22.1.2015 | 10:43
Aberdeen - Ketiltóftir
Á mánudag fór ég ásamt svæðisstjóra SSF á Orkneyjum til Aberdeen í þeim tilgangi að kanna gang mála við smíði á fóðurpramma fyrir nýju stöðina sem ég verð á. Eftir að lent var í Aberdeen var ekið til Banff þar sem höfuðstöðvar McDuff skipasmíðastöðvarinnar eru. Þar inni er sami ilmur og í smiðjunni hjá Smástál en munurinn er sá að þarna tala allir eins og Alex Ferguson. Að þessu verkefni loknu var ekið áfram, m.a. í gegnum Portsoy sem er einn fallegasti bærinn á Norðaustur Skotlandi og fyrir ykkur sem eruð oft að þvælast á þessum slóðum, endilega komið við þar, það er þess virði. Næst var stoppað í Buckie þar sem sjálf smíðin á prammanum fer fram og það var mjög gaman að sjá þetta 100 tonna flykki standa hálfklárað á fjórum litlum stólum inni í smiðjunni vitandi að þetta er væntanlegur vinnustaður manns eftir 2 - 3 mánuði. Við áttum svo flug heim aftur frá Aberdeen um hálf sjö en fluginu var frestað til hálf tíu og mér skilst að starfsfólk Loganair sé ekkert allt of mikið að stressa sig á einhverjum bévítans tímaáætlunum. Flugið frá Aberdeen tók um hálftíma og aumingja flugfreyjan mátti hafa sig alla við til að ná að fara yfir öryggisreglur, yfirfara sætisólar, bera fram kaffi (hlaupandi) fyrir 30 manns taka saman og ganga frá (hlaupandi) á þessum stutta tíma sem flugið tók.
Á þriðjudag var ég sendur í leiðangur til Sandeyjar (Sanday) þar sem kvíasmiðir voru að gera sig klára að hefja smíði á þeim 12 kvíum sem verða á stöðinni okkar. Mér var falið það verkefni að ganga úr skugga um að þeir hefðu tilskilin leyfi og réttindi og að þeir færu eftir þeim kröfum sem gerðar eru af hálfu SSF. Farþegaferjan Þorfinnur jarl (Earl Thorfinn) flutti mig til Sandeyjar og fyrir hádegi var ég búinn að koma öllu á hreint hjá kvíasmiðunum en þar sem ferjan fór ekki til baka fyrr en rúmlega sex var ekki annað fyrir mig að gera en að skoða mig um á Sandey. Ég hafði ekki ekið lengi þegar ég ók fram hjá bóndabæ þar sem kona gekk yfir túnið með stóran heybagga á bakinu. Það er nefnilega það sem konur á Sandey gera á meðan karlarnir eru einhversstaðar í rólegheitum. Þrátt fyrir sína þungu byrði brosti hún og veifaði mér. Nokkrum bílum mætti ég og allir bílstjórarnir brostu og veifuðu. Það virðist sem sagt vera einstaklegar glaðlegt og vingjarnlegt fólk þarna. Leiðin á svo til Ketiltófta (Kettletoft) þar sem hægt var að fá sér í svanginn og auðvitað kom vertinn (ekki Per samt) og spjallaði um heima og geima (ekki rafgeyma) á meðan húsfreyjan eldaði. Sandey er um 50 ferkílómetrar að stærð, þar búa tæplega 500 manns og dregur eyjan nafn sitt af stórum hvítasandsfjörum sem víða má finna þar.
Flestir íbúar Sandeyjar eru bændur en hér á Orkneyjum eru margir bændur sem stunda sauðfjár eða nautgriparækt. Þessar síðhærðu beljur voru vinalegar og ég er ekki frá því að þær hafi brosað og veifað
Ég hef ekki enn gefið mér tíma til að heimsækja einn af slátrurum bæjarins en hver veit nem að maður geti eldað sér íslenska kjötsúpu eða steikt kótilettur í raspi. Það er samt áhyggjuefni að hér gæti reynst erfitt að komast yfir súpujurtir í kjötsúpuna eða að finna Ora grænar baunir og rabbabarasultu með kótilettunum.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.