Halloween

Hér á lítilli eyju norðan við Skotland halda eyjarskeggjar upp á svokallað Halloween eða hrekkjavöku.  verslunargluggar í miðbænum eru "skreyttir" með hlutum sem tengjast þessum degi og helst eru það draugar, leðurblökur, beinagrindur, köngulær og fleira í þeim dúr sem notað er til þess að prýða verslunargluggana.

Hjá Skotum er Hrekkjavaka rakin aftur til hinnar fornu Keltnesku hátíðar Samhain (Sumarlok).  Keltneska tímatalið miðaðist við árstíðirnar og Sumarlok voru, eins og einhverjir hafa lesið út úr nafninu, lok sumars og upphaf vetrar en Skotum hefur þótt tilvalið að tengja Hrekkjavökuna við mörkin milli heims hinna lifandi og heims hinna dauðu enda snýst vakan að miklu leiti um hið yfirnáttúrlega, nornir, afturgöngur og fleira.

Fjölskyldan dundaði sér við það í gærkvöldi að skera út andlit í grasker eins og er til siðs hér um slóðir.  Og þó að það sé amerískur siður að nota grasker, þá er þetta rammskoskur siður en áður fyrr notuðu Skotar rófur sem þeir holuðu að innan og skáru út andlit á sama hátt og  gert er við graskerin og bjuggu til lugtir úr þeim, rófulugtir.  Þessi ljós áttu að halda illum öndum í burtu.  (Illar endur eru nefnilega stórhættulegar).

Spennan er búin að fara stigvaxandi hjá Brynju að taka þátt í þessu, en börn á Orkneyjum klæða sig í búninga og ganga hús úr húsi og bjóða upp á grikk eða gott (Trick or treat) og þá gefa flestir gotterí gegn því að börnin syngi, segi brandara eða eitthvað annað sniðugt.  Ef við kærum okkur ekki um sönginn, sælgætið og skemmtilegheitin getum við átt það á hættu að okkur verði gerður grikkur.  Vinnufélagi minn sagði mér að þegar þeir voru 11 - 12 ára settu þeir hundaskít inní dagblað, kveiktu svo í dagblaðinu við útidyr viðkomandi sem kom æðandi út og byrjaði að stappa á blaðinu til þess að slökkva eldinn, en hefur væntanlega óskað krakkaskröttunum hægum kvalafullum dauðdaga þegar uppgötvaðist hvað um var að ræða.  Brynja klæddi sig upp sem norn eins og vinsælt er að gera og á meðan heimilisfaðirinn var að vinna fyrir kanilsykri í grautinn fór hinn hluti fjölskyldunnar niður í bæ þar sem var skrúðganga um miðbæinn og öll börn og margir fullorðnir voru í búningum og að sjálfsögðu var skrúðgangan leidd af sekkjapípuleikurum með trommuslætti.  Eftir að ég kom heim úr vinnu fór Íris með Brynju að ganga í hús ásamt vinkonum Brynju, Amy og Georgiu.  Við Ívar Orri biðum heima með hrekkjavökunammiskálina tilbúnir að hræða líftóruna úr þeim börnum sem mögulega kæmu.  Enginn kom enda ekki mörg börn í hverfinu þannig að nú sitjum við uppi með tvö kílógrömm af sælgæti af því að krakkaófétin létu ekki sjá sig.


Heimsóknir og höfuðmeiðsl

Það er búið að vera skemmtilegt ferli að byggja upp fiskeldisstöð frá grunni með öllum nýjasta búnaði.  Stöðin okkar er sú stærsta hér á Orkneyjum og á skoskan mælikvarða en hér við Orkneyjar eru allt í allt um 15 stöðvar reknar af SSF og Cooke aquaculture. Við reiknum fastlega með að margir hafi áhuga á að skoða stöðina og geri sér upp erindi til þess að koma í heimsókn en í næstu viku eru nokkrir aðilar búnir að boða komu sína, m.a. fólk af skoska þinginu, forstjórinn, samtök fiskeldisstöðva í Skotlandi, fulltrúar frá seiðaeldisstöðvum og fleiri. 

prammi (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í síðustu viku fékk ég símtal frá Marine Scotland en sú stofnun tekur m.a. þátt í útgáfu leyfa og sinnir eftirliti  með líffræðilega hluta eldisins, m.a. heilbrigði, dýravelferð, lífmassa og fleira í þeim dúr.  Sá sem hringdi boðaði komu sína í eftirlitsferð í þessari viku.  Eftirlit með fiskeldi hér er mjög virkt en á milli 7 - 10 aðilar koma í eftirlit eða úttektir á fiskeldisstöðvum, bæði opinberir aðilar sem og kaupendur afurða og því er vel passað upp á að allt sé í lagi.  Ég sagði félögum mínum sem eru stöðvarstjórar á öðrum stöðvum frá þessu  í síðustu viku.  Þeir gripu andann á lofti "Ó, nei, ekki eftirlit strax" voru viðbrögðin hjá þeim.  "Jú og ekki nóg með það heldur kemur líka eftirlitsmaður með eftirlitsmanninum til þess að gera úttekt á því hvort hann stæði sig nógu vel í eftirlitinu".  Það var eins og þeir hefðu orðið vitni að stórslysi, þeir lokuðu augunum, grettu sig og sveigðu höfuðið til hliðar.  "Nei, ég trúi því ekki, guð hjálpi þér, það er sko ekkert grín að lenda í þessu".  Þetta var fyrsta eftirlitið af mörgum sem ég á eftir að taka á móti og því var ég ekki viss við hverju ætti að búast.  Stóri dagurinn rann svo upp í dag og þeir komu báðir, eftirlitsmaðurinn og eftirlitsmaðurinn með eftirlitsmanninum.  Auðvitað gekk alt eins og í sögu og þeir fóru yfir pappíra og skráningar og svo út á stöð þar sem m.a. voru tekin sýni.

Á meðan við vorum að fara yfir skráningarhlutann á skrifstofunni fór síminn að ólmast og láta heyra í sér en ég lét hann hringja út á þess að líta á hann til þess að trufla ekki eftirlitið.  Svo hringdi hann aftur og í þriðja sinn.  Svo kom SMS þannig að ég stóðst ekki mátið og kíkti.  Þrjú ósvöruð símtöl frá Írisi og SMS frá Írisi sem var svohljóðandi:  "Ívar Orri var fluttur á spítala, hringdu strax".  Það verður að segjast eins og er að svona nokkuð kemur manni í opna skjöldu.  Þegar ég hringdi kom í ljós að hann hafði dottið á leikskólanum og lent á höfðinu þannið að skurður, um tommu langur sem er þónokkuð stórt miðað við lítinn haus,  kom á hnakkann á honum og mikið blæddi.  Hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið (ég hef nú grun um að þrátt fyrir meiðslin hafi það verið svolítið spennandi) þar sem sárinu var lokað og til öryggis var hann settur í einhverjar rannsóknir eins og gjarnan er gert þegar höfuðmeiðsli eru annars vegar.  Að rannsóknum loknum fékk hann að fara heim enda orðinn fjallhress aftur eftir að hafa fengið eplasafa og grænmetissúpu á spítalanum.


Klukkunni breytt

Í nótt var klukkan færð aftur um einn klukkutíma og nú erum við Orkneyingar aftur komnir á sama tímaskeið og Íslendingar.  Og mikið er það nú gott.  Líkamsklukka Íslendingsins kemst þá aftur á rétt ról en þetta óþarfa hringl með tímann hefur lítið annað í för með sér en óþægindi.  Eftir að klukkunni er breytt í mars veldur það morgunþreytu á meðan verið er að venjast breyttum tíma og tilheyrandi kvöldþreytu í kjölfarið þrátt fyrir að allt sé gert til þess að reyna að aðlagast.  Nú breytist hins vegar allt til hins betra og líkamsklukkan fær að jafna sig í rólegheitum.  Fram í mars. Annars hefði verið frábært ef hefði verið hægt að færa klukkuna aftur um svona 30 ár. 1985 var gott ár.  En það er fleira en klukkan sem breytist um þessar mundir, nú er farið að hausta hér, hitastigið komið niður undir 11 - 12°C og vindurinn farinn að sækja í sig veðrið, sem sagt allt farið að líkjast Íslandi meira.  Og hér er gæsunum farið að fjölga á ný, sennilega margar hverjar að koma frá Íslandi, úttroðnar af grasi og berjum, kannski úr Fossárdal og Berufirði.

Og úr því að klukkan er til umræðu:

solarwatchcartoon OO


Hverfisbúðirnar

Nú hef ég verið hér á Orkneyjum í níu mánuði og ekki hafa nein börn verið kennd við mig ennþá.  Ég hef búið í sama hverfinu, í sömu götunni, í sama húsinu frá því að ég kom og þar sem það er í eðli mínu að fara í könnunarleiðangra á nýjum stöðum þá tel ég mig yfirleitt þekkja mitt nánasta umhverfi ágætlega en nú verð ég að játa að það er kannski ekki alltaf svoleiðis.  Ég komst nefnilega að því núna í vikunni að í i.þ.b. 200 metra fjarlægð frá húsinu mínu er hverfisverslun, Kjörbúð Papadals, en það er nýlenduvöruverslun með allt það helsta sem mann vantar, staðsett á Hermannanesi (Hermaness) innan um húsaþyrpingu þannig að hún sest ekki frá aðalgötunni.  Þegar inn í verslunina er komið blasir við stór rekki með glanstímaritum með forsíðufréttum um að þessi eða hin fræga persónan hafi bætt á sig nokkrum kílóum, að hún standi í deilum við annað frægt fólk eða eigi í vandræðum í einkalífinu sem ætti sennilega frekar að kallast almenningslíf.  Ekkert af þessu fræga fólki sem er á forsíðunum þekki ég og ekki veit ég ástæðuna fyrir því að það hefur orðið frægt og ég ímynda mér að fáir viti ástæðuna.  Af fyrirsögnunum að dæma er strax hægt að útiloka hæfileika, gáfur, fegurð og manngæsku.

Ég álpaðist reyndar inn í aðra hverfisbúð í öðru hverfi í vikunni, Brúsabúð (Bruces store) og hún er álíka skemmtileg en þar fæst ýmislegt fleira en nýlenduvara.  Þar er t.d. hægt að láta smíða lykla um leið og maður kaupir áfengi, afmæliskort og tvinna.  Það er nú líka oft þannig í þessum litlu hverfisbúðum að þar eru samskiptin persónulegri og þegar ég kom inn í mjakaði fjörgömul hvíthærð kona sér á hraða snigilsins á milli rekkanna, bogin í baki og allir heilsuðu henni: "Góðan daginn Mary mín, hvernig hefur þú það í dag?"

Og ég sem fram að þessu hef alltaf haft fyrir því að keyra í Tesco eða Lidl.


Vísa

Þegar ég var á Íslandi í sumar fór ég á mjög svo skemmtilega tónleika í Djúpavogskirkju með sönghópnum Olgu.  I hléi á tónleikunum vatt sér að mér maður einn og tók mig tali.  Ég þekki hann aðeins lítillega og hann spurði mig út í það sem ég er að fást við hér á eyjunum skosku.  að tónleikunum loknum smeygði hann sér upp að hlið mér og fór með vísu sem hann hafði samið á seinni hluta tónleikanna.  Ég hafði engin skriffæri og var búinn að gleyma hvernig vísan var þegar ég kom út í bíl.  Daginn eftir færðu foreldrar mínir mér miða með vísunni og neðst á miðanum stóð:  Gerðu svo vel Kristján, það var villa og ég breytti vísunni aðeins í nótt. Hann sem sagt lagði það á sig að vaka fram eftir nóttu til þess að breyta henni.  Það er ekki á hverjum degi sem maður fær ort ljóð um sig, hvað þá að skáldið verði andvaka yfir skáldskapnum.  Ekki er ég í aðstöðu til þess að dæma um gæðin en það er nú ekki annað hægt en að vera þakklátur fyrir það þegar menn leggja sig svona fram.

Annars er vísan svona:

Í alla firði kemur kví

er Kristján snýr til baka.

Og menn þá frekar fá en slý

fisk úr neti að taka. 

Annars vona ég að ég eigi þess kost að fara aftur á tónleika með þessum frábæru drengjum og hvet alla til þess að fara á tónleika með sönghópnum Olgu.


Hleðslur

Hér á Orkneyjum eru steinhleðslur út um allt, veggir, garðar, girðingar og fleira, sumar með greinilegan tilgang en aðrar með engan sjáanlegan tilgang.  Orkneyingar eru að því er virðist hleðsluóðir.  Kannski hefur grjóthleðsla verið helsta afþreying Orkneyinga í gegnum tíðina.  Nú á dögum heyrist stundum setningin hvað á að gera í kvöl? Og svarið er er oft: ja ætli maður horfi ekki bara á sjónvarpið eða fari kannski í tölvuna.  Á Orkneyjum hefur þetta áreiðanlega verið: Hvað á að gera í kvöld? Ja ætli maður hlaði ekki bara vegg.  Já, einmitt ég hlóð einn í gær.  Hefurðu séð vegginn sem .... og svo framvegis. En svo kom sjónvarp og svo kom internet.  Og hér er allt úr steini, meira að segja snúrustaurarnir. Nánast öll hús eru úr steini og mörg þeirra að sjálfsögðu hlaðin en samkvæmt byggingarreglugerð þurfa íbúðarhús að vera í náttúrlegum litum og þess vegna eru flest öll hús hér grá.  Hér er sem sagt bannað að brjóta upp gráan hversdagsleikann með líflegum litum en í staðinn er mannfólkið litríkt og sumir hverjir brjóta upp hversdagsleikann meira en góðu hófi gegnir.  Eins og til dæmis gaurinn sem hefur ástríðu fyrir því að klæða sig í búninga.  Rétt er að taka fram að maðurinn er aðkomumaður.  Þegar hann var nýlega fluttur hingað klæddi hann sig upp sem heilbrigðiseftirlitsmann og heimsótti byggingaverktakafyrirtæki hér í bæ  Sem heilbrigðiseftirlitsmaður gerði hann fjölmargar athugasemdir við starfsemi fyrirtækisins og afhenti þeim bréf upp á að fyrirtækinu þyrfti að loka og senda þyrfti starfsfólk heim þar til úrbætur hefðu verið gerðar.  Eftir þriggja dagalokun komust stjórnendur fyrirtækisins að því að þetta hafði bara verið djók.  Sjálfsagt hefur þetta kostað fyrirtækið stórfé en sjálfsagt hefur það lík gert úrbætur á starfseminni.  Í síðasta mánuði handtók lögreglan þennan litríka búningaáhugamann þegar hann klæddi sig upp sem lögreglumaður og fór út að sinna lögreglustörfum.  Það kostar sem sagt sitt að hafa áhugá á búningum og vera litríkur persónuleiki og því kjósa flestir að láta lítið á sér bera, búa í gráu steinhúsi og hlaða veggi.

vegurinn (Large)

 

 

 

 

 

 

 

Steinhleðslur á Hrólfsey


Stinky Bill

Þegar ég steig upp á bryggjuna í ok vinnudags seinnipartinn á fimmtudag og fór að ganga frá björgunarvesti og persónuhlífum kom maður haltrandi í áttina til mín, sennilega með annan fótinn styttri, og gaf sig á tal við mig.

"Langir vinnudagar hjá ykkur"? sagði hann með hreim sem greinilega var frá Suðurríkjum Bandaríkjanna.

"Nei, þetta er nú bara nokkuð venjulegur dagur" svaraði ég enda var klukkan um fimm.

"Já ég er að bíða eftir ketti" svaraði hann.  Hvernig svarar maður þessu? Mér datt aðeins eitt gáfulegt svar í hug.

"Nú"?

"Já hann kemur einhverntímann fyrir klukkan sex".  Þetta var furðulegt, mjög furðulegt og eins og Íslendingi sæmir fór ég að tala um veðrið af því að ég vissi ekki hvernig ætti að svara þessu.

"Eh, já allavega er nú veðrið til þess" enda er veðrið búið að vera alveg stórgott síðustu vikur.

"Ert þú á bátnum þarna Lady Jean"?

"Nei ég er hjá hinu fyrirtækinu"

"Nú hvaða fyrirtæki er það"?

"Scottish Sea Farms"

"Ahaaaa mikilvæga fyrirtækið" Og nú varð mér starsýnt á tennurnar í manninum sem voru með þykka gula skán og hafa sennilega aldrei verið burstaðar.

"Jaaa ekki veit ég það en við reynum að gera okkar besta".

Og þessar göfugu samræður áfram á þessum undarlegu nótum.

Morguninn eftir þegar ég kom í vinnuna var ég svo spurður að því hvernig samræðurnar við Stinky Bill hefðu gengið fyrir sig.  Það kom sem sagt í ljós að Billy þessi sem hefur viðurnefnið Stinky (Illa lyktandi) er úr ríkri Bandarískri Suðurríkjafjöskyldu sem einhverra hluta vegna endaði á einni af fámennari eyjum Orkneyja, Egilsey þar sem búa um 20 manns og þar býr hann með manni sem aldrei fær að fara út á meðal almennings.  Kannski var hann sendur á fjarlægan og afskekktan stað af fjölskyldunni sem ekki vildi fá svartan blett á annars fullkomna fjölskyldu.  Hann ber það örugglega ekki með sér að vera úr vel stæðri yfirstéttarfjölskyldu heldur myndu flestir álykta að mamma hans væri systir hans.  Strákarnir sögðu margar góðar sögur af Stinky Bill til dæmis þegar þegar hann kom inn á veitingastað á Hrólfsey og fór úr skónum sem ekki voru lengur skór heldur einhverjar leðurtjásur hangandi á fótunum á honum, grútskítugir með mold, kúaskít og guð má vita hverju fleiru.  Svo gekk hann berfættur inn að afgreiðsluborðinu en eigandinn sem var á bak við varð var við hann þegar hann heyrði krafsið í  risastórum og þykkum tánöglunum þegar hann gekk á flísalögðu gólfinu.  Margar sögur eru til um Stinky Bill eins og þegar hann ætlaði að skipta um kyn, þegar hann fór að rífast við innkaupapokana, þegar hann fór á klósettið í ferjunni og fleiri sem ekki eru birtingarhæfar.  Strákarnir eru að vonast eftir því að gerð verði heimildamynd um Stinky Bill af því að á Egilsey býr líka Þýskur heimildakvikmyndagerðarmaður.

Það var reyndar rétt hjá Stinky Bill að vinnudagurinn á fimmtudag varð reyndar heldur lengri en vanalega, eða 22 tímar. Hann byrjaði klukkan 7 á skrifstofunni en eftir kvöldmat hljóp ég í skarðið í seiðamóttöku fyrir annan stöðvarstjóra hjá SSF.  Ekki vildi betur til en svo að brunnbáturinn fékk rangar upplýsingar og fór á vitlausa stöð þannig að fyrir vikið tók þetta allt lengri tíma en til stóð í upphafi.  Ég lagðist á koddann upp úr fimm og stillti vekjaraklukkuna sem sagði mér að hún myndi hringja eftir 1 klukkustund og 53 mínútur.

Kirkwall Marina (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

Kirkwall Marina á miðvikudagsmorgun.


Inverness

Þar sem ég átti frí þessa helgi ákvað fjölskyldan að heimsækja höfuðborg hálandanna, Inverness.  Við vöknuðum snemma á laugardag til þess að taka ferjuna frá Straumnesi (Stromness) yfir á Skorrabólsstað (Scrabster).  Krökkunum fannst afar spennandi að sjá ferjuna bíða eftir okkur með opið ginið og keyra svo þar inn og láta hana gleypa okkur með húð og hári og geyma svo bílinn í iðrum ferlíkisins.  Ferjan, sem ber nafnið Hamnavoe, er sennilega það sem ég hef komist næst því að ferðast með skemmtiferðaskipi, þar eru veitingastaðir, verslun, leiksvæði, spilasalur og þar er boðið upp á leðursófa og leðurstóla, eitthvað annað en ferjurnar sem ganga hér á milli eyjanna og ekki er boðið upp á annað en bilaða kaffisjálfsala og harðplastbekki.  Hamnavoe hefur líka tengingu við Ísland en þegar gosið í Eyjafjallajökli truflaði flugsamgöngur var ferjan send til Bergen í Noregi til þess að sækja breska strandaglópa.

Fyrri hluta siglingarinnar stóðum við mest úti á dekki til þess að dást að björgunum á Háey og Gamla manninum á Háey.  Siglingin yfir pentilinn svokallaða tekur um einn og hálfan tíma og eftir að til Skorrabólsstaðar var komið var ekið í gegnum Þórsá (Thurso) og síðan sveigt suður á bóginn.  Leiðin til Inverness er um 170 km löng og hún er afar falleg og fjölbreytt, þar má sjá gamlar byggingar, skoskar sveitir, skóga, kastala, olíuborpalla og fallegar brýr.  Við gerðum stuttan stans í Hjálmsdal (Helmsdale) til þess að borða nestið okkar en það var eina stoppið okkar á leiðinni. 

DSC_0155 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hjálmsdalur.

Inverness (sem þýðir Ós árinnar Ness (sem rennur úr Loch Ness) eða bara Ósnes) er afar falleg borg, þar búa um 70.000 manns og þar má finna allt sem maður vill hafa í einni borg, það er að segja, fótboltalið, veitingastaði,bari og vatnsleikjagarð.  Írisi finnst borgin vera rómantísk ég hef ekki hugmynd um  hvernig það er fundið út en ég ákvað bara að það væri affarasælast að vera sammála henni.  Ég reyndi að vera rómantískur í svari en ef til vill hef ég ofleikið, allavega benti hneykslunarsvipurinn á henni til þess að hún  tryði ekki að ég væri sammála.  Annars eyddum við mestum tímanum í að leyfa krökkunum að njóta lífsins og enduðum á því að fara út að borða.

Um miðjan dag á sunnudag var svo ekið aftur norður til þess að ná ferjunni yfir til Orkneyja en án efa eigum við eftir að heimsækja Inverness aftur.

DSC_0164 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hluti af höfninni á Skorrabólsstað, Þórsá í baksýn.


Meira skólahjal

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér og ekki fæ ég miklu um það ráðið hvert hann fer.  Þar ritaðist Megasi satt orð á blað eins og svo oft en síðustu dagar hafa flogið áfram og varla hefur verið tími til að líta upp úr vinnunni.  Dagarnir eru líka farnir að styttast, nú er birtutíminn hér frá því um kl 7 til klukkan 19 og það styttist í að klukkan verði færð til jafns við það sem er á Íslandi, mikið verður nú gott að komast aftur á sinn rétta tíma.

Í síðustu viku fórum við í foreldraviðtal hjá Mr Brown í skólanum hennar Brynju og það er mesta furða hvað krakkanum gengur vel þrátt fyrir tungumálaerfiðleika.  Á morgun byrjar svo tveggja vikna haustfrí hjá henni en margir foreldrar taka sér frí á þessum tíma og fara í fjölskylduferðalag.

Við höfum minnkað dvölina hjá Ívari Orra á leikskólanum en við misskildum alveg leikskólagjaldið.  Við fengum verðlista þar sem stóð að fullt gjald væri 180 sterlingspund sem jafngildir um 36.000 íslenskum krónum sem er ívið hærra en við vorum að borga á mánuði á Íslandi.  Við settum hann reyndar ekki í fulla vistun þannig að þetta var nú eitthvað aðeins lægra fyrir hann en þegar vesalings foreldrarnir komumst að því að þetta væri ekki mánaðargjald heldur vikugjald féllust okkur hendur og fætur en þetta jafngildir u.þ.b. 150.000 kr á mánuði og því var dvölin minnkuð niður í algjört lágmark, þrjá tíma þrjá daga í viku.  Mér skilst að margar breskar mæður fari seint og illa út á vinnumarkaðinn (hvernig sem sá markaður er nú) m.a. vegna hárra leikskólagjalda og eigi svo í erfiðleikum með að höndla það að vera úti á hinum svokallaða vinnumarkaði.  Reyndar hvarflaði það að mér að þetta gjald væri svona hátt af því að Ívar Orri væri á einhverju sér gjaldi vegna fyrirhafnar og aukasnúninga við að passa hann, hvað veit maður?


Skólalíf

Hversdagsleikinn er við völd hjá okkur þessa dagana, börnin fara í skólann á hverjum degi og eftir erfiða byrjun er farið að ganga betur þó að dagamunur sé á.  Þrátt fyrir tungumálaerfiðleika er Brynja farin að geta átt samskipti við önnur börn og þá verður allt mun auðveldara þó að hún vildi helst af öllu vera í Grunnskóla Djúpavogs.  Kennarinn hennar, hann Mr Brown, notar google translate til þess að auðvelda samskiptin en Brynja skrifar það sem hún þarf að koma á framfæri og hann lætur forritið þýða það fyrir sig og væs versa ef hann þarf að koma einhverju á framfæri til hennar.  Þetta gengur ágætleg en á fimmtudaginn er foreldraviðtal og þá kemur betur í ljós hvernig hefur gengið.  Ívar Orri hefur ekki verið sáttur við að fara í leikskólann og flesta daga hefur þurft að draga hann þangað vælandi.  Þetta er þó allt á réttri leið og hann hefur tekið ástfóstru við einni fóstrunni, hana ungfrú Ashleigh, sem hefur haft þann starfa að halda á honum grenjandi þessa sex tíma sem hann er á leikskólanum. Hún er alveg dásamleg af því að einn daginn tók hún á móti Ívari Orra og mömmu hans með blað í hendi og sagðist vera tilbúin í daginn.  Hún hafði þá lagt á sig að læra algeng íslensk orð og skrifa niður mörg íslensk orð til þess að auðvelda samskiptin.  Og nú er Ívar Orri farinn að vakna brosandi eftir hádegislúrinn.  Þetta er því allt á réttri leið en samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið eru Orkneyjar besti staðurinn á Bretlandseyjum til þess að ala upp börn á og er það m.a. rökstutt með öruggu umhverfi og gæðum skóla.

Annars snýst flest hér um HM í Rugby hjá Skotunum, s.l. laugardag var stórleikur Englands og Wales en það vill svo skemmtilega til að tveir samstarfsmenn mínir hjá SSF sem leigja saman íbúð eru einmitt Englendingur og Wales búi og það var víst ágæt stemming hjá Walesbúanum á laugardagskvöldið.

Veðrið er búið að vera gott, 15 - 18°C hiti og bjartviðri flesta daga og greinilega eitthvað eftir af sumrinu hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband