18.7.2009 | 11:48
Köfun og kræklingur
Þessi vika er búin að vera bæði skemmtileg og erfið. Áþriðjudaginn var ég kallaður í köfunarverkefni á Hornafjörð en snurvoðarbátur frá Keflavík hafði verið dreginn þangað með fast í skrúfunni. Um klukkan fjögur hoppaði ég útí og hófst handa. Sjórinn í höfninni á Höfn er afar gruggugur enda er dýpkunarprammi við störf þar. Fyrst þegar ég fór niður þurfti ég að þreifa fram fyrir mig meðan ég synti til þess að finna bátinn en ég sá ekki fram fyrir olnbogana á mér. Bonk!, allt í einu rak ég hausinn í eitthvað en það var stýrið og þá var ég búinn að finna rétta staðinn. Síðan tók við vinna við að losa vír og net úr skrúfunni en þetta allt var vafið utan um öxulinn, fast milli skrúfuhrings og skrúfu, vafið utan um skrúfuna og lá þaðan upp í bát. Ég fékk í hendurnar slípirokk sem var óspart notaður á þetta en heldur gekk þetta seint enda var þetta vegleg flækja og erfitt að ná vírunum í sundur, auk þess sem lélegt skyggni og fljótandi hlutar af netum voru ekki til að flýta fyrir. Eftir um fimm tíma köfun var farið að ganga verulega á þrekið og að lokum var maður hættur að geta unnið vegna stanslausra krampa í fótunum. Það var því ekki um annað að ræða en að hvíla sig, en eftir um hálftíma hvíld var haldið áfram og rétt fyrir tólf var búið að losa allt nema vafningana af öxlinum. Þá voru orkubirgðirnar á þrotum og því ákveðið að stoppa upp og halda áfram daginn eftir. Vegna vinnu komst ég ekki en Guðlaugur og Gummi Már héldu áfram með verkið sem þeir kláruðu á um fimm tímum. Hvíldin eftir þetta var vel þegin.
Í vinnunni vorum við að lyfjafóðra seiði en það gekk bara vel og við bindum vonir við að ná að hressa þau við með þessu. Á föstudag fengum við svo kræklingamenn úr Hrísey í heimsókn en þeir vildu ná sér í krækling þar sem kræklingur í Eyjafirði er nú óhæfur til neyslu vegna þörungablóma. Þeir skófu um tvö tonn af kræklingi í kör og fóru með norður þar sem til stendur að halda skeljahátíð um helgina. Við höfum öðru hvoru útvegað Hótel Framtíð krækling og hann er afar ljúffengur, þeir sem hafa tækifæri ættu að smakka hann. Kannski maður fari bara í kvöld og gæði sér á kræklingi, humar og hvítvíni.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.