27.2.2016 | 19:18
Hinar ýmsu íþróttir
SSF veitir á hverju ári samfélagsstyrki til góðra málefna og í gær var ég sendur sem fulltrúi fyrirtækisins á æfingu hjá kvennaliði Orkneyja í hokkí en liðið fékk styrk að upphæð 5.000 pund. Sú staðreynd að Orkneyjar eru tiltölulega afskekktar gera það að verkum að dýrt er fyrir liðið að taka þátt í þeim keppnum sem eru í boði og ekki bætir úr skák að einhverjar fáránlegar reglur segja að ef meira en 250 mílur eru á milli keppnisliða þá skal spila á hlutausum velli en það þýðir að liðið getur nánast aldrei spilað heimaleik. Sennilega fer jafn mikill tími í fjáraflanir og í að æfa og keppa og það má með sanni segja að stúkurnar sem eru í hokkíliðinu eru í þessu af einskærum áhuga. Hokkí er lítið sem ekkert stundað á Íslandi þó að frændsystkin íþróttarinnar bandí og íshokkí (sem mér til mikillar ánægu hefur verið í miklum vexti enda um stórskemmtilega íþrótt að ræða) séu vel þekkt.
Annars er rugby sennilega vinsælasta íþróttagreinin í Skotlandi, vinsælli eða a.m.k. jafn vinsæl og fótbolti, allavega er það þannig hér á Orkneyjum er lítið rætt um fótbolta en rugby ber oft á góma. Það vildi líka svo skemmtilega til að í dag var Orkney RFC að etja kappi við Livingston í rugbyleik og ég skellti mér á völlinn, á rugby leik í fyrsta sinn. Fyrir þann sem er ekki með reglurnar á hreinu, eins og mig, lítur þetta út fyrir að vera slagsmál milli þrjátíu kraftalegra karlmanna. En það eru reglur og menn virðast sýna andstæðingnum virðingu þrátt fyrir að hart sé tekist á og lítið er um að menn láti skapið hlaupa með sig í gönur. Það var ung stúlka sem var dómari í þessum leik og hún virtist hafa góða stjórn á þessum þrjátíu grjóthörðu rugbyleikmönnum. Ég skemmti mér ágætlega og á örugglega eftir að fara á völlinn aftur og til gamans má geta þess að leikurinn endaði 46-5 fyrir Orkney rfc.
Af öðrum vinsælum íþróttagreinum hér má nefna pílukast en heimsmeistaramótið er nýafstaðið og var sýnt frá mest allri keppninni beinni útsendingu þar sem mikil stemming var meðal fjölda áhorfenda sem studdi vel við bakið á sínum mönnum.
Netbolti (Netball) er oft sýndur í sjónvarpi og mér virðist eingöngu kvenfólk stunda þá íþrótt sem er eins og körfubolti nema að ekkert spjald er við körfuna.
Hundakapphlaup er oft sýnt í beinni útsendingu en ég hef ekki haft nógu lítið að gera til þess að nenna að horfa á hunda hlaupa í hringi. Ef ég man rétt er vinsælt að veðja á líklega sigurvegara og þar er væntanlega ástæðan fyrir vinsældunum.
Svo er það auðvitað krikket. Ég hef aldrei skilið krikket og ég er ekki viss um að neinn skilji krikket en samt er krikket sýnt á hverjum degi í sjónvarpi hér.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.