10.11.2011 | 22:45
Þokan á Öxi
Í vikunni þurfti ég að bregða mér af bæ og lá leiðin yfir Öxi. Fljótlega skall á svartaþoka þannig að ekki sást milli augna og þurfti að þræðan krókóttann veginn stiku fyrir stiku. Ég leit í baksýnisspegilinn en vegna þoku sá ég ekki sjálfan mig í honum en ákvað engu að síður að halda áfram. Í svokallaðri Vagnabrekku ók ég fram á smábíl sem greinilega var að þræða stikurnar og fór hann mjög hægt yfir enda um hálf kraftlausan Hindúa að ræða sem tæplega hefur verið nægilega aflmikill til að komast í gegnum þokuna, svo þykk var hún. Eitthvað hefur kannski spilað inn í að bílstjórinn var greinilega óvanur akstri í austfjarðaþoku. Ég sá fram á að eiga auðveldara með að keyra í þokunni en sá sem á undan fór og því gaf ég stefnuljós til merkis um að ég vildi komast fram úr og hafði ég hugsað mér að láta hinn bílinn elta. Stefnuljósið á bílnum er sennilega ekki nógu skært til að sjást í gegnum þokuna af því að ekki var mér hleypt fram úr en þegar upp fyrir Merkjahrygg var komið sá ég að bíllinn stefndi beint á eina stikuna og ákvað svo að fara hægra megin við hana sem hann hefið ekki á að gera því þar með fór hann út af veginum. Ég stoppaði að sjálfsögðu og í ljós kom að þetta voru tveir strákar frá New York en aðstæðurnar á Manhattan og Öxi eru væntanlega eins ólíkar og mest getur orðið. Eftir um tveggja tíma bras, aðallega vegna þess að krókurinn á bílnum var svo vel falinn í þokunni, tókst að koma bílnum aftur upp á götuna. Þetta er ekki fyrsti bíllinn sem fer út af þarna í þoku en það verður að segjast eins og er að þarna uppi er allt of langt að milli vegstika en það mætti auka öryggi til muna með því að tvöfalda stikufjöldann á þessari leið. Allavega finnst mér að Vegagerðin ætti að taka það til athugunar þar sem ekki er útlit fyrir að vegaframkvæmdir þarna hefjist í bráð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2011 | 22:47
Bláu kartöflurnar
Í dag kláraði ég að taka upp restina af kartöflunum við kjöraðstæður, sólskin og hávellukvak. Uppskeran þetta árið var frekar rýr, kannski þre eða fjórföld miðað við að vera sex til áttföld í venjulegu árferði. Hverju sem um er að kenna. Lélegu útsæði, lélegum áburði eða því sem ekki fór fram hjá neinum hér fyrir austan, köldu sumri. Það var þó til að gleðja kartöflubóndann að Stefán frændi minn í Fagradal gaf mér nokkrar bláar kartöflur til þess að setja niður með gullauganu sem ég notaði þetta árið. Þessar bláu kartöflur eiga sér sögu.
Franskt skip strandaði við Kross á Berufjarðarströnd á þar síðustu öld og nærstaddir bændur hlupu til og aðstoðuðu skipverja við að komast heilu og höldnu í land. Frakkarnir launuðu bjargvættunum með því að gefa þeim mat og annað sem þeir höfðu með sér um borð, þar á meðal bláar kartöflur. Kartöflurnar voru svo ræktaðar á Veturhúsum, Hálsi og Hamri í Hamarsfirði, auk þess að vera ræktaðar í Fagradal og hafa haldist í rækt þar síðan. Ég veit ekki hvort þessar bláu frönsku kartöflur (sem reyndar eru meira fjólubláar) eru til annars staðar á landinu en það er gaman að vera með svona sjaldgæfa tegund í ræktun. Ég á eftir að prófa að elda þær en mér er sagt að þær séu ekki jafn bragðgóðar og þessar hefðbundnu kartöflur sem við þekkjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2011 | 19:57
Einstæður
Framundan hjá mér er kvenmannslaus vika af því að Íris verður við verslunarstörf á Egilsstöðum og Norðfirði fram á laugardag. Þetta þýðir að ég verð einstæður faðir en það hentar mér illa að því leyti að þá hef ég minni tækifæri til að sinna frístundaverkefnunum. Hljómsveitaræfingar, karlakórsæfingar og útihlaup verða sennilega að bíða betri tíma. Ég ræddi það reyndar við Írisi að það væri gott að hafa aðra konu upp á að hlaupa þegar hún færi svona í burtu. Ég myndi ekki gera neinar sérstakar kröfur nema um notagildi en aðallega snýst þetta um barnaumönnun. Annað skiptir minna máli, þó að horft verði til annarra kosta ef mikil ásókn yrði í þetta.
Telma er í skólanum í vikunni þannig að hún mun ekki passa fyrir mig þessa vikuna. Hún var reyndar heima um helgina og vinur hennar kom í heimsókn. Fyrsta svoleiðis heimsóknin. Hann er reyndar af ágætum ættum þannig að ef að á að nota hann til undaneldis er erfðaefnið í lagi.
Kannski er bara ágætt að hvíla sig á tómstundunum öðru hvoru en í alvöru talað þá sé ég fram á að þetta verði bara notalegt og skemmtilegt hjá okkur feðginum. Já, og einmitt núna þarf ég að fara að setja meiri sykur út á skyrið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2011 | 08:42
Minning
Þegar ég fékk fréttirnar um að þú hefðir kvatt þennan heim dofnaði ég upp og á svona stundum finnst manni lífið vera svo ósanngjarnt. Þetta var mikið reiðarslag og það er erfitt að þurfa að sætta sig við og skilja þegar svona lagað gerist. Minningar um þig runnu fyrir hugskotssjónum mínum eins og bútar úr kvikmyndum og flestar þær tengjast þær tónlistinni en leiðir okkar lágu mest saman þar.
Ætli við höfum ekki verið fjórtán eða fimmtán ára þegar við ákváðum að stofna pönkhljómsveit sem fékk nafnið Glappaskot og æfðum við af kappi í stofunni í Nausti. Svo fóru fleiri að bætast í hópinn og við héldum okkar fyrstu tónleika í Neista og keyptum okkur svo pulsur og kók fyrir ágóðann. Síðan þróaðist spilieríið á þann veg að fleiri bættust í hópinn og að fáum árum liðnum, eftir nafna og mannabreytingar varð hljómsveitin Þörungarnir að veruleika og við farnir að spila á böllum hingað og þangað. Sérstaklega eru minnisstæðar ferðir á Höfn og í Mánagarð, já og öll áramótaböllin í slökkvistöðinni og svo seinna meir á Hótelinu. Þær eru ófáar klukkustundirnar sem við eyddum saman í æfingar á hinum ýmsu stöðum, í Nausti, slökkvistöðinni, Vogi, bílskúrnum hjá Hafsteini, bílskúrnum hjá Leikskólanum, gamla Kaupfélaginu og víðar. Okkur fannst ekkert athugavert við það þó að mamma þín myndi sitja inni í eldhúsi með heyrnaskól ámeðan við vorum að framkalla hávaða í stofunni. Það kom fyrir að við rifjuðum upp þessa góðu tíma og ég á eftir ylja mér við að hugsa um þá í framtíðinni.
Svo verður manni hugsað til fjölskyldunnar. Þau hafa misst mikið, föður, mann og son. Fáir sem ég hef umgengist hafa haft yfir að ráða jafn miklu af jafnaðargeði. Fátt kom þér úr jafnvægi og aldrei heyrði ég þig hallmæla nokkrum manni. Ljós þitt mun skína áfram. Shine on you crazy diamond. Við höfum misst góðan dreng, hvíldu í friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2011 | 22:00
Riga
Við lögðum af stað til Reykjavíkur á fimmtudag og vorum komin þangað seinnipartinn. Á meðan Íris fór í klippingu fór ég á Laugardalsvöllinn og sá Ísland U-21 - England U-21. Englendingar voru töluvert betri og unnu þrjú núll, sanngjarn sigur en þó var íslenski markmaðurinn með hugann við eitthvað annað og hefði ekki þurft að fá tvö markanna á sig. Nokkrir enskir leikmenn stóðu sig betur en aðrir, Alex Oxelade-Chamberlain sem er hjá Arsenal átti góðan leik og skoraði öll mörkin í leiknum, en svo var Nathan Delfuenso hjá Aston Villa og Henri Lansbury sem ég held að sé í Arsenal góðir. Þá var gaman að sjá hinn unga Josh McEachran hjá Chelsea koma inná og spila síðasta hálftímann.
Svo var ræs klukkan 2:45 til þess að mæta í flugið en mæting í Keflavík var klukkan fjögur. Þrátt fyrir að við flygjum ekki með Iceland Express var seinkun á fluginu, en þegar við vorum lögð af stað tók flugið 3:20 og við vorum því komin til Riga um klukkan tvö að staðartíma en Lettar eru þremur tímum á undan okkur hér á klakanum. Að loknu inntékki á Hótel var rölt um nánasta umhverfi og það skoðað. Riga er snyrtileg borg, þar búa um 700.000 manns en ég get ímyndað mér að hún sé nokkuð dæmigerð austurevópsk, svipaðar byggingar og svipað fólk. Hungrið var farið að segja til sín í fyrsta og síðasta skipti í þessari ferð en maturinn þarna er ódýr og góður og maður ætti mjög auðvelt með að hlaupa í spik þarna ef maður gæfi sér tíma til þess.
Daginn eftir fórum við í skoðunarferð um borgina sem var skipulögð af ferðaskrifstofunni. Okkur voru sýnd gömul í búðarhús, fjölbýlishús, sem voru gríðarlega mikið skreytt, hrein listaverk. Fyrir þá sem hafa áhuga á arkítektúr tilheyra þessi hús svokölluðum Artnouveau eða Jugend stíl en maður að nafni Eisenstein er ábyrgur fyrir útliti flestra þessara bygginga. Svo var rölt um gamla bæinn í Riga sem er eiginlega miðbærinn en hann er mjög fallegur með steinlögð stræti og gamla byggingar. Riga á sér mikla sögu sem miðstöð viðskipta við Eystrasaltið og líka sem þátttakandi í styrjöldum og byltingum. Nú síðast árið 1991 þegar Lettland fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Þarna er líka ýmislegt sem minnir á Sovéttímann, bæði byggingar og fólk en um 25% íbúanna eru Rússar og mörg auglýsingaskilti bækur og annað er bæði á Lettnesku og Rússnesku. Greinilegt er að eitthvað er um fátækt í borginni en betlarar og böskarar eru afar algeng sjón.
Að lokinni borgarskoðunarferð var svo haldið á risastóran markað sem opinn er á hverjum degi í borginni en þar verslar hinn almenni Rigabúi í matinn og fleira. Snemma morguns streyma bændur á markaðinn til að selja vörur sínar. Þar er allt eins ferskt og hægt er að hugsa sér, grænmeti, ávextir, kryddjurtir, blóm, kjöt, fiskur, mjólkurvörur og margt fleira. Fimm stórar skemmur sem upphaflega voru smíðaðar sem geymslur fyrir loftför eins og Zeppelin og Hindenburg hýsa markaðinn að hluta en stórt svæði utanhúss er líka undirlagður fyrir þessa einstöku verslun.
Eftir þessa markaðskönnun var svo farið í samningaviðræður um hvar ætti að borða, ég hafði komið auga á veitingastað sem mig langaði að skoða betur en Íris þvertók fyrir það út af nafninu á staðnum sem henni fannst mjög fráhrindandi en mér fannst hin vegar aðlaðandi. Chili píka. Namm namm. Píku staðurinn var pítsustaður og píkurnar smökkuðust bara vel.
Á leiðinni heim á hótelið um kvöldið rákumst við á böskarahljómsveit á torgi einu. Bandið samanstóð af fjórum drengjum, klæddir eins og gamlar kerlingar í kjóla með slæður, einn spilaði á trommu, annar á túbu og tveir á trompet og það sem var helst á efnisskránni voru lög eftir Rihönnu, Aqua, Lady Gaga, Abba og fleiri og þeir voru gríðarlega hressir, enda var töluverður mannfjöldi búinn að hópast í kring um þá að fylgjast með. Kannski var þetta einn af hápunktum ferðarinnar, allavega sérlega óvænt ánægja.
Sunnudagurinn rann svo upp bjartur og fagur þrátt fyrir rigningarspá. Við skoðuðum okkur um í gamla bænum og fórum t.d. inn í Rússneska rétttrúnaðarkirkju sem var mikið skreytt, það mikið að ekki er hægt að lýsa því í orðum. Eftir að hafa kíkt í eina chili píku stóðum við skyndilega fyrir utan eina af fjölmörgum verslanamiðstöðvum og þar sem Íris henti til mín yfirhöfnum myndavél og tösku minnti hún mig óneitanlega á Josh McEachran á Laugardalsvellinum, full eftirvæntingar, tilbúin að hlaupa inná og gera út um leikinn. Ég fékk mér góðan göngutúr á meðan og restin af deginum fór í afslöppun.
Ferðin heim gekk svo ágætlega að undanskildum ofboðslegum hægagangi við innritun í flugið. Reyndar fannst mér skondið í vopnaleitinni að maðurinn sem var á eftir mér var greinilega með skammbyssu í handfarangrinum en hún sást á skjánum sem birtir myndina af því sem er gegnumlýst. Ekki veit ég hvað var gert við manninn eða byssuna en allavega var flugvélinni okkar ekki rænt og við komumst heim sæl og glöð eftir ljúft ferðalag. Ég væri nú samt alveg til í eina Chili píku núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2011 | 07:43
Wish you were here
Það er margt sem kemur upp í hugann þegar góður vinur fellur frá. Þetta segir meira en margt:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2011 | 23:30
Snjótindur
Hann hefur blasað við mér frá árinu 1968, með nokkrum hléum þó. Snjótindur. Hæsti toppurinn á Lónsheiðarfjallgarðinum, eða ætti maður frekar að segja Lónsheiðarhálsinum af því að tindurinn sjálfur
er ekki nema um 760 metrar samkvæmt mínum heimildum. Löngunin til að fara þarna upp hefur smátt og smátt farið vaxandi, sérstaklega síðustu tvö þrjú árin, ekki síst eftir að ég tók þátt í gerð gönguleiðakorts fyrir fjórum árum og þá var því haldið fram að frá Snjótindi væri jafnvel besta útsýni í hreppnum. Þrátt fyrir smæð sína hef ég þó ekki séð mér fært að fara þarna upp fyrr en í gær að við Óli Bjösss ákváðum að láta slag standa og skella okkur á toppinn. Snjótindur var snjólaus en væntanlega dregur hann nafn sitt af því að við toppinn á honum eru snjófannirnar hvað lengst að hverfa af þeim fjöllum sem eru þarna í kring.
Margir ganga á tindinn af gamla Lónsheiðarveginum en við ákváðum að fara upp frá Fauskaseli, þ.e. Norðaustan við Þvottárskriður. Við vorum þannig í skjóli fyrir vindi mest alla leiðina auk þess sem við höfðum tækifæri á að skoða Svarthamravatn og Haukstjörn án mikils auka labbs. Gangan upp var frekar létt, tók rúma tvo tíma. Eftir því sem ofar dró opnaðist meira og meira útsýni og skyndilega vorum við komnir á toppinn með heiminn að fótum okkar. Og ekki urðum við fyrir vonbrigðum með útsýnið. Við ákváðum að fara ekki að vötnunum, heldur létum við það duga að skoða þau úr fjarlægð en kannski verður farið seinna að þeim. Samkvæmt gönguleiðakortinu á gangan að taka um tvo tíma en þá er ekki tekið inní að það þarf að komast til baka, sem flestir vilja sennilega. Ganga á Snjótind er vel þess virði að fara hana og maður á ekki að þurfa að humma það fram af sér, hún er frekar létt en erfiðasti hlutinn af henni er, eins og með svo margt, leiðin frá sófanum í stofunni og út um útidyrnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2011 | 09:33
Snjallsímar
Ég eignaðist minn fyrsta farsíma árið 1999 og það þótti frekar seint. Þá var hægt að hringja, senda sms og móttaka sömu hluti auk þess sem hægt var að og fara í snake. Síðan hafa símarnir aðeins þróast, þriðja kynslóð farsíma og nú snjallsímar. Því er spáð að árið 2015 verði 2 milljarðar snjallsíma í notkun í heiminum, sem þýðir að einn af hverjum þremur sem gengur um á jörðinni eigi snjallsíma. Fyrir fimm árum hafði maður aldrei heyrt þetta orð. Snjallsímar. Hvað þá app (eða í fleirtölu mörg öpp). Mörg þessara appa eru ábyggilega afar gagnleg. Þar á meðal Angry birds appið sem er vinsælasta app í heimi og má kannski kalla sneik nútímans en það snýst um að láta geðvonda fugla ráðast á græn svín. Þessi leikur er víst það vinsæll að fólk eyðir meiri tíma í að drepa svín í símanum en að tala við fólk. Það virðist sem sagt bráðnauðsynlegt að fá sér svona síma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2011 | 08:33
Living on the edge
Hér í bæ hefur ýmis konar félagsskapur safnað sér peningum með því að halda kökubasar. Nú verður það ekki gert með svo góðu móti lengur vegna þess að samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu er kökubasar bannaður. Heimabakaðar kökur eru víst eitt það hættulegasta sem hægt er að komast í og ástæðan er sú að eldhús landsmanna eru grútskítug og bakteríuflóran þar ógnar heilsu þjóðarinnar. Guði sé lof fyrir að embættismenn í Brussel hafa komið auga á þetta en eflaust hefðu kökubasarar getað valdið íslenskri þjóð miklum heilsufarsvandamálum. Ég man fyrst eftir að farið hafi verið að þessum lögum á Egilsstöðum í vor þegar að kökubasar var kæfður þar í fæðingu og hélt ég fyrst að hroka heilbrigðiseftirlitsmanns eða áfergja hans í að sýna vald sitt hefði verið um að kenna en auðvitað var hann búinn að koma auga á hættuna. Ég sé það núna að heilbrigðiseftirlitsmenn eru ekkert annað en Men in Black eins og Will Smith og Tommy Lee Jones sem mæta og uppræta þær hættur sem steðja að mannkyninu.
Þær voru samt búnar að finna glufu í hinu Evrópska regluverki konurnar á Akureyri sem um daginn héldu sýningu á Muffins kökum. Fólk borgaði sig inn til að skoða muffinskökur en fékk svo ókeypis sýnishorn þegar inn á sýninguna var komið auk þess sem það gat keypt kökur sem bakaðar höfðu verið í eldhúsi sem Evrópusambandið var búið að viðurkenna að væri ekki heilsuspillandi. Ég er hrifinn af svona framtaki. Fólk sem rís upp til að berjast gegn óréttlæti. Ég er hluti af félagsskap (eða félagssköpum) í byggðarlaginu sem hefur notfært sér kökubasara til fjáröflunar og ég mun hvetja til þess að haldin verði kökusýning eða eitthvað sambærilegt í vetur. Stundum er það bara þannig að maður þarf að taka áhættur í lífinu, eða eins og þeir segja I like to be living on the edge og hvernig væri að hætta sér út á ystu nöf með því að bjóða upp á heimabakaða íslenska köku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2011 | 09:45
Matur
Þá var matur bara matur. Nú er þetta orðið töluvert flóknara. Kannski of flókið. Þorramatur er til dæmis ekki venjulegur matur, heldur eitthvað sem aðeins er snætt á ákveðnum árstíma eða við ákveðin tækifæri. Forfeður okkar kölluðu þetta einfaldlega mat. Það sama er hægt að segja um villibráð. Villibráð er líka eitthvað sem forfeður okkar kölluðu bara mat og voru ekki að flækja það neitt meira. Það þótti ekki tiltökumál þó að bóndi kæmi heim með sel a öxlinni, slengdi honum á eldhúsborðið og segði: "Eldaðu þetta kona". Nú þykir afar hátíðlegt og sumum þykir fínt að borða villibráð og það er ekki gert nema örsjaldan. Svo er það lífrænt ræktað hráefni. Nú þykir það annað hvort fínt eða merki um sérvisku (ég ætla ekki að segja snobb eða fáfræði) að neyta aðeins þess sem er lífrænt ræktað. Í gamla daga var allt lífrænt ræktað og auðvitað var það einfaldlega bara matur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.5.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar