3.9.2009 | 22:33
Illfygli
Skarfur nefnist fugl einn sem er einstaklega illa innrættur og gjarnan gerir hann okkur fiskeldismönnum lífið leitt. Illfygli þetta gerir sér það að leik að finna leið í gegnum fuglanet, inn í kvíarnar og kafa niður að fiskunum þar sem hann glefsar í þá eða étur þá. Sárin sem óhræsið skilur eftir sig leiðir svo til þess að fiskurinn deyr hægum og kvalafullum dauðdaga, skarfinum eflaust til mikillar ánægju. Þess má geta að fugl þessi er afar klunnalegur á flugi en því fimari sundfugl og getur kafað tugi metra ofan í sjóinn.
Til þess að verjast þessum fjanda eru strengd net yfir kvíarnar til þess að varna því að hann komist í fiskinn. Möskvastærðin á þessu fuglaneti má ekki vera stærri en 200 mm, þ.e. 10x10 cm og hvergi má vera gat eða slitinn leggur á því. Reynt hefur verið að setja út fuglanet með 400 mm möskvum (20x20 cm) en það er nógu stórt fyrir fuglskvikindið til þess að komast í gegnum. Nú erum við búnir að koma þessum fuglanetum fyrir enda er skarfurinn mættur á svæðið, a.m.k. mánuði fyrr en í fyrra en þá kom kann í byrjun október.
Að skarfurinn skuli vera mættur svona snemma er e.t.v. merki um að mikið verði um hann í vetur en það þarf þó ekki að vera. Þeir fuglar sem sést hafa í haust eru fyrst og fremst ungfuglar en í fyrra lágu tveir merktir skarfar í valnum og voru þeir báðir merktir sem ungar um vorið í Melasveit, milli Borgarness og Akraness. Skarfurinn hefur þá einkennilegu áráttu að velja sér varpstöðvar á vesturlandi en hefur vetursetu annarsstaðar, t.d. hér fyrir austan. Af hverju hann gerir þetta er mér hulin ráðgáta, hann stendur sennilega í þeirri trú að hann sé farfugl og geti farið til útlanda með því að flytja sig frá austurlandi til vesturlands.
Nú í vikunni hafa tveir skarfar dottið af himnum ofan og lent beint inn í örbylgjuofninn í vinnubátnum okkar og í bæði skiptin voru þeir snæddir um 32 mínútum eftir að þeir létu lífið. Þeir brögðuðust afskaplega vel báðir tveir. Þar sem leiðindaskarfurinn er óvinur minn númer eitt vil ég biðja þig þegar þú sérð hann að skjóta hann, rífa úr honum bringurnar, steikja þær á pönnu í hálfa mínútu á hvorri hlið á vel heitir pönnu og skella svo inn í ofn í 15 mín við 200°C, kartöflur, góð brún sósa, salat, sulta og rauðvín og þú ert með dýrindis máltíð.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.