Ljótt að heyra

Manni verður óneitanlega hugsað til þeirrar stöðu sem löggæslumenn eru í en hvernig ætli tryggingum þeirra sé háttað?  Hvernig ætli refsingum við svona löguðu sé háttað?  Það hljóta að þurfa að vera harðar refsingar við því að ráðast gegn lögreglumönnum við störf, mun harðari en gegn almúganum.  Ef svo er nú þegar þarf kannski að herða þær enn frekar, allavega þarf að vernda það fólk sem sinnir þessum störfum betur.  Í framhaldi af þessum vangaveltum kemur upp í hugann vopnaburður lögreglunnar.  Einn daginn kemur að því að íslenska lögreglan þarf að bera vopn, spurningin er ekki hvort heldur hvenær það er orðið tímabært.
mbl.is Sparkaði í andlit lögreglumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri Sixto Rodriguez

Í ágúst s.l. heyrði ég í fyrsta sinn tvö lög með Sixto Rodriguez, lögin hljómuðu afskaplega vel og ég hef haft þau í mp3 spilaranum mínum síðan.  Það eina sem ég vissi um  þennan mann var að þetta voru lög frá nítjánhundruðsjötíuogeitthvað og það var verið að endurútgefa þau.

Um daginn var mér svo sögð saga af Bandarískum verkamanni sem sagði sögu sína í fréttaþættinum 60 minutes.  Maður þessi hafði gefið út tvær plötur nítjánhundruðsjötíuogeitthvað, plötur sem fengu góða dóma en seldust ekki neitt þannig að tónlistarmaðurinn gafst upp og fór að vinna hefðbundna verkamannavinnu til þess að sjá fyrir fjölskyldunni.  Aldarfjórðungi seinna fær hann svo símhringingu þar sem hann er beðinn að koma til Suðu-Afríku til þess að spila á tónleikum algerlega grunlaus um þær vinsældir sem hann naut þar.  Hann lætur til leiðast og þegar hann lendir í S-Afríku standa limósínur á flugvellinum.  Hann fer að horfa í kringum sig til þess að athuga hvort að eitthvað stórmenni sé með í för en sér ekkert slíkt.  Hann kemst svo að því að limósínurnar eru ætlaðar honum og fjölskyldu hans.  Hann vissi ekki þá að hann væri stórstjarna í Suður - Afríku, gjarnan nefndur í sömu andrá og The Beatles og Bob Dylan.  Hann hafði reiknað með að spila á einhverjum sóðabar fyrir nokkra tugi manns en kemst að því að hann á að spila fyrir  þúsundir áhorfenda.  Nú hef ég komist að því að þessi maður er maðurinn í mp3 spilaranum mínum, Sixto Rodriguez.  Sannkallað sannsögulegt nútímaÖskubusku ævintýri.

Þegar ég sá auglýsingu þess efnis að kvikmyndin Sugar man væri væntanleg veitti ég því athygli vegna þess að annað lagið með Sixto Rodriguez sem ég er með í mp3 spilaranum heitir einmitt Sugar man og ég hugsaði sem svo, "skyldi þetta lag hljóma í myndinni"?  Það gerir það ábyggilega af því að þetta er sannsöguleg kvikmynd um ævintýri Sixto Rodriuez sem ég hlakka virkilega til að sjá, bæði vegna þess að tónlistin er góð og sagan er mögnuð.

Hér er tóndæmi:

Og hér er þessi magnaði 60 minutes þáttur:


Teigarhorn

Teigarhorn er merkilegur staður út frá veðurfræðilegu sjónarmiði en þar hefur lengi verið starfrækt veðurstöð auk þess sem á stöðinni hefur mælst hæsti hiti sem mældur hefur verið á veðurstöð á Íslandi.

Eftirfarandi texti er tekinn af vef veðurstofunnar www.vedur.is:

Veðurstofa var sett á laggirnar í Danmörku árið 1872 (Det Danske Meteorologiske Institut - DMI). Vísindafélagið hafði þá staðið fyrir stöðluðum eða hálfstöðluðum veðurathugunum þar í landi í meir en hundrað ár og kom líka við sögu veðurathugana á Íslandi á sama tíma. Hin nýja veðurstofa tók málin föstum tökum, samdi við Árna Thorlacius í Stykkishólmi  og kom veðurathugunartækjum til Djúpavogs og Grímseyjar, loftvog til Akureyrar og sjávarhitamæli í Papey.

Niels Pétur Weywadt hóf athuganir á Djúpavogi 10. nóvember 1872 og Jón Þorvarðarson í Papey hinn 1. ágúst 1873. Stykkishólmur, Grímsey og Djúpivogur voru svokallaðar aðalstöðvar (Hovedstationer). Þar var mældur hiti, raki og loftþrýstingur þrisvar á dag (kl. 8, 14 og 21 að staðartíma). Úrkoma var mæld við morgunathugun og sömuleiðis hámarks- og lágmarkshiti. Skýjahula, vindátt og vindhraði voru metin og veðurs getið.
Stöðin á Djúpavogi var flutt til Teigarhorns 1881, en hún hét alltaf Berufjörður í dönsku árbókunum

Þegar Veðurstofa Íslands var stofnuð 1920 tók hún við öllum þeim veðurstöðvum sem sú danska hafði rekið.

Hitamet

Hiti hefur aðeins sex sinnum verið bókaður 30°C eða hærri á Íslandi. Þessi tilvik eru:

  • Teigarhorn 24. september 1940 (36,0°C), ekki viðurkennt sem met,
  • Möðrudalur 26. júlí 1901 (32,8°C), ekki viðurkennt sem met,
  • Teigarhorn 22. júní 1939 (30,5°C),
  • Kirkjubæjarklaustur 22. júní 1939 (30,2°C),
  • Hallormsstaður júlí 1946 (30,0°C) og
  • Jaðar í Hrunamannahreppi júlí 1991 (30,0°C)
  • Hvanneyri 11. ágúst 1997 (30,0°C), sjálfvirk stöð

Mælingar þessar eru mistrúverðugar. Í einu tilviki eru tölurnar frá sama degi, 22. júní 1939. Sú staðreynd að 30°C náðust á tveimur veðurstöðvum og að háþrýstimet var sett í sama veðurkerfi dregur talsvert úr líkum á því að 30 stiga hitinn hafi eingöngu mælst vegna þess að eitthvað hafi verið bogið við mæliaðstæður.

Því er hins vegar ekki að neita að ákveðin óvissa fylgir, því mælum var komið fyrir á nokkurn annan hátt en nú er. Samanburðarmælingar sýna mælaskýlið á Teigarhorni hlýrra yfir daginn (0,5°C - 1,5°C) en síðara skýli og vitað er að það var óheppilega staðsett. Litlar fréttir eru af skýlinu á Kirkjubæjarklaustri.

Mjög heitt var um allt land, nema þar sem sjávarloft lá við ströndina. Þótt hámarkshiti hafi mælst að meðaltali meir en 1°C of hár á í veggskýlinu á Teigarhorni, þegar samanburður var gerður á skýlunum, er ekki þar með sagt að sú ályktun eigi við um þá daga sem hiti er mestur.

Athugunarmaðurinn á Teigarhorni, Jón Kr. Lúðvíksson, las 30,3°C af mælinum þennan dag. Með færslunni fylgdi eftirfarandi pistill: „22. þ.m. steig hiti hátt eins og skýrsla sýnir. Var vel að gætt að sól náði ekki að hita mælira. Tel ég því hita rjétt mælda". Þegar hámarksmælirinn var tekinn í notkun sýndi hann 0,2°C of lágan hita, hámarkið var því hækkað um 0,2°C í útgefnum skýrslum.

Engin leiðrétting var á hámarksmælinum á Klaustri. Daginn áður varð hiti á Teigarhorni mestur 24,0°C, en daginn eftir 19,9°C. Hitinn á Teigarhorni stóð stutt, kl. 9 um morguninn var hann 14,3°C, 26,6°C kl. 15 og 14,9°C kl. 21 (miðað er við núverandi íslenskan miðtíma). Um miðjan daginn var vindur af norðvestri, 3 vindstig, mistur í lofti, en nærri heiðskírt.

Met 1940?

Hitametinu frá Teigarhorni í september 1940 (36,0°C) er því miður ekki hægt að trúa eins og á stendur. Í veðurskýrslunni frá Teigarhorni í september 1940 stendur eftirfarandi: „24. þ.m. kom hitabylgja. Stóð stutt yfir. Hún kom á tímabili kl. 3-4, en stóð aðeins stutta stund. Sjómenn frá Djúpavogi urðu hennar varir útá miðum út af Berufirði".

Á venjulegum athugunartímum var hiti sem hér segir: Kl. 9, 5,2°C, kl. 15, 13,1°C og 12,7°C kl. 22. Vindur var hægur af norðvestri og hálfskýjað eða skýjað. Hvergi annars staðar á landinu varð sérstakra hlýinda vart og almennt veðurlag gefur ekki tilefni til að vænta mætti mets. Einnig aukast efasemdir þegar í ljós kemur að eitthvað ólag virðist á fleiri hámarksmælingum á stöðinni í þessum mánuði.

Því er hins vegar ekki að neita að stundum hegðar náttúran sér með einhverjum ólíkindum og erlendis eru dæmi um hitamælingar sem ekki eru taldar geta staðist. Þekktasta tilvikið er e.t.v. 70°C sem að sögn mældust í Portúgal snemma í júlí 1949. Þá var sagt að fuglar hefðu fallið dauðir úr lofti og frést hefur af 60°C í Texas 14. júní 1960. Þá grillaðist maís á stönglum að sögn (óvíst með poppkornið). Má vera að eitthvað ámóta komi fyrir hérlendis síðar en þangað til verða 36 stigin á Teigarhorni að liggja á lager.


Best

Messi er vel að þessum titli kominn enda einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar.  Hann minnir suma á George heitinn best og við nánari skoðun eru þeir að sumu leiti líkir leikmenn og má þar nefna snöggu hliðarhreyfingarnar og knatttæknina.  Til eru dæmi um að hann lék á mann og fór svo til baka til að geta leikið á hann aftur.  Best var einn besti leikmaður heims þegar hann var upp á sitt besta og lið á borð við Barcelona, Real Madrid og Chelsea væru örugglega til í að hafa hann innan sinna raða ef hann væri upp á sitt besta í dag.  Svo eru margar tilvitnanir í Best gulls ígildi:

I spent a lot of money on booze, birds and fast cars. The rest I just squandered.

I used to go missing a lot... Miss Canada, Miss United Kingdom, Miss World.

I've stopped drinking, but only while I'm asleep.

In 1969 I gave up women and alcohol - it was the worst 20 minutes of my life.

I once said Gazza's IQ was less than his shirt number and he asked me: "What's an IQ?"

I was in for 10 hours and had 40 pints - beating my previous record by 20 minutes.


mbl.is Messi hlaut gullboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daglegt amstur og rólegheit

Undanfarna daga hefur Silkitoppa heimsótt mig en það er afskaplega vinalegt að horfa á hana út um eldhúsgluggann, þar sem hún situr í trénu eða á jörðinni og nartar í epli sem ég hef hent út.  Starrarnir hafa líka verið reglulegir gestir ásamt Bjargdúfum en Snjótittlingarnir hafa ekki sést hér í vetur.

Silkitoppa

Þá hafa hversdagarnir ekið við aftur eftir hátíðirnar og nú er það vinnan og hið daglega amstur sem fyllir upp í dagana.  Trillukarlarnir eru líka komnir á stjá og einhverjir gamalreyndir eru farnir að kroppa sér upp einn og einn fisk úr firðinum.

glaður á landleið

Dagarnir eru stuttir en upp úr tuttugasta janúar fer að sjást mikill munur á dagalengdinni.  Þetta verður trúlega algeng sjón næstu vikurnar í lok vinnudags.

djúpivogur í myrkri

Í dag skrapp svo smáfjölskyldan á Neskaupstað í síðasta tékk fyrir væntanlega fæðingu.  Fólk, mest megnis konur, hefur verið duglegt nú eftir áramótin að koma upp að mér og spyrja: "Er Íris bara róleg"?  Ég kannast ekki við að hún sé einhver ofstopa manneskja eða eigi í erfiðleikum með að hemja skap sitt þannig að þessi spurning kemur mér dulítið spánskt fyrir sjónir en ég svara samt bara eftir bestu samvisku játandi þó að ég neiti því ekki að ég hugsa til baka og reyni að finna einhver andartök þar sem örlar á skapsveiflum.  Fólk þekkir hana kannski á annan hátt en ég.  Eða þá að þetta hefur eitthvað með barnsburðinn að gera.  Ég þarf sennilega bara að biðja um nánari skilgreiningu á þessu orði "Róleg".  Veðrið var með besta móti  í ferðinni okkar, fallegt að horfa úr Oddskarði niður í Eskifjörð og Reyðarfjörð og allir voru rólegir.

Hómatindur


Ársyfirlit

Árið byrjaði rólega en stífar æfingar með Bergmálinu einkenndu fyrstu mánuðina.  Góð tíð varð til þess að Öxi var fær frá febrúar.

Í mars var okkur tilkynnt að HB Grandi hyggðist hætta fiskeldi í Berufirði, við tók óvissutímabil varðandi áframhaldandi vinnu.

Apríl var mikill tónlistarmánuður.  Fyrsta giggið með Bergmáli var í apríl, þá æfði karlakórinn stíft fyrir páskadagskrá og svo var Hammondhátíð haldin í apríl og auðvitað var eitthvað kíkt á það.

Í maí kom í ljós að enn og aftur er barn á leiðinni.  Chelsea vann meistaradeildina og varð auk þess bikarmeistari

Í júni var spilað á fjölmennu sjómannadagsballi á Höfn.  Lax kom aftur í kvíarnar í Berufirðinum eftir fimm ára hlé.  Í lok mánaðarins tók ég þátt í Öxi 2012 sem er þríþrautarkeppni á Djúpavogi og verður vonandi að árlegum viðburði.

Ég byrjaði júlí á því að fara á N1 fótboltamót á Akureyri með Andra Jóni og félögum í Grindavíkurliðinu.  Nýir eigendur tóku við fiskeldinu í Berufirði og nú kallast það Fiskeldi Austfjarða, framtíðin verður svo að leiða í ljós hvernig því reiðir af.  Öllum þorski var slátrað í mánuðinum.

Ágúst var góður mánuður.   Hann hófst með því að fjölskyldan fór í bústað vestur í Dali þar sem nánasta umhverfi var kannað.  Á sama tíma voru Ólympíuleikarnir og eitthvað var fylgst með þeim en hápunkturinn var þegar Ásdís komst áfram í spjótkastinu.  Þegar heim úr bústað var komið fór ég á sönglagakeppni Ormsteitis þar sem ég átti tvö lög í úrslitum og annað lagið mitt náði að sigra.  18. ágúst var svo stór dagur þar sem ég tók þátt í Reykjavíkurmaraþoni og náði að klára heilt maraþon, flaug svo austur um kvöldið og spilaði á balli í Valaskjálf fram á nótt.  Í lok mánaðarins gerðist ég leiðsögumaður á Jökulsárlón hjá farþegum á skemmtiferðaskipi sem stoppaði við á Djúpavogi.

Októbermánuður hófst á því að við skötuhjúin fórum til Lundúna og sáum Chelsea sigra Norwich 4-1 auk þess sem við fórum á Queen söngleik.  Mjög skemmtilegt.  Smalanir tóku sinn í tíma í mánuðinum og svo fór hljómsveitin Bergmál í víking til Reykjavíkur þar sem spilað var á Rás 2, á Spot og í Grindavík.  Hvað vinnuna snertir þá fengum við Regnbogasilung í fyrsta sinn í kví í Berufjörð.

Nóvember hófst með illviðrum þar sem hviður í Hamarsfirði fóru m.a. í 70m/s. Æft var á fullu fyrir minningartónleika.  Í desember var svo miklu betra veður en helst bar til tíðinda að ég fór vestur á Akranes til þess að vera viðstaddur jarðarför hjá Dillu frænku minni.  Allir krakkarnir voru hjá mér um jólin og þann 29. voru svo minningartónleikar um Ægi.  Krakkarnir mínir eru að fara í hinar og þessar áttir.  Karen er í fatasaumsnámi, Telma í Menntaskólanum á Egilsstöðum og Ingimar í Fjölbraut á Suðurnesjum og stefnir á að verða kokkur.  Andri er í Grunnskólanum í Grindavík og Brynja er á síðasta leikskólaárinu sínu.  Á heildina litið var þetta gott ár þar sem nokkrir eftirminnilegir atburðir áttu sér stað.

Ágúst á innleið


Gleðilegt ár

Gleðilegt ár kæru vinir og takk fyrir árið 2012.  Árið er búið að vera að flestu leiti gott.  Um síðustu áramót hét ég sjálfum mér því að vera duglegur að fara út að hlaupa og sinna tónlistinni af meiri alúð en áður.  Hvort tveggja gekk eftir, ég hljóp mitt fyrsta maraþon í ágúst og þær voru æði margar stundirnar sem fóru í tónlistariðkun af einhverju tagi á árinu.  Ætli stefnan verði ekki sett á að halda áfram á sömu braut á næsta ári.  Einhverra hluta vegna er gamlárskvöld einn merkilegasti dagur ársins í mínum huga, kannski vegna þess að í gegnum tíðina hefur verið mikið um að vera hjá mér þetta kvöld.   Hefðbundin rammíslensk sviðaveisla hefur nú vikið fyrir nýmóðins sushi veislu hvort tveggja er gott og vel passandi fyrir gamlárskvöld enda reikna ég með að njóta kvöldsins og vona að sem flestir geri það líka. Megi árið 2013 verða þér gott.

Tónlistarárið

Tónlistarárið var gott á Íslandi á árinu.  Ótrúlegar vinsældir Of Monsters and men eru það sem stendur upp úr, en hljómsveit sem vann músíktilraunir í fyrra er orðin heimsfræg ári síðar.  Magnað.  Ásgeir Trausti hefur skotist með svipuðum hraða upp á íslenska tónlistarstjörnuhimininn.  Í júní vissi enginn hver hann var en í nóvember vissu allir hver hann var.  

Íslenska plata ársins er án nokkurs vafa Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta.  Ekki aðeins vegna þess að hún er langsöluhæsta platan heldur vegna þess að hún er algjört ljúfmeti.  Ég prófaði að hlusta á hana í bílnum á meðan ég var að keyra að kvöldi til frá Egilsstöðum til Djúpavogs, en það gekk ekki.  Ég varð að leggja bílnum utan vegar, slökkva ljósin, horfa út í stjörnubjarta nóttina og hlusta.  Það var algjör dýrð í dauðaþögn.

Íslenska lag ársins er að mínu mati Tenderloin með Tilbury.  Töff laglína, svolítið nördalegt en vel útsett og vel gert auk þess sem myndbandið er ákaflega skemmtilegt. Heim með Magna gæti komið í öðru sæti.  Borko er líka athyglisverður.

Besta erlenda plata ársins er án nokkurs efa Blunderbuss með Jack White.  Aðrar plötur sem vert er að nefna eru Researching the blues með Redd Kross og Some nights með Fun.  Erlenda lag ársins er erfitt að velja en tvö lög með Train, Drive by og 50 ways to say good bye gerðu lífið skemmtilegt á árinu.  Muse eru kannski vonbrigði ársins.  Allt sem þeir hafa gert fram til þessa er gott en einhvern veginn fannst mér þeir ekki vera að toppa sig með nýju plötunni sinni, heldur kannski frekar aðeins skref til baka.  Kannski er þetta líka bara vegna þess að væntingarnar eru of miklar.

Hvað mig sjálfan varðar var óvenju mikið um að vera í tónlist á árinu, ekki endilega í því að spila opinberlega, heldur var mikið æft með Bergmál, Karlakórnum Trausta og Tónleikafélagi Djúpavogs.  Karlakórinn tók m.a. þátt í að flytja Messías eftir Händel,  Bergmál æfði upp skothelt prógramm og er tilbúin í hvað sem er.  Árinu lauk svo með ágætlega heppnuðum  minningartónleikum Tónleikafélagsins á Hótel Framtíð.  Þá sendi ég inn tvö lög í söngkeppni Ormsteitis sem bæði komust í úrslin og það var sérstaklega ánægjulegt að annað lagið skyldi vinna keppnina.  Þar sem sigurlagið má finna hér neðar á síðunni set ég hitt lagið hér inn til gamans.


Góður

Á góðum degi í framtíðinni ...
Steingrímur Sigfússon var dauður og kominn til himna þar sem hann hitti Lykla-Pétur.
Lykla-Pétur varð svolítið vandaræðalegur: "Eh, velkominn," sagði hann loks.
"Þakka þér fyrir," sagði Steingrímur, "ég vissi að ég mundi enda hér". "Nja," sagði Pétur , "þú hefur lifað sæmilega frómu lífi, eða þannig, svo við vildum gjarnan hafa þig hér en því eru ekki allir sammála. Þú ert umdeildur maður og það hafa fleiri áhuga á þér en við hér í himnaríki.
Við urðum að halda fund með djöflinum þar sem þetta var rætt og það endaði með því að við gerðum samning við hann."
"Samning!" Hrópaði Steingrímur og var sýnilega brugðið.
"Það er nú ekki alslæmt," sagði Pétur, "en djöfullinn sagðist nú þegar hafa flesta vini þína svo við sömdum um að þú eyddir einum sólarhring í helvíti og öðrum hér hjá okkur í himnaríki og svo velur þú sjálfur hvar þú dvelur um aldur og eilífð.
Steingrímur maldaði svolítið í móinn en samningur er jú samningur svo Pétur vísaði honum á lyftuna, kvaddi hann og sagðist sjá hann eftir sólarhring.
Steingrímur ýtti á hnapp merktan "helvíti" í lyftunni og seig svo langt, langt niður á við þar til lyftan stoppaði við kolsvarta hurð. Þegar dyrnar opnuðust stóð djöfullinn sjálfur fyrir innan.
"Gamli vinur, vertu hjartanlega velkominn, gakktu í bæinn," sagði djöfsi.
Steingrímur fór inn og við honum blasti risastór golfvöllur. Margir af
hans gömlu flokksbræðrum léku golf á vellinum eða stóðu í smáhópum og töluðu saman. Golfvöllurinn var fullkominn. Það var heitt í lofti og út um allt voru léttklæddar, snoppufríðar djöflastelpur sem færðu mönnum bjór og aðra kalda drykki. Steingrímur lék golf allan daginn og umkvöldið bauð Svavar Gestsson, sem hafði dáið nokkru áður, honum í "gúrme"grill (hafði sem sagt grætt um daginn og grillað um kvöldið) ásamt Indriða, Álfheiði og fleiri góðum vinum með öllu góðgæti sem hugsast gat. Fáum sögum fer af því hvernig Steingrímur eyddi nóttinni en sólarhringurinn í helvíti var fljótur að líða og morguninn eftir var honum vísað á lyftuna á ný.
Þegar Steingrímur kom aftur til himnaríkis var hann efins um ágæti þess staðar en það var samt sem áður tekið vel á móti honum. Hann var klæddur í englaföt og fengin harpa til að leika á. Hann eyddi deginum með því að ganga um milli skýjanna, hlustaði á fagran fuglasöng og borðaði ferska ávexti.
Hann fékk reyndar í magann af ávöxtunum og það pirraði hann að sjá Davíð og Þorgerði sitja saman á skýi og leika á hörpur af mikilli innlifun.
Um kvöldið kom Pétur. "Nú ertu búinn að dvelja heilan sólarhring í
helvíti og heilan dag hér í himnaríki. Ertu kannski búinn að ákveða þig?" Spurði postulinn.
"Hmm," sagði Steingrímur, ég átti nú kannski ekki von á því en ég held að ég velji helvíti, þrátt fyrir allt. Það er heppilegasti staðurinn fyrir mig."
Andlitið datt af Pétri og hann reyndi hvað hann gat að fá Steingrím ofan af ákvörðun sinni. En Steingrímur var harðákveðinn.
Á ný fór Steingrímur með lyftunni niður í helvíti og djöfullinn tók aftur á móti honum. Hann kippti Steingrími inn en þar var þá allt öðru vísi umhorfs en daginn áður. Brennisteinsfnykinn lagði um allt og skerandi sársaukavein flokksbræðra hans og vina fylltu loftið. "En hvar er golfvöllurinn?" Spurði Steingrímur. "Og djöflastelpurnar, bjórinn og grillið?

- "Ah," sagði djöfullinn, "þú skilur þetta manna best, í gær var
kostningabaráttan í fullum gangi. En nú ertu búinn að kjósa!

NEEEEEEIIIIIII

Feiti spænski þjónninn var ekki sá sem aðdáendur Chelsea vildu sjá koma í stað Di Matteo.  Spánverjinn hefur ekki náð að gera neinar rósir frá því að hann var á Spáni.  Rekinn frá Inter eftir stutta dvöl og aðeins tveir titlar á sex árum með Liverpool.  Hver veit nema að hann taki Voronin og Babel með sér.  Þar sem hann er aðeins ráðinn fram á næsta sumar verða menn að bíða rólegir og vonast eftir betri stjóra fyrir næsta tímabil. 

Það hefur reyndar skilað ágætum árangri að skipta um stjóra og á meðan titlarnir koma er ekki hægt að kvarta.  Það eru bara ekki margir sem hafa trú á Benitez

One Di Matteo, there's only one Di Matteo, one Di Matteo, there's only one Di Matteo mun hljóma á Stamford Bridge um næstu helgi.


mbl.is Chelsea staðfestir ráðningu Benítez
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband