2.6.2016 | 20:43
Saga Cliftons
Hér á Orkneyjum eru margir kynlegir kvistir og einn kvisturinn, maður að nafni Clifton Praamsma, byrjaði nýlega á einni af stöð Scottish Sea Farms hér á eyjunum vindbörðu. Clifton þessi er frá Suður-Afríku og á sér nokkuð merkilega sögu en hann var fallhlífarstökkshermaður í Suður-Afríska hernum.
Hann barðist í Angóla í frægum bardaga sem nefnist "Operation Firewood" en bardaginn stóð yfir í sjö klukkustundir þar sem hátt á annað hundrað hermenn féllu (m.a. 6 úr fallhlífastökksdeild Cliftons) og tugir særðust. Eftir herþjónustu í Suður-Afríku fór Clifton til Ísrael til þess að vinna hjá háttsettum manni í Ísraelska hernum en þar vann líka ung stúlka og þau felldu hugi saman og urðu síðar hjón.
Meðan á Ísraelsdvölinni stóð var hann eltur á röndum af ísraelsku lögreglunni af þeirri ástæðu að hann var ekki Ísraelskur ríkisborgari. Hann var handtekinn þrisvar. Í eitt skiptið var hann eltur um þröng stræti Tel Aviv þar til hann var króaður af í húsasundi og handtekinn, tveimur vikum fyrir brúðkaup sitt og nokkrum dögum fyrir fæðingu fyrsta barns síns. Hann var látinn laus í tæka tíð fyrir brúðkaupið en var búinn að fá nóg af því að vera alltaf á flótta undan lögreglunni þannig að stuttu síðar flutti hann aftur til Suður Afríku. Eftir stöðugt ógnandi tilburði blökkumanna í Suður-Afríku þar sem hann óttaðist stöðugt um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar fékk hann nóg og flutti með fjölskylduna til Orkneyja þar sem leiðir okkar hafa nú legið saman. Fyrir u.þ.b. tveimur vikum féll Clifton niður af fóðurpokastæðu og sleit liðbönd í hnénu og þegar ég hitti hann í Tesco nokkrum dögum síðar var hann mjög niðurdreginn og vonsvikinn með lífið. Af svipnum á honum að dæma var eins og konan hans hefði stungið af með öðrum manni og tekið allar Bruce Springsteen plöturnar. Og hundinn líka. Þetta er erfitt fyrir mann sem er vanur að hreyfa sig mikið, hlaupa, hjóla synda og þar frameftir götunum en hann fékk þær upplýsingar hjá lækninum að hann þyrfti að hafa hægt um sig frá vinnu í sex vikur. Clifton var ekki af baki dottinn, fékk tíma hjá öðrum lækni og sá hleypti honum umsvifalaust í vinnu aftur, hann getur lítið beitt sér líkamlega en getur allavega siglt bátnum og önnur létt störf þannig að vonandi fer lífið nú að brosa við Clifton sem er afar geðþekkur og hógvær, svo hógvær að hann er nánast ósýnilegur. Já hann er eiginlega gull af manni.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.