12.2.2013 | 22:15
Þursaflokkurinn
Ég hef því miður ekki komist á tónleika með þeim en um dagana hef ég eignast þrjá diska með þessari einstöku hljómsveit sem lengi vel var þekktust fyrir að blanda saman íslenskum þjóðlögum og rokki. Elsti diskurinn sem nefnist Hinn íslenzki Þursaflokkur kom út árið 1978 og er sá besti að mínu mati vegna þess að á hann kemur best út sem heild og öll lögin á honum eru góð. Það sem einkennir hann helst fyrir utan að vera þjóðlegur frá A til Ö er snilldarlegur fagott leikur Rúnars Vilbergssonar en þetta er í eina skiptið sem ég veit um sem fagotthljóðfærið er notað jafn mikið á rokkplötu og þarna. Og guð minn góður hvað það passar vel og lyftir upp hinum þjóðlegu áhrifum. Lögin eru ýmist íslensk þjóðlög útsett af Agli eða Þursaflokkinum í heild eða þá alveg eftir Egil.
Önnur platan, Þursabit kom út árið 1979 og er eðlilegt framhald af Hinum íslenzka Þursaflokki en í stað fagott leiks Rúnars er komið Hammond orgel sem enginn annar en Karl Sighvatsson spilar á. Þetta gerir Þursabit heldur rokkaðri og tilraunakenndari. Hammondinn hjá Karli hefur gert það að verkum að margir telja Þursaflokkinn vera mikið Hammond band þó að hann hafi aldeilis ekki verið á öllum plötunum. Eins og áður eru lögin íslensk þjóðlög í útsetningu Egils eða Þursaflokksins eða þá að lögin og textarnir eru eftir Egil. Þó að platan sé á heildina litið ekki eins sterk og Hinn íslenzki Þursaflokkur eru stærri smellir á Þursabiti, lög eins og Sigtryggur vann og Brúðkaupsvísur.
Árið 1980 kom út plata með þeim sem ég á ekki en hún nefnist Þursaflokkurinn á hljómleikum. Það sem helst er að nefna á þeirri plötu er að þar gera þeir ódauðlegt lagið Jón var kræfur karl og hraustur en einnig eru á henni tvö lög sem ekki höfðu komið út áður.
Þriðji diskurinn sem ég á er fjórði diskur sveitarinnar og nefnist hann Gæti eins verið en þar kveður við nýjan hljóm. Hinn þjóðlegur íslensku áhrif eru horfin og nútíminn hefur tekið völdin (þó ekki lagið Nútíminn sem er á Hinn íslenzki Þursaflokkur). Hvorki fagott né Hammond orgel er lengur til staðar heldur hefur analóg syntheziser (kannski Roland Juno eitthvað) tekið við Egill á flest öll lög og texta, þó á Ásgeir Óskarsson eitt og Þursar í sameiningu tvö. Þá hafa þeir fengið tvö af helstu skáldum tuttugustu aldarinnar til liðs við sig en Þórarinn Eldjárn og Einar Már Guðmundsson eiga sitt hvorn textann. Sterkustu lögin á þessari plötu eru Pínulítill karl, Gegnum holt og hæðir og Vill einhver elska.
Hvort þessi umsnúningur er góður eða ekki verða menn að dæma sjálfir. Þó svo að það geti verið kostur við hljómsveitir að þær þróist og breytist þá kann ég betur við Þursana á þjóðlegu nótunum.
Árið 2008 hélt Þursaflokkurinn nokkra tónleika ásamt Caput sem ég hafði ekki færi á að komast á en hver veit, kannski kemur tækifæri síðar.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.