27.12.2015 | 20:24
Jól og eldsvoði.
Jólin hjá litlu fjölskyldunni á Orkneyjum hafa verið alveg ágæt. Hún móðir mín sendi okkur svínahamborgarhrygg og hangikjöt þannig að við gátum haft nokkuð hefðbundin jól í stað þess að fara að dæmi innfæddra og matreiða skíthaugahoppara sem búið er að troða út með brauðmulningi. Einn af hápunktunum var að fá allar jólakveðjurnar en þökk sé þeirri manneskju sem stóð fyrir því að stofna facebook hóp til þess að vinir og vandamenn gætu safnað jólakveðjum til okkar á einn stað. Það yljaði okkur svo sannarlega um hjartaræturnar að sjá allar kveðjurnar, myndirnar og myndböndin frá öllum sem eru óvenju langt í burtu á þessum árstíma. Jóladagur var eins og venjulega rólegheitadagur en svo tók vinnan við hjá mér.
Aðfaranótt annars í jólum varð eldsvoði á geymslusvæði Scottish Sea Farms en þar brunnu m.a. fiskiker, lyftari, vinnuskúr, net, tóg og ýmislegt fleira og tjónið verður því metið í milljónum. Það eina sem slapp var díseltankur úr plasti fullur af díselolíu. Mín stöð átti ekkert á svæðinu enda erum við ekki enn byrjaðir að safna að okkur drasli. Eldsupptök eru enn ókunn en getgátur eru um að eldingu hafi lostið niður í geymslusvæðið. Þetta geymslusvæði ber nafnið Twatt en eins og margir vita er twat notað sem niðrandi orð yfir ákveðinn líkamshluta kvenna. Þetta skapaði mér ákveðin vandræði s.l. vetur stuttu eftir að ég kom til starfa hjá Scottish Sea Farms þegar ég þurfti að hringja í flutningabílstjóra og biðja hann að sækja hluti sem þurfti að nota við byggingu stöðvarinnar. Vandamálið fólst í því að vörubílstjórinn hafði ekki hugmynd um að staður með þessu nafni væri til og ég rataði ekki á þennan stað. Hvernig vísar maður veginn á stað sem maður ratar ekki á, sem ber dónalegt nafn og viðmælandinn hefur efasemdir um að staðurinn sé í rauninni til? Þetta fór einhvern veginn svona fram (til hægðarauka hef ég þýtt nafnið en vona samt að blogginu verði ekki lokað fyrir vikið):
Góðan dag, Kristján heiti ég og hringi frá Scottish Sea Farms.
Komdu sæll
Ég er að leita mér að bílstjóra til að fara upp í kunta til þess að sækja ýmislegt sem við eigum þar.
Hvað segirðu?
Ég er að leita mér að bílstjóra til að fara upp í kunta til þess að sækja ýmislegt sem við eigum þar.
Fara hvert?
kunta úff þetta var að verða vandræðalegt.
ha?
kunta
hvað ertu að tala um?
kunta það er staður þar sem við geymum ýmislegt Allt í einu var mér orðið svo heitt og ég fann svitann spretta fram.
´Ég veit ekkert hvar það er
nei ekki ég heldur, hefur þú aldrei komið þangað?
nei.
Og í þessum töluðu orðum kom yfirmaður minn inn á skrifstofuna og ég var ekki seinn að rétta honum tólið í von um að hann gæti útskýrt þetta og að blessaður bílstjórinn myndi kannski mögulega vilja vinna fyrir okkur. Og jú það tókst og þetta fór allt vel.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 66336
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.