Nú mega jólin koma, þökk sé William Shearer

Í síðustu viku sendum við jólagjafirnar til Íslands en í gær var þeim skilað aftur til okkar af því að í þeim voru snyrtivörur sem ekki mátti senda í pósti  Því var ekki um annað að ræða en að skipta þeim út fyrir annað og koma þeim aftur í póst og því fór ég á stúfana í dag, en Þorláksmessa heilsaði með roki og úrhellisrigningu.  Þegar ég kom inn á pósthúsið með blauta pakka og sjálfur gegnblautur setti ég pakkana á borðið og hristi mig eins og hundur til þess að losna við mestu bleytuna.  Ég var að vonast eftir að fá fyrri sendinguna endurgreidda en yfirkonan á pósthúsinu sagði að það væru hverfandi líkur á að það gengi upp. Ég hallaði mér því yfir afgreiðsluborðið í áttina til hennar og potaði vísifingri og löngutöng fast í augun á henni og gekk svo út nokkuð ánægður með sjálfan mig.  Nei ég gerði þetta ekki, ég hugsaði þetta bara.  Ég er því búinn að greiða tvöfalt hraðsendingargjald fyrir pakkana sem komast ekki á leiðarenda fyrr en eftir áramót en þetta er nú ekki til þess að koma manni í jólafíling. 

Þessu næst þurfti ég að fara í Tesco til þess að útvega eitt og annað fyrir jólin.  Þorláksmessuörtröðin var mikil og erfitt að fá stæði en að lokum tókst mér að finna eitt laust í um hálfs kílómetra fjarlægð, sem er nokkuð langt þegar úti er rok og rigning.  Ég þurfti að taka út pening í hraðbankanum og það var því ekki til þess að auka gleðina að sjá að hraðbankinn  í Tesco var lokaður og ég þurfti að ganga aftur í bílinn í rigningunni og finna annan hraðbanka með tilheyrandi leit að bílastæði og göngu í rigningunni.  Aftur komst ég þó í Tesco og fann stæði en þegar inn var komið var mannmergðin slík að varla var hægt að komast að hillunum til þess að ná í vörur og sums staðar stóð fólk við hillurnar með körfurnar og beið og það virtist yfirleitt gera sér far um að standa á þeim stöðum þar sem vörurnar sem mig vantaði voru.  Sem dæmi stóðu þrjár konur, sem litu út fyrir að vera nýkomnar úr líkkistumátun, með lítinn kjúklingabakka (sem þær voru örugglega ekki að fara að nota um jólin) og ræddu fram og aftur um innihaldið, beint fyrir framan hilluna með Toblerone súkkulaðinu sem átti að nota í jólaísinn á mínu heimili.  Hvað geta þrjár konur talað lengi um kjúklingabakka?  Ég komst aldrei að því af því að þegar ég gafst upp á að bíða beit ég saman tönnunum og kreisti fram brosgrettu og sagði "skjús mí" til þess að smeygja mér framhjá þeim og teygja mig í Toblerónið.  rauðkál virðist líka ekki eiga upp á pallborðið hjá Skotum en ein tegund var til í Tesco með hvítu rauðkáli í vatni sem leit afskaplega ógirnilega út.  En sem betur fer er einn rekki í Tesco með pólskum vörum og þar fann ég rauðkál eins og við Íslendingar þekkjum.  Guði sé lof fyrir Pólverja.  Þessi búðarferð sem undir venjulegum kringumstæðum hefði tekið tíu mínútur tók tæpan klukkutíma og það var ekki til þess að bæta skapið.  Og nú átti eftir að finna jólaseríu á jólatréð.  Það er lítið um jólaskreytingar hjá okkur þessi jólin af því að jólaskrautið var allt skilið eftir á Íslandi. Við vildum þó hafa jólatré með tilheyrandi skrauti, ekki síst fyrir börnin en kannski líka fyrir börnin í okkur sjálfum.  Við vorum búin að horfa eftir seríum víða en hvergi fundið.  Ég fór því í Húsasmiðjuna (Highland Industrial Supplies) en þar var ekki ein einasta jólasería. Af hverju er maður ekki bara á Íslandi, þá væri allt eins og venjulega og jólin í faðmi fjölskyldu og vina.  Hér er ekki einu sinni jólasnjór, bara rok og rigning. Allir ljótir, allt ömurlegt, þetta verða götuð jól, hér er ekki hægt að hengja upp jólaseríu fyrir börnin, ég hata Orkneyjar. Íris hafði sagt mér frá einni verslun sem leyndi á sér og ég hafði aldrei komið inn í William Shearer heitir hún.  Ég fór því þangað.  Síðasta hálmstráið.  Verslun þessi kom svo sannarlega á óvart, þarna er matvara, byggingarvara, veiðivörur og eiginlega allt milli himins og jarðar.  Inní miðri búðinni var gamall tréstigi.  Ég gekk upp og þetta var eins og að fara upp á loft í Löngubúð eða annarri gamalli krambúð og maður andaði að sér gamla tímanum. Þar voru trébjálkar í lofti og allskonar eldgamalt dót ásamt ýmiskonar jólavarningi. 

20151223_133039 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og viti menn uppi á gamalli tunni var trékassi og ofan á honum var einn pakki með jólaseríu, síðasti pakkinn, og það var einhver undarlegur glampi yfir honum.  Það glaðnaði yfir mér og ég tók pakkann og greiddi fyrir.  Nú hafði stytt upp og sólin var farin að skína.   Ég hélt heim til þess að sjóða hangikjötið og gæða mér á nýheimabökuðu rúgbrauði og saltfiski.  Stundum þarf ekki nema eina litla jólaseríu til þess að koma jólaskapinu í lag. Nú mega jólin koma fyrir mér.  Gleðileg jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gleðileg jól til þín og þinna Kristján, þakka þér fyrir skemmtilegan fréttaflutning frá Orkneyjum.

Magnús Sigurðsson, 24.12.2015 kl. 07:33

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Takk fyrir Magnús og gleðileg jól.

S Kristján Ingimarsson, 24.12.2015 kl. 07:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 66336

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband