Færsluflokkur: Bloggar

Knattspyrnuliðið Þórfinnur

Ég hef það á tilfinningunni að rugby sé vinsælla en fótbolti meðal þeirra sem komnir eru til vits og ára en ég held líka að þeir sem eru ekki komnir til vits séu hrifnari af fótbolta.  Og það á reyndar líka við um þá sem eru ekki komnir til ára af því að hér eru ansi oft einhverjir fótboltakappleikir meðal ungviðisins.  Hér eru líka þó nokkur fótboltalið, stærstu klúbbarnir eru Straumnes og lið hér í Kirkvall sem heitir því skemmtilega og mjög svo íþróttafélagslega nafni Þórfinnur.  Orkneyingar eru ekki með í skoskri deildarkeppni en hér keppa Orkneysku liðin innbyrðis í bikarkeppni Orkneyja.  Orkneyingar senda reyndar líka sameiginlegt lið í einhverskonar Norðurhálandautandeildarbikarkeppni en hafa ekki riðið feitu hrossi frá þeirri keppni og því engar frægðarsögur að segja frá því.

Ég fór í fyrsta sinn á fótboltaleik hér á Orkneyjum í kvöld og það var einmitt leikur á milli Þórfinns og unglingaliðs Aberdeen.  Þórfinnur var hroðalega lélegt og skíttapaði fyrir Aberdeen strákunum en þar var hávaxinn leikmaður af Afrískum uppruna, Joseph Nuttall að nafni (leggið nafnið á minnið), allt í öllu.  Hver veit nema að hann sé framtíðarlandsliðsmaður.  Ég nennti ekki að horfa á allan leikinn, hann var ekki mikið fyrir augað en staðan var 4-0 fyrir Aberdeen þegar ég yfirgaf völlinn og fyrrnefndur Joseph búinn að skora þrennu.  Fjöldi fólks mætti og klöppuðu kurteislega þegar Aberdeen skoraði en annars höfðu þeir frekar hægt um sig enda eru Orkneyingar óhemju hlédrægir, svo hlédrægir að þeir eru næstum því ósýnilegir.  Þó heyrði ég einhvern kalla “fucking Kant”.  Ekki veit ég af hverju Þýski heimspekingurinn Immanúel Kant var fólki ofarlega í huga þegar það var að fylgjast með knattspyrnuleik en eflaust á það sér sínar skýringar.

fotb15 (Large)


Venjulegir dagar eru ekki venjulegir

Þessa dagana er lítið annað gert í vinnunni en að fóðra fisk og þrífa net.  Þetta hljómar ekki fjölbreytt en einhverra hluta er enginn dagur eins, alltaf eru einhver áhugaverð aukaverkefni sem þarf að sinna.  Í síðustu viku var ég til dæmis á tveggja daga námskeiði sem kallast Fish welfare eða “Velferð fiska” og fjallar ekki bara um fiska heldur dýr almennt.  Námskeið sem er öllum fiskeldismönnum mikilvægt og allir þeir sem vinna við skepnuhald hefðu gott af að fara á svona námskeið en væntanlega er eitthvað sambærilegt kennt í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og á Hólum.

Svo er það nú þannig að hlutirnir vilja bila.  Um helgar erum við með tvo menn á vakt og um síðustu helgi var mín helgi en ég fór við annan mann út á stöð á litlum plastbát sem við erum með.  Á laugardag var veðrið hið ágætasta en spáð var töluverðum vindi þegar líða færi á daginn.  Þegar við vorum nýlagðir af stað heimleiðis var aðeins farið að bæta í vind en þá drapst á vélinni og fljótlega kom í ljós að eldsneytislögnin var varin í sundur og því ekki von á því að dísilþyrst vélin gæti gengið.  Bátinn rak nokkuð hratt að landi og því ekki um annað að ræða en að henda út akkeri og hringja á aðstoð.  Einhvern veginn er það nú þannig að menn forðast að kalla á hjálp í talstöð nema í ýtrustu nauðsyn og því hringdi félagi minn í karl einn, Angus að nafni (hvað annað) sem bjó á nálægri eyju og átti bát sem hann notaði til að ferðast á milli eyjanna.  Enn hafði bætt í vindinn en akkerið hélt og báturinn dinglaði fram og til baka á akkeristóginu.  Á meðan reyndum við að koma eldsneytislögninni saman en báturinn var nýkominn úr smá yfirhalningu og allir varahlutir og verkfæri höfðu verið tekin úr honum og ekki skilað aftur.  Það var lá því ljóst fyrir að ef við gætum gert við bilunina myndum við gera það með engum varahlutum og engum verkfærum.  Sem sagt gera við með engu.  Nú var farið að rigna og báturinn skoppaði upp og niður á stækkandi öldunum.  Eftir um klukkustundar bið kom þó Angus, rámraddaður maður sextugsaldri íklæddur þykkri rúllukragapeysu, með stórar og skítugar hendur, siglandi til okkar á gamla ryðgaða landgönguprammanum sínum.

Skorið var á akkeristógið, báturinn tekinn í tog og stundarkorni síðar vorum við með þurrt land undir fótum. Samt ekki af því að það var rigning.   Aldrei var nein hætta á ferðum en verst var að þetta tók allt sinn tíma þannig að það var búið að loka sundlauginni þegar ég komst aftur til byggða.


Tilraun gerð til að ganga upp á hæð

Ekki þýðir að sitja heima í aðgerðarleysi þegar maður á fríhelgi.  Í dag skaust ég yfir á Háey í þeim tilgangi að ganga upp á hæstu hæð Orkneyja Wardhill (Varðhæð) og horfa yfir borg og bæ og líta niður á Orkneyinga.   Til þess að komast til Háeyjar þarf fyrirfram að panta far með ferju og því verður að fylgjast með og treysta veðurspá og þar sem búið var að spá björtu og góðu veðri  þannig að ég reiknaði með góðu útsýni.  Þegar ég leit út í morgun var hins vega alskýjað en vonir stóðu til að það myndi birta þegar færi að líða á daginn.  Varðhæð er ekki nema 479 m há og einn  af þeim stöðum sem góður er til uppgöngu er gegnt hinum svokallaða Dvergasteini sem ég skoðaði síðastliðið sumar.  

Á bílastæðinu, gegnt Dvergasteini, þar sem ég lagði bílnum var stúlka með öflugan kíki, (svokallað skóp) og var að fylgjast með haferni sem var í klettunum fyrir ofan Dvergastein. Ég fékk auðvitað að kíkja hjá henni.  Hún sagði mér að hún hefði komið þangað um hverja helgi síðan í mars til þess að horfa á hafernina.  Það er meira en áhugi, sennilega frekar fíkn eða þráhyggja.  Í ofanálag voru vantaði nokkrar tennur og hún var all nokkuð skeggjuð,  hún hefur örugglega ekki rakað sig frá því að hún fór að fylgjast með haförnunum, og greinilega frá Orkneyjum en ég hef hvergi séð eins karlmannlegar konur og hér og oft er erfitt að greina á milli hvort einstaklingur er karl eða kona.

Efsti hluti hæðarinnar var hulinn í skýjum en ég lét það ekki á mig fá og lagði af stað í þeirri von að það myndi birta til.  Gróður á óræktuðu landi á Orkneyjum samanstendur fyrst og fremst af  einni jurt, svokölluðu Roðalyngi (Erica cinerea).  Þegar upp fyrir 400 m var komið varð ekki hærra komist þar sem þokan lá ennþá efst yfir hæðinni.  Ég lagðist því niður og beið í um hálftíma og fylgdist með skúmapari sveima áhyggjufullt yfir þessum óboðna gesti.  Að lokum gafst ég upp á því að bíða og fór aftur niður.  Ég vissi að í stríðsminjasafninu í Lyness var lítill veitingastaður og ég var að verða svangur.  Þar voru við störf eldri kona (held ég) sem leit út fyrir að hafa reynt að setja á sig varalit í öflugum jarðskjálfta, með skítuga svuntu og hárband og enn eldri hvíhærður skjálfhentur maður.  Ég pantaði mér grænmetissúpu, kaffi og gulrótarköku hjá þeim og fékk kalda súpu, lapþunnt gegnsætt kaffi og ágæta gulrótarköku.  Eftir að hafa skolað þessu niður skoðaði ég mig um í næsta nágrenni á meðan ég beið eftir ferjunni og þegar ég svo keyrði upp úr ferjunni þegar hún var komin aftur til meginlandsins sá ég að Varðhæð baðaði sig í sólinni.  Mér er sama, þrátt fyrir allt var þetta ágætur dagur.

skúmur (Large)


Hasta la vista baby

Hér í landi eru nýafstaðnar kosningar um áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu og gaman hefur verið að upplifa andrúmsloftið og fylgjast með umræðunni hér.  Ekki grunaði mig að Bretar myndu hafa kjark til að kjósa sig út en sú varð raunin og ég samfagna með þeim.  Það sem skipti mestu máli var að taka stjórnina á landinu aftur í sínar eigin hendur, losna undan skrifræðinu og nýta fjármunina betur.  Margir grétu af gleði eftir að niðurstaðan varð ljós og segjast hafa fengið gamla góða Bretlandið sitt aftur og fyrst Ísland og Liechtenstein geta verið utan ÍJÚ þá er ég viss um að Stóra-Bretlandi á eftir að ganga það ágætlega.  Eflaust á fólk svo eftir að líta til baka eftir tíu ár og hugsa um þennan dag sem daginn sem Bretlandi var breytt til góðs frambúðar.

Skotar höfnuðu sjálfstæði fyrir tæpum tveimur árum m.a. til þess að fá að vera í Í JÚ nú eru þeir hluti af Bretlandi og að sjálfsögðu á leiðinni út úr Í JÚ. Skotar hafa varpað fram hugmynd um aðra kosningu um sjálfstæði, eða kannski bara nógu margar kosningar þangað til sjálfstæði verður samþykkt og sækja svo um inngöngu í Evrópusambandið en það gæti orðið kvalafullt á margan hátt.

Evrópusambandið var í upphafi stofnað sem viðskiptasamband en hefur síðan þróast yfir í skrifræðisbákn og mörgum finnst vöxturinn hafa orðið of mikill og sambandið vera orðið of stórt til þess að þjóna tilgangi sínum (varstu farin(n) að bera þetta saman við bankana fyrir hrun?).  Einhverjir eru standa í þeim misskilningi að Evrópusambandið hafi verið stofnað til þess að tryggja frið en svo var ekki og nú stefnir í að EU setji á laggirnar sameiginlegan her sem myndi gera EU að öflugasta herveldi í heimi.

Nú eru líka nýafstaðnar kosningar á Íslandi sem ég hafði ekki tækifæri til þess að taka þátt í.  Sá sem vann var ekki minn maður en vonandi mun hann standa sig vel og svo skiptum við bara eftir fjögur ár.  Annars er ágætt að spyrja sig öðru hvoru, þurfum við að hafa forseta og líka hvort að kosningakerfið er eins og við viljum hafa það. 


mbl.is Bretar hefji úrsagnarferli í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Noregsferðin 4 - Aberdeen

Ég kvaddi sumsé Noreg á föstudaginn og hélt af stað til Aberdeen.  Þetta var sjöunda flugið á fimm dögum og það verður að segjast eins og er að þó að maður sé allur af vilja gerður til að sýna kurteisi og þykjast fylgjast með af áhuga þegar flugfreyjan lýsir hvernig á að klæða sig í björgunarvesti, að útgönguleiðirnar séu þrjár, fremst í miðjunni og aftast, hvernig á að spenna öryggisbelti og taka það af sér og fleira, þá dvínar athyglin smátt og smátt eftir því sem flugunum fjölgar. 

Eftir að hafa verið í Noregi þar sem sólin skein allan tímann og allir virðast vel stæðir og heilbrigðir var ákveðið áfall að koma aftur til Skotlands (það hefur áreiðanlega hvarflað að þér að hvorug þjóðin komst í úrslitakeppni EM) þar sem rok, rigning og grámygla tók á móti mér.  Aberdeen, sem er þriðja stærst borg Skotlands, þykir reyndar frekar grá þó að sólin skíni en hún er stundum kölluð Granítborgin af því að margar bygginar þar eru úr graníti

Í einhverri fljótfærni hafði ég pantað herbergi á Station Hotel, það sem réði mestu um það var frábær staðsetning og lágt verð.  Lágt verð á hóteli með frábæra staðsetningu, er það ekkert dularfullt.  Allavega hallaði herbergið undarlega, efsti punktur var út við glugga en neðsti punktur við dyrnar, vaskurinn var stíflaður, vatnið í sturtunni rann í svona eina mínútu en ákvað svo að taka sér pásu í smástund en renna svo aftur í svona eina mínútu.  Svo klukkan níu um morguninn var bankað og spurt með rámri kvenmansrödd hvort ég vildi herbergisþjónustu í dag.  Hmm er þetta leiðin til þess að gera viðskiptavinina ánægða?  Ég veit svo sem ekkert um hvaða þjónustu var verið að bjóða.

Eftir morgunverð var ekki um annað að ræða en að skoða bæinn aðeins, ég rölti því niður á bryggju, eins og menn gera gjarnan í sjávarþorpum, og höfnin í Aberdeen er stór, mjög stór, og þar var mikið af skipum, þaðan fór ég inn á sjóminjasafnið sem er þar stutt frá.  Það var ágætis heimsókn, fræðandi og skemmtileg og ætli ég hafi ekki verið þar inni í næstum tvo tklukkutíma.  Aberdeen er í grunninn hafnarbær, fyrst voru það fiskveiðar í Norðursjó sem færðu bænum tekjur, síðar var það olían og nú binda menn vonir við að endurnýjanlegir orkugjafar bætist þar við.  Vegna alls þessa eru tekjur Aberdeenbúa hærri að meðaltali en annars staðar í Skotlandi.

Eftir heimsóknina á sjóminjasafnið rölti ég upp á Union Street sem er aðalgatan og ég hafði reiknað með grárri ljótri umferðargötu með venjulegum verslunar og veitingastaðagluggum.  Vissulega voru þeir til staðar en það sem kom mest á óvart var að þegar maður leit upp fyrir tærnar á sér blöstu við fallegar byggingar, sumar með turnum, súlum eða einhversskonar skrauti.

Að loknu bæjarrölti ætlaði ég aftur á hótelið en gekk þá fram á rakarastofu og ég hafði einmitt þörf fyrir klippingu.  Og rakstur líka.  A þessari stofu var boðið upp á eitthvað sem kallast Turkish hot towel shave sem ég að sjálfsögðu ákvað að prófa.  Fyrir þá sem hafa ekki prófað slíkt ættu þeir endilega að gera það en meðferðin byrjar á því að andlitið er fyrst smurt með einhverskonar kremi, síðan er heitt og rakt handklæði lagt yfir andlitið og látið liggja í smástund, svo kemur raksápa og rakstur.  Ég passaði mig á að þegja á meðan Tyrkinn var að dunda sér með raknífinn við barkakýlið á mér en samt langaði mig nú að minnast á að Íslendingar hefðu unnið Tyrki í undankeppni EM og endað fyrir ofan þá í riðlinum.  Ef ég hefði gert það væri ég sennilega ekki að skrifa þessar línur. Að loknum rakstri kom aftur heitt handklæði og svo var byrjað að nudda andlit, háls, hársvörð og axlir.  Eftir þetta komu tyrkirnir með logandi kyndla sem þeir notuðu til þess að svíða smáhár af eyrunum og að lokum var borinn á mig ilmur af vanillu eða einhverju slíku.  Ég neita því ekki að mér leið afskaplega vel eftir þetta þegar ég gekk út með rauð eyru, ilmandi eins og tyrkneskt bakarí.

Næst á dagskrá var að horfa á landsleik Íslands og Ungverjalands og ég hafði mælt mér mót við aðra Íslendinga í Aberdeen og horfðum við á leikinn saman á einhverjum Aberdínskum pöbb.  Fleira markvert gerðist ekki í ferðalaginu en á sunnudag flaug ég aftur til Orkneyja og þegar steig út úr flugvélinni tók á móti mér hinn gamalkunnugi sunnanstrekkingur sem alltaf stöðugt blæs um eyjarnar.


Noregsferðin 3

Að loknum vel úti látnum morgunverði á fimmtudagsmorgun var farið í heimsókn á fiskeldisstöð sem framleiðir grásleppu en hún þykir áhugaverður kostur til þess að hafa í fiskeldiskvíum þar sem hún fær að éta lús af löxum.  Þegar við komum var verið að bólusetja 12 gramma þungar (eða öllu heldur léttar) grásleppur og binda menn vonir við að það auki lífslíkur þeirra og skilvirkni.  Þegar Norðmennirnir uppgötvuðu að ég væri Íslendingur virtust þeir verða afskaplega glaðir og fóru strax að tala um hvað væri nú gaman að Ísland væri að spila í Evrópukeppninni.  Áætlað var að taka matarhlé og fara svo á aðra svipaða stöð sem framleiðir hreinsifisk en einhverra hluta var ekki tekið matarhlé heldur farið um borð í ferju og svo beint yfir á hina stöðina.  Eftir því sem leið á daginn dvínaði áhuginn á hreinsifisknum í réttu hlutfalli við aukið hungur.  Það sem maður hefði gefið fyrir væna hangikjötssneið með kartöflum, jafningi, Ora grænum baunum og rauðkáli.  Já og kannski blöndu af Malti og Egils appelsíni til að skola því niður með.  Svo ekki sé nú minnst á til dæmis Royal súkkulaðibúðing með smá rjómaslettu í eftirmat.  En það eina sem ég hafði voru skósólarnir.  Upp úr klukkan fjögur komumst við loksins í ferjuna aftur og þar gat ég laumast til þess að kaupa mér norska pulsu, hún jafnast nú engan veginn á við íslenska pulsu hvað þá íslenskt hangikjöt en hún sló nú allavega á sárasta hungrið.  Um kvöldið fórum við svo (loksins) út að borða með norsku Biomar fólki og þar gerði ég þau mistök að panta hrefnutartar í forrétt.  Ég hefði svo sem getað sagt mér það fyrirfram að hrátt hvalkjöt, hrár laukur, hrá eggjarauða og rótsterkt sinnep væri ekki góð blanda og gæti aldrei veitt mér og mínum yndislegu bragðlaukum neina ánægju.  Steikin sem á eftir fylgdi bjargaði þó miklu.  Annars var það athyglisvert að þar sem við sátum úti við eftir matinn og svöluðum þorsta okkar úr bjórglasi, máttum við ekki sitja úti lengur en til kl 23:00 og þurftum því að fara inn en við máttum ekki heldur halda sjálf á hálfum fullum (eða hálftómum ef menn vilja líta svo á það) bjórglösunum inn af því að um meters breiður göngustígur var milli útisvæðisins og innisvæðisins og ef við hefðum vogað okkur að ganga yfir göngustíginn með bjórglösin hefðum við verið að brjóta lög um meðferð áfengis á almannafæri.  Þjónsgreyið varð því að koma út og halda á glösunum fyrir okkur inn.  Af hverju að hafa hlutina einfalda þegar hægt er að hafa þá flókna?

Þar sem flugið til baka var ekki fyrr en eftir hádegi á föstudeginum ákvað ég að fara á stjá upp úr átta á um morguninn til þess að skoða Þrándheim. 

Þrándheimur er þriðji stærsti bærinn í Noregi en þar búa um 170.000 manns.  Á víkingaöld, frá því 997 – 1217, var bærinn höfuðborg Noregs og var þá gjarnan kallaður Niðarós eins og margir vita og þar sat Ólafur Tryggvason Noregskonungur og væntanlega hefur hann sent Þangbrand þaðan, alla leið til Þvottár í Álftafirði til þess að kristna Íslendinga. 

Þrándheimur er ekkert svo ljótur bær en áin Nidelvan sem rennur í gegnum bæinn setur mikinn svip á hann og ekki síður allir þeir bátar sem eru á víð og dreif við ósa árinnar.  Þá er dómkirkjan ósjálfrátt aðdráttarafl þeirra sem heimsækja Þrándheim enda um stóra, fallega og merkilega byggingu að ræða.  Byrjað var á byggingarframkvæmdum við Dómkirkjuna árið 1070 þannig að hún er að verða 1000 ára gömul.  Ég rölti upp að Dómkirkjunni og gekk í hringinn til að dást að stærð hennar og öllum þeim listaverkum sem prýða hana að utanverðu.  Til þess að fara inn í kirkjuna þarf að greiða 90 norskar krónur og ég tvísteig í töluverðan tíma fyrir utan á meðan ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að tíma að láta þessar um það bil 1350 íslensku krónur stoppa mig af í að skoða eða ekki.  Þar sem ég sá ekki fram á að fara aftur til Þrándheims í nánustu framtíð ákvað ég að láta mig hafa það.  Afgreiðslustúlkan, sem hefur áreiðanlega verið nýbyrjuð að vinna þarna af því að hún virtist ennþá hafa gaman af því að gefa upplýsingar og rukka aðgangseyri, sagði með bros á vör að það væru framkvæmdir í gangi í kirkjunni, verið væri að sinna ýmiskonar viðhaldsvinnu vegna þess að fimmtudaginn 23. júní eru 25 ár eru liðin frá því að konungshjónin Haraldur og Sonja voru krýnd í kirkjunni og norska ríkissjónvarpið væri að setja upp allskonar tæki og tól til þess að undirbúa útsendingu frá því og að ef til vill væru sumir hlutar kirkjunnar lokaðir.  Ég ákvað að láta það ekki stöðva mig og gekk inn fullur eftirvæntingar að sjá hvað ég fengi fyrir 90 norsku krónurnar.  Svarið var: Ekkert.  Inni í kirkjunni var mikill hávaði, hamarhögg, borvélar, sagir og verið að draga hluti fram og til baka.  Yfirleitt er þögnin og friðsældin í svona byggingum eitt af því sem maður tekur eftir en því var alls ekki að heilsa þarna.  Allir hliðarsalir voru lokaðir og öll ljósmyndun var bönnuð.  Ég ákvað því að yfirgefa þennan heilaga stað og skoða eitthvað annað.  Vonbrigðin voru það mikil að ég var næstum því búinn að borga 100 norskar krónur til þess að skoða listasafn Þrándheims en sem betur fer náði ég að jafna mig á vonbrigðunum áður en ég fór að álpast til þess að eyða meiri pening í svona rugl. 

Dómkirkjan í niðarósi (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Dómkirkjan í Niðarósi (smellið á'ana til að stækk'ana).

Þess í stað tölti ég niður á miðbæjartorgið en komst að því að hluti af miðbænum var lokaður af því að fornleifafræðingar voru að grafa upp miðbæjartorgið þar sem stytta af Ólafi Tryggvasyni gnæfir yfir á hárri súlu.  Þó fann ég sportvöruverslun í miðbænum sem var opin og mér datt í hug að það gæti verið gaman að eiga treyju frá knattspyrnuliði bæjarins Rosenborg sem minjagrip.  Hún kostaði hins vegar um 15.000 íslenskar krónur og það var rúmlega tvöfalt það verð sem ég hefði tímt að borga.  Ég var að verða svangur og það var þá sem það rann upp fyrir mér að nú værum við Noregur að verða búnir að fá nóg af hvor öðrum í bili og að rétti tíminn væri runninn upp til að fara út á flugvöll og fara aftur til Skotlands.


Noregsferðin 2

Þriðjudagurinn var tekinn snemma.  Of snemma. Úr rekkju var risið upp úr klukkan fimm að norskum tíma, fjögur að skoskum og þrjú að íslenskum, eftir um fjögurra tíma svefn. Sólin skein og veðrið var dásamlegt. Dagskrá dagsins var fyrst og fremst heimsókn á tvær eldisstöðvar sem eru í eigu norska fiskeldisfyrirtækisins Leroy, staðsettar stutt frá eyju sem heitir Hitra.  Stöðvarnar heita Ringholmen og Gunnaroya og eru vel reknar og tæknilega vel búnar.  Gott veður var allan daginn og rætt var fram og til baka um fóðrunaraðferðir, fóðrunartækni, fóður og hreinsifisk. 
Afskaplega hressandi sem sagt.  Eftir að hafa tekið daginn snemma átti ég von á að við fengjum hádegismat en því var ekki að heilsa og þegar klukkan var farin að ganga þrjú var ég orðinn verulega svangur og átti því ekki annarra kosta völ en að taka tungurnar úr skónum mínum og éta þær.  Um klukkutíma síðar var þó boðið upp á norska hressingu og það bjargaði málunum.  Þegar til baka á hótelið var  komið var að hefjast landsleikur Íslands og Portúgal og auðvitað var setið og horft og jafnteflinu fagnað.  Þeir Norðmenn sem ég hitti halda allir með Íslandi og á þessu ferðalagi heyrir maður víða rætt um Ísland á EM.

Daginn eftir var ekki um annað að ræða en að borða vel af morgunmat til þess að forðast hungur síðustu tveggja daga en framundan var ferðalag norður til Sandnessjoen.  Ekki var leiðinlegt að geta fengið síld á morgunverðarborðinu en slíkt góðgæti er ekki auðvelt að fá í Skotlandi, reyndar var ýmislegt fleira sem var gaman að komast aftur í kynni við í þessari Noregsferð, venjulegar rafmagnsklær, ofnar, ýmiskonar matvara að ógleymdu blessuðu verðalginu. 

Flugið norður til Sandnessjoen tók um klukkutíma frá Þrándheimi.  Þegar flugvélin var lent gerðist það sem oftast gerist þegar flugvél lendir.  Flugfreyjan segir: “Velkomin til Sandnessjoen (eða hvaða stað sem er) vinsamlegast haldið kyrru fyrir í sætunum með sætisólarnar spenntar þan....Og einmitt á þessum tímapunkti byrja allir að rífa af sér öryggisbeltin, standa upp, opna hirslurnar fyrir ofan sætin og róta.

Sandnessjoen er um 6000 manna bær á 66°N breiddargráðu, álíka norðarlega og Ísafjörður, staðsettur á lítilli eyju sem heitir Alsta og tilheyrir sýslu sem heitir Nordland og svæði sem kallast Helgeland.  Fjallgarður einn sem heitir Sjö systur setur mikinn svip á bæinn en hann samanstendur af sjö tindum sem hver um sig er um 1000 m hár og gömul þjóðsaga útskýrir nafngiftina og er hún í stuttu máli eitthvað á þessa leið:

Einu sinni voru tveir tröllkarlar.  Annar átti son sem hét hestamaðurinn og var afskaplega óhlýðinn.  Hinn tröllkarlinn átti átta fagrar dætur en hann var afar strangur og leyfði þeim ekki að fara út.  Kvöld eitt þegar hann var sofnaður læddust þær samt út og ætluðu að fara niður á strönd og baða sig í mánaskininu.  Hestamaðurinn kom auga á þær þar sem þær voru að baða sig og varð hann ástfanginn af elstu systurinni og ákvað hann að ræna henni þá um nóttina.  Í fullum herklæðum, með skikkju um axlir, hélt hann af stað á hesti sínum.  Þegar systurnar urðu varar við hann flýttu þær sér af stað eins hratt og þær komust en urðu fljótt þreyttar og að lokum köstuðu sjö þeirra sér niður örmagna á eyjunni Alsta en sú elsta hélt áfram í suðurátt.  Hestamaðurinn sá að hann var að missa af henni og í stað þess að láta hana sleppa vildi hann frekar drepa hana.  Fleiri tröll voru farin að fylgjast með eltingaleiknum og þegar Hestamaðurinn tók ör úr mæli sínum og skaut í áttina að tröllastelpunni, henti eitt tröllið hatti sínum í veg fyrir örina og í gegnum hattinn en þar er nú fjall með gati í gegn.  Elsta systirin tók undir sig stökk en missti í leiðinni smjörtunnu sem hún var með og það rann yfir fjöllin sem eru þar í kring, enda eru þau öll gulleit.  Skömmu síðar kom sólin upp og öll tröllin urðu að steini og þannig urðu fjöllin sem kallast systurnar sjö til.  Svona var okkur sögð þessi saga en eflaust eru til fleiri útgáfur af henni.

Sjö systur (Large)

 

 

 

 

 

Mynd: Sjö systur.

Í sólinni og sumarhitanum í Sandnessjoen tóku tvær stúlkur á móti okkur, önnur úr sveitinni en hin frá Perú og við fórum með ferju yfir á eyju sem heitir Dönna.  Þar er rannsóknarstöð sem Biomar hefur oft á tíðum nýtt sér og nú er þar aðallega lax og grásleppa en einnig þorskur og regnbogasilungur sem hafa ekki þótt jafn góður kostur og lax í fiskeldi fram til þessa.  Að lokinni skoðun á rannsóknarstöðinni fóru stúlkurnar tvær með okkur í skoðunarferð um Dönna og var dagurinn hinn ánægjulegasti.  Við komum aftur til Þrándheims um tíuleytið og þá var ég orðinn verulega svangur enda ekki búinn að borða síðan í hádeginu ef frá eru taldir hælarnir á skónum mínum.  Það dugði mér fram að kvöldmat sem var snæddur um tíuleytið.  Sumir standa í þeirri meiningu að svona ferðir séu bara afslöppun og skemmtun en í sannleika sagt var mikil keyrsla í 12  - 14 tíma á dag og því lítið um hvíld.


Noregsferðin 1

Fyrir nokkrum vikum kom svæðisstjóri Scottish Sea Farms að máli við mig og spurði hvort mig langaði að skreppa til Noregs. Já, langaði að skreppa til Noregs, er það eitthvað sem fólk langar?  Lítil rödd í höfðinu sagði að sjálfsögðu „nei“ en ég hélt aftur af mér og spurði um hvað málið snerist.  „Fóðurfyrirtækið Biomar ætlar að bjóða þremur stöðvarstjórum SSF í heimsókn“ sagði hann og jú, á endanum gat ég sannfært sjálfan mig um að þetta yrði kannski ekki svo slæmt og því samþykkti ég að fara.  Ferðaáætlunin var á þann veg að fljúga átti til Noregs þann 13. júní og koma til baka 17. júní og ég náði að búa þannig um hnútana að ég næði degi í Aberdeen á heimleiðinni.  Ég hef komið nokkrum sinnum til Bergen og einu sinni til Tromsö en aldrei til Þrándheims, þangað sem ferðinni var heitið.

Ég veit ekki hvort það hefur eitthvað spilað inn í að ég hef haft einstaka ánægju af því að kvarta yfir fóðri síðustu mánuði, sérhvert tækifæri sem ég hef fengið hefur verið notað, sama hversu smávægilegt það hefur verið. Kekkir, mygla, aðskotahlutir, ryk, flotvægi, umbúðir og þar fram eftir götunum enda hafa kvartanirnar verið teknar til greina og við höfum fengið fóðurbætur frá Biomar.  Eins og þeir segja, hjólið sem ískrar í fær smurninguna.  Það er samt kannski ekki gott að ferðalag eins og þetta getur mögulega dregið úr kvörtunarviljanum og ánægjunni sem fylgir því að kvarta yfir fóðri í mínum litla skrítna heimi þegar Biomar hefur hlaðið mann gjöfum, bolur og derhúfa merkt Biomar geta t.d. breytt hugsunarhætti áhrifagjarns stöðvarstjóra.

Þegar nær dró ferðalaginu uppgötvaði ég að einhver fjárútlát myndu fylgja ferðalaginu. Ég átti enga tösku og þurfti því að fjárfesta í lítilli ferðatösku og ég átti ekki jakka, aðeins vinnujakka sem er farinn að láta verulega á sjá og svo úlpu sem er ekki hentug í ferðalag að sumarlagi.  Ég skundaði því í verslun og fjárfesti í léttum jakka sem að sjálfsögðu var regnheldur enda Noregsferð framundan.  Auðvitað hefði ég átt að undirbúa mig enn frekar með því að kynna mér starfsemi og sögu Biomar auk þess að rifja upp helstu atriði fóðurfræðinnar, prótín, amínósýrur, fitusýrur, DHA, EPA, Panaferd og þar fram eftir götunum.  Það gerði ég nú samt ekki.

Mánudaginn 13. var svo lagt í hann, flogið frá Kirkwall til Aberdeen og eftir stutt stopp þar var farið í loftið aftur. Um klukkutíma síðar birtust tún og vindmyllur.  Bíddu nú hægur, erum við komin til Orkneyja eða jafnvel aftur til Skotlands.  Nokkrum andartökum síðar fóru þó að sjást tré og fjöll.  Það var góð tilfinning fyrir Íslending.  Flugvélin lenti í Stavanger og á flugvellinum mætti mér  ilmur af alvöru kaffi, ekki bölvuðu skyndikaffinu sem Skotar virðast elska.  Í Stavanger var líka hægt að fá íslenskt skyr í miklu úrvali og meira að segja Freyju draum.  Þetta var næstum því eins og að vera kominn heim.  Næstum því.  Þó að Noregur sé lengra frá Íslandi en Skotland.  Það vantar bara fleiri jökla og fáeina hveri. Eiginlega átti ég von á því að rekast á einhvern sem ég þekkti eins og gjarnan gerist á Íslandi en það var ekki svo og fljótlega fórum við aftur út í flugvél sem bar okkur síðasta spölinn til Þrándheims.

Þegar til Þrándheims var komið tók hávaxin svarthærð kona í svartri dragt með sólgleraugu og leðurhanska á móti okkur og fylgdi okkur út í bíl sem var ekki af verri endanum, nei hann var af betri endanum, svört Tesla bifreið, leðurklædd með stórum snertiskjá milli framsætanna og nánast hljóðlaus. Það var orðið nokkuð langt liðið á kvöldið og ég hafði ekki fengið matarbita síðan um morguninn og því var ég orðinn ansi svangur. Á hótelinu var búið að loka veitingasölunni þannig að ég átti ekki annan kost en að éta skóreimarnar í skónum mínum áður en ég lagðist upp í rúm tilbúinn í Noregsævintýrið.


Norðureyjaleikarnir og Straumnes.

Nú um helgina var kærkomið helgarfrí en frá því 2. maí hafði ég fengið 2 frídaga.  Það var því mikið í húfi að reyna að nýta helgina vel en auk hefðbundinna heimilisstarfa eins og að fara út að skokka fylgdist ég aðeins með Norðureyjaleikunum sem er íþróttakeppni milli Orkneyja og Hjaltlandseyja.  Keppt er í ýmsum íþróttagreinum og stig gefin fyrir hverja fyrir.

Þegar mig bar að garði var nýhafinn hokkíleikur milli Orkneyskra og Hjaltlenskra meyja.  Orkneysku valkyrjurnar völtuðu yfir stallsystur sínar frá Hjaltlandi og unnu 10-0.  Því næst var knattspyrnuleikur milli pilta frá eyjunum og hann var nokkuð líflegur og endaði með sigri Orkneyinga 4-0.  Það var nóg til þess að Orkneyingar unnu Norðureyjaleikabikarinn þetta árið.

hokkí (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég yfirgaf íþróttasvæðið í ágætu skapi og hélt áleiðis til Straumness þar sem mér hafði verið sagt frá ágætu safni sem þar er.  Sólskin og hlýtt var í veðri og Straumness er fallegur á svona dögum.  Það er samt skrítið að hvenær sem maður fer til Straumness þá sér maður engan á ferli, ekki einu sinni þegar er sólskin og hlýtt.  Orkneyingar eru reyndar með afbrigðum ófríðir og kannski gerir það Straumnes svona fallegan bæ að ekki skuli vera nein ófríð andlit á ferli til þess að varpa skugga á fegurðina.  Allavega gekk ég af stað eftir auðri aðalgötunni í sólskininu og fljótlega kom ég að hannyrðabúð þar sem líka var hægt að fá ís í brauðformi.  Það er alltaf góð hugmynd á sunnudegi í sólskini og hita.  Nei, það er aldrei góð hugmynd í sól og hita, áður en maður veit af er ísinn farinn að bráðna og renna niður handarbak, lófa og fingur.  Eftir að hafa klárað ísinn og sleikt á mér alla höndina upp að olnboga, ekki olnbogann samt af því að það er ekki hægt, var röðin komin að safninu.  Ísinn hafði svo sannarlega ekki gert daginn betri og þegar ég kom inn á safnið var ég umsvifalaust rukkaður um fimm pund í aðgangseyri sem mér fannst heldur ósvífið, en þó greiddi ég upphæðina með semingi.  Það kom líka á daginn að það var lítið varið í þetta safn, þar var hægt að sjá örlítið um heimsstyrjaldirnar, örlítið um viðskiptabæinn Straumnes, örlítið um steinaldartímann, örlítið um hvalveiðar, örlítið um náttúrusögu, aðallega fáeinir illa uppstoppaðir fuglar en þó var athyglisverð sýningin um Orkneyska landkönnuðinn John Rae, sem kannaði helst heimskautasvæði Kanada og er kannski einn merkilegasti sonur Orkneyja.  Heimsóknin á safnið var samt á heildina litið vonbrigði og ekki um annað að ræða en að koma sér heim og bíða eftir að komast aftur í vinnu á mánudagsmorgni.


Brexit

Kosningar um áframhaldandi veru eða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu það sem er helst í umræðunni hér í konungsveldinu þessa dagana.  Fyrir nokkrum vikum barst inn um bréfalúguna hjá mér og öðrum íbúum Bretlands áróðursbæklingur frá David Cameron og félögum í Bresku ríkisstjórninni, kostaður af almenningsfé og kostaði hann skattgreiðendur um 9 milljónir punda.  Svona lagað hefði ekki komið á óvart í ríki sambærilegt við Norður-Kóreu en að ríkisstjórn lýðræðisríkis skuli leyfa sér þetta er alveg með ólíkindum. 

Ég hef ekki kosningarétt hér en svona vinnubrögð fara illa í mig, hafa sem sagt þveröfug áhrif og vekur upp í mér uppreisnarsegginn.  Við Boris Johnson og félagar sem berjast fyrir útgöngu úr EU erum því skoðanabræður en þeirra rök eru m.a: 

Það er dýrt fyrir Breta að vera í EU en því hefur verið haldið fram að það kosti Breta 55 milljón pund á dag að vera í EU sem jafngildir um 11.000.000.000 krónum og það sem Bretar fá til baka af þeirri upphæð er u.þ.b. helmingur.  Margir Bretar telja þessum fjárhæðum betur varið heima í Bretlandi t.d. til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins.  Það kæmi sér nú vel fyrir ríkissjóð Íslands að fá þó ekki væri nema einsdags kostnað Breta við Evrópusambandið inn í kassann.

Bent hefur verið á lönd eins og Noreg sem gengur ágætlega utan EU og stundar viðskipti við sambandið í stað þess að vera meðlimur og hefur þar með fullt ákvörðunarvald yfir eigin landbúnaði og fiskveiðum, sem Skotum þykir afar mikilvægt, svo eitthvað sé nefnt.

Ákvörðunarvald innan EU er af mörgum talið ólýðræðislegt og með því að ganga út fengju Bretar sjálfir að stjórna sínu landamæraeftirliti, þeir fengju aftur að stjórna sínu eigin löggjafarvaldi en 60% af breskum lögum koma frá Evrópusambandinu.

Það kostar breska skattgreiðendur of mikið að halda fátækari löndum uppi, sbr Grikkland og fljótlega Tyrkland líka þar sem búa um 75 milljónir manna og er því fjölmennara land en Bretland þar sem búa 64 milljónir og verði af inngöngu Tyrkja reikna þeir með neikvæðum áhrifum á breskt heilbrigðiskerfi og skólakerfi sem þeir segja að standi nú þegar á brauðfótum.

EU hefur neikvæð áhrif á breskan efnahag og aðild að EU hefur í för með sér meira atvinnuleysi fyrir breska ríkisborgara þar sem fleiri og fleiri Evrópubúar fá vinnu í Bretlandi.

Hernaðarumsvið Evrópusambandsins eru sífellt að aukast og reikna má með að innan fárra ára verði Evrópusambandið komið með öflugasta her í heimi.

Þá hafa fylgjendur útgöngu gagnrýnt eyðslusemi sambandsins hluti eins og

... Evrópuráðið borgar 4,3 milljónir punda til að fljúga með háttsetta fulltrúa sambandsins í einkaþotu milli Brussel og Strasbourg

... Til viðbótar við þær 15 milljónir (76.000 pund) sem þingmenn sambandsins fá greidd í laun á ári fá þeir greiddar 9 milljónir (45.555 pund) vegna útgjalda sem þeir þurfa ekki skila inn kvittunum fyrir.

Þessu og ýmsu fleiru hafa fylgjendur útgöngu haldið á lofti en Cameron og félagar hafa haldið uppi hræðsluáróðri gegn útgöngu og samkvæmt þeim verður allt í kaldakoli hér (væntanlega svipað og í Noregi) verði útganga samþykkt.  Engu að síður verður fróðlegt að sjá útkomuna úr kosningunum þann 24. júní n.k. en ef ég þekki Breta rétt þá eru þeir of miklar gungur til þess að þora að ganga úr sambandinu

Ég biðst afsökunar á að vera að blaðra um erlenda pólitík hérna, ég sem hef ekki einu sinni áhuga á íslenskri pólitík en þetta er nú það sem er helst að frétta héðan.


mbl.is Úrgöngumenn beita blekkingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband