Útburðir

Í gærkvöldi fór ég á skemmtilegan og fræðandi fyrirlestur um útburði hjá sagnameistaranum Tom Muir.  Hann sagði sögur um útburði frá Svíþjóð, Noregi, Færeyjum, Íslandi, Mön, Skotlandi, Orkneyjum og Hjaltlandseyjum.  Útburðir eru eins og margir vita afturgöngur ungbarna sem voru borin út ýmist vegna þess að þau fæddust andvana, eða að mæðurnar treystu sér ekki til að ala þau upp vegna fátæktar eða vegna þeirrar skammar sem fylgdi því að eiga lausaleiksbörn.  Flest allar útburðarsögur eiga það sameiginlegt að til þess að kveða niður útburð þurfti að gefa þeim nafn eða kveikja í þeim.  Tom sagði tvær sögur frá Íslandi, Móðir mín í kví kví og önnur sem ég get ekki munað hvað heitir en þar kemur vikivaki dans við sögu þar sem móðir útburðarins tók þátt en útburðurinn lét í sér heyra og vildi taka þátt í dansinum. Kannski veit einhver um hvaða sögu er að ræða.  Tom Muir er helsti sagnamaður Orkneyja og hefur skrifað bækur og safnað þjóðsögum en Orkneyskar þjóðsögur sem Tom safnaði saman komu út í íslenskri þýðingu fyrir ári síðan.  Ég læt hér tvær fallegar útburðarsögur frá Svíþjóð fylgja, vonandi skila þær sér óbjagaðar en þetta er þýtt og endursagt eftir skeikulu minni.

Stúlka ein varð ófrísk og þar sem það þótti mikil skömm að eignast lausaleiksbarn leyndi hún því að hún væri vanfær og þegar barnið fæddist aflífaði hún það og kom því fyrir í lítilli tunnu sem hún faldi undir gólfinu.  Svo kom að því að hún kynntist manni og boðað var til brúðkaups.  Á meðan á brúðkaupsveislunni stóð heyrðu veislugestir rödd sem kom undan gólfinu og sagði "Beinin eru löng og tunnan er þröng, hleypið mér héðan fljótt til að dansa í alla nótt". Fólki brá við og þegar kíkt var undir gólfið fannst tunnan með líkamsleifum barnsins og heldur dofnaði nú yfir stemmingunni í brúðkaupinu.  Útburðurinn fékk nafnið Jóhanna en brúðkaupið fór út um þúfur.

Á bæ einum sem kýr voru haldnar bar svo við að í hvert sinn sem kálfur fæddist þá fannst hann dauður nokkrum dögum seinna og kunnu menn engin ráð við þessu.  Dag einn bar þar að skósmið sem hafði ferðast um til þess að leita sér að vinnu.  honum var vel tekið en eina plássið sem var í boði fyrir hann var í fjósinu.  Þegar hann hafði dvalist á bænum um skeið fæddist þar kálfur.  Nokkrum dögum síðar vaknaði skósmiðurinn við að lítil vera spratt fram og fór að dansa við kálfinn af miklum krafti, svo miklum að hann dansaði kálfinn til dauða.  Síðan hvarf veran jafn skjótt og hún birtist.  Nokkru síðar fæddist annar kálfur og aftur gerðist það sama, lítil vera spratt fram og byrjaði að dansa við kálfinn af krafti en nú tók hún eftir skósmiðnum og gerði hlé á dansinum og kom hlaupandi til hans og sagði: "þetta gengur vel, ég dansa og þú saumar skó" síðan tók hún aftur til við dansinn og hætti ekki fyrr en kálfurinn var dauður.  Skósmiðurinn sá að ekki var hægt að láta þetta viðgangast og sagði frá því sem gerst hafði.  Kom þá í ljós að vinnukona á bænum hafði eignast barn en komið því fyrir í loklausri tunnu í fjósinu og þegar farið var að gá fannst tunnan með barninu í.  Skósmiðurinn bað fólk um að kveikja eld næst þegar kálfur myndi fæðast og þegar að því kom lokaði skósmiðurinn tunnunni og henti henni á eldinn og svo var bætt á eldinn.  Þá heyrðist kallaðu úr tunnunni "opnið tunnuna og hleypið mér út". Það var ekki gert en bætt meiru á eldinn þar til ekkert var eftir nema askan.  Eftir þetta lifðu allir þeir kálfar sem fæddust á bænum. 

Allt er gott sem endar vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 66336

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband