Eday

Á laugardag fór ég norður í Eiðey (Eday) til þess að aðstoða við slátrun og gisti þar í tvær nætur.  stöðin á Eiðey hefur aðeins verið í gangi í þrjú ár og þeir höfðu aldrei notað flotlínu við að tæma kví þannig að Phil, stöðvarstjórinn óskaði eftir nærveru minni..

Á Eiðey búa um 130 manns, þar er verslun sem er opin tvo tíma á dag, bílaleiga, hostel, læknir og ferjuhöfn.  Þar með er þjónustan upptalin.  Nei ég gleymdi einu, það er flugvöllur þar sem heitir London airport.  Prestur kemur einu sinni í viku frá nærliggjandi eyju í litlum fiskibát í hvaða veðri sem er.  Netsamband og sjónvarpssamband á eynni er mjög takmarkað og því var lítið samband við umheiminn á meðan á dvölinni stóð. 

vatnið og þorpið (Large)

 

 

 

 

 

 

Millulögur (Mill Loch) og þéttbýliskjarninn á Eiðey í baksýn, sjö hús held ég.

heilsugæslustöðin á Eday (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heilsugæslustöðin á Eiðey.

Ég fékk herbergi í húsalengju sem SSF leigir á norðurhluta eyjarinnar, á stað sem frægur sjóræningi, John Gow að nafni, var handsamaður og fluttur til London og hengdur.  Herbergið var alveg ágætt, með baðherbergi og eldunaraðstöðu en að sjálfsögðu ekki net eða sjónvarp.  Í lýsingu sem fylgir herberginu er m.a. tekið fram að dýralífið þarna sé fjölskrúðugt og það stóð heima.  Skordýralífið í þessu litla herbergi var með fjölbreyttasta móti, að minnsta kosti þrjár tegundir sem sjást vel með berum augum:  Grápöddur (woodlice), köngulær og húsflugur, nokkrir einstaklingar af hverri tegund.  Það fór svo sem ekki í taugarnar á mér að hafa þessi meinlausu grey á rölti þarna í herberginu en samt var það nú þannig að þegar könguló skreið yfir sængina mína þegar ég var lagstur til hvílu fyrra kvöldið fór mig í framhaldinu að klæja hingað og þangað um líkamann.  Á handarbakinu, á síðunni, á ristinni, milli læranna, milli rasskinnanna,  á vinstra gagnauganu.  Engu að síður sofnaði ég fljótlega og svaf vært alla nóttina án þess að hafa hugmynd um hversu líflegt var í herberginu um nóttina. 

Sunnudagurinn var svo undirlagður í vinnu við kvíarnar og þegar ég lagðist á koddann upp úr miðnætti lognaðist ég út af án þess að verða var við litlu herbergisfélaga mína.  Báða dagana byrjaði ég samt á því að tína upp fáein stykki af gólfinu.  Í morgun vaknaði ég reyndar óþarflega snemma og þar sem ég hafði smá tíma dreif ég mig út í göngutúr og skoðaði m.a. stone of setter og Vinquoy tomb.  Stone of setter er einn af þessum steinum sem hafa verið reistir hingað og þangað um Orkneyjar.  Þjóðsagan segir að Óðalsbóndi einn hafi ákveðið að reisa steininn og lét því grafa holu til þess að láta steininn standa í. Bóndinn og menn hans náðu að koma öðrum enda steinsins fram yfir brúnina en hann var of þungur til þess að þeir næðu að koma honum alla leið.  Óðalsbóndinn brá þá á það ráð að kalla á kerlingu sína og fékk hana til þess að setjast á endann sem stóð út af brúninni og hossa sér og hún var nógu þung til þess að steinninn reis upp á rönd en svo óheppilega vildi til að kerlingin lenti undir steininum og dó.  Mönnunum fannst ekki taka því að reyna að ná henni undan steininum og létu hana því eiga sig þannig að e.t.v. eru bein hennar grafin þarna undir.  Vinakví (Vinquoy tomb) er 4000 ára gamalt byrgi hlaðið úr grjóti og tyrft yfir.  til þess að komast inn í byrgið þarf að skríða í gegnum þröng göng og þar inni kemur í ljós rými með fjórum útskotum sem einhvern tímann hefur verið mannabústaður.

DSC_0251 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stone of Setter, Rauðhöfði (Red head) í baksýn.

Nú er kominn háttatími hér, voðalega klæjar mig á framhandleggnum, klæjar þig líka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband