Noregsferð

Mánudaginn 7. Febrúar var lagt í hann frá Djúpavogi og ekið til Reykjavíkur.  Alla leiðina var sólskin, hægviðri, jafnfallinn snjór og smá frost. Það hefðu sem sagt verið kjöraðstæður til að smella á sig gönguskíðunum og fara þetta á skíðum, ég hefði þá reyndar þurft að fara af stað aðeins fyrr af stað en um hádegi á mánudag og það var svo sem ósköp notalegt að sitja í hlýjum bílnum í félagsskap með Radiohead, Arctic Monkeys, Mugison og Rás2.  Það hefði líka verið tafsamt að komast á gönguskíðunum frá Árbæjarhverfi og niður í  bæ, yfir gatnamót, gangbrautir og ljós, en um nóttina gisti ég í Síðumúlanum eins og margir aðrir ógæfumenn hafa gert.

Ég yfirgaf hótelið um kl 04:40 á þriðjudagsmorgun og ók til Keflavíkurflugvallar.  Man eiginlega ekkert eftir ferðalaginu út á flugvöll, enda afskaplega syfjaður.  Sennilega hef ég samt verið numinn á brott af geimverum en það er víst algeng skýring ef menn muna ekkert eftir einhverju ferðalagi frá A til B.  Í flugvélinni horfði ég á íslensku kvikmyndina Brim og fannst hún bara alveg ágæt.  Eftir að hafa skipt um flugvél í Osló lenti ég í Bergen um kl. 12:20.  Ég tók rútu niður í bæ og tókst svo á einhvern óskiljanlegan hátt að ramba á hótelið mitt en eftir að ég hafði komið mér fyrir þar tók ég smá göngutúr um miðbæinn.  Um kvöldið buðu svo Ingþórog Olla til veislu og þegar fór að líða á kvöldið  fórum við Ingþór í góðan bíltúr, keyrðum upp á eitthvað fjall þar sem hægt var að horfa yfir Bergen og svo enduðum við í plötubúð áður en við kvöddumst og ég hélt upp á hótel.

Það var setið á ráðstefnu frá morgni miðvikudags til seinniparts og hlustað á ýmsa gagnlega fyrirlestra.  Sá fyrirlestur sem vakti mesta athygli mína var fyrirlestur stúlku frá National University of Ireland,ekki vegna innihalds fyrirlestrarins, heldur vegna bakgrunnsmyndarinnar sem voru á glærunum, en það er mynd af þorski sem ég tók í kví í Berufirði sumarið 2008.  Hvernig hún komst á bakgrunnsmynd á glærusýningu hjá Háskólanum á Írlandi er mér hulin ráðgáta.  Þessi mynd var reyndar líka notuð á auglýsingaplakat hjá Háskólasetri Vestfjarða í Bolungarvík.  Það mætti ábyggilega græða á þessu ef maður kynni það.  Að ráðstefnu lokinni náði ég svo að hitta Gunnar Stein en við fórum og fengum okkur flatböku og spjölluðum um heima og geima en að því loknu var farið upp á Hótel og haldið í næsta ferðalag,  um draumalendurnar.

Frægur þorskur:

Þorskur

Á fimmtudagsmorgun var ráðstefnunni framhaldið fram að síðdegiskaffi en þá var tímabært að hypja sig burt frá Björgvin.  Á Flesland flugvelli í Bergen var hins vegar töluvert uppnám og rask á flugi þar sem einhver sem var búinn að innrita sig í flug öskraði að hann væri með sprengju í farangrinum.  Maðurinn var fjarlægður og settur í dýflissuna í Bergen og allur farangur var grandskoðaður.  Þetta hafði þó ekki áhrif á mitt flug og SAS flaug með mig til Kaupmannahafnar.  Ég náði að labba sautján skref á Kastrup en þá var ég kominn í röðina á Flugleiðavélinni og settist svo í sæti 33A.  Fyrir framan mig var maður með konu og þrjú börn en hann var færður fram í til flugfreyjunnar vegna ofsa flughræðslu sem hann var haldinn.  Ekki nema hann hafi verið orðinn leiður á kellingunni og frekar viljað halda í höndina á yngri og fallegri konu.  Þetta er allavega góð leið til þess ef maður vill prófa það.  Þegar flugvélin nálgaðist svo Keflavík fór hún að hristast og hoppa, enda var vindhraði um 20 m/sek.  Niður á jörðina komumst við samt en þurftum að bíða í flugvélinni í um hálftíma af því að ekki var hægt að tengja hana við flugstöðvarranann vegna roks og þar sem hún stóð á planinu hristist hún og skalf engu minna en hún hafði gert í aðfluginu. Allt hafðist þetta þó að lokum og ég fékk aftur gistingu hjá þeim í Síðumúlanum.

Þar sem skítaveður var fyrri part fimmtudags, ákvað ég að fara ekki af stað austur fyrr en eftir hádegi  en hitti þess í stað aðeins á Karen.  Austurleiðin var tíðindalaus en þó stoppaði ég í um klukkutíma í Mýrdalnum til þess að taka þátt í símafundi.  Ég var feginn að hafa ekki farið á gönguskíðunum af því að snjórinn var allur farinn og það er víst ansi tímafrekt að koma sér áfram á gönguskíðum í auðu.  Heim var svo komið rétt fyrir níu.  Já og ráðstefnan var gagnleg.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Kristján, láttu þér ekki detta í hug að fara um skíðum.  En haltu áfram að taka frábærar myndir, þær rata víða.

Magnús Sigurðsson, 12.2.2011 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband