18.10.2011 | 22:00
Riga
Við lögðum af stað til Reykjavíkur á fimmtudag og vorum komin þangað seinnipartinn. Á meðan Íris fór í klippingu fór ég á Laugardalsvöllinn og sá Ísland U-21 - England U-21. Englendingar voru töluvert betri og unnu þrjú núll, sanngjarn sigur en þó var íslenski markmaðurinn með hugann við eitthvað annað og hefði ekki þurft að fá tvö markanna á sig. Nokkrir enskir leikmenn stóðu sig betur en aðrir, Alex Oxelade-Chamberlain sem er hjá Arsenal átti góðan leik og skoraði öll mörkin í leiknum, en svo var Nathan Delfuenso hjá Aston Villa og Henri Lansbury sem ég held að sé í Arsenal góðir. Þá var gaman að sjá hinn unga Josh McEachran hjá Chelsea koma inná og spila síðasta hálftímann.
Svo var ræs klukkan 2:45 til þess að mæta í flugið en mæting í Keflavík var klukkan fjögur. Þrátt fyrir að við flygjum ekki með Iceland Express var seinkun á fluginu, en þegar við vorum lögð af stað tók flugið 3:20 og við vorum því komin til Riga um klukkan tvö að staðartíma en Lettar eru þremur tímum á undan okkur hér á klakanum. Að loknu inntékki á Hótel var rölt um nánasta umhverfi og það skoðað. Riga er snyrtileg borg, þar búa um 700.000 manns en ég get ímyndað mér að hún sé nokkuð dæmigerð austurevópsk, svipaðar byggingar og svipað fólk. Hungrið var farið að segja til sín í fyrsta og síðasta skipti í þessari ferð en maturinn þarna er ódýr og góður og maður ætti mjög auðvelt með að hlaupa í spik þarna ef maður gæfi sér tíma til þess.
Daginn eftir fórum við í skoðunarferð um borgina sem var skipulögð af ferðaskrifstofunni. Okkur voru sýnd gömul í búðarhús, fjölbýlishús, sem voru gríðarlega mikið skreytt, hrein listaverk. Fyrir þá sem hafa áhuga á arkítektúr tilheyra þessi hús svokölluðum Artnouveau eða Jugend stíl en maður að nafni Eisenstein er ábyrgur fyrir útliti flestra þessara bygginga. Svo var rölt um gamla bæinn í Riga sem er eiginlega miðbærinn en hann er mjög fallegur með steinlögð stræti og gamla byggingar. Riga á sér mikla sögu sem miðstöð viðskipta við Eystrasaltið og líka sem þátttakandi í styrjöldum og byltingum. Nú síðast árið 1991 þegar Lettland fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Þarna er líka ýmislegt sem minnir á Sovéttímann, bæði byggingar og fólk en um 25% íbúanna eru Rússar og mörg auglýsingaskilti bækur og annað er bæði á Lettnesku og Rússnesku. Greinilegt er að eitthvað er um fátækt í borginni en betlarar og böskarar eru afar algeng sjón.
Að lokinni borgarskoðunarferð var svo haldið á risastóran markað sem opinn er á hverjum degi í borginni en þar verslar hinn almenni Rigabúi í matinn og fleira. Snemma morguns streyma bændur á markaðinn til að selja vörur sínar. Þar er allt eins ferskt og hægt er að hugsa sér, grænmeti, ávextir, kryddjurtir, blóm, kjöt, fiskur, mjólkurvörur og margt fleira. Fimm stórar skemmur sem upphaflega voru smíðaðar sem geymslur fyrir loftför eins og Zeppelin og Hindenburg hýsa markaðinn að hluta en stórt svæði utanhúss er líka undirlagður fyrir þessa einstöku verslun.
Eftir þessa markaðskönnun var svo farið í samningaviðræður um hvar ætti að borða, ég hafði komið auga á veitingastað sem mig langaði að skoða betur en Íris þvertók fyrir það út af nafninu á staðnum sem henni fannst mjög fráhrindandi en mér fannst hin vegar aðlaðandi. Chili píka. Namm namm. Píku staðurinn var pítsustaður og píkurnar smökkuðust bara vel.
Á leiðinni heim á hótelið um kvöldið rákumst við á böskarahljómsveit á torgi einu. Bandið samanstóð af fjórum drengjum, klæddir eins og gamlar kerlingar í kjóla með slæður, einn spilaði á trommu, annar á túbu og tveir á trompet og það sem var helst á efnisskránni voru lög eftir Rihönnu, Aqua, Lady Gaga, Abba og fleiri og þeir voru gríðarlega hressir, enda var töluverður mannfjöldi búinn að hópast í kring um þá að fylgjast með. Kannski var þetta einn af hápunktum ferðarinnar, allavega sérlega óvænt ánægja.
Sunnudagurinn rann svo upp bjartur og fagur þrátt fyrir rigningarspá. Við skoðuðum okkur um í gamla bænum og fórum t.d. inn í Rússneska rétttrúnaðarkirkju sem var mikið skreytt, það mikið að ekki er hægt að lýsa því í orðum. Eftir að hafa kíkt í eina chili píku stóðum við skyndilega fyrir utan eina af fjölmörgum verslanamiðstöðvum og þar sem Íris henti til mín yfirhöfnum myndavél og tösku minnti hún mig óneitanlega á Josh McEachran á Laugardalsvellinum, full eftirvæntingar, tilbúin að hlaupa inná og gera út um leikinn. Ég fékk mér góðan göngutúr á meðan og restin af deginum fór í afslöppun.
Ferðin heim gekk svo ágætlega að undanskildum ofboðslegum hægagangi við innritun í flugið. Reyndar fannst mér skondið í vopnaleitinni að maðurinn sem var á eftir mér var greinilega með skammbyssu í handfarangrinum en hún sást á skjánum sem birtir myndina af því sem er gegnumlýst. Ekki veit ég hvað var gert við manninn eða byssuna en allavega var flugvélinni okkar ekki rænt og við komumst heim sæl og glöð eftir ljúft ferðalag. Ég væri nú samt alveg til í eina Chili píku núna.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.