8.9.2012 | 20:50
Þorskeldi
Klak
Þó nokkur óstöðugleiki hefur verið í hrognaframleiðslu en það kemur fram í því að seiðaframleiðsla hefur sveiflast á milli 50.000 stk og 600.000 stk framleiðslu á ári. Misjafnlega hefur gengið að frjóvga hrogn við klak en lifunarhlutfallið hefur verið lágt fram til þessa. Helstu ástæður sem nefndar hafa verið eru að klakfiskurinn þurfi að ganga í gegnum náttúrlegar sveiflur bæði hvað varðar birtu og hitastig en einnig hefur verið talað um að það fóður sem notað hefur verið uppfylli ekki næringarþarfir klakfisks nægilega vel með tilliti til hrognafrjóvgunar. Lítið hefur komið út úr rannsóknum á þessu sviði en nú er unnið að rannsóknum t.d. með því að láta klakfiskinn ganga í gegnum náttúrlegar árstíðasveiflur.
Seiðaframleiðsla
Samkvæmt rannsóknum eru fyrstu fimmtíu dagarnir í eldinu afar krítískir. Á þeim tíma er vaxtargetan í hámarki og framtíðarvöxtur stjórnast að miklu leiti af því hvernig til tekst á þessum fyrstu vikum eldisins, þ.e.a.s. ef góður vöxtur næst á þessu tímabili, skilar það sér í stærri fiski í sjókvíaeldi. Því er afar mikilvægt að ná sem bestum vexti á fyrstu dögunum en því væri hægt að ná með hentugra fóðri.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að það fóður sem nú er notað, Artemía og hjóldýr, henta ekki næringarþörfum þorskseiða nægilega vel. Fyrsti hluti startfóðrunar sker úr um þróun þarma og lifrarvöxt en gerð var rannsókn á áhrifum frumfóðrunar með dýrasvifií stað hjóldýra og artemíu á þorsklirfur. Niðurstaðan var sú að þorskalirfur fóðraðar eingöngu á dýrasvifi uxu mun betur en lirfur sem fóðraðar voru á hjóldýrum og var munurinn greinilegur eftir 8 daga auk þess sem lifun hjá lirfum sem fóðraðar voru á dýrasvifi var mun betri. Ennfremur hafa verið gerðar tilraunir með að gefa dýrasvif að hluta og það hefur skilað betri vexti og lifun en gamla aðferðin að nota eingöngu hjóldýr og Artemíu.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að auk þess sem vöxturinn verður betri með dýrasvifi hafa seiðin verið hraustari og stressþol eykst en afföll á seiðastigi hafa verið minni hjá seiðum sem fóðruð eru með dýrasvifi. Í Noregi beina menn helst sjónum að seiðaeldinu í því skyni að koma þorskeldi á lappirnar og þá er fyrst og fremst horft til frumfóðrunar. Í febrúar s.l. var haldin þorskeldisráðstefna í Bergen og var hún að stórum hluta helguð seiðaeldi og fóðrun í seiðaeldi.
Enn sem komið er eru ekki fáanleg bóluefni til þess að bólusetjaseiði gegn kýlaveikibróður en það er sá bakteríusjúkdómur sem helst leggst á eldisþorsk. Tilraunir með bóluefni hjá Pharmaq eru í gangi og hafa þær tilraunir gefið jákvæðar niðurstöður og vonandi er ekki langt að bíða þess að það verði aðgengilegt.
Flutningur á lifandi fiski.
Flutningur, meðhöndlun og aðrir stressvaldandi þættir vara afskaplega illa í eldisþorsk. Mestu afföllin verða í sjókvíunum fyrstu vikurnar eftir að seiðin eru sett í kvíar. Samkvæmt rannsóknum á laxaseiðum þola þau illa það álag sem er á þeim við flutninginn en það veldur hækkun á magni kortisols sem er hormón sem myndast við langvarandi stress og getur gengið af fiskinum dauðum. Það hefur greinileg áhrif ef það tekur langan tíma að afgreiða seiði í brunnbát og ef ferðin með brunnbátnum tekur langan tíma og mikil hreyfing er á leiðinni ýtir það líka undir stress hjá fiskinum og veldur skaða á fiskinum. Þetta passar við þá reynslu sem við höfum af flutningi á þorskseiðum en minnstu afföllin hafa verið þegar seiðin hafa verið flutt með bíl. Lausnin við þessu miðað við núverandi aðstæður er sú að lágmarka alla meðhöndlun og stytta alla flutninga eins og kostur er, t.d. með því að nota bíla við flutningana en það getur hins vegar orðið dýrt þegar fram í sækir og magnið fer að aukast en seiðastöðin þarf að vera eins nálægt sjókvíastöðinni og kostur er.
Með því að laga þessi atriði ætti að nást meiri vöxtur og minni afföll og þar með kemst aleldi á þorski nær því að verða hagkvæmt miðað við það sem reynslan fram að þessu hefur verið.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.