24.3.2015 | 21:16
Siglt um Skapalón
Á sunnudag byrjaði verklegi hlutinn af Day skipper námskeiðinu og til stóð að klára það á fimmtudag. Skapalónið (Scapa Flow) hentar ágætlega fyrir námskeið af þessu tagi, þar er töluverð skipaumferð, allskonar siglingamerki, þó nokkrar hafnir til að sigla inn á, eyjar og sker sem þarf að varast og þar fram eftir götunum. Til stóð að sigla um flóann í myrkri með því að nota eingöngu áttavita, kort og klukku en nú er búið að fresta þessu öllu saman um óákveðinn tíma vegna þess að leiðbeinandinn var fluttur í sjúkrahús í gærkvöldi með lungnabólgu. Eða Ebólu eða eitthvað. Vonandi jafnar hann sig og vonandi hefur hann ekki smitað okkur hina en þær voru ófáar hóstarokurnar sem hann tók inni í stýrishúsinu og þegar það gerðist var eins og heitur illa lyktandi vindur léki um hár mitt og andlit.
Þarna úti á flóanum liggja tvö stór flutningaskip við akkeri en algengt er að skip bíði þar svo vikum skiptir á meðan verið er að höndla með ýmsan varning og bíða eftir rétta verðinu eins og gert er t.d. með olíu. Dráttarbátarnir Einar og Haraldur liggja við bryggju á meðan.
Þessari ferju mættum við en hún gengur frá Straumnesi á Orkneyjum yfir á Skorrabólsstaði (Scrabster) á meginlandinu. Héðan er líka hægt að taka ferju til Hjaltlandseyja og Aberdeen og hver veit nema að maður láti verða af því einn daginn.
Annars er best að fara að leggja sig og vonast til að hausverkurinn verði farinn á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2015 | 19:56
Skara Brae og Yesnaby
Í dag skrapp ég í smá bíltúr norður í land og skoðaði stað sem kallast Skerjabrekka (Skara Brae) fyrir um 150 árum síðan gerði mikið óveður á þessu svæði og stórsjór skolaði í burt stórum hluta af sjávarbakka við Skara Brae og kom þá í ljós að undir sjávarbakkanum var heilt þorp, um 5000 ára gamalt, þar sem búið höfðu 50 - 100 manns. Skara Brae er einn af helstu ferðamannastöðum Orkneyja og stundum kallað Pompeii Skotlands enda eru þetta heillegustu járnaldarrústir Evrópu, eldra en Stonehenge og´pýramídarnir í Egyptalandi. Það var gaman að skoða þetta og ferðast aftur í tímann en hér á Orkneyjum er mikið af merkilegum fornleifum, bæði frá járnöld og ekki síður víkingatímanum og vonandi gefst kostur á að skoða þær minjar líka.
Á leiðinni til baka kom ég við í Yesnaby en þar eru tilkmumiklir hamrar, tugir metra á hæð, sem ganga í sjó fram. Ekki gafst tími til að skoða þá til fulls en til þess þarf væntalega heilan dag enda töluverður spölur sem þarf að ganga ef að á að skoða þetta almennilega. Uppi á klettunum háu standa rústir af virki frá því í heimstyrjöldinni síðari en það sem vekur helst athygli á þeim eru tvö áberandi skilti þar sem boðið er upp á að hringja í einhverskonar vinalínu og er ætlað þeim sem eru daprir í lund. Sennilega er ástæða fyrir því að þessi skilti eru þarna uppi á þessum háu hömrum, fjarri byggð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2015 | 21:33
Ferðalög
Í gær kom ég heim úr snörpu ferðalagi sem var eitthvað á þessa leið: Flaug frá Kirkjuvogi til Aberdeen,keyrði þaðan í gegnum Dundee til Perth, keyrði þaðan til Glasgow, flaug þaðan til Dublin, keyrði þaðan til Arklow, gisti þar, keyrði þaðan til Dublin, flaug þaðan til Glasgow, keyrði þaðan til Edinborgar og flaug þaðan heim til Kirkjuvogs.
Í Perth þurfti ég að mæta á fund þar sem verið var að ræða um ágang sela í fiskeldi og selveiðikvóta. Perth er fallegur 50.000 manna bær milli Aberdeen og Glasgow og í gegnum hana rennur áin Tay. Þaðan er líka St Johnstone fótboltaliðið sem er skoskur bikarmeistari, og þaðan er eightís hljómsveitin Fiction Factory sem og leikarinn Ewan McGregor.
Að loknum fundi var keyrt til Glasgow, en áin Clyde rennur í gegnum hana, til þess að ná flugi til Dyflinnar, en áin Liffey rennur í gegnum hana. Þaðan var keyrt suður í Arnkelslág (Arklow), en áin Avoca rennur í gegnum hana. Arklow er 13.000 manna bær um 150 km suður af Dublin. Tilgangurinn var að heimsækja skipasmíðastöð þar sem verið er að smíða vinnubát fyrir eldisstöðina okkar. Eyjan græna skartaði sínu fegursta, þar mætti okkur sólskin og sumar, stálpuð lömb hoppuðu um grundir og skjórinn týndi strá í hreiðrin sín. Ef til vill má segja að við höfum verið einum degi of seint á ferðinni en St Patricks day var deginum áður en það er almennur frídagur á Írlandi. Heilagur Patrekur þessi kristnaði Írland og eyjarskeggjar halda upp á það með því að keppast við að drekka Guinness og Jameson eins og þeim einum er lagið en við misstum af því og mættum þess í stað timbruðum Írum. Skipasmiðirnir voru samt ekki timbraðir, enda er báturinn smíðaður úr stáli, og við fengum höfðinglegar móttökur hjá þessum rauðhærðu frændum okkar og ekki skemmdi það fyrir að sjá að smíðinni miðar vel. Það kæmi mér samt ekki á óvart að við þyrftum að fara þangað aftur innan fárra vikna þegar nær dregur afhendingu. Alveg er það samt merkilegt hvað Guinness bragðast vel á Írlandi, betur en nokkursstaðar annarsstaðar.
Að heimsókn lokinni var brunað aftur til Dyflinnar og flogið yfir til Glasgow. Eina leiðin til að komast alla leið heim samdægurs var að keyra til Edinborgar, en áin Leith rennur í gegnum hana, og fljúga þaðan til Kirkjuvogs. Þar lentum við klukkan sjö í gærkvöldi eftir 36 tíma ferðalag.
Ég var búinn að láta mig dreyma um að fara upp að Brúargarðsbaugi og standa inni í honum miðjum á meðan sólmyrkvinn stæði yfir en því var ekki við komið vegna þess að tímasetning sólmyrkvans var ekki skipulögð út frá vinnunni. Það kom líka á daginn að sólmyrkvinn varð tilkomulítill hér á Orkneyjum, það var eins og dökkt ský hefði flotið fyrir sólina og aldrei varð almennilegt myrkur, þannig að ég þarf ekki að fara að grenja út af því að missa af þessu einstaka fyrirbæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2015 | 19:33
Gæsirnar flognar
Þá hafa þær mæðgur, Íris og Brynja, kvatt og flogið aftur áleiðis til Íslands. Orkneyjar sýndu þeim bestu útgáfu af veðri sem boðið hefur verið uppá á þessu ári og svei mér þá ef þeim líkaði ekki bara dvölin hér bærilega. Mér líkaði félagsskapur þeirra í það minnsta vel, enda nær einveran nú yfir tveggja mánaða tímabil. Ég er ekki frá því að með þeim mæðgum hafi vorið komið, nú er dagurinn lengri, hitinn hærri og krákurnar farnar að huga að hreiðurgerð. Þá eru bændur hér í nágrenninu önnum kafnir við að dreifa mykju á tún og lyktin hér minnir óneitanlega á góðan vordag á Egilsstöðum. Umm. I love it. Annars vonast ég til að komast í heimsókn til Íslands í lok apríl og nú er bara að krossleggja fingur og vonast eftir snjó þannig að hægt verði að dusta rykið af skíðunum um mánaðamótin apríl maí.
En það eru ekki bara þær mæðgur sem eru farnar, nú vaknar húsbóndinn snemma á morgnana við gæsakvak og ályktar sem svo að eitthvað af þeim sé að leggja af stað í flugferð í norðurátt og munu ef til vill dvelja í sumar á landinu bláa, Kannski á túni í Álftafirði.
Framundan hjá mér er líka flugferð en á miðvikudag mun ég fljúga til Írlands til þess að heimsækja skipasmíðastöð í Arklow, rétt sunnan Dyflinnar, þar sem verið er að smíða vinnubát fyrir eldisstöðina okkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2015 | 23:32
Útrásarvalkyrjur
Í dag lauk bóklega hluta skipstjórnarnámskeiðsins (Day skipper) en þessi og síðasta vika hafa verið undirlagðar í lærdómi og einkunni fyrir þetta var very good sem er eins gott og hægt er að fá. Verklegi hlutinn mun svo taka eina viku og byrjar þann 22. þessa mánaðar og væntanlega verður siglt þvers og kruss um Scapaflóann og hin ýmsu siglingamerki og innsiglingar skoðaðar. Það sem þetta námskeið hefur gert mér auk þess að bæta siglingakunnáttu er að æsa upp í mér löngun til að sigla en nú vonast ég eftir að fá að taka þátt í að sækja vinnubátinn okkar til Írlands og sigla honum hingað upp eftir. Þetta er um 570 mílna löng leið og tekur því nokkra daga með stoppum hingað og þangað. Til samanburðar þá eru um 480 mílur milli austfjarða og Orkneyja. Eftir þetta námskeið hefur líka kviknað áhugi á að sigla á skútu frá Orkneyjum til Íslands með viðkomu í Færeyjum en það er eitthvað sem hefði aldrei hvarflað að mér áður. Þó er nú ekki líklegt að af þessu verði a.m.k. ekki í bráð af því að ég á ekki skútu og þekki engann sem á skútu í þetta verkefni.
Nú undir kvöld fékk ég heimsókn en þær mæðgur Íris og Brynja ætla að vera hjá mér fram yfir helgi og lentu heilu og höldnu hér í Kirkjuvogi eftir ferðalag þar sem gekk á ýmsu. Þær fengu sér ný vegabréf sem voru sótt til í þeirra umboði til sýslumannsins í Kópavogi en um kvöldmatarleytið í gær þegar umslagið var opnað vantaði vegabréfið hennar Brynju. Það varð því uppi fótur og fit af því að ekki var útlit fyrir að þær kæmust í langþráða heimsókn þar sem flugið var klukkan rúmlega sjö í morgun og sýsluskrifstofan auðvitað ekki opin á þessum tíma. Eftir frekari eftirgrennslan var útlit fyrir að ekkert væri hægt að gera. Íris leitaði að öllum sem báru nafn sýslufulltrúans á facebook og ja.is og sendi öllum skilaboð og hringdi í alla og loksins fannst maðurinn. Þetta leiddi til þess að einhver dásamleg kona sem vinnur hjá sýslumanninum í Kópavogi gerði góðverk, mætti á sýsluskrifstofuna í náttbuxunum og fann vegabréfið fyrir þær. Þær komu sér því vel fyrir í Icelandair vélinni í morgun tilbúnar að svífa í átt til Skotlandsstranda. Og svo var beðið. Og aðeins lengur. þegar klukkan var að verða níu mjakaðist vélin loksins af stað en auðvitað leiddi þetta til þess að þær misstu af fluginu frá Glasgow til Kirkjuvogs, þrátt fyrir hlaup og sérfylgd um flugstöðina. Loganair flýgur hér á milli og er alla jafna töluvert á eftir áætlun nema í morgun hittist þannig á að Loganairvélin var á réttum tíma. Það þurfti því að bregðast við með einhverjum hætti og þó nokkur hluti starfsfólks Scottish Sea Farms fór í það að leita leiða til að koma þeim alla leið. Niðurstaðan varð sú að þær tóku rútu til Edinborgar og flugu þaðan til Kirkjuvogs nú undir kvöld. Það fyrsta sem Brynja sagði þegar hún var lent var "Eru einhverjir múslímar hérna"? Aumingja Ívar Orri missti af öllum þessum ævintýrum en ég er viss um að hann og Íris hefðu haft gaman af að upplifa þessi ævintýri saman. Þær mæðgur komu líka færandi hendi. Nei, ég er að plata, þær færðu mér ýmislegt annað en hendi en þær ásamt Karen sendu mér harðfisk, íslenskt páskaegg, íslenskt remúlaði, steiktan lauk og SS pylsusinnep þannig að ég bind góðar vonir við að ég geti fljótlega matreitt pulsur sem líkjast þeim sem tilreiddar eru á Fróni. Það verður svo spennandi að fylgjast með ferðum þeirra þegar þær fara til baka og helst hefði þurft að fá einhvern til þess að taka það upp. Það yrði án efa góður raunveruleikaþáttur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2015 | 19:28
food and fun
Ég á erfitt með að lýsa þeim tilfinningum sem hrísluðust um mig þegar ég var staddur hjá slátraranum (hjá kjötkaupmanninum er nú kannski penara orð) og sá að þar var hægt að fá saltfisk. Jahá nú verður veisla. Þarna var í boði saltaður þorskur, söltuð langa, söltuð ýsa og söltuð síld en ég valdi þorskinn. Reyndar er hann ekki útvatnaður. Reyndar kostar kílóið 3.200 kr. Þarna var líka hægt að fá marineraða síld og flestar þær matvörur sem framleiddar eru hér á Orkneyjum, Beint frá býli, matur úr héraði eða hvað þetta er nú kallað. Þarna var meira að segja hægt að fá rabarbarasultu en eftir að hafa valið mér tvo litla saltfisksporða sem kostuðu 930 kr tímdi ég ekki að kaupa litla sultukrukku á 700 kr, sem sagt kílóið á 3.500 kr. Allavega er hægt að fá alvöru mat þarna.
Ég skundaði því yfir í Tesco til þess að redda kvöldmatnum og á matseðil kvöldsins fóru hamborgarar. Valið stóð um að kaupa fjóra ferska, girnilega, rauða og glansandi nautahamborgara á 700 kr eða átta frosna í lokuðum umbúðum á 200 kr. Náösin ég valdi að sjálfsögðu ódýrari kostinn og auðvitað er ástæða fyrir því að þeir voru í lokuðum umbúðum. Þeir voru steingráir á litinn, líktust helst lifrarpylsusneiðum og ótrúlega fullkomlega hringlaga. Lifrarpylsan er sennilega líkari þeim hamborgurum sem við þekkjum.
Gráir hamborgarar.
Já það er auðvelt að finna mat hér sem Íslendingum finnst skrýtinn. Skosk egg. Það eru egg sem er búið að hjúpa með kjötfarsi og raspi og steikja. Alls ekki slæmt. Pulsubökur (sausage roll) eru svínapulsur hjúpaðar með smjördegi og það er alls ekki það besta sem ég hef fengið hér. Sennileg eitthvað sem ég mun forðast. Svo er snakkið alveg sér kapítuli. Þar hafa menn aldeilis gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Ég er búinn að prófa kartöfluflögur með rækjubragði og kartöfluflögur með sultuðum lauk bragði. Hljómar ver en það bragðast. Allskonar poppkorn er hægt að fá, með salti, með sykri, með salti og sykri, með karamellu, með súkkulaði, með jarðarberjabragði og svo mætti lengi telja.
Skosk egg, pulsubökur og scone.
Það er reyndar allt of auðvelt að fá tilbúinn eða unninn mat hér syðra sem er afskaplega þægilegt fyrir einsetumann sem þarf ekki að elda fyrir stóra fjölskyldu og þrátt fyrir ýmsa tilraunastarfsemi í matarinnkaupum held ég að ég reyni að halda mig við óunninn mat framvegis. Allavega verða ekki aftur gráir hamborgara hér, mér er bumbult, ávextir og smúþí er það sem koma skal. (voðalega held ég að það þé gaman að heyða þmámælta manneþkju þegja þmúþí).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2015 | 18:40
Það er hægt að gera betur
Veðrið um helgina var sérsaklega gott, sólskin, 7 stiga hiti og hægur andvari. Að loknu skokki í gær fór ég í örlitla skoðunarferð suður á Dýrnes (Deernes). Þar gat að líta gamlan þingstað sem notaður var fyrir um 1000 árum og nefnist Þinghaugar (Dingieshowe) en þeir samanstanda af sandhólum og melgresi.
Dingieshowe
Skammt þar frá er Gloppan (The Gloupe) en það er samanfallinn neðansjávarhellir þannig að eftir stendur gjá, u.þ.b. 25 m djúp og 40 metra löng, þar sem sjórinn fæðir um.
(The Goupe
Enn lengra þar frá er svo gömul rúst keltnesks klausturs sem stendur á höfða er nefnis Brough of Deerness. Þarna hörðust munkar við og lifðu fábrotnu lífi. Höfði þessi er um 30 metra hár og 80 m í þvermál og aðeins hægt að komast upp á hann á einum stað um mjótt einstigi.
Brough of Deerness
Þessa vikuna verð ég áfram á Day skipper sjófarendanámskeiði
Ekki verður komist hjá því að bera saman fiskeldi í Skotlandi og á Íslandi. Skoski eldisiðnaðurinn líkist um margt þeim norska, vel er staðið að öllu bæði innan fyrirtækja og utan. Á Íslandi er iðnaðurinn í vexti en menn mega ekki gleyma sér í þessum hraða vexti heldur verður að vanda til verka en oft er eins og Íslendingar eigi erfitt með að tileinka sér vinnubrögð erlendis frá. Sem dæmi má nefna að þegar leyfi er gefið út á Íslandi er ekki farið fram á að burðarþol svæðis sé skilgreint, straummælingar hafa ekki þurft að fara fram, enda engar reglur sem segja til um það, en grunnurinn að því að fara af stað er að vita hvað menn eru með í höndunum. Opinbert eftirlit með eldinu er í lágmarki, bæði hvað varðar lifandi fisk og dauðan. en það er grundvallaratriði þegar kemur að mengun, sjúkdómum og dýravelferð. Þá er víða er pottur brotinn í öryggismálum.
Engir viðmiðunarstaðlar eru notaðir þegar kemur að því að velja búnað til fiskeldis, s.s. kvíar, net, fóðurpramma og all það sem skiptir máli. Í reglugerðinni segir eitthvað á þá leið að búnaðurinn eigi að vera góður. Hveð sem það þýðir. Í Noregi hefur verið í gildi ákveðinn staðall (Norwegian Standard 9415 for cage farming equipment to prevent fish escape) frá árinu 2004 en hann segir til um hvaða kröfur fiskeldisbúnaður þarf að uppfylla. Skotar miða líka við þennan norska staðal. Mér skilst að verið sé að smíða kvíar á Íslandi sem uppfylla ekki þessa staðla. Af hverju? Jú væntanlega af því að þessi búnaður er ódýari af því að hann uppfyllir ekki kröfur í löndum eins og Noregi og Skotlandi. Kannski er í lagi að nota þetta og vonandi sleppur þetta, en ef fiskurinn sleppur verða menn að hafa nógu breitt bak til að axla það.
Hvorki í Noregi né Skotlandi er leyfilegt að setja blóðvatn í sjóinn vegna sjúkdómahættu en eftir því sem ég best veit er það gert víðast hvar á Íslandi og meira að segja við kvíarnar. Að slátra stressuðum fiski beint upp úr kvíunum og vinna hann seinna styttir geymslutímann umtalsvert, sólarhring hið minnsta auk þess sem það rýrir gæði afurðanna. Fleira spilar þar inn í eins og kæling og blóðgun en ef þetta er ekki í lagi geta fyrirtækin orðið af milljónum króna í tekjur.
Stjórnvöld og fyrirtæki verða að girða sig í brók með þetta og fleira ef fiskeldi á að vaxa og dafna á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2015 | 11:36
popp og kók
Ég fór í bíó í gær í fyrsta skipti síðan ég kom hingað til Orkneyja, já ótrúlegt en satt, það er kvikmyndahús hér. Popp og kókmenningin sem við þekkjum á Íslandi er ekki til staðar hér, jú það er hægt að fá karamelluhúðað popp, en infæddir virðast flestir fá sér íspinna sem þeir sleikja í gríð og erg á meðan á sýningu stendur. Dr Pepper og Prngles varð fyrir valinu hjá mér. Bíósalurinn sjálfur er nokkuð brattur, maður situr með hnén fyrir ofan höfuðið á áhorfandanum sem situr fyrir framan og því er engin hætta á að maður sjái ekki myndina fyrir hausnum á þeim sem situr fyrir framan. Það eru engin statíf fyrir drykki eða annað á sætunum (sem eru númeruð) og athyglisvert þótti mér að enginn henti rusli á gólfið, allir tóku það með sér og hentu á útleiðinni.
Myndin sem var sýnd heitir "Leyniskytta frá Ameríku" (American sniper) og er hún sannsöguleg, leikstýrt af Clint Eastwood. Hún fjallar um Bandaríkjamann sem er alinn upp á trúuðu og ströngu heimlili og hann ákveður að ganga í herinn til þess að berjast fyrir föðurlandið (þeas Bandaríkin, ekki flíkina)í Írak. Áður en hann fer giftist hann og barnar konuna sína. Svo fer hann og tekur nokkra Íraka af lífi, kemur heim, konan nöldrar í honum þannig að hann fer aftur til Íraks og svona gengur þetta fjórum sinnum en þá ákveður hann að segja skilið við stríðið og koma heim. Honum reynist það erfitt að aðlagast hversdagslífinu aftur en það tekst með því að aðstoða fyrrum hermenn við að ná sér á strik aftur. Myndin endar svo á því að einn fyrrum hermaður banar honum. Ef þú nennir ekki að eyða tveimur klukkutímum í að horfa á myndina getur þú lesið um Chris Kyle eða American sniper á Wikipedia með því að gúggla. Það tekur svona fimm mínútur og þá getur þú gert eitthvað skemmtilegt í eina klukkustund og fimmtíu og fimm mínútur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2015 | 18:41
Fræðsla og fuglar
Héðan af eyjunum skosku er ekkert að frétta frekar en fyrri daginn. Þó má geta þess að ég er sestur á skólabekk en mér er gert að sækja námskeið sem kallast Day skipper og að því loknu verð ég kominn með réttindi til að stjórna bát allt að 24 m að lengd í 20 sjómílna radíus frá brottfararhöfn í dagsbirtu. Í framhaldi af því fer ég svo á annað námskeið, sem kallast Coastal skipper, en að því námskeiði loknu losna ég við dagsbirtuna, þ.e.a.s. þá fæ ég réttindi til þess að stjórna gát allt að 24 m að lengd innan 20 mílna frá landi án tillits til birtuskilyrða. Þá geta hugmyndir eins og að sigla í kringum Bretlandseyjar orðið að veruleika. Sjókortalestur, dagmerki, ljós og fleira í þeim dúr eru því mínar ær og kýr þessa dagana.
Og fyrst að dýraríkið ber á góma er vert að geta þess að Orkneyjar eru áhugaverðar fyrir fuglaskoðara. Hér er mikið af allskonar fuglum, bæði þeim sem við íslendingar þekkjum vel eins og tjaldur, stari, dúfur, mávar og gæsir en líka fuglar sem sjást sjaldnar á Íslandi. Hér er t.d. óhemjumikið af svartþröstum og bláhröfnum en sennilega eru þessar tvær tegundir mest áberandi ásamt blessuðu gæsunum sem eru illa séðar, ef ekki hataðar, af Orkneyskum bændum. Fuglar eins og dvergkrákur, hringdúfur, fasanar (sjá mynd), lappajaðrakanar, vepjur og hnúðsvanir eru líka algengir hér og auðvelt að finna.
Gjóð sá ég um daginn en það er ránfugl, brúnn og hvítur, heldur druslulegri en fálki og með lengra stél. Alls ekki jafn tignarlegur og örninn á Krossi ja eða Örn í Krossgerði. Svo sá ég fugl um síðustu helgi sem ég finn ekki íslenskt orð yfir en það sem ég veit er, að fuglinn heitir á ensku Coal tit (parus ater) og er af meisuætt en eini fuglinn af meisuætt sem ég finn íslenskt orð yfir er Flotmeisa (parus major) sem kallast Great tit upp á engilsaxnesku. Ef einhver veit um íslenska heitið má gjarnan láta mig vita, nú eða að hafa samband við þann sem býr til öll fuglanöfn á Íslandi og panta eitt nafn. Svona áður en einhver missir vitið út af þessu. Er ekki Kolameisa dálítið klént? Kannski frekar eitthvað sem tengist tit?
Annars eru egg og beikon og pulsur (pork sausage) þriðja daginn í röð. Það er ekkert svo sniðugt að kaupa magnpakkningar, allavega ekki af pulsum og eggjum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2015 | 13:23
Rafmagn
Ég hef nú kannski nefnt það hér áður en Orkneyingar framleiða nánast allt sitt rafmagn með vindorku. Hér eru vindmyllur út um allt, stórar sem smáar, enda er verulega mikið framboð hér um slóðir af stöðugum vindi. Á Sandey eru til að mynda fimm risavaxnar vindtúrbínur, framleiddar af Vestås í Danmörku, sem framleiða rafmagn fyrir stóran hluta Orkneyja. Til stóð að reisa fleiri og leiða rafmagnskapal til meginlandsins en kapallinn frá Sandey var ekki nægilega sver til að flytja alla þá raforku þannig að þær áætlanir eru orðnar að langtímaáætlunum. Mörg bændabýli hafa líka sínar eigin vindmyllur til eigin raforkuframleiðslu.
Vindmylla á Sandey sem nær tugi metra upp í loft. Kristján Ingimarsson stendur þarna undir og baðar út höndum en sýnist frekar lítill í samanburði við mylluna þrátt fyrir að hann sé jafnan álitinn stór og stæðilegur.
Eftir því sem ég kemst næst er raforka ekkert voðalega dýr hér miðað við t.d. Ísland en árskostnaður á heimili mun vera á bilinu 250 - 400.000 kr. Lægri taxti er í gildi á nóttunni vegna minni notkunar, og því er það þannig að sumstaðar er aðeins kynt á nóttunni og þvottavélar og þurrkarar eru aðallega notuð að nóttu til. Svo eru mjög margir með arin eða kamínu hér sem hægt er að nota með til húshitunar. Það eru líka margir með sturtuhitara hér en þeir eru tiltölulega ódýrir og sniðugir. Ég gæti vel hugsað mér að fá mér svoleiðis þegar ég sný aftur til Íslands.
Electric shower.
Margir eru líka með sólarsellur á þakinu til þess að fá auka rafmagn til heimilisnota en veittur var styrkur til uppsetningar á þeim fyrir nokkru. Mér skilst að þessar sellur hafi verið dýrar en verðið hafi lækkað umtalsvert undanfarin ár en framleiðslugeta þeirra er ekki mikil heldur aðeins hugsuð sem viðbótar rafmagn fyrir heimilin. IKEA hefur meðal annars boðið upp á þessar sellur og væntanlega er hægt að fá þær hjá Ali Express og fleirum. Ef til vill er þetta það sem koma skal.
Solar panel.
Nú er í gangi hér við Orkneyjar verkefni sem miðar að því að framleiða rafmagn með því að virkja sjávarföllin. 4 milljarðar punda verða lagðir í verkefnið of reiknað er með að hægt verði að framleiða allt að 60 GW sem er um það bil tíföld orkuþörf Skota og jafnvel er talið að hægt sé að mæta 1/3 af orkuþörf Breta með því að nota sjávarfallaorku. Skotar og ekki síður Orkneyingar eru því vel settir með raforku og ekki ætti að þurfa að hugsa mikið um að leggja rafmagnssnúru frá Íslandi til Bretlandseyja eins og stundum hefur verið rætt um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar