Skrýtinn laugardagur

Þessi laugardagur var hálf skrítinn eitthvað.  Ég fór niðrí bæ og byrjaði á að fara í bankann til að millifæra pening til Íslands en það var ekki hægt af því að samkvæmt tölvukerfi bankans er íslenska krónan ekki til.

Ég fór inn á netkaffi og fékk mér baunasúpu og kaffi en á netkaffinu var ekkert net.

Ég fór inn til bakarans til að kaupa brauð en þar var ekkert brauð til heldur samanstóð vöruúrvalið fyrst og fremst af kökum og sælgæti.

Ég fór inn til slátrarans til þess að kaupa helgarsteikina en labbaði út með viskýflösku í staðinn.

Fór með viskýflöskuna undir hendinni rakleitt yfir í kirkju heilags Magnúsar og bragðaði á viskýinu þar.

Komst að því að heilagur Magnús, sá sem kirkjan er kennd við, átti langa langafa sem bjó í Djúpavogshreppi og hét Síðu-Hallur.  Annar sopi til að halda upp á það.

Þegar ég kom út úr kirkjunni var verið að steggja einhvern mann en sérstök hefð er fyrir steggjun hér sem nefnist "The Blackening". "Vinir" tilvonandi brúðguma koma honum að óvörum og fara með hann út í sveit þar sem hann er klæddur úr öllum fötum og skvett á hann melassa (sem er einhverskonar síróp sem bændur hér um slóðir nota).  Hveiti, fjaðrir eða annað sem tollir vel í sírópinu kemur líka oft við sögu.  Svo er ekið með þann (ó)heppna á pallbíl um götur bæjarins og háreysti gerð með því að þeyta lúðra, öskra, berja trommur og annað lauslegt.  Brúðguminn er svo festur með plastfilmu við kross framan við kirkju heilags Magnúsar og oft á tíðum enda menn á því að fara í sjóinn.  Þessu öllu saman fylgir þó nokkur bjórdrykkja og gleðskapur fram eftir nóttu.

Blackening (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að loknum þessum ævintýrum fór ég heim og komst að því að ég hafði unnið miða á fótboltaleik með Bolton Wanderers í einhverju snakkhappadrætti.


Ruslaraunir

Frá því að ég fluttist til Bretlandseyja í janúar hef ég ekki losnað við sorp með góðu móti.  Það mætti því ef til vill með réttu kalla mig ruslasafnara en þetta er ekki af ásettu ráði og það hefur ekki mikið rusl safnast upp hjá mér ennþá og tunnan er ekki full.  Ég hef samt gert nokkrar heiðarlegar tilraunir (að mínu mati engar óheiðarlegar ennþá)en þær hafa allar mistekist.  Fljótlega eftir að ég kom tók ég eftir því að á föstudagsmorgni var búið að draga ruslatunnur út á gangstétt víða í Hreiðarsgeisla (Reid Crescent), götunni sem ég bý í.  Ég dró því þá ályktun að rusl væri tekið á föstudögum og að fólk kæmi tunnunum sjálft út á gangstétt. 

Í bílskúrnum mínum eru þrjár tunnur, ein hefðbundin, grá að lit og tvær ögn minni með bláu loki.  Næsta föstudagsmorgun dró ég gráu tunnuna út á gangstétt og sá að það voru komnar tunnur út á gangstétt víðar.  Ég hélt því til vinnu og að degi loknum þegar ég kom heim dró ég tunnuna aftur inn í bílskúr.  Með ruslinu í.  Hvaða rugl er þetta nú hugsaði ég, hvað get ég hafa gert vitlaust? Var kannski of lítið í tunnunni til þess að þeir tækju þetta eða átti þetta að vera í tunnunni með bláa lokinu?  Ég færði því ruslið yfir í blálokstunnu og dró hana út á gangstétt einn föstudagsmorgun og veitti því athygli að víðar í götunni voru tunnur með bláu loki komnar út á gangstétt. í lok dags dró ég tunnuna aftur inn í bílskúr.  Með ruslinu í.  En nú var búið að festa bréf á tunnuna.  Bréf frá ruslakörlunum.  Þeir hafa sem sagt, í staðin fyrir að tæma tunnuna, rölt inn í bíl aftur, gramsað í hanskahólfinu þangað til þeir fundu penna og pappír sem þeir skrifuðu á: "Því miður getum við ekki tæmt tunnuna af því að þú hefur sett vitlaust rusl í hana".  Já er það?  Ég var sem sagt með rétta tunnu en vitlaust rusl.  Trilljón trylltar tindabikkjur frá Trékyllisvík.  Gráa tunnan var vitlaus um daginn og nú þessi með bláa lokinu. Ég sá því ekki annan kost en að leita mér upplýsinga og nú hefur komið í ljós að tunnan með bláa lokinu er fyrir allt flokkað sorp sem hægt er að endurvinna.  Í hana setur maður t.d. plastflöskur í sér poka, áldósir í sér poka, pappa sér o.s.frv.  Í gráu tunnuna setur maður óflokkað sorp.  En af hverju var hún þá ekki tekin um daginn?  Jú af því að hún sneri vitlaust.  Ha?  Já, handfangið á tunnunni þarf að snúa að götunni, annars er ruslið ekki tekið af því að ruslakarlarnir neita að taka ruslatunnur sem þarf að snúa.  Á morgun er föstudagur og ég ætti ekki að þurfa að draga ruslatunnuna aftur inn í bílskúr með ruslinu í.

Það er greinilega ekkert grín að lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að henda rusli.  Ég var um borð í bát á þriðjudag og miðvikudag og þar hangir upp á vegg ruslalosunaráætlun sem skipverjar þurfa að fylgja.  Hún lítur svona út (smellið á myndina):

20150225_150611 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já svona hendir maður sem sagt rusli.  Þetta er ekki einfalt mál, af hverju að hafa þetta einfalt þegar er hægt að hafa þetta flókið.


Úr ýmsum áttum

Í síðustu viku var ég á krananámskeiði og nú er ég kominn með alþjóðleg réttindi, eða réttara sagt, réttindi sem gilda víðast hvar í Evrópu, til þess að vinna á "áföstum glussadrifnum krönum" (mounted hydraulic operated cranes), það er að segja krönum á bátum og bryggjum.  Mér vitandi þarf ekki svona réttindi á Íslandi, a.m.k. ekki til að vinna á krönum á bátum en það segir mér að öryggismál þeirra sem vinna við þessi tæki eru ekki í nógu góðu standi.  Næsta vika fer svo að stórum hluta í fyrsta hluta af þremur á næsta námskeiði sem kallast Day skipper, en það veitir siglingaréttindi hér um slóðir.  Í þessari viku verð ég á einhverjum þvælingi til sjós og lands eða sjávar og sveita (voðalega er þetta sjós asnalegt maður segir t.d. aldrei til sjós og sveita).

20150219_152114 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd af krananámskeiðinu, þurftum meðal annars að komast í gegnum allskonar nákvæmnisþrautabrautir.

 

Í gær fékk ég sjónvarpið tengt þegar maður í gráum samfesting mætti á hvíta sendiferðabílnum sínum með glænýtt Skybox ásamt fjarstýringu) undir hendinni handa mér en ég hef verið sjónvarpslaus frá því að ég kom hingað fyrir sex vikum síðan.  Ekki hef ég nú saknað þess enda nóg við að vera og kannski leiðir þetta til þess að ég hætti að gera nokkurn skapaðan hlut af viti og liggi þess í stað upp í sófa og glápi á sjónvarp.  Nei nei það verður ekkert svoleiðis, kannski einn og einn fótboltaleikur en annars býst ég við að af nógu verði að taka í ævintýraleit hér um slóðir.  Annars er sjónvarp svolítið eins og geirvörtur, maður þarf ekki á því að halda en maður vill samt hafa það.

 

Veðrið að undanförnu er búið að vera alveg ágætt.  Annað hvort það eða þá að ég er farinn að venjast vindinum en mér finnst ekki hafa verið neitt sérstaklega vindasamt upp á síðkastið. og hitastigið er aðeins að stíga upp á við, búið að vera 5 - 7 °C síðustu dag.  Orkneyingar segja líka að vorið komi í mars, þannig að vorið er á næsta leiti.  Áður en ég kom hingað bjóst ég við töluverðri rigningu en það hefur ekki gengið eftir.  Jú það koma skúrir öðru hvoru en ekki stöðug rigning, ég held svei mér þá að það hafi komið smá skúr á hverjum degi en ég held líka að sólin hafi skinið eitthvað á hverjum degi.  Það liggja engar vísindalegar veðurfræðilegar rannsóknir að baki þessu, þetta er eins og mér finnst það hafa verið.  Eða lélegt minni.


Brúargarðsbaugurinn

Í dag tók ég mér rúnt upp að Brúargarðsbaugi (Ring of Brodgar) sem er hérna á milli Kirkjuvogs og Straumness.  Brúargarðsbaugurinn er mjög svo dularfullt og merkilegt fyrirbæri sem stendur á milli tveggja stöðuvatna Héraðslagar (Loch Harray) og Steinsneslagar (Loch Stenness).  Fyrirbæri þetta samanstendur af stórum steinum, sumum allt að fimm metra háum, sem hefur verið raðað í fullkominn hring en ekki ósvipað fyrirbæri er suður á Englandi og nefnist Stonehenge en margir hafa heyrt þess getið. 

brúarg

 

 

 

 

 

 

 

Brúargarðsbaugurinn (Þú getur smellt á myndirnar til þess að sjá þær betur).

 

Hringurinn er um 100 metrar í þvermál og talið er að upphaflega hafi steinarnir verið 60 talsins en nú standa 27 steinar uppi, jafnt bil hefur verið á milli þeirra og skurður, 3 m djúpur og 10 m breiður hefur verið grafinn í kringum bauginn.  Þó að ekki sé vitað nákvæmlega hversu gamall þessi steinhringur er, þá er talið að hann sé frá nýsteinöld og sé því 4000 - 4500 ára gamall.  Steinarnir eru úr mismunandi bergi sem bendir til þess að þeir hafi verið fluttir frá hinum ýmsu eyjum úr Orkneyjaklasanum. 

Brúar

 

 

 

 

 

 

 

Brúargarðsbaugurinn.

 

Stakur steinn stendur svo í u.þ.b. 200 - 300 m fjarlægð og ekki er vitað hvernig stendur á því en þjóðsaga segir, að eitt sinn hafi tröllin á Orkneyjum komið þarna saman  til þess að dansa hringdans og fiðluleikarinn hafi stillt sér upp spölkorn í burtu.  Svo þegar sólinn kom upp urðu öll tröllin að steinum.  Kannski er þetta ekki líklegasta skýringin á þessu fyrirbæri en skemmtileg er hún engu að síður.

Brúargarðströll

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tröll?

 

Ekki er vitað hver tilgangur hringsins var, en ef til vill hafa einhverskonar samkomur verið haldnar þar.  Fornleifafræðingar hafa verið við störf þarna og í nágrenninu undanfarin sumur og alltaf er eitthvað nýtt að koma í ljós.  Nei alltaf er eitthvað gamalt að koma í ljós.

Það sem gerir þetta enn dularfyllra er, að rúman kílómeter í burtu eru Steinsnessteinarnir (Stones of Stenness).  Það er annar svona steinahringur heldur minni, eða um 30 m í þvermál og samanstóð af 12 steinum en steinarnir eru reyndar hærri, eða um 6 m háir. 

BSteinsnes

 

 

 

 

 

 

 

Steinsnessteinarnir

 

Svæðið með hringjunum tveimur er á heimsminjaskrá UNESCO.  En hver var tilgangurinn með þessum hringjum?  Af hverju voru steinar sem vógu nokkur tonn fluttir þangað frá öðrum eyjum?  Hvaða tækni notuðu nýsteinaldarmenn við að flytja steinana, reisa þá og reikna út staðsetninguna? Af hverju eru tveir hringir svona nálægt hvor öðrum?  Af hverju standa stakir steinar skammt frá? Tengist þetta sólinni og tunglinu?  Þessum spurningum og mörgum öðrum varðandi Brúargarðsbauginn og Steinsnessteinana fæst sennilega aldrei svar við.


Ba

Nú er lagt hart að mér að velja á milli þess hvort ég á að gerast Uppie eða Doonie, eða réttara sagt það er hart lagt að mér að gerast Doonie.  á jóladag og nýársdag negla verslunareigendur við aðalgötuna í Kirkjuvogi svera planka fyrir rúður í miðbænum vegna þess að þá fer fram keppni sem nefnist "The Ba" og er hún á milli Uppies og Doonies.  Uppies voru upprunalega þeir sem bjuggu í hæðunum ofan við miðbæinn og Doonies þeir sem bjuggu niðri í miðbænum.  Keppnin á sér nokkur hundruð ára langa sögu og nú orðið velja menn sér annað hvort liðið. Keppnin hefst við kirkju Heilags Magnúsar, þar sem bolta er kastað inn í þvöguna og markmiðið er að ryðjast með boltann um þröng stræti Kirkjuvogs, Doonies reyna að koma boltanum í höfnina en Uppies reyna að koma honum að vegg við enda aðalgötunnar sem er um kílómeter að lengd.  Engar reglur eru í þessum leik aðrar en þær að sýna mótherjanum virðingu.  The Ba hefur verið spilað í nokkur hundruð ár og og rugby og knattspyrna eru talin hafa þróast út frá þessum leik.  Einn leikur getur staðið yfir í allta að sjö klukkutíma og eftir það eru menn gjörsamlega úrvinda af þreytu.  Engin alvarleg meiðsli hafa orðið í þessari keppni, ótrúlegt en satt, aðeins skrámur, marblettir og einstaka brotið rifbein en það er vel þess virði ef næst að sigra The Ba.

 

Í dag mætti ég galvaskur við Félagsheimilið í Kirkjuvogi íklæddur skokkgalla en þar hittist hópur fólks alla fimmtudaga klukkan 6 í þeim tilgangi að skokka saman.  15 manns mættu og voru 9 km hlaupnir að þessu sinni en það er mjög gott að komast öðru hvoru að hlaupa með öðrum, ekki síst til þess að hafa smá hvatningu.  Ég er búinn að skrá mig í keppni í hálfu maraþoni sem fer fram á Háey (Hoy) í júní þannig að það er eins gott að fara að koma sér í aðeins betra hlaupaform.

Annars er sérstakt hvernig Orkneyingar heilsast, nánast undantekningalaust er það á þessa leið:

"Góðan dag, hvernig hefur þú það í dag?"

"O ekki sem verst, en þú?"

"O ekki slæmt, ekki slæmt, o sei sei nei".

 

Þegar þeir heilsa mér er þetta hins vegar undantekningalsut svona:

Orkneyingur: "Góðan dag, hvernig hefur þú það í dag?"

Kristján: "Góðan dag, ég hef það frábært, þetta verður dásamlegur dagur".

Og þá verða þeir vandræðalegir og vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við þannig að þeir reka upp stór augu og horfa á mig eins og ég hafi sloppið út af vitlausrahæli, halda svo sennilega að ég sé að grínast of flissa svona fyrir kurteisissakir.


Dagar

Hér sit ég einn á erlendri grund og skrifa þessar fátæklegu línur á meðan ég hugsa heim og dagarnir líða hjá.  til dæmis dagar eins og Valentínusardagur sem er alls ekki hafður í hávegum hjá einstæðingum.  Bolludagur leið líka hjá en hér suður í höfum er ekki hægt að fá tilbúnar vatnsdeigsbollur og ekki var bakað á heimilinu. Ekki skorti þó myndir af girnilegum bolludagsbollum á facebook.  Ég fékk reyndar indælar kjötbollur að kvöldi bolludags.  Í dag er svo sprengidagur og ekki fæst saltkjöt hér um slóðir en ekki skorti þó myndir af girnilegum saltkjöts og baunaveislum.  Mér tókst samt að finna einhverskonar baunasúpu í dós sem ég gerði umsvifalaust að staðgengli hinnar íslensku baunasúpu.  Og ég myndii ekki segja að hún hafi verið óæt eins og við hefði mátt búast, heldur var hún eins og það væri búið að blanda saman baunasúpu og kjötsúpu.  Í stað saltkjöts var svo hinn rammskoski réttur Haggis eldaður ásamt rófustöppu og kartöflumús (Haggis with neeps and tatties) og hellti, eins og er til siðs hér um slóðir, örfáum Viskýdropum yfir og skolaði þessu niður með rammírskum Guinness. 

20150217_193749 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta var sem sagt hin ágætasta sprengidagsmáltíð.  Hér um slóðir er sprengidagur kallaður pönnukökudagur (pancake day) og því keppast skotar við að belgja sig út af pönnukökum og til þess að fullkomna hinn skoska kvöldverð var boðið upp á pönnukökur í eftirrétt.  Skoskar pönnukökur eru eins og það bakkelsi sem vanalega er kallað skonsur á Íslandi.  Að þessu loknu var ég að sjálfsögðu við það að springa og þar með taldi ég mig vera búinn að uppfylla sprengidagsmarkmiðið.

 

Í dag var ég á koppanámskeiði, þ.e. námskeiði í því að umgangast það sem í daglegu tali er kallað koppur til sjós en er lítið spil eða vinda um borð í bátum.  Ég hef notað koppa í mörg ár án þess að fara á námskeið í notkun þeirra en auðvitað ættu allir sem nota svona tæki að fara á námskeið í því enda eru slys við notkun koppa og spila hátt hlutfall slysa til sjós og þeir eru ófáir fingurnir og jafnvel hendurnar sem hafa kubbast af við notun þeirra.  Ég fékk reyndar þær fréttir í dag að sonur minn væri farinn að nota kopp en það er nú annarskonar koppurÞað sem eftir lifir vikunnar verð ég svo á sjókrananámskeiði.


Sandey og reykur

í gær og fyrradag var ég hjá vinum mínum á Sandey að græja hanafætur á kvíar og þar sem siglingin með ferjunni til Kirkjuvogs tekur rúman klukkutíma, ákvað ég að gista um nóttina á Hótel Ketiltóftum til þess að ná sem mestu út úr deginum.  Hjónin Mark og Julie reka þetta hótel í gömlu teppalögðu húsi og þar fór ákaflega vel um mig.  Á Sandey er, eins og ég hef áður vikið að, afskaplega vingjarnlegt fólk og allir heilsa eða veifa þegar menn mætast.  Á öllum þessum fámennu eyjum hér í kring er engin lögregla enda lifir fólkið í friði og spekt eins og ein stór fjölskylda.  Þar ekur fólk til að mynda á dráttavélinni eða Landrovernum á pöbbinn drekka þar eins og það lystir og keyra svo aftur heim.  Þetta er viðtekin venja, enginn gerir athugasemdir og enginn er að velta fyrir sér hversu mikið áfengismagn er í blóðinu.  Á meðan að fólk sér, þá getur það keyrt aftur heim.  Ef það sér ekki, þá getur það ekki keyrt heim.  Þannig er mælikvarðinn.  Nema á Eiðey (Eday).  Þar eru margir íbúarnir sem eru um 160 talsins aðfluttir Englendingar og þar ganga klögumál á víxl, fólk nöldrar yfir öllu og samstaðan er engin.  Það er efni í mikla mannfræðirannsókn að stúdera samfélögin hér í kring.

Loth

 

 

 

 

 

 

Höfnin á Sandey, fyrsta kvíin og hamstrahjólið klár.

Ferjan frá Sandey lagðist að bryggju um kl níu í gærkvöldi og þá lá reykjarmökkur yfir bænum og lykt af brennandi timbri fyllti vitin en aldrei þessu vant var nánast logn.  Það virðist sem sagt vera mjög algengt að fólk sé með kamínu eða arin inni hjá sér,  þessi reykjarlykt hefur líka verið mjög áberandi þá laugardagsmorgna sem ég hef farið að skokka.  Mér finnst þessi lykt ekki vond og mér finnst það eiginlega hálf notalegt að hafa svona reykjarkeim yfir öllu.

Og talandi um lykt en ég þurfti að skreppa upp á skrifstofu þegar heim var komið og lyktin sem alla jafna er á skrifstofunni er spes, hún er góð, sennilega af einhverjum hreinlætisvörum en þegar hún blandast reykjarlyktinni utan frá er þetta frekar í ætt við reykelsislykt eða þá lykt af brennandi hippa.


Papey - tannlæknir - Eurovision

Í gær lá leiðin til Sandeyjar þar sem til stóð að ganga frá hanafótum á kvíar.  Á leiðinni þangað með ferjunni kom í ljós að keðjur, lásar og fleira sem átti að nota hafði ekki skilað sér og því var ekki um annað að ræða en að fresta framkvæmdum og fara til baka með ferjunni, sem að þessu sinni var Sigurður Jarl.  á bakaleiðinni var komið við í Strjónsey en þar skammt undan en eyja sem heitir Papey hin minni.  Þar búa um 25 karlmenn saman og þangað fær enginn að koma nema með sérstöku leyfi.  Ástæðan er sú að þarna eru munkaklaustur og klausturreglan á eyjuna og því er fólk rekið í burtu ef það er ekki búið að sækja um leyfi til að koma í heimsókn.  Munkarnir, eða öllu heldur paparnir, eru sjálfum sér nógir með flest, rækta sitt eigið grænmeti og korn, eru með kýr og kindur og framleiða sitt eigið rafmagn.  Ég ætla að senda þeim línu með vorinu og sækja um leyfi til að heimsækja þessa papa nútímans, til þess að kynnast munkalífinu þó að á vissan hátt hafi ég lifað hálfgerðu munkalífi frá því að ég kom hingað.  Þetta er kannski bara spurning um að stíga skrefið til fulls og sækja um inngöngu í klaustrið, allavega mun heimsóknin sú arna án nokkurs vafa fara í sögubækurnar.

Papey minni (Large)

 

 

 

 

 

 

Húsakostur á Papey hinni minni.

 

Á sunnudagskvöld gerði ég þau mistök að ég setti upp í mig ólseiga karamellu og það endaði auðvitað með því að hluti af einni tönn datt af.  Það var því ekki um annað að ræða en að drífa sig til tannlæknis.  Það er nú þannig á Fróni að maður kvíður alltaf svolítið mikið fyrir því að fara til tannlæknis, ekki vegna deyfisprautunnar, ekki vegna þess að deyfingin virkar kannski ekki nógu vel, ekki vegna þess að tannlæknirinn rekur kannski borinn í taug og ekki vegna neins þess sársauka eða óþæginda sem maður gæti orðið fyrir í stólnum, heldur vegna upphæðarinnar sem maður þarf að borga að heimsókn lokinni.  Ég fékk tíma í morgun hjá doktor Scott og hann ákvað að gera bráðabirgða lagfæringu á þessu með því að slípa brotið til og viti menn þetta kostaði heil 3 pund eða sem samsvarar 600 íslenskum krónum.  Að vísu þarf ég að koma seinna og þá verður steypt upp í brotið og doktor Scott tjáði mér að það myndi kosta 100 pund eða um 20.000 IKR.  Ég gekk því nokkuð sáttur út af tannlæknastofunni út í sólina og aldrei þessu vant Logn.

Nú er búið að ákveða að Ástralía verði með í Eurovision söngvakeppninni í vor.  Bretarnir eru himinlifandi með þetta af því að ef Ástralía vinnur verður keppnin haldin í einhverju Evrópulandi og þar með telja Bretar að þeir hafi ekki í áraraðir átt jafn góða möguleika á að fá að halda keppnina.


Bíll og sjónvarpsbras

Nú er ég búinn að vera í næstum fjórar vikur hér í Kirkjuvogi og enn sem komið er kann ég ágætlega við mig hér.  Það er frábært að vera kominn í vinnu hjá fyrirtæki sem kann fiskeldi og stendur vel að öllu.  Ég er búinn að sjá ýmislegt nýtt og framundan eru hin ýmsu námskeið og ferðalög þannig að ég á eftir að sjá og læra ýmislegt nýtt á næstu vikum.  Þrátt fyrir frostleysi hér um slóðir er oft bölvaður hrollur í manni en vegna raka í loftinu er eins og kuldinn smjúgi í gegnum öll föt og alveg inn að beini.  Vatnskalt eins og Norðmenn myndu kalla það. 

Í gær fékk ég afhendan bíl sem ég fæ til afnota, Toyotu Hilux árgerð 2015.  Ég var búinn að vera á Landrover Discovery 3 árgerð 2007 sem mér líkaði ágætlega við en ég kvarta ekki undan Toyotunni.  Hún er reyndar beinskipt og ég þarf smá tíma til að venjast því að skipta um gír með vinstri þar sem allt snýr öfugt.

bíll (Medium)

 

 

 

 

 

 

Í gær fór ég yfir á Hrólfsey (Rousay) til þess að skoða aðstæður fyrir seiðastöð sem hugmyndir eru uppi um að standsetja þar en þá yrði stutt og þægilegt að flytja seiði yfir í stöðina okkar en eins og staðan er núna koma þau frá vesturströnd Skotlands.

Þó að ég hafi fengið internet í vikunni þá fylgdi ekki sjónvarpsáskrift með internet áskriftinni.  Ég fékk hinsvegar lánað SKY box hjá Richard yfirmanni mínum en hér er gervihnattadiskur sem ég var að vonast til að myndi virka með því að tengja SKY boxið milli disks og sjónvarps.  Til þess að það væri mögulegt þurfti ég að útvega mér Scart snúru.  Hún fékkst ekki í Tesco eða LIDL þannig að HIS (Orkneyska Húsasmiðjan) var næst í röðinni og nú hef ég komist að því að þar er lokað klukkan 17:00 en þegar ég renndi inn á bílastæðið sýndi klukkan 17:01.  Nú veit ég líka að flestum búðum hér er lokað klukkan 17:00, ekki þó Tesco, LIDL og CO-OP.  CO-OP var því síðasta hálmstráið þennan dag og því vatt ég mér þar inn spurði ég ungan bólugrafinn og renglulegan starfsmann hvort þeir ættu Scart snúru.  "Er það áfengi?" var svarið.  Ég verð að viðurkenna að þessi viðbrögð komu flatt upp á mig og mín fyrsta hugsun var "Nei en ég þyrfti sennilega helst á áfengi að halda eftir þessar hremmingar".  Daginn eftir útvegaði ég mér Scart snúru fyrir klukkan 17:00, fór með hana heim, tengdi allt og Voila.... Ekkert gerðist.  Næsta skref var því að príla upp á þak, ekki til að leita að gervihnöttum, heldur til þess að ganga úr skugga um að gervihnattadiskurinn væri í lagi og þar var allt í góðu.  Nú grunar mig að ég þurfi að hafa fjarstýringu til að stjórna SKY boxinu og þess vegna stefnir allt í það að þetta sjónvarpsævintýri fari í sama farveg og í Sódómu Reykjavík.


Internet og selfí

Eftir að ég fluttist til Orkneyja stóð ég frammi fyrir því að ákveða hvort ég ætti að taka internet inn á heimilið eða ekki.  Auðvitað er þetta erfitt val af því að maður getur ekki með nokkru móti vitað hvað þetta internet á eftir að vera lengi við lýði og ekki síður hvað tekur við af því.  Væri maður kannski bara að henda peningum með því að láta tengja sig við afganginn af heiminum.  Ég ákvað samt að gefa þessu séns enda að mörgu leiti þægilegt þegar fjölskyldan er stödd á landi íss og myrkurs á meðan ég spóka mig hér á suðrænum slóðum.  Þá kemur líka Skype sér afskaplega vel (bera Danir þetta ekki fram "skujpe"?)

Ég hef nýlokið við að lesa Orkneyskar þjóðsögur.  Margar sögurnar eiga það sameiginlegt að í þeim koma selir við sögu og yfirleitt á þann veg að þegar sjávarföl eru með ákveðnum hætti ganga selirnir á land, kasta af sér hamnum og dansa á ströndinni í mannsmynd.  Svo kemur manneskja og felur haminn þannig að viðkomandi selur sem er undantekningalaust gullfalleg kona eða maður giftist viðkomandi og eignast væn börn en finnur svo haminn og hverfur aftur til hafs.  Það er alls engin tilviljun að selir skipi stóra sess í þjóðsögunum af því að hér er allt morandi í selum.  Fun fact: Orkneyjar draga nafn sitt af selum en Orkn er gamalt norrænt orð sem þýðir selur. 

Selirnir eru hreinasta plága í fiskeldinu hér og geta gert mikinn óskunda með því að skemma net og drepa fisk. Það er samt ekki auðvelt að losna við þá af því að það er bannað að skjóta seli nema með því að sækja um sérstakt leyfi til þess og til þess að fá leyfið þarf að sýna fram á það með óyggjandi hætti að selirnir séu að valda umtalsverðu tjóni.  Fáist leyfi er það alla jafna til þess að skjóta einn sel og ráða þarf sérstaka selaskyttu með þar til gerð leyfi til verksins en tvær slíkar skyttur eru hér um slóðir.  Leyfið gildir fyrirfram ákveðinn dag og aðeins má skjóta í björtu og stilltu veðri, ekki má skjóta frá landi heldur aðeins frá vel stöðugum bát.  Ekki má skjóta af meira en 150 m færi og selurinn þarf að vera staðsettur innan 50m frá fiskeldiskví. Svo þegar selurinn hefur verið skotinn þarf að reyna að ná honum en takist það ekki þarf að vakta nærliggjandi fjörur næstu daga á eftir í von um að hræið finnist.  Hræinu þarf svo að skila til opinberra aðila ásamt skýrslu um hvernig farið var að.  Hræið er svo kyn og aldursgreint og þar með er selveiðinni lokið.  ef annar selur gerist nærgöngull þarf aftur að sækja um leyfi og endurtaka leikinn en auk þessa er kvóti á því sem veiða má t.d. má aðeins skjóta einn sel á tímabilinu 1.okt - 31. des.  Fiskeldisfyrirtæki sem og aðrir verða að hlíta þessum reglum en ef þær yrðu brotnar mætti búast við að það hefði slæm áhrif á orðspor fyrirtækisins, fjárhagstap og sektir.  Hér eru líka samtök sem standa vörð um velferð sela, t.d. Seal huggers (selaknúsarar) og fleiri.  Ef svona samtök væru til á Íslandi myndu þau væntanlega heita SELFÍ (eða selfie) sem stæði þá fyrir Selavinafélag Íslands.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband