Landmannaluagar - Þórsmörk

Um síðustu helgi var haldið í ferðalag og var ferðinni heitið í Landmannalaugar og Þórsmörk.  Ég, Billi og Kári lögðum í hann frá Djúpavogi eftir hádegi og beygðum svo upp afleggjarann að Fjallabaki nyrðra.  Fyrsti viðkomustaður var í Hólaskjóli en þaðan var ekið í Eldgjá.  Í Landmannalaugum biðu okkar Ragnar Rafn og Ingi Ragnars en þeir höfðu komið í þangað frá Reykjavík.  Hungrið var farið að sverfa að og því var tendrað upp í grillinu og steikinni skellt á.  Kvöldinu lauk svo í hinni frægu heitu laug í Landmannalaugum. Það var svo þegar upp úr var komið að við rákumst á tilkynningu, A4 blað sem var heftað á staur við laugina.  Á blaðinu voru baðgestir varaðir við sundmannakláða sem orsakast af lirfum sníkjudýra sem lifa á fuglum.  Til að fjölga sér bora þær sér undir húð fugla, fara inn í taugakerfið, upp mænuna, í heilann og þaðan í nasirnar.  Þar breytast þær í snigla en fuglarnir drepast.   Lirfurnar troða sér líka undir húð fólks, án þess að maður verði þeirra var, vegna deyfandi efna sem þær gefa frá sér.  Þetta getur leitt til kláða eða ofsakláða.  Ekki er þó önnur hætta á ferðum þar sem lirfurnar drepast þegar þær komast í snertingu við mannsblóð og af því stafar kláðinn.  Mér vitanlega hefur enginn okkar orðið var við kláða ennþá.  Annað sem við urðum varir við eftir að upp úr var komið var kuldinn, en það var næturfrost í Landmannalaugum þessa nótt.

Fjöllin í kringum Landmannalaugar eru falleg en þau eru marglit.  Ganga á þau varð að bíða betri tíma í þetta skiptið en freistandi væri að skottast upp á Bláhnjúk.  Þess í stað var haldið að Ljótapolli, sem er alls ekki svo ljótur, Landmannahelli og Rauðufossa. Þaðan var haldið í Hrafntinnusker.  Mér finnst ekkert sérstaklega fallegt þar en mikið er af fallegri hrafntinnu á víð og dreif þar.  Í Hrafntinnuskeri kom landverja hlaupandi á móti okkur og sagði okkur að við værum á vitlausum stað,  öll bílaumferð væri bönnuð þar en við höfðum aðeins fylgt bílaslóðunum þangað sem voru reyndar frekar ógreinilegir og torfarnir.   Við gerðum því eins og verjan bað og snerum frá og héldum í íshellinn sem er þar skammt frá.  Að því loknu var ekið í átt til Þórsmerkur með viðkomu við Álftavatn.  Það var svolítið önugt að þurfa að keyra niður Fljótshlíðina og niður á þjóðveg til að komast í Þórsmörk, töluvert margir kílómetrar, í stað þess að komast beint yfir Markarfljót á móts við Þórsmörk.  Það voru svangir ferðalangar sem mættu þangað, enda var tekið hraustlega til matarins, sem að þessu sinni var grillað lamb, áður en lagst var til hvíldar.

Sunnudeginum var svo varið í Þórsmörk en það er að mínu mati einn af fallegustu stöðum landsins, þrátt fyrir mikla ösku sem er yfir öllu þar.  Gengið var frá Langadal yfir í Húsadal, með viðkomu í Snorraríki.  Útilegumaðurinn Snorri er sagður hafa flúið í hellinn Snorraríki þegar hann var á flótta undan heimamönnum sem hugðust taka hann fastan fyrir að stela sauðfé af bændum í sveitinni. Héraðsmenn náðu honum ekki því Snorri varnaði þeim uppgöngu í hellinn. Hugðu þeir þá svelta hann inni. Þegar hann átti aðeins eitt læri óétið eftir, þá kastaði hann því út. Töldu menn þá einsýnt að hann ætti nógan mat og hurfu frá.

Síðan var gengið upp á Valahnjúk og svo var hin töfrandi Stakkholtsgjá heimsótt en þangað ættu allir að fara sem heimsækja Þórsmörk.  Að lokum var svo keyrt inn að Gígjökli en þar var fyrir nokkrum mánuðum mikið jökullón.  Nú er þar hins vegar ekkert annað en aska og sandur auk þess sem Gígjökull hefur minnkað til muna en það eru afleiðingar gossins í Fimmvörðuhálsi í vor og hlaupsins í Markarfljóti.

Að þessu loknu var haldið heim en þetta var ákaflega skemmtileg ferð. Langidalur í Þórsmörk var eini staðurinn í ferðinni sem ég hafði komið á áður og alltaf er gaman að koma á nýja staði og sjá eitthvað nýtt.  Í lok ferðarinnar var rætt um að fara aftur á næsta ári en ganga þá Laugaveginn sem liggur frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk, og jafnvel ganga Fimmvörðuhálsinn, frá Þórsmörk yfir í Skóga.  Tíminn verður að leiða í ljós hvort af því verður.

Maountain Mall í Landmannalaugum

Við Ljótapoll

Einhyrningur

Hoppað inn Stakkholtsgjá

Hér var einu sinni lón


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband