Tónleikar

Á síðustu átta dögum er ég búinn að fara á þrenna tónleika og ef ég hugsa til baka þá eru þetta sennilega í fyrstu tónleikarnir sem ég fer á frá því á Hammond hátíð í apríl.  Þetta er náttúrulega allt of langur tími sem líður á milli enda var tónleikaþorstinn farinn að segja til sín.  Auðvitað stóð til að fara á Airwaves eins og svo oft áður en ekkert varð af því og því tekur maður fegins hendi það sem býðst þegar svona langt líður á milli.

Fimmtudaginn 25. nóv voru einsöngstónleikar með tónlistarkennaranum okkar Jozsef Kiss í Djúpavogskirkju.  Ekki fer á milli mála að þar er á ferð góður söngvari  en á efnisskránni voru nokkur sönglög úr ítölskum óperum, óperettum og söngleikjum auk þriggja íslenskra laga, m.a. Í fjarlægð eftir Karl O Runólfsson.  Það er lag sem meira er á bak við en virðist við fyrstu hlustun og lagið fær meira vægi þegar maður þekkir söguna.  Lagið varð til þegar Margrét, fyrri kona tónskáldsins, lá á banabeði á Kristneshæli við Eyjafjörð.  Karl ætlaði sér að heimsækja hana en var veðurtepptur.  Á sömu deild lá maður að nafni Valdimar Hólm Hallstað, eða Cæsar eins og hann kallaði sig og bað Margrét hann að yrkja fyrir sig ljóð til Karls.  Þegar Karl svo komst loksins á leiðarenda beið hans bréf við rúmgaflinn og Margrét var þá dáin.  Í bréfinu var kvæði sem hljómaði svona:

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

 

Kvöldið eftir var svo Svavar Knútur með tónleika í Löngubúð og ég held að þetta sé í fjórða skipti á tveimur árum sem hann er með tónleika þar.  Svavar var að spila lög af nýútkominni  plötu sinni sem nefnist  Amma.  Tónleikarnir voru mjög rólegir og notalegir en Svavar er þannig að maður skemmtir sér ágætlega  við það eitt að hlusta á bullið sem kemur upp úr honum milli laga.

Í gærkvöldi bauðst mér svo að fara á Frostrósatónleika en þeir hafa að mér skilst verið gríðarlega vinsælir meðal landsmanna.  Ekki hef ég nú haft neinn sérstakan áhuga á Frostrósunum en þar sem þetta var frítt lét maður sig hafa það og við Íris höfum nú svo sem ekki farið mikið tvö þannig að ákveðið var að fara út að borða í leiðinni.  Hjá Frostrósum er valinn maður í hverju rúmi og allt afskaplega vel gert hjá þeim.  Tónleikarnir áttu að hefjast klukkan sex í Egilsstaðakirkju og vorum við mætt tuttugu mínútum fyrir.  Þá var kirkjan orðin smekkfull og einu lausu sætin voru fremst til hliðar við sviðið.  Þar var búið að stilla flyglinum upp og því sá maður ekki neitt annað en flygilinn og skó flytjendanna. Þarna sátum við á meðan fyrstu lögin voru flutt  og horfðum á skó og hlustuðum á jólalög.  Eftir smá tíma gáfumst við þó upp og létum koma okkur fyrir á betri stað þaðan sem við höfðum ágætt útsýni.  Ekki þótti mér tónleikarnir neitt betri en ég átti von á en tvennt þótti mér þó standa upp úr.  Jóhann Friðgeir og strengjasveitin.   Jóhann Friðgeir af því að hann er góður söngvari og það er gaman að fylgjast með honum syngja en þegar hann þarf að taka á verður hann óskaplega brúnaþungur og það kemur glampi í augun á honum eins og að hann ætli að hlaupa til manns og berja mann.  Strengjasveitin fannst mér skemmtileg, kannski aðallega vegna þess að maður sér ekki strengjasveit á tónleikum á hverjum degi.  Ég væri til í að eiga eina svona strengjasveit sem myndi fylgja mér við hvert fótmál og spila fyrir mig.  Þegar við svo ætluðum að finna okkur veitingastað á Egilsstöðum eftir þetta kom í ljós að hvergi var hægt að komast að vegna jólahlaðborða eða annarra hremminga,  það endaði því þannig að við átum á N1 stöðinni.  Jei, þetta sem átti að verða að notaleku útaðborðaog tónleikakvöldi varð því þannig að við fórum að horfa á skó og borðuðum á bensístöð.  Við vorum samt ánægð með kvöldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband