1.11.2008 | 08:31
Kaffivél
Það hefur verið í ýmsu að snúast síðustu daga og ég hef varla gefið mér tíma til að kveikja á tölvu, hvað þá að blogga. Ég var reyndar búinn að setja inn blogg um það þegar ég flæktist í fíkniefnasmygl, eitt af þeim stærri hér á landi, en ákvað að taka það út aftur vegna tengsla minna við Slysavarnafélagið. Ég setti í staðinn inn mynd af okkur hér til hliðar þar sem við erum að sigla slöngubát slysavarnafélagsins en myndin er stolin frá Skara, sem er afbragðs góður myndasmiður og vonandi fyrirgefur hann mér þennan stuld. Þið getið skoðað myndirnar hans hér.
Síðasta helgi fór öll í vinnu og svefnleysið var algjört en við settum gat á Sigurrós og því fylgdi mikil vinna sem m.a. kom alveg í veg fyrir að maður kæmist á sviðamessu. Nú er hins vegar allt komið í lag á ný og vonandi verður þessi helgi "eðlileg" en það er fátt betra en að setjast við eldhúsborðið á laugardagsmorgni með kaffibolla og skoða það sem er helst í fréttum.
Og talandi um kaffi, ég átti erindi í fyrirtæki í Reykjavík um daginn og eins og er til siðs þegar góða gesti ber að garði er boðið upp á kaffi. Starfsmaðurinn sem bauð mér upp á kaffi hafði reyndar á orði að það væri komin ný kaffivél á kaffistofuna sem helst minnti á geimfar. Það virtist nú nokkuð til í því af því að stærðin á þessari sjálfvirku kaffikönnu var á við þrjá örbylgjuofna og þegar kaffibollinn, sem var ósköp venjulegur var settur á sinn stað, þá birtist mér í lifandi mynd máltækið krækiber í helvíti. Sennilega hefði með góðu móti mátt halda uppi nokkuð rökrænum samræðum við þessa vél en ég var svo frá mér numinn að ég hugsaði ekkert út í það á þeirri stundu.
Upphófst nú ein hin mesta sýning sem ég hef séð eitt heimilistæki framkvæma. Blá framhlið tækisins byrjaði að blikka ótt og títt eins og á dansgólfinu í Þórskaffi árið 1979, á hápunkti diskótímabilsins, auk þess sem gufur stigu út úr framhliðinni og liðu yfir framhliðina eins og köfnunarefnisgufur úr djúpfrysti. Töluverður skarkali fylgdi þessum gjörningi en skyndilega þagnaði allt og aðeins mjó buna af kaffi lak niður í bollann.
Þegar starfsmaðurinn rétti mér bollann með kaffinu var í honum u.þ.b. 2 matskeiðar af kaffi, sem var bara ósköp venjulegt kaffi, hvorki betra né verra.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er nú aðallega spurning um að líta vel út. Útkoman skiptir engu máli.
Það er töff að vera með flotta kaffivél alveg sama þó kaffið sé ekkert skárra en Neskaffi.
Ólafur Björnsson, 3.11.2008 kl. 18:02
Já það er satt útlitið skiptir mestu.
S Kristján Ingimarsson, 3.11.2008 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.