Skotasund

Dagurinn í dag fór að mestu í að heimsækja eina af eldisstöðvum SSF sem staðsett er við Skarphéðinsey (Shapinsay)en eftir volkið á sjónum fannst mér tilvalið að fara í sund en mér var tjáð að hér í Kirkjuvogi væri hin ágætasta sundlaug.  Það er samt að ýmsu leiti öðruvísi að fara í sund hér miðað við í hefðbundinni íslenskri sundlaug.

Fyrst ber að nefna að það eru ekki sér karla og kvennaklefar.  Nei hér eru allir saman í klefa.  Samstarfsmenn mínir voru búnir að segja mér að samfélagið hér væri gott og þetta væri eins og ein stór fjölskylda en ekki hafði ég látið mér detta í huga að fólk væri svona náið.  Auðvitað bregður manni og það vakna ýmsar spurningar þegar maður er að afklæðast og stúlka á fermingaraldri gengur framhjá manni á sundbolnum og blikkar ekki auga eins og ekkert væri sjálfsagðara.  Hvað á maður frá Íslandi að halda?  Hún er of gömul til þess að þurfa að láta pabba sinn hjálpa sér, ekki nema hún eigi við fötlun að stríða og geti það ekki sjálf.  Er ég kannski í vitlausum klefa? Er þessi kona sem kemur þarna gangandi rennandi blaut staðfesting á því?  Hún er örugglega ekki á þeim aldri að hún þurfi hjálp. Það fór áreiðanlega eldri maður hér inn áðan.  Úff í hverju er ég lentur?  uuuuu kvennaklefanum?  Á ég nú að hætta við og hlaupa út í bíl?  Af hverju segir enginn neitt?  Jæja, ég klæði mig þá bara úr fötunum og athuga hvort einhver segir eitthvað ef ég geng nakinn um húsakynnin býð nýjan dag velkominn, strýk framan úr mér mesta hárið.

Nei auðvitað er þetta þannig að það eru klefar fyrir hvern og einn, allir inni í sama rými og enginn gengur um nakinn en karlar og konur fara saman í sturturnar á sundfötunum þó. Það eru hvergi skilti með áletrunum á borð við "Alle gæster må vaske sig uden badetöj" eða "Alle gästemüssen sich ohne badeanzug waschen" eða hvernig sem þetta er nú á Íslandi.  Kannski maður komið með svoleiðis skilti næst og athugi hvað gerist.

Sundlaugin sjálf er fín venjuleg 25m laug auk barnalaugar með fullt af leiktækjum og horni með nuddi fyrir fullorðna fólkið en barnalaugin er samt frekar köld miðað við þær íslensku, jafnvel ísköld.  Svo þarf líka að kaupa sér passa til að komast í heitan pott, sauna eða gufubað þannig að sundferðin hjá mér var styttri í annan endann fyrir vikið. Í sama húsi er líka stærðarinnar líkamsræktarsalur þar sem boðið er upp á óskaplega margar tegundir af líkamsrækt og þar er líka frjálsíþrótta og fótboltavöllur.  Ég var einna spenntastur fyrir að fara í sundzúmba, hver veit nema að maður mæti í það einn daginn.  Að sundi loknu er svo hægt að kíkja á kaffihús eða bíó en þetta er allt þarna undir sama þaki í þessari afþreyingarmiðstöð sem heitir Pickaquoy.

Að sundi loknu er svo tilvalið að fá sér fish'n'chips og IrnBru enda fátt breskara en það.

fishnchips (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IrnBru er reyndar skuggalega líkur uppþvottalegi:

irnbru (Large)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Plís ekki fara í sumdsúmba..

Iris (IP-tala skráð) 15.1.2015 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband