Jólapóstur og jólaleikrit.

Í gærmorgun fór ég loksins með jólapakkana í póst en ég hef ekki komist á pósthúsið síðustu tvær vikur vegna þess að þar er ekki opnað fyrr en níu og lokað klukkan fimm en ég er yfirleitt á sjónum á þessum tíma.  Ég hélt reyndar að það væri opnað klukkan hálf níu og var því mættur tíu mínútur fyrir níu en þá var harðlæst og roskinn maður stóð einn í biðröð í rigningarsuddanum.  Stuttu síðar bættist sá þriðji við og eins og gengur var farið að tala um veðrið og hvað væri nú milt veður þessa dagana, en hitastigið hefur verið 10 - 12 gráður.  Smám saman bættist í hópinn og þegar pósthúsið var loksins opnað voru tólf manns komnir í biðröð.  Pósturinn (Hin konunglega póstþjónusta) er sem sagt farinn að minna á kleinuhringjabakarí.  Opnunartíminn er reyndar frekar ruglingslegur og þess vegna ekki endilega til þess fallinn að létta viðskiptavinum lífið.  Stundum er opnað klukkan hálf níu, stundum níu og stundum hálf tíu.  Yfirleitt er lokað klukkan fimm nema stundum klukkan hálf fimm og á laugardögum klukkan hálf eitt.  Það leggur enginn það á sig að reyna að muna hvenær hvaða daga er opnað eða lokað.  Menn bara mæta upp á von og óvon.  Þrátt fyrir rigningu.  En hvað um það, ég sendi þrjá kassa með gjöfum og þar sem ég var orðinn svo seinn með þetta þurfti ég að bíta í það súra epli að borga fjórfalt gjald undir þetta til þess að vera viss um að þetta verði komið fyrir jól.  Ég hefði kannski frekar átt að fara sjálfur með þá til Íslands en maður verður bara að sætta sig við þetta.  Lífið veldur manni stundum vonbrigðum.

Í gærkvöld skundaði svo fjölskyldan í matsal grunnskólans í Papadal en þar var sýndur söngleikurinn "Ljósmóðir í vanda" sem er jólaleikrit skólans hennar Brynju.  Brynja lék engil en söngleikurinn fjallar um ljósmóður sem þarf að fara til Betlehem til þess að taka á móti barni og ýmis vandræði sem því fylgja.  Fyrir sýninguna voru hin ýmsu tónlistaratriði og aldrei í lífi mínu hef ég heyrt í eins fölsku píanói eins og í gær.  Þetta var sem sagt allt hin besta skemmtun en þó þurfti ég að hverfa af vettvangi áður en yfir lauk þar sem Ívar Orri var farinn að valda truflunum með framíköllum og látum.

Nú eru farnar að berast sendingar frá Íslandi í tilefni jólanna og þær hafa vakið gríðarlega lukku og ekki annað hægt að segja að þær séu mjög svo óvænt ánægja.  Bestu þakkir til þeirra sem hafa hugsað til okkar, við hugsum líka til ykkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 66336

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband