Einsetukarlar

Í gær bar svo við að íslenska kvikmyndin Hrútar var sýnd í Fönix kvikmyndahúsinu hér á Orkneyjum og auðvitað lét íslendingurinn ekki sitt eftir liggja, enda ekki á hverjum degi sem íslensk kvikmynd er sýnd í kvikmyndahúsi á útnára veraldar. Ekki var annað að heyra en að Orkneyingum líkaði myndin vel, enda er landbúnaður stærsti atvinnuvegurinn hér og því flestir bændur eins og aðalsöguhetjurnar í myndinni.  Það voru líka nokkrir kvikmyndahúsagestir sem líktust þeim Gumma og Kidda (aðalsöguhetjunum leiknum af Sigurði Sigurjónssyni og Theódór Júlíussyni) og eflaust hafa þeir einmitt verið bændur líka.  Mér sjálfum líkaði myndin ágætlega en kannski er ég hlutdrægur af því að ég var svo glaður að eiga kost á því að sjá íslenska kvikmynd hér.  Eftir að hafa séð myndina er ég líka búinn að átta mig á því að ég yrði frábær einsetukarl, eins félagsfælinn og maður er nú, allavega snerta þessir karlar einhvern streng í hjarta þeirra sem sjá myndina.  Til dæmis er sú naumhyggja sem einkennir marga einsetumenn, lífsstíll sem að gæti hentað mér ágætlega.  Hér á Orkneyjum eru flestir einsetukarlar í bláum samfestingum og einn þeirra kemur daglega gangandi niður á bryggju til þess að hitta fólk.  Sá er fyrrverandi lögregluþjónn en er nú farinn að nálgast nírætt.  Fyrst dó konan hans og svo dó hundurinn hans.  Þá var honum gefinn annar hundur en það var keyrt yfir hann stuttu síðar.  Nú styttir hann sér stundir við að höggva niður vörubretti og selur fólki svo að það geti brennt timbrið í arninum sínum.  Og talandi um einsetumenn, ég var að skoða myndir frá árinu 2005 og þar sem ég stóð og fletti í gegn um albúmið uppgötvaði ég að ég var enn í sömu fötunum núna árið 2016 og ég var í ámyndunum frá 2005.  Svörtu Puma buxunum og bláu Jako íþróttapeysunni sem hafa gengið með mér í gegnum súrt og sætt þessi síðustu ár og fengið að þola ýmislegt.  Íris er hneyksluð á þessari íhaldssemi minni og mig grunar að jólagjafirnar næstu árin verði mjúkir pakkar en sennilega deilum við ekki sömu sýn á fatanotkun.  Ég verð ánægður þegar ég næ að nota föt það mikið að ég slíti út úr þeim og hugsa þá með mér að þetta sé góð nýting en jafnframt verð ég svolítið leiður yfir að geta ekki notað viðkomandi flík lengur. Það er alveg merkilegt að þessi föt séu ennþá heil, ég hef þrifið grillið með peysunni og tjöruþvegið bílinn með buxunum en sama hvað ég reyni, ekkert virðist bíta á þeim.  Ég er eiginlega farinn að óttast að bláa Jako peysan eigi eftir að fylgja mér alla tíð án þess að ég nái að slíta henni út.  Kannski enda ég sem einsetukarl í blárri Jako peysu, eða bláum samfesting.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband