14.1.2015 | 21:45
Frá Djúpavogi til Kirkjuvogs
Þá er ævintýrið hafið. hvað er maður að hugsa? Að taka sig upp þegar allt er í góðu og flytja úr landi, burt frá öllu sem manni þykir vænt um. Þetta er auðvitað ákveðin bilun. En samt ekki. Sambland af metnaði og ævintýraþrá rekur mann af stað. ekki skyndilausn, ekki leit að betra lífi, ekki af því að allt er ómögulegt, ekki af því að grasið er grænna hinu megin, heldur leit að meiri reynslu og þekkingu, leið til að verða betri í því sem maður starfar við og að verða betri og víðsýnni manneskja. Svipað því að fara í skóla. Vonandi tekst það. Ég er sumsé kominn til Kirkwall á Orkneyjum, eða Kirkjuvogs eins og bærinn hét upphaflega og farinn að vinna hjá stóru laxeldisfyrirtæki sem heitir Scottish Seafarms en þar bauðst mér að taka við stöðu stöðvarstjóra á nýrri eldisstöð sem verið er að standsetja við eyjuna Vigur (Wyre). Þetta er að sjálfsögðu mjög spennandi og hjá fyrirtækinu er vandað til verka að öllu leiti.
Ég lenti í Kirkjuvogi á mánudag eftir millilendingu í Glasgow en hér er alþjóðaflugvöllur. Svo var farið að ná í bílaleigubíl en bíllinn sem fyrirtækið mun skaffa mér verður ekki tilbúinn fyrr en á mánudag. Ég fékk því Landrover Discovery til að nota fram yfir helgi en þá skipti ég yfir á Toyota Hilux. Það er frekar undarlegt að keyra alltaf vinstra megin og sitja alltaf öfugu megin í bílnum miðað við það sem maður er vanur en ætli þetta verði ekki fljótt að venjast. Maður ætlar samt alltaf öfugu megin inn og teygir sig í vitlausa átt eftir öryggisbeltinu. Vonandi er maður samt ekki öfugu megin í lífinu að örðu leiti.
Hér eru öll hús grá að lit en bæjaryfirvöld ráða lit húsanna og þeirra stefna er að hafa útlit bæjanna einsleitt. Á Íslandi er þessu öfugt farið, þar er eins og maður hafi dottið ofan í Smarties skál. húsið sem ég fékk úthlutað er því grátt og stendur við Reid Crescent nr 35. Það hafði ekki verið kynt í töluverðan tíma og því var ískalt þar fyrsta sólarhringinn en það er þannig hér að rafmagn er mun ódýrara á nóttunni og þess vegna er ekki hægt að hafa kyndinguna í gangi nema á nóttunni. Þar að auki eru engir ofnar í húsinu en húsið er hitað upp með lögnum í gólfinu og það fyrirkomulag er þess valdandi að húsið er óratíma að hitna og óratíma að kólna þegar að því kemur (kannski í vor) auk þess sem steinninn sem húsið er byggt úr er ekki sérlega móttækilegur fyrir hita. Það bjargar þó málum að í stofunni er rafmagnsarinn og þar sem ég er ekki búinn að fá rúmið mitt frá Íslandi sef ég í sófa í stofunni við hliðina á arninum. fyrstu nóttina svaf ég í öllum fötunum auk þess að klæða mig í flíspeysu og ullarsokka til að mér yrði ekki kalt, enda var hiti við frostmark annarsstaðar í húsinu og þeir sem hafa komið í fjallaskála að vetri til vita að þar getur verið ansi kuldalegt til að byrja með og eins gott að vera vel klæddur. Þetta var svipað. Nóttin var samt hin ágætasta og nú tveimur sólarhringum síðar er þetta að verða bærilegt, allavega eftir nóttina í nótt ætti þetta að vera orðið gott. Þetta er líka gott í bili.
Bátur í höfninni í Þingvöllum.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.