Noregsferðin 1

Fyrir nokkrum vikum kom svæðisstjóri Scottish Sea Farms að máli við mig og spurði hvort mig langaði að skreppa til Noregs. Já, langaði að skreppa til Noregs, er það eitthvað sem fólk langar?  Lítil rödd í höfðinu sagði að sjálfsögðu „nei“ en ég hélt aftur af mér og spurði um hvað málið snerist.  „Fóðurfyrirtækið Biomar ætlar að bjóða þremur stöðvarstjórum SSF í heimsókn“ sagði hann og jú, á endanum gat ég sannfært sjálfan mig um að þetta yrði kannski ekki svo slæmt og því samþykkti ég að fara.  Ferðaáætlunin var á þann veg að fljúga átti til Noregs þann 13. júní og koma til baka 17. júní og ég náði að búa þannig um hnútana að ég næði degi í Aberdeen á heimleiðinni.  Ég hef komið nokkrum sinnum til Bergen og einu sinni til Tromsö en aldrei til Þrándheims, þangað sem ferðinni var heitið.

Ég veit ekki hvort það hefur eitthvað spilað inn í að ég hef haft einstaka ánægju af því að kvarta yfir fóðri síðustu mánuði, sérhvert tækifæri sem ég hef fengið hefur verið notað, sama hversu smávægilegt það hefur verið. Kekkir, mygla, aðskotahlutir, ryk, flotvægi, umbúðir og þar fram eftir götunum enda hafa kvartanirnar verið teknar til greina og við höfum fengið fóðurbætur frá Biomar.  Eins og þeir segja, hjólið sem ískrar í fær smurninguna.  Það er samt kannski ekki gott að ferðalag eins og þetta getur mögulega dregið úr kvörtunarviljanum og ánægjunni sem fylgir því að kvarta yfir fóðri í mínum litla skrítna heimi þegar Biomar hefur hlaðið mann gjöfum, bolur og derhúfa merkt Biomar geta t.d. breytt hugsunarhætti áhrifagjarns stöðvarstjóra.

Þegar nær dró ferðalaginu uppgötvaði ég að einhver fjárútlát myndu fylgja ferðalaginu. Ég átti enga tösku og þurfti því að fjárfesta í lítilli ferðatösku og ég átti ekki jakka, aðeins vinnujakka sem er farinn að láta verulega á sjá og svo úlpu sem er ekki hentug í ferðalag að sumarlagi.  Ég skundaði því í verslun og fjárfesti í léttum jakka sem að sjálfsögðu var regnheldur enda Noregsferð framundan.  Auðvitað hefði ég átt að undirbúa mig enn frekar með því að kynna mér starfsemi og sögu Biomar auk þess að rifja upp helstu atriði fóðurfræðinnar, prótín, amínósýrur, fitusýrur, DHA, EPA, Panaferd og þar fram eftir götunum.  Það gerði ég nú samt ekki.

Mánudaginn 13. var svo lagt í hann, flogið frá Kirkwall til Aberdeen og eftir stutt stopp þar var farið í loftið aftur. Um klukkutíma síðar birtust tún og vindmyllur.  Bíddu nú hægur, erum við komin til Orkneyja eða jafnvel aftur til Skotlands.  Nokkrum andartökum síðar fóru þó að sjást tré og fjöll.  Það var góð tilfinning fyrir Íslending.  Flugvélin lenti í Stavanger og á flugvellinum mætti mér  ilmur af alvöru kaffi, ekki bölvuðu skyndikaffinu sem Skotar virðast elska.  Í Stavanger var líka hægt að fá íslenskt skyr í miklu úrvali og meira að segja Freyju draum.  Þetta var næstum því eins og að vera kominn heim.  Næstum því.  Þó að Noregur sé lengra frá Íslandi en Skotland.  Það vantar bara fleiri jökla og fáeina hveri. Eiginlega átti ég von á því að rekast á einhvern sem ég þekkti eins og gjarnan gerist á Íslandi en það var ekki svo og fljótlega fórum við aftur út í flugvél sem bar okkur síðasta spölinn til Þrándheims.

Þegar til Þrándheims var komið tók hávaxin svarthærð kona í svartri dragt með sólgleraugu og leðurhanska á móti okkur og fylgdi okkur út í bíl sem var ekki af verri endanum, nei hann var af betri endanum, svört Tesla bifreið, leðurklædd með stórum snertiskjá milli framsætanna og nánast hljóðlaus. Það var orðið nokkuð langt liðið á kvöldið og ég hafði ekki fengið matarbita síðan um morguninn og því var ég orðinn ansi svangur. Á hótelinu var búið að loka veitingasölunni þannig að ég átti ekki annan kost en að éta skóreimarnar í skónum mínum áður en ég lagðist upp í rúm tilbúinn í Noregsævintýrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband