Staðarskáldin I

Þessi pistill er sá fyrsti af fimm undir titlinum staðarskáldin þar sem efnið er ljóð fólks frá Djúpavogi.  Sá fyrsti í röðinni heitir Jakob Gunnarsson (f. 1886, d. 1942)  og bjó í Fögruhlíð.  Ég man aðeins eftir Fögruhlíð, en bærinn stóð rétt neðan við Steinsstaði.   Jakob var mikill snillingur, hann virtist eiga auðvelt með að yrkja en hann orti mikið af vísum og textum við sönglög.

Á árunum 1920-40 starfrækti Jakob skóverksmiðju sem nefndist Fabrikkan. Þar voru framleiddar svokallaðar "kobbasíur" sem í daglegu tali eru kallaðar gúmmískór. Voru þessir skór vinsælir víða um land og þóttu bæði ódýrir og ísmeygjanlegir. Lítill lækur rennur framhjá gamla Fögruhlíðarbænum og var Jakob svo hugvitssamur að virkja lækinn til þess að framleiða rafmagn fyrir skóvinnustofu sína.

Hér eru svo nokkur ljóðdæmi en yrkisefnið var jafnan daglegt líf og nánasta umhverfi.

Vísur um sólina:

Sólin til vesturs nú sígur

Senn lítur dagurinn kær

Í austri hún aftur upp stígur

Svo yndisleg fögur og skær.

 

Hún gleður hvert göfugt mannsins hjarta

Hún gleður hvern örþjáðan mann

Með gullfagra geislanum bjarta

Þeim geislanum margur heitt ann.

 

Þá virðast jólin hafa vakið upp skáldagyðjuna sem í Jakobi bjó en þó nokkur kvæði um jólin liggja eftir Jakob og eflaust mætti syngja þau við þekkt lög eða þá að semja nýtt lag við þau.  Þá orti Jakob nokkur kvæði til Margrétar dóttur sinnar og þessi kveðja er bæði falleg og skemmtileg:

Til Margrétar Jakobsdóttur, frá pabba.

Ég vísu þér lofaði vinan mín kæra

Hún verður þér indælar fréttir að færa

Frá pabba og afa og ölum hér heima

Enginn er hér búinn Möggu að gleyma.

 

Okkur líður hér vel, nema vænt er hér kvefið

Víst er það bót að fæst tóbak í nefið

En þá vantar reyktóbak það er nú verra

Þarna ég enda æ nú fékk ég hnerra

 

Heilsaðu frænda og frænku með blíðu

Frá mér og afa sem liggur á síðu

Í rúminu sínu því snemma er á degi

Ég stoppa nú hér ekki meira ég segi.

 

Heilsaðu Böggu ef hittir þú hana

Henni þá segðu að ég sé að vana

Að líma hér skótau og lappa í aðra

Ég læt sem ég vilji ekki meir um það blaðra.

 

Að lokum, Jakob var, eins og komið hefur fram, skósmiður en var kannski ekki alltaf aðgangsharður við að rukka,  allavega voru reikningarnir sem hann sendi mun skemmtilegri en þeir sem gefnir eru út nú á dögum.  Það væri ekki amalegt að fá reikning í bundnu máli eins og þennan sem Jakob sendi Ragnari á Rannveigarstöðum eitt sinn vegna viðgerðar á skóm:

 

Fyrst ég gerði garma að skóm

Sem gjarnan er bara hugmynd tóm.

Stikaðu dalinn út og inn

Allra besti Ragnar minn.

 

Fjórar krónur kostar það

Að koma svona botnum að.

Reimar sitja rúnt í kring

Ég raula ei meira eða syng.

 

Ef þú hefur aura gnótt

Svo að þitt ei geri sinni rótt.

Sendu Kobba halta helst

Hér í aðeins beiðni felst.

 

Mín allra besta ósk er góð

Að allir krakkar menn og fljóð.

Lifi í gleði allir eins

Og enginn kenni nokkurs meins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband