lítill fyrir Muse sem er að sjálfsögðu hreinræktuð leikvangahljómsveit eða “stadium band” band eins og þeir segja. Tónleikahöllin er afar vinsæl og aðeins í O2 Arena í London og Manchester Arena eru seldir fleiri miðar á tónleika á ári hverju.  Þegar fyrsti tónn var sleginn hríslaðist gæsahúð um skrokkinn en uppistaðan í prógramminu voru lög af nýjustu plötu sveitarinnar Drones, en hann var í spilun hjá mér allt síðasta sumar og því þekkti ég lögin inn og út en auðvitað tók sveitin gamla slagara með í bland.  Ég mæli eindregið með því að þeir sem ekki hafa hlustað á Drones en hyggjast jafnvel fara á tónleika með Muse, kynni sér diskinn vel enda er hann einn af þeim betri frá hljómsveitinni. Tónleikarnir voru í einu orði sagt frábærir, hljómsveitin frábær, stórkostleg ljósasýning og risavaxnir drónar fljúgandi um salinn

20160418_211404 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Morguninn eftir var svo haldið heim og ef slæmt veður var eitthvað til að hafa áhyggjur af á leiðinni til Glasgow tók ekki betra við þegar kom að því að snúa aftur til Kirkwall en öll áhöfn flugvélarinnar var skipuð konum. Nú fyrst var farþegum vandi á höndum, hvað vita þær svo sem um fjarskipti, leiðsögutækni og loftfræði?  En það var of seint að snúa við, flugfreyjan lokaði hurðinni og ég er ekki frá því að brjálæðisglampa hafi brugðið fyrir í augum hennar um leið og hún glotti og skellti í lás.  Einhvern veginn tókst dömunum samt að ná vélinni á loft og sem vetur fer var bjart yfir öllu Skotlandi, sennilega eini dagur ársins sem það gerist, þannig að hver sem er hefði getað ratað norður til Orkneyja.  Ég hélt reyndar um stund að þær ætluðu ekki að lenda á Orkneyjum af því að flugvélin stefndi áfram norður en sennilega hefur einhver látið þær vita af því að skyndilega sneri vélin við og fyrir eitthvað kraftaverk tókst þeim að lenda heilu og höldnu á flugvellinum í Kirkwall.  Kannski er Loganair með sjálfstýringu í flugvélum sínum.  Hvað sem því líður þá var þessi ferð ógleymanleg og í alla staði frábær.


Stafar hætta af drónum?

30 atvik eru skráð á flugvöllum í Bretlandi síðustu 6 mánuði þar sem drónum hefur verið flogið nálægt flugvél og í sumum tilfellum hefur legið við árekstri svo að aðeins munaði nokkrum metrum. Kannski er bara tímaspursmál hvenær mannslíf tapast vegna ógætilegs drónaflugs en talið er að drónar geti gert gat á glugga flugvéla, skemmt hreyfla eða að eldhætta geti skapast við árekstur.  Vegna smæðar koma drónar ekki fram á ratsjám og nú hafa menn áhyggjur af því að hryðjuverkamenn muni nýta sér dróna til þess að fremja voðaverk.  Refsingin við því að fljúga dróna í nágrenni við flugumferð er 5 ára fangelsi í Bretlandi.  Hvaða reglur skildu gilda um dróna á Ísandi?  Annars er það skemmtileg tilviljun að nú er ég einmitt  á leiðinni upp í flugvél þar sem ég ætla að sjá hljómsveitina Muse á tónleikum í Glasgow í kvöld en tónleikarnir eru hluti af Drónatónleikaferð hljómsveitarinnar.  Vonandi verða tónleikarnir það eina sem tengist drónum í ferðalaginu.


mbl.is Þota flaug á dróna við Heathrow
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsetukarlar

Í gær bar svo við að íslenska kvikmyndin Hrútar var sýnd í Fönix kvikmyndahúsinu hér á Orkneyjum og auðvitað lét íslendingurinn ekki sitt eftir liggja, enda ekki á hverjum degi sem íslensk kvikmynd er sýnd í kvikmyndahúsi á útnára veraldar. Ekki var annað að heyra en að Orkneyingum líkaði myndin vel, enda er landbúnaður stærsti atvinnuvegurinn hér og því flestir bændur eins og aðalsöguhetjurnar í myndinni.  Það voru líka nokkrir kvikmyndahúsagestir sem líktust þeim Gumma og Kidda (aðalsöguhetjunum leiknum af Sigurði Sigurjónssyni og Theódór Júlíussyni) og eflaust hafa þeir einmitt verið bændur líka.  Mér sjálfum líkaði myndin ágætlega en kannski er ég hlutdrægur af því að ég var svo glaður að eiga kost á því að sjá íslenska kvikmynd hér.  Eftir að hafa séð myndina er ég líka búinn að átta mig á því að ég yrði frábær einsetukarl, eins félagsfælinn og maður er nú, allavega snerta þessir karlar einhvern streng í hjarta þeirra sem sjá myndina.  Til dæmis er sú naumhyggja sem einkennir marga einsetumenn, lífsstíll sem að gæti hentað mér ágætlega.  Hér á Orkneyjum eru flestir einsetukarlar í bláum samfestingum og einn þeirra kemur daglega gangandi niður á bryggju til þess að hitta fólk.  Sá er fyrrverandi lögregluþjónn en er nú farinn að nálgast nírætt.  Fyrst dó konan hans og svo dó hundurinn hans.  Þá var honum gefinn annar hundur en það var keyrt yfir hann stuttu síðar.  Nú styttir hann sér stundir við að höggva niður vörubretti og selur fólki svo að það geti brennt timbrið í arninum sínum.  Og talandi um einsetumenn, ég var að skoða myndir frá árinu 2005 og þar sem ég stóð og fletti í gegn um albúmið uppgötvaði ég að ég var enn í sömu fötunum núna árið 2016 og ég var í ámyndunum frá 2005.  Svörtu Puma buxunum og bláu Jako íþróttapeysunni sem hafa gengið með mér í gegnum súrt og sætt þessi síðustu ár og fengið að þola ýmislegt.  Íris er hneyksluð á þessari íhaldssemi minni og mig grunar að jólagjafirnar næstu árin verði mjúkir pakkar en sennilega deilum við ekki sömu sýn á fatanotkun.  Ég verð ánægður þegar ég næ að nota föt það mikið að ég slíti út úr þeim og hugsa þá með mér að þetta sé góð nýting en jafnframt verð ég svolítið leiður yfir að geta ekki notað viðkomandi flík lengur. Það er alveg merkilegt að þessi föt séu ennþá heil, ég hef þrifið grillið með peysunni og tjöruþvegið bílinn með buxunum en sama hvað ég reyni, ekkert virðist bíta á þeim.  Ég er eiginlega farinn að óttast að bláa Jako peysan eigi eftir að fylgja mér alla tíð án þess að ég nái að slíta henni út.  Kannski enda ég sem einsetukarl í blárri Jako peysu, eða bláum samfesting.


Víða er pottur brotinn

Ef menn telja að stjórnmálaástandið á Íslandi undarlegt og að íslenskir stjórnmálamenn séu duglegir við að koma sér í óviðeigandi og óþægilega aðstöðu þá er það ekkert miðað við Bretland. Nú hefur leiðtogi vor, David Cameron, viðurkennt að hafa átt fyrirtæki með föður sínum sem þeir skráðu í svokölluðu skattaskjóli til þess að komast hjá því að greiða skatt í Bretlandi. Áður hafði hann fullyrt að hann væri alveg ótengdur því en þegar hið sanna kom í ljós viðurkenndi hann að hafa sagt þjóðinni ósatt. Þetta hefur komið yfirvegaðasta fólki í töluvert uppnám en eflaust mun David takast að róa mannskapinn enda birtast aðallega viðtöl við hann í fjölmiðlum en minna er rætt við þá sem eru á öndverðum meiði við hann. Þó hefur ekki bætt úr skák að ríkisstjórn breska konungsveldisins lét gefa út áróðursbækling þar sem fólk er varað við því að kjósa með því að Stóra Bretland yfirgefi Evrópusambandið.   Andstæðingar Evrópusambandsins í Bretlandi, sem eru u.þ.b. helmingur landsmanna skv skoðanakönnunum, eru skiljanlega æfir yfir því að 9,3 milljónum punda af almannafé hafi verið eytt í að hafa áhrif á skoðun fólks. Nú hefur Cameron það sem sagt á bakinu að vera lygari, skattsvikari og óheiðarlegur en það er svo sem ekkert sem þarf að koma á óvart, hann er jú pólitíkus. Já það er víða pottur brotinn þegar stjórnmál eru annars vegar.


mbl.is Krefjast afsagnar Cameron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump = Píratar

Á stöðinni sem ég vinn á eru ýmissa þjóða kvikindi. Að sjálfsögðu Íslendingur, Skotar, Englendingar, stúlkan sem sinnir innra eftirliti er Áströlsk, Pólverji á geymslusvæðinu og svo vinnur hjá mér Bandaríkjamaður sem einnig er með enskt vegabréf.  Hann er svo heppinn að hann fær að kjósa um það hvort Bretar fara eða vera í Evrópusambandinu og svo fær hann að kjósa í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í vetur.  Hann hefur gert upp hug sinn hvað það varðar og hann ætlar að kjósa Donald Trump. Kannski er þessi eini maður þverskurður af meirihluta Bandaríkjamanna en ástæðan fyrir því að hann ætlar að kjósa Trump. Í hugum margra er Trump mikill karakter, í hugum annarra er hann klikkaður og allir sem hafa fylgst með honum hafa skoðun á honum.  Ástæðan fyrir því að þessi félagi minn ætlar að kjósa Dónald er nákvæmlega sú sama og ástæðan fyrir því að flestir kusu Besta flokkinn um árið og ástæðan er nákvæmlega sú sama og margir myndu kjósa Pírata ef kosið yrði til alþingis núna.  Þarna er að koma eitthvað nýtt inn og ef valið stendur á milli Hillary, sem margir líta á sem útjaskaðan pólitíkus, og Trump, sem er að koma með nýjar áherslur, munu margir setja X við Trump.  Pólitíkusar eru og verða pólitíkusar, sama hvað flokkurinn heitir en sumir velja greinilega hvað sem er, bara ef von er um breytingar, hvort sem um er að ræða USA eða Ísland.

Wyre (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þó að stundum sé logn í vinnunni er sjaldan lognmolla í pólitíkinni.

 


mbl.is Vinnur ef Kasich dregur sig út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 66160

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband