19.4.2015 | 17:11
Heppni og óheppni, þrír mánuðir að baki.
Ég tel mig vera þokkalega vel mæltan á enska tungu og í flestum tilfellum gengur mér vel að skilja fólk hér um slóðir þrátt fyrir sérstakan hreim eyjarskeggja en auðvitað er fólk misskýrmælt eins og gengur og gerist. Eins og t.d. Villi úr Bandið hans Bubba:
Sem dæmi þá fór ég að skokka um daginn með skokkhóp hér í Kirkjuvogi og í það skiptið slóst roskinn hlaupari frá Aberdeen í hópinn. Hann hljóp við hliðina á mér dágóðan hluta leiðarinnar og var bísna ræðinn, talaði um heima og geima (held ég) en það var mjög erfitt að skilja hann, í fyrsta lagi af því að hann var með sterkan skoskan hreim og í öðru lagi af því að hann var svo móður. Það sem ég heyrði hlj´ðomaði einhvern veginn svona: "mhrfumurifmfurdmv" og mhuerivbvyor Iceland" og "ohnrvinmundrim". Ég reyndi eftir bestu getu að svara rétt ef ég hélt að hann væri að spyrja að einhverju. Yes indeed, Oh no never o.s.frv og ég held að það hafi tekist bærilega. Hann hætti samt að hlaupa við hliðina á mér þegar u.þ.b. 1/4 af leiðinni var eftir. Kannski hefur hann bara verið orðinn þreyttur.
Framburður Orkneyinga hefur eitt mjög sérstakt einkenni, en orð sem Englendingar bera alla jafna fram með "Á" hljóði bera rkenyingar fram með "Ú" hljóði. House (hás) verður því "hús" out verður "út", down verður "dún", now verður "nú" o.s.frv. Þeir eru líka með fáein orð sem Englendingar nota almennt ekki, orð eins og peedie sem þýðir lítið, birn sem þýðir börn, bonnie sem þýðir gott og lassie sem þýðir stúlka.
Ég var svo heppinn að eiga frí um helgina og því tók ég mér hjólatúr í dag upp á Breiðavaðshæð (Wideford Hill) þaðan sem útsýni yfir Kirkjuvog, Skapalón og eyjarnar í kring er gott. Ég hafði ekki hjólað lengi þegar ég varð fyrir því óláni að annar pedallinn losnaði þannig að í óefni stefndi. Ég var samt svo heppinn að hafa sexkantasett meðferðis þannig að ég gat lagað þetta til bráðabirgða. Í því sem ég var að klára að herða boltann heyrði ég sagt yfir öxlina á mér, "Er allt í lagi, get ég aðstoðað"? Þegar ég leit við stóð þar ungur maður brosandi með óhemju gisnar tennur. Ég sagði honum hvers kyns var og þá kom í ljós að hann vinnur á hjólreiðaverkstæði í Kirkjuvogi. Hverjar eru líkurnar á því að hitta hjólaviðgerðarmann í Kirkjuvogi, nákvæmlega á þeim stað og þeirri stund þegar hjólið bilar? Þetta kalla ég heppni. Hann sagði reyndar að hann vissi til þess að pedalar gætu losnað á nýlegum hjólum en það væri frekar óheppni en einhver verksmiðjugalli.
Kirkjuvogur frá Breiðavaðshæð.
Nú er framundan hjá mér enn lengra ferðalag en ferðin upp á Breiðavaðshæð af því að á miðvikudag flýg ég til Íslands í tíu daga frí. Mikið verður nú gott að komast heim og hitta fólk eftir þessa þriggja mánaða löngu dvöl á erlendri grund. Ívar Orra hef ég ekki hitt síðan í janúar og þegar ég kvaddi kunni hann örfá orð, sennilega innan við tíu, en nú eru allar flóðgáttir að opnast og orðin streyma eins og íslenskur fjallalækur í leysingum að vori. Þessir þrír mánuðir hafa engu að síður verið lærdómsríkir, það er dýrmæt reynsla sem ég hef fengið nú þegar við að vinna hjá alvöru fiskeldisfyrirtæki, reynsla sem hvergi er í boði á Íslandi. Auðvitað hafa samt komið tímar sem maður hefur spurt sjálfan sig "Af hverju kom ég mér í þessar aðstæður, hvað í fjandanum var ég að hugsa"? En þega upp verður staðið verður þetta ómetanlegt. Næsta blogg verður að öllum líkindum ekki fyrr en ég kem til baka í byrjun maí.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.