Bæir á Orkneyjum

Þó að Orkneyjar séu að mestu leiti dreifbýli, þá eru hér líka bæir og þorp.  Kirkwall, þar sem ég bý, er stærsti bærinn með um 9000 manns.  Magnúsarkirkja, eitt helsta kennileiti bæjarins er merkileg og falleg bygging og hér er Highland Park viský verksmiðjan en annars er hér lítið að sjá.  Þó má segja um alla bæina hér á Orkneyjum að það er þrennt sem einkennir þá.  Þeir eru snyrtilegir, fólk leggur bílunum sínum þar sem hugmyndin um að leggja kviknar, og öll hús eru úr steini, ómáluð í sínum náttúrulegu litum.  Jú og svo má bæta því við með einkenni bæjanna hér að maður er aldrei viss hvar þeir byrja og hvar þeir enda af því að sauðfé og nautgripir á beit geta skyndilega birst þegar maður telur sig vera innan bæjarmarka.  Hér í Kirkwall eru þrjár hafnir, Kirkwall höfn, sem er næst miðbænum, Hatston, sem er í iðnaðarhverfinu og þar leggjast stærri skip eins og skemmtiferðaskip og flutningaskip og svo er höfn við Scapa sem er m.a. notuð fyrir dráttarbáta.  Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að Kirkwall sé fallegur bær, ekki ljótur heldur, en hann er vinalegur og fólkið vingjarnlegt.  Nema konan sem vinnur á bensínstöðinni, hún er aldrei í góðu skapi. Hún býður aldrei góðan dag, brosir aldrei og þakkar aldrei fyrir eða kveður.  Ég hélt fyrst að ég hefði hitt á slæman dag eða vitlausan tíma mánaðarins en hún er alltaf svona.  Þegar kona  þessi var ráðin í þetta starf hlýtur atvinnuauglýsingin að hafa verið eitthvað á þessa leið:  "Gjörsamlega áhugalaus starfsmaður óskast til þess að afgreiða á bensínstöð Highland Fuel, þarf að vera gersneyddur allri þjónustulund".

Kirkwall (Large)

 

 

 

 

 

Kirkwall.

Stromness er næst stærsti bærinn á orkneyjum en þar búa rúmlega 2000 manns og sennilega er Stromness fallegasta bæjarfélagið á eyjunum. Þaðan gengur ferja milli Orkneyja og Scrabster á meginlandinu.  Bærinn stendur við lítinn vog og upp frá honum er brekka þar sem flest húsin eru.  Aðalgatan er mjög athyglisverð.  Hún er örmjó og hlykkjótt og af því að hún er svo mjó hélt ég fyrst að hún væri bara göngugata en svo komst ég að því að hún er líka ætluð fyrir bílaumferð þannig að ég keyrði hana og náði með lagni að smeygja mér í gegnum fyrstu beygjurnar án þess að reka bílinn utan í veggina.  Þegar ég fór að mæta bílum komst ég að því mér til mikillar undrunar að þetta er tvístefnugata.  Eini gallinn við það er að það er ekki hægt að mætast á henni.  Eina leiðin til að mætast er að annar hvor bíllinn smeygji sér inn í það húsasund sem er næst. 

Finstown er þorp í um tíu mínútna akstursfjarlægð frá Kirkwall, með 4-500 íbúa og áður en ég flutti til Orkneyja gekk ég með þá grillu í hausnum að þar gæti verið hentugt að búa með tilliti til vinnunnar minnar.  Sem betur fer var ekki laust húsnæði þar á þeim tíma.  Ekki veit ég hver ber ábyrgð á skipulagsmálum í Finstown en skipulag bæjarins er vægast sagt mjög sérstakt.  Í bænum eru falleg gömul hús en allstaðar á milli þeirra hefur verið dritað nýjum steinhúsum sem mér finnst ekki sérlega fallegt.  Miðbærinn er þannig úr garði gerður að í stað fallegs miðbæjarkjarna samanstendur hann af bifreiðaverkstæði, smíðaskemmu, kirkjugarði, almenningsklósetti og stóru bílastæði en í útjaðri bæjarins er lítil verslun hárgreiðslustofa og skyndibitastaður.  Í hæðunum fyrir ofan bæinn er svo stór malarnáma.

Dounby er þorp á miðju meginlandinu og vegurinn norður í land liggur í gegnum hann. Einn helsti galli bæjarins er að hann er á miðju meginlandinu, fjarri sjónum.  Það skiptir ekki öllu máli hvort maður ekur í gegnum Dounby í dagsbirtu eða myrkri af því að þar er lítið að sjá, minnir kannski á bæi eins og Hellu og aðra slíka í smækkaðri mynd.  Reyndar er slátrari bæjarins, The Dounby butcher eitt af því fáa sem vekur athygli þar, aðallega fyirr það að The Dounby butcher gæti verið gott nafn á hrollvekju.  Þar er líka gistihús sem heitir Kringla.  Bærinn virðist vera í vexti, flest húsin eru nýleg og þar er líka verið að byggja nokkur í viðbót.

Evie er lítið þorp á norðausturströndinni.  Ég myndi ekki segja fallegt en húsin þar eru tvennskonar.  Annars vegar gömul yfirgefin hús í niðurníðslu og hins vegar nýleg hús þar sem ég geri ráð fyrir að fólk búi.  Það er eins og einn daginn hafi allir ákveðið að flytja úr gömlu húsunum sínum í ný steinhús.  Þar eru gistihús en eitt þeirra vakti sérstaka athygli mína af því að á gömlu máðu krossviðarskilti stendur Evie Hostel, from 5 pounds per person, Apply Flaw farms for key.  Húsið sjálft minnir frekar á fangelsi en gistihús, ekki eru gardínur fyrir gluggum en stöku krossviðarplötur sjást uppistandandi við gluggana.  Kirkjan í Evie er líka athyglisverð en hún líkist frekar einbýlishúsi en kirkju, en eins og sagt er er kirkja ekki hús heldur fólkið.

20151124_085615 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Evie Hostel.

20151124_085823 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kirkjan í Evie.

St Margarets Hope er 500 manna þorp á Suð-Austur meginlandinu.  Þau skipti sem ég hef farið þangað hef ég ekki séð neina á ferli nema einhverjar verur sem ekki var auðveldlega hægt að átta sig áhvort voru lífs eða liðnar, draugalegur bær varð einhverjum að orði.  Þar er líka hægt að taka ferju sem gengur til John'o'Groats á meginlandinu.

St Margartes hope

 

 

 

 

 

 

 

St Margarets Hope.

Þetta eru helstu bæirnir meginlandi Orkneyja en nokkrir aðrir enn smærri, með færri en 100 manns eru á víð og dreif um eyjuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Skemmtilegt þakka þér fyrir.  Skildi vera hægt að dvelja þarna sem ferðamaður í viku eða tvær, Bílalegu bílar og gisting, hvernig er það? 

Þó að bensín sé allt selt í sjálfsölum á Íslandi nútímans þá könnumst við þau gömlu við broslega karaktera, en þeir eru núna einkum í stórverslunum og eru yngri og tyggja tyggjó.  

Hrólfur Þ Hraundal, 30.11.2015 kl. 07:48

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Sæll Hrólfur.  Jú hér eru bæði Hótel og Bed&Breakfast sem og bílaleigur þannig að það ætti að vera auðvelt að dveljast hér sem ferðamaður.  Svo ganga ferjur hér milli eyjanna ef menn vilja skoða sig meira um. Google getur verið þarfur þjónn við upplýsingaleit varðandi  þetta.

S Kristján Ingimarsson, 30.11.2015 kl. 08:50

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér fyrir S Kristján, skoða þetta, en er ekki einráður,

Hrólfur Þ Hraundal, 6.12.2015 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband