5.3.2016 | 10:14
Öryggi og heilsa
í síðasta tölublaði fiskeldisfrétta birtist grein eftir mig sem fjallaði um öryggi og heilsu í fiskeldi. Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að fiskeldisfréttum má lesa greinina hér:
Væntanlega eru öryggismál í fiskeldi á Íslandi í sumum tilfellum í ágætu standi en eflaust má líka víða gera úrbætur og þá getur gamla klisjan átt vel við, það er óþarfi að reyna að finna upp hjólið þegar við getum lært af nágrannaþjóðum okkar.
Eftirlit með búnaði hér í Skotlandi er með svipuðu sniði og á Íslandi, bátar fara í árlega skoðun, sem og kranar, lyftarar og annað þess háttar. Þá eru einnig gerðar úttektir á fóðurprömmum árlega en það er eitthvað sem virðist ekki heyra undir eftirlitsaðila á Íslandi, þar sem fóðurprammar eru ekki skilgreindir sem bátar af því að þeir eru ekki skráðir sem slíkir og því ekki með haffærisskírteini og þeir heyra ekki heldur undir vinnueftirlit þar sem þeir eru ekki á landi. Eflaust mun koma að því einn daginn að fóðurprammar á Íslandi verða eftirlitsskyldir.
Hér í Skotlandi er mikið lagt upp úr öryggi og heilsu starfsmanna og það er þannig hjá því fyrirtæki sem ég starfa hjá, Scottish Sea Farms, að ef menn fara ekki eftir þeim öryggisreglum sem fyrirtækið setur getur það leitt til brottrekstrar, enda geta menn spurt sig að ef starfsmaður getur ekki hugsað um sjálfan sig og sitt öryggi, er hann þá hæfur til þess að hugsa um fiskinn í karinu eða kvínni? Hver og einn starfsmaður fær sinn persónulega öryggisbúnað sem oftar en ekki þarf að uppfylla strangar gæðakröfur. Starfsmenn fá tæki og tól til þess að nota við störf sín, allt frá hnífum upp í stóra báta og þeir fá menntun og þjálfun í að nota þann búnað sem þeim er treyst fyrir. Áhættumat og lýsingar á aðferðum eru gerð fyrir allt sem gert er og má þar nefna það að fara um borð í bát, nota krana, nota kastnót, taka sýni svo fátt eitt sé nefnt.
Hjá fyrirtækinu er starfandi Öryggis og heilbrigðisstjóri, á hverju svæði eru svæðisumsjónarmenn og á hveri stöð eru öryggisfulltrúar. Hlutverk öryggis og heilbrigðisstjóra fyrirtækisins er að leggja línurnar í öryggismálum, rannsaka alvarleg atvik sem koma upp og gera það sem í hans valdi stendur til þess að bæta heilsu starfsmanna. Hlutverk öryggisfulltrúa stöðvanna er m.a. að skrá öll atvik sem leiða til slysa eða hefðu getað leitt til slysa svo og þau atvik sem búnaður skemmdist eða hefði mögulega getað skemmst. Mánaðarlega eru haldnir öryggisfundir á stöðvunum þar sem farið yfir það sem farið hefur úrskeiðis og hvað hefur verið gert eða hvað er hægt að gera til úrbóta auk þess sem farið er yfir búnað og starfshætti sem þarf að laga áður en skemmdir eða slys eiga sér stað.
Auðvitað fylgir þessu töluverð skriffinnska og allt þetta krefst smá skipulags en þegar upp er staðið skilar þetta sér í færri slysum, betri meðferð á búnaði og minni umhverfisáhættu og þannig getur þetta sparað fyrirtækjum stórar fjárhæðir. Öryggisstjóri fyrirtækisins sem ég vinn hjá sagði eitt sinn við mig að hans hlutverk væri fyrst og fremst að passa að starfsmenn lendi ekki á sjúkrahúsi og að stjórnendurnir lendi ekki í fangelsi.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.