30.1.2015 | 21:00
Fucking eldhúsborð og fucking pulsur
Hér á eyjunum sem kenndar eru við seli er nóg að gera og margt að hugsa um en það kemur sér vel þegar maður dvelst fjarri ástvinum og fósturjörð.
Á miðkvikudag komu brettin þrjú með dótinu mínu sem ég sendi af stað frá Djúpavogi í byrjun janúar. Eftir að hafa verið hér úti allslaus nánast og haft það býsna fínt sér maður hvað maður safnar miklu óþarfa drasli að sér, dótaríi sem má vel komast af án. Nú er ég semsagt ekki lengur einstæðingur á erlendri grund án mikilla veraldlegra þæginda heldur er ég einstæðingur á erlendri grund með ýmis veraldleg þægindi. Það sem einna helst hefur breyst til batnaðar er að nú þarf ég ekki lengur að borða standandi, eða sitjandi uppi á hillu inni í stofu, nú get ég setið við eldhúsborð og borðað morgunmat og kvöldmat. Ef þið prófið að taka einn til tvo matast standandi daga þá skiljið þið hvers konar umskipti hafa orðið á þægindum á þessu nýja heimili mínu. Sjónvarpið er líka komið á hilluna inni í stofu þannig að það væri töluvert bras og jafnvel hættulegt að reyna að klöngrast þar upp á með... segjum heita súpuskál, brauðsneið og glas af vatni. Sjónvarpið mun væntanlega veita mér aukna afþreyingu frá og með næstu viku en þá á ég von á því að fulltrúar bresku sjónvarpsstöðvarinnar SKY komi í heimsókn og veiti mér aðgang að sjónvarpi og interneti. Ég er ekki enn búinn að setja saman rúmið enda er blái sófinn í stofunni jafn þægilegur og hann er ljótur og mér liggur því ekki á að komast í betra bæli þó að e.t.v. verði af því um helgina. Eldhúsborð og internet, ætli einstæðingur þurfi eitthvað meira?
Stundum langar mig í eitthvað að borða sem er alvanalegt að fá á Íslandi en erfitt hér á eyjunum norður af Skotlandi. Pulsur. Ég gerði tilraun til að elda pulsur á þriðjudaginn. Það kom aðallega til vegna þess að ég rakst á pulsubrauð á tilboði og fannst tilvalið að nýta það til að útbúa hinn rammíslenska þjóðarrétt, pulsur með öllu. Tómatsósu og sinnep er auðvelt að finna í verslunum hér en þar með er það upp talið. Pulsur eru nauðsynlegar ef maður ætlar að elda pulsur og ég fann niðursuðudós með einhverju sem líktist íslensku pulsunni. Þær pulsur sem Skotar kalla sausages eru töluvert frábrugðnar hinni íslensku frænku skosku pulsanna og því tók ég niðursoðnu pulsurnar fram yfir. Þrátt fyrir all ítarlega leit fann ég hvorki steiktan lauk né remúlaði en hins vegar fann ég majónes með karamelliseruðum lauk og því taldi ég að með því að fjárfesta í þessari majonsósu sem samanstóð af helsta hráefni steikts lauks og remúlaðis væri ég kominn með það sem til þurfti. Þegar eldamennskunni var lokið og ég gat sökkt tönnunum í lungamjúkt pulsubrauð með öllu (sem til var)lét árangur erfiðisins ekki standa á sér. Þetta var foráttu vont. Allavega langt frá því að líkjast þeirri pulsu sem maður er alinn upp við á íslandi og er manni nánast í blóð borin. Ég át þetta nú samt en eftir á leið mér einhvern veginn eins og ég hefði orðið fórnarlamb ofbeldis.
Ævintýrin gerast ekki aðeins í eldhúsinu eða stofunni. Í gær fór ég með þjónustubát SSF til að setja upp ramma fyrir kvíarnar, þ.e. ganga frá akkerum, tóum og festingum á tilvonandi eldisstöð. Það gekk eins og í sögu en í áhöfn þjónustubátsins sem heitir Northern Viking voru þrír Hjaltlandseyingar. Skipstjórinn eru mjög áþekkur Kolbeini kafteini úr Tinnabókunum í útliti, annar nánast tvífari Árna heitins Tryggvasonar sem m.a. lék Lilla klifurmús í Dýrunum í Hálsaskógi og sá þriðji var keimlíkur Fossa birni úr Prúðuleikurunum. Til að byrja með var afskaplega erfitt að átta sig á hvað þeir voru að segja vegna hins sterka Hjaltlandseyjahreims þeirra. Þarna var ég sem sagt staddur með Kolbeini kafteini, Lilla klifurmús og Fossa birni og augun í mér hringsnerust þegar ég var að einbeita mér að því að skilja það sem þeir voru að segja. Það kom nú reyndar mjög fljótt enda samanstóð orðaforði þeirra fyrst og fremst af blótsyrðum. Til dæmis sögðu þeir fucking í u.þ.b. öðru hverju orði shit eða shyte í c.a. þriðja hverju orði og svo var fyllt upp í annað með orðum eins og twat, bastard og fleiru í þeim dúr. Ekki svo að skilja að þeir hafi haft allt á hornum sér. Þvert á móti þetta eru lífsglaðir náungar sem geisluðu af kátínu og á milli þess sem þeir blótuðu skellihlógu þeir svo að skein í tedrykkjugular tennurnar. Dagurinn var hinn besti í alla staði, allt gekk að óskum enda ekki við öðru að búast þegar félagsskapurinn er góður.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.