4.1.2016 | 21:22
Árstíðirnar
Nú er að verða komið ár síðan ég lagði land undir fót og gerðist Orkneyingur og því hef ég gengið í gegnum allar árstíðir hér en ef til vill má segja að miðað við Ísland er veðrið eilítið betra þó að eilífur vindnæðingur geri okkur lífið leitt en á móti kemur að hitastigið hér er örlítið hærra en yfirleitt munar svona 4-5 gráðum. Það sem maður helst saknar frá Íslandi er þó lognið, ekkert jafnast á við spegilsléttan fjörð á sumarkvöldi, þegar sólin er að hverfa á bak við tindinn eina og sanna. Í sumar var hitastigið hér oft í kringum 18-20 gráður og nokkra daga yfir tuttugu en maður má teljast heppinn á Íslandi ef maður nær parti úr degi með yfir tuttugu gráðu hita. Eyjarskeggjar eru reyndar sammála um að hér áður fyrr hafi veðrið alltaf verið betra á sumrin.
Ekki hefur komið snjór þennan tíma sem ég hef verið hér og að sumu leiti saknar Íslendingurinn þess, en skilyrði fyrir snjó eru ekki góð hér þar sem eyjarnar eru láglendar og umkringdar sjó sem ekki fer niður fyrir 7°C. Eyjarskeggjar eru reyndar sammála um að hér áður fyrr hafi alltaf verið meiri snjór.
Veðurspárnar hér finnst mér vera mjög ónákvæmar, eitthvað annað en maður á að venjast frá Veðurstofu Íslands sem mér finnst gefa út mjög góðar og nákvæmar spár. Hér þýðir lítið að taka mark á spám fyrr en að morgni þess dags sem spáin er fyrir en eitt er þó víst, veðrið verður fjölbreytt. Ef maður vill vita hvernig veðrið verður eftir tvo daga þýðir ekkert að taka mark á spánni, en næsta víst er að veðrið verður ekki eins og spáin segir.
Dæmigerð veðurspá fyrir Orkneyjar er eitthvað á þessa leið: Þurrt en rigning og hlýtt en kalt í veðri. Vindur. Þrátt fyrir vindinn get ég ekki annað en lýst yfir ánægju minni með veðurfarið hér á Orkneyjum. Á hverjum degi fær maður ýmsar útgáfur af veðri yfirleitt er þurrt mestan hluta dagsins en svo koma úrhellisdembur inn á milli. Á veturna er það reyndar oftar haglél sem ég held að sé stórhættulegt en það hefur orðið mér til lífs að ég hef alltaf getað flúið í skjól en nokkrum sinnum hefur það verið það harkalegt að þjófavarnakerfið í bílnum hefur farið í gang. Þó verður að taka það fram að um Toyota bifreið er að ræða. Það myndi samt eflaust margt breytast til hins betra hér ef eyjarnar yrðu dregnar svona 1000 kílómetra til suðurs.
Birtutíminn hér í svartasta skammdeginu er sennilega örlítið lengri en á landi íss og elds en hér er orðið albjart um hálf níu en myrkrið er skollið svona um það bil fimmtán mínútum eftir fjögur. Í júní er myrkrið ekki lengra en svona tveir til þrír tímar. Og nú er dagurinn farinn að lengjast og fyrr en varir verður kominn júní.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 66336
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.