4.3.2016 | 21:18
Hollur og óhollur matur
Matur er uppspretta endalausra vangaveltna um lífið og tilveruna. Eins og kannski hefur komið fram áður er fiskneysla afar lítil hér ef undan er skilið Fish and chips. Mér barst í hendur sending frá Íslandi fyrir nokkrum dögum og innihélt hún meðal annars dýrindis harðfisk. Auðvitað tók ég hann með í vinnunna, ánægður með að fá loksins almennilegt nesti og ekki var hjá því komist að bjóða með sér en vinnufélagarnir fussuðu og sveiuðu, bæði þeir sem smökkuðu og þeir sem ekki þorðu. Þetta fannst mér að sjálfsögðu alveg ótrúlegt hjá þjóð sem velur það af fúsum og frjálsum vilja að borða Marmite og Soreen.
Við borðum miklu meira af ávöxtum en við gerðum á Íslandi enda eru þeir töluvert ódýrari hér, (þrátt fyrir að í mörgum tilfellum séu þeir langt að komnir, Suður-Afríka og Suður-Ameríka eru algeng upprunalönd) og úrvalið er meira en áður en ég kom hingað hafði ég aldrei smakkað persimon eða gult kiwi. Brynja tekjur gjarnan með sér vínber og jarðarber eða epli í nesti í skólann en skoskum börnum finnst það stórfurðulegt. Á móti finnst okkur jafn stórfurðulegt að skosk börn eru send með snakk og súkkulaðikex í skólann og jafnframt er hægt að kaupa snakk og súkkulaðikex í skólanum. En ekki ávexti. Reyndar kom Brynja með bréf heim úr skólanum í gær og nú á aldeilis að fara í heilsuátak. Bréfið var svo hljóðandi:
Kæru foreldrar.
Til þess að hjálpa okkur að standa við nýársheitið um bætta heilsu verða eingöngu ávextir og grænmeti til sölu í sjoppunni okkar mánudaginn 7. mars. Í boði verða appelsínur, epli vínber, bananar, gulrætur, gúrkur, vatnsmelónur og rúsínur (innsk jú tæknilega eru rúsínur ávextir en eru þá ekki kakó, sykur og kaffi tæknilega ávextir eða grænmeti?) og hver skammtur kostar 37 krónur. Ef barnið þitt kemur með sitt eigið nesti viljum við biðja þá foreldra að senda börnin með ávexti eða grænmeti líka. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að í því felst stór áskorun að finna út hversu mikið af ávöxtum og grænmeti á að vera í boði og hversu mikið á að senda börnin með og því verðum við með súkkulaðikex í boði líka til öryggis.
Það á sem sagt að taka einn dag í að hreinsa samviskuna og svo verður tekið til við sukkið aftur.
En þrátt fyrir alla óhollustuna sem Skotar láta ofan í sig eru þeir ekkert sérstaklega góðir í sælgætisframleiðslu. Margir kannast kannski við Tunnocks, sem framleiðir súkkulaði sem kallast Caramel en fyrirtækið framleiðir líka svokallaðar tekökur og kókosbollur. Fleira er nú vart hægt að nefna. Mackies framleiðir snakk, ís og súkkulaði og svo er sitthvað um staðbundna framleiðslu en svokallað fudge virðist vera vinsælt hér, t.d. prófaði ég fyrir stuttu eitthvað sem kallast Mrs Tilly´s Scottish Tablets og í sannleika sagt hljómar það alls ekki eins og sælgæti, heldur frekar eins og töflur fyrir uppþvottavél eða eitthvað sem þú setur út í bala með vel volgu vatni til þess að fara í fótabað og fullt af litlum loftbólum stígur upp. Skotar eru fastheldnir á sína siði og matarvenjur og ef til vill er þetta einn angi þjóðernishyggjunnar en þá er það nokkuð ljóst að Skosk þjóðernishyggja er farin úr böndunum þegar Skotar neita sér um hluti eins og harðfisk með smjöri og saltfisk en bryðja þess í stað fótabaðstöflur á eingöngu á forsendum þjóðernishyggju.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.