12.7.2016 | 21:06
Venjulegir dagar eru ekki venjulegir
Þessa dagana er lítið annað gert í vinnunni en að fóðra fisk og þrífa net. Þetta hljómar ekki fjölbreytt en einhverra hluta er enginn dagur eins, alltaf eru einhver áhugaverð aukaverkefni sem þarf að sinna. Í síðustu viku var ég til dæmis á tveggja daga námskeiði sem kallast Fish welfare eða “Velferð fiska” og fjallar ekki bara um fiska heldur dýr almennt. Námskeið sem er öllum fiskeldismönnum mikilvægt og allir þeir sem vinna við skepnuhald hefðu gott af að fara á svona námskeið en væntanlega er eitthvað sambærilegt kennt í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og á Hólum.
Svo er það nú þannig að hlutirnir vilja bila. Um helgar erum við með tvo menn á vakt og um síðustu helgi var mín helgi en ég fór við annan mann út á stöð á litlum plastbát sem við erum með. Á laugardag var veðrið hið ágætasta en spáð var töluverðum vindi þegar líða færi á daginn. Þegar við vorum nýlagðir af stað heimleiðis var aðeins farið að bæta í vind en þá drapst á vélinni og fljótlega kom í ljós að eldsneytislögnin var varin í sundur og því ekki von á því að dísilþyrst vélin gæti gengið. Bátinn rak nokkuð hratt að landi og því ekki um annað að ræða en að henda út akkeri og hringja á aðstoð. Einhvern veginn er það nú þannig að menn forðast að kalla á hjálp í talstöð nema í ýtrustu nauðsyn og því hringdi félagi minn í karl einn, Angus að nafni (hvað annað) sem bjó á nálægri eyju og átti bát sem hann notaði til að ferðast á milli eyjanna. Enn hafði bætt í vindinn en akkerið hélt og báturinn dinglaði fram og til baka á akkeristóginu. Á meðan reyndum við að koma eldsneytislögninni saman en báturinn var nýkominn úr smá yfirhalningu og allir varahlutir og verkfæri höfðu verið tekin úr honum og ekki skilað aftur. Það var lá því ljóst fyrir að ef við gætum gert við bilunina myndum við gera það með engum varahlutum og engum verkfærum. Sem sagt gera við með engu. Nú var farið að rigna og báturinn skoppaði upp og niður á stækkandi öldunum. Eftir um klukkustundar bið kom þó Angus, rámraddaður maður sextugsaldri íklæddur þykkri rúllukragapeysu, með stórar og skítugar hendur, siglandi til okkar á gamla ryðgaða landgönguprammanum sínum.
Skorið var á akkeristógið, báturinn tekinn í tog og stundarkorni síðar vorum við með þurrt land undir fótum. Samt ekki af því að það var rigning. Aldrei var nein hætta á ferðum en verst var að þetta tók allt sinn tíma þannig að það var búið að loka sundlauginni þegar ég komst aftur til byggða.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.