Ferð til Háeyjar

Á föstudaginn bókaði ég ferð með ferjunni til Háeyjar þar sem veðurútlit var gott og á norðanverðri eyjunni er fallegt um að litast og skemmtilegar gönguleiðir.  Háey er stærsta eyjan í aðliggjandi eyjum Orkneyja og sú hálendasta en þar er hæsti punktur Orkneyja, 479m og þar búa rúmlega 400 manns.  Dagurinn heilsaði með rigningu og þoku en samkvæmt spánni átti að stytta upp eftir hádegi þannig að ég lét slag standa. Ekki voru margir farþegar um borð í ferjunni, tvær konur með nokkra krakka og einn aldraður maður, fremur lágvaxinn og gekk með staf.  Ég fékk mér kaffi úr drykkjarsjálfsalanum og gamli maðurinn fór í kjölfarið að skoða sjálfsalann, eftir smástund kom hann til mín og spurði:

"Er allt uppselt í sjálfsalanum"?

"Nei, nei það kviknar rautt ljós hjá viðkomandi drykk ef hann er uppseldur".

"Já svoleiðis, hvað kostar drykkurinn"?

"Hann kostar 60 pens".

Hann fór að leita í vösunum.

"Æ nú fór í verra, ég er bara með 40p".

"Hérna, ég er með 20 í viðbót fyrir þig".

"Þakka þér fyrir, hvað geri ég svo"?

"Sjáðu þú setur peninginn hér, svona já, og svo velurður þér drykk".

"Ég ætla að fá kakó".

"Já þá ýtirðu hér, sjáðu þarna kemur drykkjarmálið með kakódufti, og svo ýtirðu hér á Hot water til þess að fá heitt vatn samanvið".

"Já þakka þér fyrir, ert þú að fara til Flateyjar"?

"Nei ég er að fara til Háeyjar, ferjan fer þangað fyrst og svo til Flateyjar".

"Já já ég er að fara til Flateyjar, ég er á nítugasta aldursári og er að koma hingað í fyrsta skipti eftir 70 ár en ég var á skipi hérna í heimsstyrjöldinni síðari.  Þetta er því stór stund fyrir mig og vekur upp margar minningar".

Ég fylltist áhuga og spurði hann nánar út í þetta.

"Skipið hét HMS Norfolk, við vorum 820 í áhöfn, flestir á aldrinum 18 - 24 ára eins og flestir hermenn voru á þessum tíma, ég var 18 ára og byrjaði þarna um borð árið 1944.  Við vorum mikið hér á Skálpaflóanum frá því að ég byrjaði og allt til ársins 1946.  Ég man að 8. maí, þegar stríðinu lauk, fengum við það hlutverk að flytja Ólaf krónprins af Noregi til Bergen til þess að hann gæti staðfest brotthvarf Þjóðverja frá Noregi og um tveimur vikum síðar fórum við með Hákon konung, föður Ólafs og fjölskyldu hans til Oslóar.  Ég var bókari og hafði það hlutverk að dulkóða skilaboð sem við sendum og afkóða skilaboð sem við fengum en öll skilaboð voru dulkóðuð, hvert orð hafði ákveðið númer og af því að ég var læs og skrifandi og nokkuð glöggur á tölur var ég fenginn í þetta.  Ég var líka látinn hlaða fallbyssurnar.  Ég man líka eftir því að áður en við fluttum Hákon konung var ég sendur í land til þess að kaupa nokkur klósett af því að það þurfti að útbúa sérstök kvennaklósett um borð.  Það sem var hlegið að því maður.  Á meðan við vorum hér í flóanum fengum við stundum að fara í land á Flatey, fjóra tíma í senn, en þar var búið að útbúa kvikmyndahús og aðra aðstöður til afþreyingar fyrir hermenn.  Þetta voru hættulegir og taugatrekkjandi tímar.  Veistu hvort gamla trébryggjan er þar ennþá"?

"Nei nú er steinsteypt bryggja þar en ég held að það sé hægt að sjá rústir gamla kvikmyndahússins frá bryggjunni".

"Já það er nefnilega það, óskaplega væri nú gaman að sjá það".

"Ætlar þú að stoppa eitthvað lengur hér á Orkneyjum"?

"Nei, ég er farþegi á skemmtiferðaskipinu sem er í Kirkjuvogi og ég fer beinustu leið þangað aftur, ég ætla bara rétt að stíga fæti á bryggjuna á Flatey á meðan ferjan stoppar þar og svo þarf ég að drífa mig til baka".

"Já jæja við erum komnir til Háeyjar, ég þarf víst að fara frá borði, það var gaman að spjalla við þig, ´vertu sæll og njóttu ferðarinnar".

"Já takk sömuleiðis og vertu sæll".

Þegar í land á Háey var komiðvar ennþá rigning þannig að ég keyrði um eyjuna og skoðaði það sem hægt var að skoða, fór m.a. á stríðsminjasafnið þar og kaffihús.  Það var ekkert lát á rigningunni  og ég ákvað að bíða fresta gönguferðum þangað til seinna, þegar skyggni yrði betra og aðstæður þurrari.  Þegar ég var kominn aftur í ferjuna seinni part dags og landfestar voru leystar, stytti upp og sólin braust fram.  Kannski geri ég aðra tilraun um næstu helgi.

stríðsminjasafn (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá stríðsminjasafninu.  Þessir munir voru geymdir inni í gömlum olíutank og bergmálið og hljóðin þarna inni voru mögnuð.

skrúfa (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skrúfan og öxullinn af HMS Hampshire sem fórst undan Marvíkurhöfða.  Samtals vegur þetta 35 tonn!

kýr og meginland (Large)

 

 

 

 

 

Horft frá Háey yfir til meginlandsins, lengst til vinstri eru klettarnir við Yesnaby og til hægri tún norðan við Straumnes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband