Flutningur heim

Nú þarf ég sennilega að hætta að drekka mjólkina beint úr fernunni (eða öllu heldur flöskunni hér) og ég þarf líka að fara að muna aftur eftir að skilja ekki klósettsetuna eftir uppi en nú styttist í að Orkneyjadvölinni ljúki og að ég snúi til baka heim til ástkæra Íslands og meira að segja er búslóðin farin heim.

Ég hafði samband við íslensku skipafélögin Eimskip og Samskip til þess að fá tilboð í flutning.  Tilboð Eimskips var mun hagstæðara af því að það innifól í sér flutning.  Tilboðið frá Samskip kom ekki þannig að ég reikna ekki með að búslóðin hefði ekki heldur komið til mín til Íslands.  Ég var reyndar áhyggjufullur yfir tilboðinu frá Eimskip af því að sú sem sendi mér tilboðið kenndi sig við móður sína og hún hélt að ég myndi búa í Krikwall í stað Kirkwall auk þess sem hún kunni ekki að fallbeygja Djúpivogur en þess í stað sendi hún tilboð sem fól í sér flutning til Djúpavogar.  Af þessu réði ég að hún væri skilnaðarbarn sem hefði átt erfitt uppdráttar í skóla og ég veit ekki enn hvort hún hefur reiknað tilboðið út rétt.  Það er alltaf líklegt að ef íslenskunámið hefur gengið illa að stærðfræðin hafi jafnvel gengið enn ver.  En hvað með það, stúlkan stóð sig vel og svaraði fljótt og vel og til þessa hafa engin frekari vandamál við flutninginn komið í ljós.  Ekki er þó öll nótt úti enn. 

Tveir flutningamenn frá skoska flutningafyrirtækinu Streamline komu og sóttu brettin, annar þeirra var með svo stóra eyrnasnepla að þeir blöktu eins og fáni í vindi.  Þegar þeir höfðu lokið við að koma brettunum fyrir í bílnum varð manninum með eyrnasneplana að orði  “Mikið hlýtur þú að vera feginn að vera að losna af þessu guðsvolaða skeri”

“Tja, það er nú ágætt að vera hér en það verður gott að komast heim, ert þú héðan”?

“Nei, ég er frá Katanesi en það er alveg jafn mikið rok þar” og með það kvaddi hann og fór inní bíl.  Ég er ekki frá því að ég hafi heyrt flippflappflippflappflippflappflippflapp þegar hann sneri eyrnasneplunum upp í vindinn á leið sinni í bílinn.

Ekki sendi ég allt sem ég er með hér, sumt sel ég.  Til dæmis fiskabúrið og fiskana en fljótlega eftir að Hr Eyrnasnepill og félagi voru farnir kom kona ofan úr Birgishéraði til þess að kaupa fiskabúrið.  Hún virtist mjög glöð með að vera að kaupa búrið en hún flissaði allan tímann sem viðskiptin fóru fram.  Í ljós kom að þetta er ekki fyrsta fiskabúrið sem hún fær sér en fyrir á hún fjögur.  Hún var með myndir af öllum hinum fiskabúrunum í símanum sínum og vildi endilega sýna mér þær.  “Það er bara svo róandi að sitja og horfa á þá” sagði hún og sennilega er það rétt hjá henni en ég er ekki orðinn svo órólegur að ég þurfi fimm fiskabúr inn á heimilið mitt til þess að róa mig niður og vonandi mun það aldrei verða raunin.  En þetta er í góðu lagi ef blessuð konan þarf á þessu að halda og sennilega er undirliggjandi tilgangur gæludýrahalds oft á tíðum til þess að bæta andlega líðan.

Næst bankaði maður upp á til þess að sækja náttborð og glerskáp/skenk.  Þegar ég opnaði stóð fyrir utan vatnsgreiddur maður með sólgleraugu, klæddur í hvít jakkaföt með hvítt silkibindi, á lakkskóm, með hringa á öllum fingrum og eyrnalokka í báðum eyrum.  “Ég er að sækja einhverja hluti fyrir konuna mína” sagði hann.  “Já, skápurinn er í stærri kantinum, heldur þú að hann komist fyrir í bílnum þínum”? 

“Ég er á Volvo”

“Nú þá er nóg pláss, ég skal halda undir hann með þér”

Auðvitað átti ég von á því að jakkafataklæddur maður í lakkskóm væri á 2016 árgerð af Volvo jeppa en svo var nú ekki.  Í ljós kom að hann var á eldgömlum Volvo 240 station, dökkrauðum með fullt af ryðblettum.  Þegar hann opnaði skottið blasti við fullur bíll af drasli.  Hann byrjaði að færa til pappakassa, sópa til tómum gosflöskum, bónbrúsum, olíubrúsum, verkfærum, plastpokum og umbúðum utan af skyndibita.  Þegar því var lokið var hann búinn að búa til pláss sem var álíka stórt og einn og hálfur lófi.  Við vippuðum skápnum og náttborðinu í skottið, allavega var undirlagið mjúkt. Svo ók hann í burt og dró pústið á eftir

bílnum.

Að þessu loknu kom svo ung stúlka með einhentan sendibílstjóra í yfirþyngd og í sameiningu bárum við rúm og ísskáp út í bíl.

Í lok dags kom svo nágranni minn hann James að máli við mig og spurði hvort ég vildi ekki koma yfir og fá mér tvo bjóra með honum.  Ég var að hugsa um að segja nei mig langar það ekkert sérstaklega en ákvað samt að vera kurteis og þiggja boðið enda eru þau hjónin afskaplega indæl. 

Ég hef ekki farið í margar heimsóknir hér á Orkneyjum og þar sem sinn siðurinn er í hverju landinu er ég ekki viss hvort það er til siðs að koma með eitthvað með sér þegar farið er í heimsóknir eins og sums staðar virðist vera.  Ég hugsaði málið og mundi þá eftir reyktum laxi sem var búinn að vera í ísskápnum hjá mér í dálítinn tíma, ég tók hann og þefaði af honum og hugsaði með mér “Nei, þetta mun ég aldrei borða, þetta er tilvalið til að gefa nágrönnunum”.  Með laxinn undir handarkrikanum rölti ég yfir og afhenti pakkann og kvöldstundin var hin ágætasta.

Nú er sem sagt allt farið og í stað þess að henda mér upp í rúm á kvöldin og liggja þar eins og krossfiskur mun ég sofa næstu nætur í sófanum með teppi ofan á mér.  Sjónvarpið er farið en þó hef ég afnot af gömlu túbusjónvarpi sem er svo gamalt að ég á stöðugt von á því  að sjá Nýjasta tækni og vísindi á skjánum.   Ekki verður heldur meiri eldamennska stunduð hér en þess í stað treyst á skyndibita og bjór í öll mál og einmitt í þessum skrifuðu orðum er ég að velta fyrir mér hvort ég á að fá mér Korma kjúkling eða Kebab í morgunverð.   Ég verð allavega vel tilbúinn í grjónagraut og slátur þegar heim verður komið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband