10.5.2015 | 19:03
Kominn aftur.
Næsta heimsókn verður seinni partinn í júlí og þá verður stoppið vonandi aðeins lengra. Auk minninganna tók ég með mér íslenskt pipp og súpujurtir þannig að nú verður fljótlega elduð Orkneysk/Íslensk kjötsúpa. Á föstudaginn fann ég reyndar verslun niðrí bæ sem selur súpujurtir og mér til mikillar gleið er nú hægt að fá skyr i Tesco sem bragðast eins og íslenskt skyr þrátt fyrir að vera framleitt í Þýzkalandi.
Frá Íslandi hélt ég rakleiðis til Írlands og gisti þar í tvær nætur en tilgangurinn var að heimsækja skipasmíðastöðina sem er að smíða vinnubátinn okkar. Við komum með nokkrar smávægilegar breytingatillögur sem vonandi gera bátinn betri. Að heimsókn lokinni var flogið til Orkneyja með viðkomu í Inverness sem stundum er kölluð höfuðborg hálandanna.
Daginn eftir heimkomu snerist svo allt um kosningar hér í Stóra-Bretlandi þar sem leiðtogi vor, David Cameron, og Íhaldsflokkur hans fékk meirihluta. Kosningakerfið hér er nokkuð sérstakt og sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja asnalegt, en Bretlandi er skipt upp í 650 kjördæmi og aðeins einn frambjóðandi úr hverju kjördæmi kemst á þing, sem sagt einmenningskjördæmi. Þetta þýðir að þó að einn flokkur fái ágætis hlutfallskosningu er alls óvíst að nokkur frambjóðandi viðkomandi flokks komist á þing. Til dæmis fékk skoski þjóðarflokkurinn (SNP) 56 þingsæti með 5% atkvæða en UKIP fékk aðeins eitt þingsæti með 13% atkvæða. Það er líka athyglisvert að hér í Skotlandi eru fleiri Pandabirnir en þingmenn frjálslyndra demókrata. Kjósendur virðast hafa litið á Cameron sem álitlegan leiðtoga þjóðarinnar fremur en Ed Miliband helsta keppinaut hans auk þess sem vaxandi andstaða við skrifræðisskrímsli Evrópusambandsins gæti hafa haft áhrif en Cameron lofaði að árið 2017 yrði kosið um hvort Bretar ættu að segja skilið við ESB eða halda áfram.
Annars er sumarið komið hér, nú tekur við nokkuð hefðbundin vinna, þjálfun og áframhaldandi uppsetning eldisstöðvarinnar. Krákurnar eru í óða önn að unga út en þær byrja hreiðurgerð í byrjun mars og velja sér hreiðurstað í trjákrónum. Ætli það sé þess vegna sem engar krákur eru á Íslandi?
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.