10.4.2012 | 11:30
Staðarskáldin III
"Jón var vel hagmæltur og íslenska stakan var honum hugstæð. Einnig gerði hann mörg lengri kvæði. Ekki orti hann í þeim tilgangi að afla sér fjár og frægðar, heldur til að gleðja sjálfan sig og aðra og stundum til að sefa sorg og söknuð samferðafólksins."
Í ljóðasafninu Gullkambi eru bæði stuttar vísur og lengri kvæði og yrkisefnið er eins og hjá svo mörgum daglegt líf en af kveðskapnum að dæma virðist náttúran líka hafa verið Jóni hugleikin.
Hér eru nokkur dæmi um stökur eftir Jón:
Um þig breiðist ekkert húm,
öllu verstu fári.
Gefi þér eitthvað gott í rúm
guð á þessu ári.
Sannleikanum sýnist tregt
að sigra í öfugstreymi.
Enda er orðið leiðinlegt
að lifa í þessum heimi.
Lifnar flestra ljóðaþrá,
leyst úr vetrarböndum,
þegar svanir suðri frá
svífa á vængjum þöndum
Og svo ein lítil veiðisaga:
Veiðimaðurinn
Hress í anda hélt að á
Hratt í veiðimokið
Kynjahæng einn karlinn þá
Krækti í augnalokið
Er er leit hann ódráttinn
Ógn varð karlinn hræddur
Heim að bæ með hænginn sinn
Hélt nú ærið mæddur
Bóndi hraður brást þá við
Beitti töng með snilli
Af svo klippti agnhaldið
Augnháranna milli
Ævintýrið úti var
Endir góðan hreppti
Heldur fegin hetjan þar
Hængnum síðan sleppti.
Jón átti um skeið Lödu bifreið sem hann var afskaplega ánægður með.
Lödu vísur
Ók ég glaður ekkert víl
Einn í dagsins hita
Þeir sem lasta Lödu bíl
Lítið um hann vita
Oft ég þarf að flýta för
Og fara tæpa götu
Alltaf hress og öruggur
Er ég keyri Lödu.
Til barna Dóru
Ömmu þinni og afa frá
Óskir bestar hljóttu
Og hverju degi ævi á
Yndi og gleði njóttu
Bíl á vegi bát á sjó
Bráðum muntu stýra
Dráttarvél sem dregur plóg
Með dísilvél og gíra
Nýjar buxur nafna fékk
Núna í dag frá ömmu
Verður því að vera þekk
Við hann pabba og mömmu.
Ljúft er að fagna litlum gest
Ljóði með frá sænum
Vertu afa yndið mest
Og ömmu ljós í bænum
Elskulegi Ásgeir minn
Á þig sólin skíni
Æviferil allan þinn
Ætíð ljómi krýni
Hallur gekk um hól og barð
Hann ber engin lýti
Frægastur í flokknum varð
Fór á kaf í Víti
Hjörtur sem að hræðist kýr
Hann er skrýtinn drengur
Ef hann verður bóndi og býr
Blessast það ei lengur.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 66420
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.