Roal Oak

Þessi vika er búin að vera skemmtileg og gefandi.  Hraðbáturinn okkar, Cubbie Roo, hefur verið notaður óspart, m.a. til þess að fara norður til Sandeyjar og Vigurs.  Í dag fórum við Erlendur, hinn hundtryggi aðstoðarmaður minn, í skemmtilegt ferðalag en við þurftum að sigla frá Kirkwall austur fyrir Orkneyjar suður í Pentilinn svokallaða, sem er sundið milli Skotlands og Orkneyja, um 6 mílna breitt og alræmt fyrir sterka hafstrauma.  Þegar komið var suður fyrir Suður-Rögnvaldsey var sveigt til norðurs og til hafnar í Scapaflóa.  Ástæðan fyrir þessu ferðalagi okkar var sú að forstjóri SSF ásamt skoskum þingmönnum á breska þinginu ætla að heimsækja okkur á mánudag og áætlað er að skoða fiskeldisstöðvar í Scapa flóa.  Þó að aðeins séu um fjórir kílómetrar landleiðina á milli hafnarinnar í Kirkwall og hafnarinnar í Scapa er ekki hægt að sigla þarna á milli öðruvísi en að fara um 45 sjómílna leið (ca 80 km) og það tók okkur um tvær og hálfa klukkustund.  Ekki er hægt að komast á milli eyjanna sunnan meginlandsins vegna hindrana sem Churchill setti upp í heimstyrjöldinni síðari til þess að takmarka aðgengi kafbáta að flóanum. 

Oosterschelde (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

Á leiðinni mættum við hollensku skútunni Oosterschelde sem er þriggja mastra skúta, 50 metra löng en því miður var hún búin að fella seglin þegar við mættum henni.  Hægt er að kaupa sér ferðir með henni, t.d. siglir hún til Grænhöfðaeyja um næstu jól ef einhver hefur áhuga.  Spennandi er það.  Skömmu áður en komið var til hafnar í Scapa ákváðum við að sigla yfir flak breska herskipsins Royal Oak sem var skotið niður af þýskum kafbát í heimsstyrjöldinni síðari og það var mjög sérstakt að sjá flakið birtast á dýptarmælinum þar sem það liggur á 30 m dýpi en efsti hluti flaksins nær upp á 5 m dýpi.

Saga Royal Oak er stórmerkileg og fyrir þá sem hafa áhuga er m.a.hægt að kynna sér hana á Wikipedia en í stórum dráttum er hún þannig að Royal Oak var eitt af stærstu herskipum breska sjóhersins í heimsstyrjöldinni síðari og í áhöfn voru hvorki fleiri né færri en 1.234 manns.  Smiði skipsins lauk árið 1916, það var 189 m langt og 27 m breitt.  Aðfaranótt 14. október 1939 náði þýskur kafbátur að lauma sér inn í Scapa flóa um mjótt og grunnt sund milli Lambhólma og meginlands Orkneyja.  Kafbáturinn skaut fyrst einu skoti sem lenti á stefni skipsins án þess að valda skaða en hristi skipið og vakti áhöfnina sem taldi að sprenging hefði orðið í skotfærageymslu.  Kafbáturinn sneri við og skaut aftur en hitti ekki.  Í þriðja sinn skaut kafbáturinn þremur skotum sem öll hæfðu markið og Royal Oak sökk á u.þ.b. 15 mínútum.  Af 1234 manna áhöfn týndu 833 manns lífi.  Kafbáturinn náði að forða sér úr flóanum sömu leið og hann kom og Churchill ákvað í framhaldinu að byggja kafbátahindranir milli nokkurra eyja í flóanum.  Flak Royal Oak er friðað og minningarathöfn er haldin á hverju ári en enn þann dag í dag má sjá olíu stíga upp frá skipinu.

Kolbeinsey (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolbeinsey

mylluhöfði (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

Mylluhöfði

Hoxa battery (Large)

 

 

 

 

 

 

 

Skotbyrgi við Hoxa.  Þaðan var skotið á skip og báta Þjóðverja ef þau reyndu að komast inn í Scapa flóa í heimsstyrjöldinni síðari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, ég bendi þér á bók mína Tarfurinn frá Skalpaflóa sem kom út fyrir síðustu jól. Þar er þessi saga sögð og saga Orkneyja sem flotastöðvar. http://issuu.com/magnusthor/docs/tarfurinn-issuu2

Bestu kveðjur, 

Magnús Þór Hafsteinsson

Magnús Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.5.2015 kl. 23:38

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Takk fyrir þessa ábendingu Magnús.  Það er virkilega ánægjulegt að það sé hægt að nálgast fróðleik um Scapa flóa á íslensku enda er saga fóans í heimsstyrjöldunum báðum afar merkileg.  Skyldi það vera Günther Prien, skipstjóri U-47 kafbátsins sem skaut niður Royal Oak, sem prýðir kápuna?  Saga hans er ekki síður merkileg.

S Kristján Ingimarsson, 29.5.2015 kl. 06:51

3 identicon

Já, þetta er Prien sem er á kápunni. 

Mbk, 

Magnús Þór

Magnús Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband