Mál er að mæla

Nokkrir punktar frá síðustu dögum.  Páskarnir voru góðir.  Við höfðum ætlað að fara til Reykjavíkur fyrir páska og mæta í eins og eina fermingu en af því varð ekki þar sem sá sem er þriggja mánaða í fjölskyldunni leyfði okkur ekki að fara.  Þau eru ung þegar þau byrja að stjórna þessi börn.   Í staðinn vorum við fyrir austan og nutum lífsins.  Á laugardag fyrir páska tók ég mér göngutúr inn í Veturhús en það eru orðin nokkur ár síðan ég hef komið þangað.  Á leiðinn rifjast upp sögur tengdar Hamarsdal, t.d. þegar draugurinn var næstum búinn að drepa Bensa í Borgargerði við Kjötklett.  Smali hafði tapað fé sínu í ána við Kjötklett og honum varð svo mikið um að hann ákvað að fara sömu leið.  Sagan segir að síðan sé reimt þar og því fékk Bensi að kynnast en hann komst við illan leik í Veturhús og kannski náði hann sér aldrei fullkomlega eftir þetta.  Allavega man ég eftir því þegar ég var unglingur og var að skokka heim á Borgarhól eitt dimmt vetrarkvöld, eftir að hafa verið að hanga með öðrum unglingum í miðbæ Djúpavogs, að ég sé veru þokast upp eftir Borgargerðisbrekkunni og reyna að flýta sér sem mest hún mátti.  Þegar ég kom nær sá ég að þetta var Bensi og þegar hann kom að hliðinu inn að Borgargerði var hann farinn að flýta sér svo mikið að hann hrasaði.  Ég stoppaði og hugsaði mig um, á ég að hjálpa honum á fætur? Nei, þá fyllist hann kannski ofsahræðslu og ræðst á mig, best að bíða bara þangað til hann er kominn inn til sín.  Hann kraflaði sig svo áfram og komst heim að dyrum.  Hann hafði greinilega orðið mjög hræddur við þessa veru sem kom skyndilega utan úr myrkrinu og eflaust hefur atvikið við Kjötklett átt sinn þátt í því.

Á Veturhúsum er að rísa sumarbústaður og eflaust verður friðsælt að dvelja þar á góðum sumardegi.  Rústirnar frá gamla Veturhúsabænum sjást ennþá vel og vel hlaðnar grjóthleðslur hafa líka varðveist en á Veturhúsum var búið til ársins 1946.  Ég hef heyrt þá sögu að Snjólfur á Veturhúsum hafi eitt sinn skotið 14 hreindýr á einum degi og svo lent í vandræðum með að ná þeim öllum heim samdægurs.   Ég fékk ekki úthlutað leyfi til hreindýraveiða við síðasta úrdrátt, hvað þá fjórtán leyfum, en það hefur greinilega sína kosti að búa á Veturhúsum.

Hleðslur

Á Páskadag var svo fjölskyldudagur á söndunum en eins og margir vita er fátt betra en fjölskyldudagur niðri á strönd.

Skrifað í sandinn

parís

Á annan í Páskum blés ég rykið af gönguskíðunum og skellti mér upp á Öxi.  Gat keyrt upp að Vagnabrekku og gekk með skíðin á bakinu upp fyrir Háubrekku þar sem var komið gönguskíðafæri á heimsmælikvarða.  Mikill snjór var þarna uppi og ekki fannst mér líklegt að Öxi yrði opnuð fljótlega en nú skilst mér að það sé bara dagaspursmál hvenær hún verður opnuð.  Ég ímynda mér samt að á verstu stöðunum verði ruðningarnir nokkurra metra háir, annars sjatnar þetta ótrúlega fljótt þegar sólin er komin svona hátt á loft.  Á skíðunum fór ég upp á Merkjahrygg í dásamlegu veðri, logni og sólskini þannig að ég gat verið á bol og þunnum buxum.  Hlífðarfatnaðurinn var geymdur í bakpokanum.  Þögnin og kyrrðin sem er þarna uppi í svona aðstæðum er ólýsanleg en eitt er víst að fátt er jafn endurnærandi fyrir sál og líkama en að vera einn á gönguskíðum uppi á fjalli í góðu veðri.

Skíðaför


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 66223

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband