26.9.2008 | 13:37
Dagur í lífi Brynju
Ég vakna oft eldhress um sjöleytið en þá eru aðrir fjölskyldumeðlimir sofandi þannig að það er ekki um annað að ræða en að reyna að koma þeim á lappir. Ég byrja á að klappa þeim og tala við þau segi t.d. dabúbú en ef það gengur ekki verður maður náttúrulega bara að hossa sér ofan á þeim. Það dugir alltaf og á virkum dögum fer pabbi með mig fram, hendir í mig Cheeriosi, lætur mig fá nýja bleyju og leikur smá við mig. Þegar klukkan er orðin átta þarf pabbi að fara í vinnuna, mér finnst það frekar fúlt, en eins og hann hefur oft sagt mér, þá þarf nú að vinna fyrir heimlinu svo að við höfum í okkur og á.
Þegar pabbi er farinn er næsta verkefni mitt að ná mömmu fram úr. Það gengur nú yfirleitt vel og hún gefur mér eitthvað almennilegt að éta, banana, jógúrt eða eitthvað. Það er samt svolítið skrýtið að þegar maður er búinn að hafa fyrir því að ná pabba og mömmu á lappir er maður sjálfur orðinn svo þreyttur að maður vildi helst leggja sig sjálfur. Ég harka samt af mér og fer að leika mér en ég er nokkuð góð í að leika mér sjálf. Mér finnst skemmtilegast að leika með fjarstýringar og blöð, einu sinni voru rafmagnssnúrur uppáhaldsdótið en það var þegar ég var lítil en nú er ég orðin það stór að ég er búinn að fá mikinn áhuga á bókum, sérstaklega orðabókum eða bókum á ensku, mér finnst þær skemmtilegastar, svo er fínt að naga skó. Svo þegar komið er fram undir hádegi fæ ég að drekka og borða og svo er ég alltaf sett í einhvern vagn, hann er bara svo þægilegur að maður sofnar eiginlega um leið og maður er kominn í hann.
Þegar ég vakna er ég nú hress skal ég segja ykkur. Fæ að drekka, leik mér við mömmu og svo kemur pabbi heim stuttu síðar, þá skríð ég eins hratt og ég get á fjórum fótum og læt hann halda á mér í smástund og leik ég aðeins við hann. Svo förum við stundum eitthvað út, annað hvort að labba eða í bíltúr og eiginlega á hverjum degi út í búð. Konurnar í búðinni eru alltaf ánægðar að sjá mig. Eftir kvöldmat er svo ágætt að taka því rólega, jafnvel kveikja á kertum og fara í bað með ilmolíum og síðan að sofa milli átta og níu. Ég nota snuð þegar ég sef en ef ég missi það þarf ég stundum að kalla á einhvern til þess að stinga því upp í mig, maður þarf nú að fá einhverja þjónustu þó að það sé nótt.
Dabúbú.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.