Sumarfrí

Það er gott að anda öðru hvoru að sér lofti úr öðrum landshlutum og þurfa ekki að gera neitt mikið meira en það.  Sem sagt, það er gott að fara í frí.  Við erum einmitt nýkomin úr einu slíku, fjórtán daga löngu. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem við forum saman í svona langt frí.  Í lok júlí fengum við upp í hendurnar tækifæri á að fara í sitthvorn bústaðinn tvær vikur í röð og við slógum ekki hendinni á móti því enda heillaði staycation á Djúpavogi okkur ekki þar sem við hefðum alltaf verið að kíkja við í vinnunni, skoða ímeil og annað vinnutengt.

Fyrri sjö dagana vorum við í Bongó Blíðu í Bústað í BláskógaByggð í Biskupstungum.  Þar áttum við góðar stundir með vinum og vandamönnum auk þess sem við skoðuðum Mekka garðyrkju á Íslandi, Flúðir, Reykholt og Laugaás.

Seinni vikuna vorum við á Blönduósi og náðum að skoða okkur um auk þess að dveljast hjá frændfólki á Kolþernumýri, sem er ekki langt frá hinum glæsilega Hvítserk. 

Hvítserkur

Á Blönduósi er besta sundlaug á Íslandi (hef reyndar ekki skoðað sundlaugina okkar á Álftanesi).  Þar er líka hafíssetur en lítið merkilegt var þar að sjá nema uppstoppaður ísbjörn í fullri stærð.

Einn daginn fórum við á Hvammstanga en þangað hafði ég aldrei komið. Hvammstangi er snyrtilegur bær en við gerðum ekki annað þar en að fara í Kaupfélagið og fá okkur hádegismat á veitingastaðnum Vertinum.  Vertinn er veitingastaður og þar fæst ódýr og góður matur.  Staðurinn ber þess merki að hann fari á hausinn eða allavega skipti um eigendur á svona tveggja vikna fresti en þegar við vorum þar var staðurinn merktur í bak og fyrir sem Síróp.  Innan dyra voru innréttingar úr sitthverri áttinni úr ýmsum trjátegundum, ljósum og dökkum og að minnsta kosti tveimur málmtegundum líka auk þess sem matsalurinn var skreyttur með einni risastórri mynd af umferðargötu í amerískri stórborg.  Allt úr sitt hverri áttinni, eins og reyndar gestirnir sem voru þar.  Kokkurinn var líka greinilega með reynslu, það sá maður þegar hann fór út að reykja en hann var grannur, gráhærður, með bauga undir augunum, húðflúr á framhandleggjum í kokkaskyrtu, smáköflóttum buxum og crocs skóm.  Kannski búinn að vera kokkur á einhverjum bát í þrjátíu ár eða svo.  Enda var maturinn afbragðs góður, ég gæti vel hugsað mér að fara þangað aftur þó ekki væri nema til þess að fá tilbreytingu frá N1 sjoppunum.

Annan daginn kíktum við á Skagaströnd en þangað hafði ég heldur ekki komið.  Við heimsóttum þar spákonuhofið og að sjálfsögðu er ekki hægt að yfirgefa Skagaströnd án þess að heimsækja Kántríbæ.  Þar var að sjálfsögðu snæddur ljúffengur amerískur kántríhamborgari við undirleik kántrýtónlistar sem sjálfur Hallbjörn kynnti í útvarpi Kántrýbæ. 

Útvarp kántrýbær 

Í Kántrýbæ er líka saga kántrýstjörnunnar Hallbjörns rakin af nákvæmni og það er alveg þess virði að eyða smá tíma í það.  Ég sá samt hvergi sýningu um hljómsveitina Jójó, kannski verður hún komin næst þegar ég kíki á Skagaströnd  Frá heimkynnum Hallbjörns var brunað yfir í heimkynni annars íslensks tónlistarkóngs, Geirmundar á Sauðárkróki og farið í Kaupfélag Skagfirðinga, sem er ábyggilega besta búð á Íslandi af því að þar fæst allt.  Á heimleiðinni var svo komið við í Glaumbæ sem er torfbær með allskonar dótaríi sem var notaður til sveita á Íslandi fyrir daga iðnbyltingarinnar. 

Glaumbær

Þar er líka skemmtilegt kaffihús þar sem þernurnar þjóna til borðs í alíslenskum búningi (ekki skrautbúningi samt) og þar fær maður kaffið framreitt í gamaldags sparistelli með blómamynstri og meðlætið sem boðið er upp á er alíslenskt, pönnukökur, kleinur, flatbrauð með hangikjöti, randalínur og fleira í þeim dúr.  Jömmers.

Svo er spurning hvort maður muni upplifa "Social jet lag" þegar maður mætir aftur til vinnu eftir frí, grútsyfjaður fyrstu dagana og ekki tilbúinn til að detta aftur inní vinnurútínuna svona eins og gerist stundum eftir jólin.  Framundan eru semsagt hefðbundnir vinnudagar en eflaust förum við í stöku daycation á næstu vikum þegar veður og aðstæður leyfa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband