Styttist í heimferð

Nú er greinilega að koma haust af því að okkur er boðið upp á æði margar útgáfur af veðri þessa dagana.  Einn daginn er glaðasólskin, hlýtt og nánast logn eins og oft er á austfjörðum, annan daginn er hávaðarok og rigning og einn daginn var okkur boðið upp á svartaþoku þar sem maður sér ekki á sér fingurna þegar hendurnar eru réttar fram eins og oft er á austfjörðum.  Þegar við sigldum út þann dag vorum við varla búnir að sleppa bryggjunni þegar var eins og væri búið að þurrka Kirkjuvog út og hann væri ekki til lengur, ekkert sást nema sléttur sjórinn í kringum bátinn og grá þokan sem var eins og maður sér stundum í lélegum bíómyndum þegar framliðnir birtast fyrirvaralaust til þess að gera einhvern óskunda.

Þegar ég kom fyrst til Kirkwall þann 17. september 2014 þá var líka þoka og dimmt í þokkabót en á einhvern ótrúlegan hátt tókst flugmanninum að lenda flugvélinni og það sem meira var, hann lenti henni á flugbrautinni, hvernig sem hann fór nú að því að finna hana.  Frá flugvellinum tók ég rútu niður á rútubílastöðina en ég var ekki viss hvort rútubílstjórinn var karl eða kona eins og svo oft er raunin með Orkneyinga (sumir eru sennilega bæði) og frá bifreiðastöðinni þurfti ég að ganga nokkur hundruð metra til þess að finna Kirkwall Hotel.  Í myrkrinu og þokunni paufaðist ég áfram og eftir að hafa tekið nokkrar vitlausar beygjur í bæ sem ég hafði aldrei komið í áður og hafði ekki kort meðferðis, fann ég loksins hótelið sem stendur við höfnina.  Síðan þá hef ég séð margt, upplifað margt og lært margt.  Ekki sé ég eftir því að hafa lagt út í þetta ævintýri og áreiðanlega á maður oft eftir að hugsa til baka með bros á vör, þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma var engin spurning að breytinga var þörf og tími til kominn að hugsa út fyrir spennitreyjuna.  Það eina sem mun áreiðanlega alltaf skyggja á, er að af þessum tveimur árum sem ég hef verið hér hef ég varið helmingnum af tímanum í burtu frá fjölskyldunni, það hefur stundum verið erfitt og það er dýrmætur tími sem aldrei kemur aftur.  Leyfið mér að umorða þetta, börnin mín eru búin að vera föðurlaus í næstum því ár.  Auðvitað læðist sú hugsun að manni að það verði aldrei hægt að bæta þennan tíma, sérstaklega af því að börnin eru átta og fjögurra ára og því á þeim aldri að þau þurfa virkilega á pabba sínum að halda.  Þetta var þitt val segja sumir en það bætir hlutina nákvæmlega ekkert.  Það er líka ýmislegt sem maður á eftir að sakna héðan, eins og til dæmis verðlagið, en matvöruverð er í mörgum tilfellum einn tíundi af því sem gerist á Íslandi.  Annað er kurteisin.  Fólkið er svo kurteist að þegar það mætist í dyrunum í matvöruversluninni byrjar það að afsaka sig fyrir að hafa valið þennan tíma að ganga um dyrnar á sama tíma og manneskjan sem það er að mæta.   Eins heilsa flestir þegar ekið er um sveitir Orkneyja.  Það finnst mér góður siður.  Og að lokum á ég auðvitað eftir að sakna beikonsins (og Haggis, já OK og Black pudding).

Fyrst eftir að ég flutti til Orkneyja var líka ýmislegt sem þér þótti nýstárlegt og margt sem ég vissi ekki.  Ég vissi ekki hvað skammstafanir eins og PPE, HIS, TPA, PPR, NFI og fleiri þýddu, ég vissi ekki hvað Telehandler, Capstan ofl þýddu en stuttu síðar var ég farinn að nota þessi orð og skammstafanir reglulega.  Mér fannst skrýtið að vera ávarpaður sir þegar ég fór að versla, eða að stúlkan í skyndibitavagninum ávarpaði mig honey eða darling þegar ég verslaði þar.  Þar gat maður fengið franskar kartöflur með bræddum osti eða djúpsteikt Mars súkkulaði í orlydeigi sem er svo orkuríkt að þegar maður bítur í það fær maður náladofa í brjóstkassa og upphandleggi þegar kaloríurnar ryðjast út í líkamann. Það er sko alvöru matur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband