30.11.2015 | 21:42
Steinninn á Kvíabrún
Á laugardag skrapp ég með Ívar Orra og Brynju norður í Byrgishérað en þar er nokkuð merkilegur steinn, steinninn á Kvíabrún (Stane O'Quoybune) sem hefur verið reistur upp á endann líkt og á fleiri stöðum hér á Orkneyjum. Talið er að steinninn, sem er tæplega fjögurra metra hár, hafi staðið þarna frá því tveimur öldum fyrir Krists burð, eða í rúm 2000 ár. Eins og með aðra steina eða steinhringi veit enginn tilganginn og enginn hefur áttað sig á hvernig samfélag var hér á eyjunum fyrir þúsundum ára. Flestum þessum steinum sem standa upp á endann tengjast þó einhverjar þjóðsögur og svo er einnig um þennan.
Sagan segir að alltaf á gamlárskvöld lifni steinninn við og gangi niður að vatni einu sem er þar skammt frá, svali þorsta sínum og rölti svo til baka á staðinn sinn þar sem hann bíður fram að næsta gamlárskvöldi. Það fylgir líka sögunni að ef einhver er að þvælast úti á gamlárskvöld og verði var við að steinninn sé á ferðinni, þá lifi sá hinn sami ekki önnur áramót. Það þótti því augljóslega ekki ráðlegt að vera á ferli á gamlárskvöld í námunda við steininn. Til eru sögur af nokkrum vitleysingum sem ætluðu að storka örlögunum, eða svala forvitni sinni, en allar enda þær á sömu leið. Illa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2015 | 19:54
Bæir á Orkneyjum
Þó að Orkneyjar séu að mestu leiti dreifbýli, þá eru hér líka bæir og þorp. Kirkwall, þar sem ég bý, er stærsti bærinn með um 9000 manns. Magnúsarkirkja, eitt helsta kennileiti bæjarins er merkileg og falleg bygging og hér er Highland Park viský verksmiðjan en annars er hér lítið að sjá. Þó má segja um alla bæina hér á Orkneyjum að það er þrennt sem einkennir þá. Þeir eru snyrtilegir, fólk leggur bílunum sínum þar sem hugmyndin um að leggja kviknar, og öll hús eru úr steini, ómáluð í sínum náttúrulegu litum. Jú og svo má bæta því við með einkenni bæjanna hér að maður er aldrei viss hvar þeir byrja og hvar þeir enda af því að sauðfé og nautgripir á beit geta skyndilega birst þegar maður telur sig vera innan bæjarmarka. Hér í Kirkwall eru þrjár hafnir, Kirkwall höfn, sem er næst miðbænum, Hatston, sem er í iðnaðarhverfinu og þar leggjast stærri skip eins og skemmtiferðaskip og flutningaskip og svo er höfn við Scapa sem er m.a. notuð fyrir dráttarbáta. Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að Kirkwall sé fallegur bær, ekki ljótur heldur, en hann er vinalegur og fólkið vingjarnlegt. Nema konan sem vinnur á bensínstöðinni, hún er aldrei í góðu skapi. Hún býður aldrei góðan dag, brosir aldrei og þakkar aldrei fyrir eða kveður. Ég hélt fyrst að ég hefði hitt á slæman dag eða vitlausan tíma mánaðarins en hún er alltaf svona. Þegar kona þessi var ráðin í þetta starf hlýtur atvinnuauglýsingin að hafa verið eitthvað á þessa leið: "Gjörsamlega áhugalaus starfsmaður óskast til þess að afgreiða á bensínstöð Highland Fuel, þarf að vera gersneyddur allri þjónustulund".
Kirkwall.
Stromness er næst stærsti bærinn á orkneyjum en þar búa rúmlega 2000 manns og sennilega er Stromness fallegasta bæjarfélagið á eyjunum. Þaðan gengur ferja milli Orkneyja og Scrabster á meginlandinu. Bærinn stendur við lítinn vog og upp frá honum er brekka þar sem flest húsin eru. Aðalgatan er mjög athyglisverð. Hún er örmjó og hlykkjótt og af því að hún er svo mjó hélt ég fyrst að hún væri bara göngugata en svo komst ég að því að hún er líka ætluð fyrir bílaumferð þannig að ég keyrði hana og náði með lagni að smeygja mér í gegnum fyrstu beygjurnar án þess að reka bílinn utan í veggina. Þegar ég fór að mæta bílum komst ég að því mér til mikillar undrunar að þetta er tvístefnugata. Eini gallinn við það er að það er ekki hægt að mætast á henni. Eina leiðin til að mætast er að annar hvor bíllinn smeygji sér inn í það húsasund sem er næst.
Finstown er þorp í um tíu mínútna akstursfjarlægð frá Kirkwall, með 4-500 íbúa og áður en ég flutti til Orkneyja gekk ég með þá grillu í hausnum að þar gæti verið hentugt að búa með tilliti til vinnunnar minnar. Sem betur fer var ekki laust húsnæði þar á þeim tíma. Ekki veit ég hver ber ábyrgð á skipulagsmálum í Finstown en skipulag bæjarins er vægast sagt mjög sérstakt. Í bænum eru falleg gömul hús en allstaðar á milli þeirra hefur verið dritað nýjum steinhúsum sem mér finnst ekki sérlega fallegt. Miðbærinn er þannig úr garði gerður að í stað fallegs miðbæjarkjarna samanstendur hann af bifreiðaverkstæði, smíðaskemmu, kirkjugarði, almenningsklósetti og stóru bílastæði en í útjaðri bæjarins er lítil verslun hárgreiðslustofa og skyndibitastaður. Í hæðunum fyrir ofan bæinn er svo stór malarnáma.
Dounby er þorp á miðju meginlandinu og vegurinn norður í land liggur í gegnum hann. Einn helsti galli bæjarins er að hann er á miðju meginlandinu, fjarri sjónum. Það skiptir ekki öllu máli hvort maður ekur í gegnum Dounby í dagsbirtu eða myrkri af því að þar er lítið að sjá, minnir kannski á bæi eins og Hellu og aðra slíka í smækkaðri mynd. Reyndar er slátrari bæjarins, The Dounby butcher eitt af því fáa sem vekur athygli þar, aðallega fyirr það að The Dounby butcher gæti verið gott nafn á hrollvekju. Þar er líka gistihús sem heitir Kringla. Bærinn virðist vera í vexti, flest húsin eru nýleg og þar er líka verið að byggja nokkur í viðbót.
Evie er lítið þorp á norðausturströndinni. Ég myndi ekki segja fallegt en húsin þar eru tvennskonar. Annars vegar gömul yfirgefin hús í niðurníðslu og hins vegar nýleg hús þar sem ég geri ráð fyrir að fólk búi. Það er eins og einn daginn hafi allir ákveðið að flytja úr gömlu húsunum sínum í ný steinhús. Þar eru gistihús en eitt þeirra vakti sérstaka athygli mína af því að á gömlu máðu krossviðarskilti stendur Evie Hostel, from 5 pounds per person, Apply Flaw farms for key. Húsið sjálft minnir frekar á fangelsi en gistihús, ekki eru gardínur fyrir gluggum en stöku krossviðarplötur sjást uppistandandi við gluggana. Kirkjan í Evie er líka athyglisverð en hún líkist frekar einbýlishúsi en kirkju, en eins og sagt er er kirkja ekki hús heldur fólkið.
Evie Hostel.
Kirkjan í Evie.
St Margarets Hope er 500 manna þorp á Suð-Austur meginlandinu. Þau skipti sem ég hef farið þangað hef ég ekki séð neina á ferli nema einhverjar verur sem ekki var auðveldlega hægt að átta sig áhvort voru lífs eða liðnar, draugalegur bær varð einhverjum að orði. Þar er líka hægt að taka ferju sem gengur til John'o'Groats á meginlandinu.
St Margarets Hope.
Þetta eru helstu bæirnir meginlandi Orkneyja en nokkrir aðrir enn smærri, með færri en 100 manns eru á víð og dreif um eyjuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2015 | 10:49
Skattar
Einn af kostunum við að vinna hér í Skotlandi er að hér eru lægri skattar en á Íslandi. Tekjuskattur er 20% og hér er ekkert verið að flækja hlutina með skattkortum, persónuafslætti, uppsöfnuðum persónuafslætti eða öðru þess háttar. Bara 20% tekjuskattur. Reyndar eru tvö skattþrep en þeir sem eru með svimandi háar tekjur eru í hærra skattþrepi og borga hátekjuskatt. Maður tekur því eftir því að stærsti hluti þeirra launa sem maður vinnur sér inn skila sér í vasann en á Íslandi finnst manni einhvernveginn að maður fái bara helminginn af þeim launum sem maður vinnur sér inn en Bjarni Ben og félagar fá hinn hlutann.
Þetta er samt skref í rétta átt en betur má ef duga skal. Það var líka góð ráðstöfun að lækka tolla á fatnaði og fleiru og vonandi skilar það sér til neytenda, það er ekki hagstætt fyrir íslendinga að verslanir eins og H&M og Primark, sem ekki eru með verslanir á Íslandi, séu samt þær verslanir sem Íslendingar versla mest af sínum fatnaði hjá.
Skattar á Íslandi eru of háir og kerfið of flókið en auðvitað þarf ríkið að fá sinn skerf. Bara ef væri hægt að lækka tekjuskatt og skattleggja í staðinn nöldur, heimskuleg komment á netsíðum, tillitsleysi í umferðinni og fleira í þeim dúr, þá yrði heimurinn kannski enn betri.
Engin skattkort og álagningu flýtt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.11.2015 | 15:46
Bátalónsbáturinn Aron
Út í vegkanti hér í útjaðri Kirkwall liggur trébátur, eða leifar af trébáti. Mér fannst það nú ekkert svo merkilegt og ég hafði ekki veitt honum mikla athygli fyrr en ég komst að því að þessi bátur er frá Íslandi.
Báturinn var smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1972 og hafði smíðanúmerið 393. Báturinn, sem var smíðaður úr eik og furu, fékk nafnið Sóley KE-15, hann var 11 brúttólestir, 11 m langur og búinn 98 ha Power Marine vé. Síðar var skipt um vél og sett í hann 108 ha Ford c.Power vél. Báturinn var í eigu Svavars Ingibergssonar sem gerði hann út frá Keflavík og fiskaðist vel. Þann fjórða janúar var báturinn bundinn við bryggju í Sandgerðishöfn þegar mikið óveður gerði um nóttina og Sóley, ásamt átta öðrum bátum og þremur skipum, slitnaði frá bryggju og rak upp í fjöru. Báturinn var þá tekinn á land og endurbyggður.
Árið 1989 var hann tekinn af skrá vegna úreldingar en tveimur árum síðar, árið 1991 stóð til að skrá hann aftur og nota sem þjónustubát en það náðist ekki í gegn. Rúmlega tvítugur maður að nafni Sigurður Klein átti þá bátinn og sigldi honum til Orkneyja þar sem hann fékk nafnið Aron K-880 og var hann notaður þar sem þjónustubátur fyrir kafara en Sigurður hafði lært köfun í Skotlandi og kynnst Orkneyskum köfurum. Báturinn var notaður í nokkur ár á Orkneyjum en síðan fluttur þangað sem hann er núna og grotnar niður.
Tugir sams konar báta voru smíðaðir hjá Bátalóni og enn eru tveir þeirra í notkun, það eru batarnir Skvetta SK-7 og Glófaxi II VE-301 sem reyndar er frambyggður.
Já tengslin milli Íslands og Orkneyja eru víða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2015 | 20:59
Heilagur Magnús
Við fjölskyldan fórum í bæinn í dag og eitt af því sem við gerðum var að skoða Magnúsarkirkju (St Magnus Cathedral). Vegna mikils vindar í dag þurftum við að fara inn um hliðardyr en þar fyrir utan stóð ung kona og gat ekki opnað. Ég opnaði fyrir henni og við fórum inn. Einhverra hluta vegna varð Íris eftir úti þannig að ég stóð þarna inni við hliðina á ungri ókunnri konu með börnin mín tvö, tilbúinn að ganga inn kirkjugólfið og skoða kirkjuna. Ég hafði nú ekki reiknað með breytingu á fjölskylduhögum og ekki ætlað mér að yngja upp en sjálfsagt var ekki aftur snúið úr þessu. Vandræðalegt. Íris birtist nú augnabliki síðar, hún hafði bara verið úti að taka myndir. Ég var ekki farinn að hugsa um að vaða út í kalt vatn og biðja bænir. Fjölskyldustaða er því óbreytt.
Kirkjan sjálf er mögnuð bygging sem ekki er auðvelt að lýsa með orðum, heldur verður að fara inn og upplifa. Kirkjan er skýrð í höfuðið á einum af Orkneyjajörlum, Magnúsi Erlendssyni, sem var fæddur árið 1080.
Í Orkneyingasögu eru lýsingarorðin ekki spöruð þegar Magnúsi er lýst en samkvæmt henni er ólíklegt að annað eins göfugmenni hafi fæðst í heimssögunni síðan þá. Honum er lýst sem hæglátum manni og friðsömum. Hann er sagður hafa verið hávaxinn, glæsilegur, vel gefinn, góðum mannkostum gæddur, sigursæll í bardögum, vitur, málsnjall, örlátur, göfuglyndur, örlátur, ráðagóður, vinsæll, blíður og þægilegur í samskiptum við þá sem sýndu af sér góðmennsku og visku en óvæginn og ósveigjanlegur gagnvart þjófum og morðingjum sem hann tók til fanga og gerði ekki greinarmun á ríkum og fátækum.
Væntanlega hefur ekki verið auðvelt að nálgast getnaðarvarnir á þessum tíma en Magnús og kona hans lifðu skírlífi og leyfðu sér ekki lostafullt líferni. Ef hann hélt að girndin væri að ná á honum tökum óð hann út í kald vatn og þuldi bænir.
Magnús varð jarl á Orkneyjum og réði yfir helmingi eyjanna á móti Hákoni jarli sem réð yfir hinum helmingnum. Magnús var vinsæll meðal eyjarskeggja, enda hvernig má annað vera miðað við lýsinguna á honum, en samt fór það svo að illar tungur komu af stað orðrómi sem varð til þess að ósætti kom upp milli Magnúsar og Hákonar. Þeir vildu sættast og mæltu sér mót á sáttafundi þar sem hvor um sig átti að mæta með jafnmarga menn og tvö skip. Hákon mætti hins vegar með átta fullmönnuð skip og eftir að menn Hákonar höfðu náð Magnúsi sögðust þeir myndu drepa annan hvorn jarlinn og að Orkneyjum yrði ekki lengur skipt á milli tveggja jarla. "Drepið hann þá" sagði Hákon "ég vil frekar lifa og ríkja yfir fólkinu og eyjunum". Hákon skipaði matreiðslumanni sínum, Lífólfi, að drepa hann. Lífólfur fór þá eitthvað að væls en Magnús reyndi að hugga hann. "Svona svona Lífólfur minn, þetta er nú ekkert að væla út af, verk eins og þetta munu færa þér frægð og samkvæmt gömlum reglum og hefðum máttu eiga fötin mín þegar þú ert búinn. Ekki hræðast, þú framkvæmir þetta gegn þínum eigin vilja en sá sem ákveður og fyrirskipar þetta er sá seki". Svo afklæddist Magnús kirtli sínum og gaf Lífólfi, síðan kraup hann niður og baðst fyrir. Þegar hann var svo leiddur tilaftökunnar sagði hann við Lífólf: "Stattu svo fyrir framan mig og höggðu fast á höfuðið, það er ekki við hæfi að Orkneyjajarl sé tekinn af lífi eins og þjófur. Hertu þig nú upp og gerðu þetta almennilega, ég er buinn að biðja fyrir þér. Síðan lagðist hann niður og mætti örlögum sínum. Þetta fór fram þann 16. apríl 1117.
Frændi Magnúsar, Rögnvaldur Kali Kolsson, lét hefja byggingu kirkjunnar árið 1137 aðallega til þess að auka vinsældir sínar meðal eyjarskeggja og lét hann koma beinum Magnúsar fyrir í kirkjunni og skírði hana í höfuðið á Magnúsi en byggingin er sögð hafa staðið yfir í 300 ár. Árið 1919, þegar verið var að gera við hluta kirkjunnar, fundust mannabein í trékassa á leyndum stað í kirkjunni og bar höfuðkúpan þess merki að hún hefði fengið högg með sverði og því er talið að beinin séu bein Magnúsar.
Það er líka gaman að skoða tengsl Magnúsar og Magnúsarkirkju við sunnanverða Austfirði Íslands. Í ramma á vegg í kirkjunni er ættartré heilags Magnúsar og þar sést að einn af forfeðrum hans var enginn annar en Síðu-Hallur sem bjó á Þvottá en hann var einn af afkomendum Hrollaugs sem nam land þar sem nú kallast Sveitarfélagið Hornafjörður. Já tengslin milli Íslands og Orkneyja eru víða. (Smellið á myndina til þess að stækka hana).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.11.2015 | 19:44
Wyre
Nú er búið að fylla stöðina hjá mér af seiðum en í þeim tólf kvíum sem við erum með eru um ein komma ein milljón laxatitta sem eru nú á bilinu eitthundrað til tvöhundruð grömm, þannig að lífmassinn er sem stendur, nálægt eitthundrað og sjötíu tonnum. Ég geri ráð fyrir því að á þessum tíma að ári verðum við byrjaðir að slátra löxum sem hafa náð 5 kílóum og ef slátrunin dregst fram að vorjafndægrum 2017 verðum við komnir með laxa sem eru um sjö kíló. Við reiknum með um 8% afföllum á eldistímanum og stefnum að því að ná fóðurstuðli á bilinu 1,05 - 1,1. Það eru því spennandi tímar framundan.
Kvíarnar sem við notum eru 100 metrar að ummáli, fóðurpramminn tekur eitthundrað og sjötíu tonn af fóðri í síló, hann er útbúinn með fóðrunarkerfi frá GMT, myndavélakerfi frá Steinsvik og fjórum fóðurlínum (fjórir blásarar). Um borð í honum er líka brennsluofn fyrir dauðfisk. Sem stendur erum við fimm sem vinnum á stöðinni.
Fóðurpramminn
Stöðin er staðsett á svokölluðu Geirseyjarsundi (Gaeirsay sound) rétt sunnan við litla eyju sem heitir Vigur (Wyre). Á eyjunni búa rúmlega tuttugu manns og ef einhver skyldi álpast þangað einhverntímann er fátt markvert að skoða, sennilega bara eitt, kastali Kolbeins Hrúgu (Cubbie Roo) eða það sem er eftir af honum. Kastalinn var byggður um 1150 af Víkingahöfðingjanum Kolbeini Hrúgu en kastalinn mun vera einn sá elsti í Skotlandi, landi kastalanna.
Vinnubáturinn okkar heitir eftir staðnum sem stöðin er á, Gairsay Sound, hann var smíðaður í Arklow á Írlandi, hann er 16 m langur, 6,5 m breiður, útbúinn tveimur 11 lítra Doosan 320 hestafla vélum auk vélar fyrir glussakerfi og ljósavélar. Meðalganghraði er um 10 hnútar og fer hann vel með sig í sjó.
Gairsay Sound
Cubbie Roo er svo heitið á litla hraðbátnum okkar sem er úr plasti, smíðaður í Hull, með 420 hestafla Iveco díselvél og jet drif, yfirbyggður með sæti fyrir 8 manns.
Cubbie Roo
Annars er það að frétta að Orkneyskur vetur er yfirvofandi, birtutíminn hefur styst töluvert, hér er orðið bjart um hálf átta á morgnana og um hálf fimm leitið er orðið dimmt. Hitastigið er svo sem alveg þolanlegt ennþá, í kringum tíu gráðurnar, en næstu tvo til þrjá daga er spáð stormi. Og fyrst er búið að gefa lægðinni sem gengur yfir nafn má reikna með að það verði ansi hvasst en lægðin hefur fengið nafnið Abigail.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2015 | 21:10
Barkas
Ég hef stundum fengið þá flugu í höfuðið að það væri gaman að eiga húsbíl. Ég hef líka stundum hugsað um að það væri gaman að eiga það sem gjarnan er flokkað sem fornbíll, þ.e. bíl sem er eldri en 30 ára. Og nú hef ég ákveðið að ég sé búinn að finna draumabílinn. Hann sameinar húsbíla og fornbíladrauminn og stendur á bílastæði í St Margarets Hope og köngulóarvefurinn milli hægra afturhjóls og brettis bendir til þess að hann hafi ekki verið hreyfður í þó nokkurn tíma. samt er hann á númerum sem bendir til þess að hann hafi fengið skoðun innan árs og sé í því sem næst ökuhæfu ástandi. Um er að ræða bifreið af tegundinni Barkas B-1000.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana og sjá þessa glæsibifreið betur.
Bifreiðar þessar voru framleiddar í Austur-Þýzkalandi á árunum 1961 - 1991 og voru þeir búnir 45 hestafla tvígengisvélum með þremur sílindrum. Ýmsar útfærslur voru til, m.a. með átta sætum til fólksflutninga, sendiferðabílar, sjúkrabílar og fleiri. Frægasta útgáfan var e.t.v notuð af Austur-Þýzku öryggislögreglunni Stasi, sem notaði bílana til fangaflutninga, en þá var komið fyrir fimm gluggalausum fangaklefum aftur í bílnum. Bíllinn var svo dulbúinn sem matvælaflutningabíll og svo var keyrt upp að gangandi vegfarendum, þeim kippt inn í bílinn og það flutt i fangelsi sem pólitískir fangar.
Nú þarf ég bara að hafa upp á eigandanum og reyna að ná samningum um verð. Næsta skref er svo að setja hann í ástandsskoðun, henda dýnum aftur í og keyra svo af stað suður England, yfir til Frakklands, í gegnum Belgíu, Holland, Þýzkaland, og Danmörku. Taka svo Norrænu til Seyðisfjarðar og aka þaðan yfir Fjarðarheiði og Öxi niður á Djúpavogi. Sennilega þarf ég að forðast Þýzkar hraðbrautir á þessu farartæki en ef ég myndi ná að leggja af stað núna í nóvember næði ég kannski að komast í Norrænu næsta sumar. Eða kannski ekki, kannski er bifreiðin ekki hraðskreiðari en svo að þegar ég kem til Íslands get ég ekið í gegnum Fjarðarheiðargöngin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2015 | 07:48
Guy Fawkes
Fimmtudagskvöldið 5. nóvember er brennukvöld á hverju ári hér á Bretlandseyjum, stundum kallað Guy Fawkes night. Þá eru víða brennur og flugeldum er skotið á loft. Líka hér a Orkneyjum. Tilefnið er að í upphafi 17. aldar kom hópur manna 36 tunnum af sprengiefni fyrir í kjallara þinghússins og ætluðu að sprengja það í loft upp með manni og mús. Ráðabruggið fór út um þúfur og einn mannanna, Guy Fawkes að nafni, var handtekinn og tekinn af lífi. Ég hef spurt nokkra eyjarskeggja hvers sé verið að minnast, eða fagna, á þessum degi, hvort að það sé af því að það stóð til að sprengja upp þinghúsið, að það mistókst að sprengja þinghúsið, að Guy Fawkes var tekinn af lífi, eða hvort sé verið að fagna öryggi bresku krúnunnar. Enginn virðist vera með þetta á hreinu enda kannski barasta algjör óþarfi, aðalmálið er bara að fagna og hafa gaman.
Suður í Lundúnum er hin svokallaða Milljón grímu ganga gengin þetta kvöld til þess að mótmæla heimskapítalismanum og kerfinu almennt en margir mótmælenda hylja andlit sín með hvítum Guy Fawkes grímum.
Hér í Hreiðarsgerði 35 sáum við fjölskyldan fáeina vesældarlega flugelda fara á loft, ekkert í líkingu við það sem við þekkjum frá Íslenskum áramótum eða þrettánda. Við leituðum að brennunni en fundum hana ekki en einn vinnufélaga minna stendur í þeirri meiningu að kveikt verði í henni á laugardaginn. Þá förum við aftur að leita. Það var reyndar haft á orði hér á bæ í gærkvöld að þetta minnti svolítið á gamlárskvöld, flugeldar, skraut (ennþá uppi frá því á Halloween), og ilmur af hamborgarhrygg (reyndar var egg og beikon í matinn en þið vitið hvernig beikonið hér er, hryggjarsneiðar og lyktin eins og af hamborgarhrygg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2015 | 19:24
Háðulegt nafn
Manni væri nú aldeilis sýndur heiður ef hæsta fjall í heimi væri nefnt í höfuðið á manni, en svo verður víst ekki úr þessu, heldur var það einhverra hluta vegna nefnt í höfuðið á manni að nafni George Everest, sem vann sér fátt til frægðar, til að mynda sá hann aldrei fjallið og fjallið kom lítið eða ekkert við sögu í lífi hans. Everest (maðurinn) fæddist árið 1790, annað hvort í Englandi eða Wales, eftir því hvaða heimildum er farið eftir, og flutti ungur til Indlands til þess að gerast landmælingamaður og eitt af verkefnunum var að mæla ummál jarðar en verkefninu var stjórnað af manni að nafni William Lambton. Lambton þessi vann að verkefninu í tuttugu ár en lést árið 1823 og var þá Everest (maðurinn) fenginn til þess að klára skýrslu um verkefnið, en Himalayafjöll eða Everest (fjallið) komu hvergi við sögu þar. Reyndar þótti skýrslan ónákvæm og vinna landfræðinganna skilaði litlum árangri, þannig að þegar allt kom til alls náðu landfræðingarnir Everest og Lambton ekki að vinna nein afrek á ævi sinni. Lífið á Indlandi var heldur ekkert sældarlíf og ef maður skoðar myndir af honum þá sér maður vansælan mann, gersneyddan allri gleði, enda þjáðist hann af taugaveiki, hitasótt og niðurgangi á meðan á Indlandsdvölinni stóð. hann flutti aftur til Englands árið 1843, löngu áður en Everest (fjallið) fékk nafn og það er sennilega eina fjallið í Asíu sem ber enskt nafn en landfræðingar þess tíma sýndu samviskusemi í því að viðhalda örnefnum innfæddra. Everest (fjallið) bar reyndar nokkur nöfn meðal innfæddra t.d. Deodunga, Devadhunga, Bairavathan, Bhairavlangur, Gnalthamthangla, Chomolungma og nokkur fleiri þannið að landfræðingum var vandi á höndum. á þeim tíma vissu menn ekki að Everest (fjallið) færi hæsta fjall í heimi og þyrfti því að fá eitthvað mjög sérstakt nafn og þegar einhver setti nafnið Everest við fjallið var tilgangurinn ekki endilega að sýna Everest (manninum) stórkostlegan heiður. Reyndar er nafnið á Everest (fjallinu) alltaf borið vitlaust fram en það er jafnan borið fram eins og það er lesið, jafnt á Íslandi sem og annarsstaðar í heiminum en Everest (maðurinn) bar nafn sitt alltaf fram Ívrest. Hæsta fjall í heimi fékk því ekki aðeins nafnið vegna "mistaka" heldur er það borið fram vitlaust líka. Þetta er eiginlega alveg frábært.
Heilinn erfiðar á Everest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2015 | 23:13
Maturinn ekki svo góði en áhugaverði
Vinnufélagi minn spurði mig hvort haldið væri upp á hrekkjavöku á Íslandi en ég sagði svo ekki vera þó að hún sé að byrja að skjóta rótum. Í framhaldinu fór ég svo að lýsa fyrir honum sviðamessu (Stage mess) og sviðakjömmum og svo sér íslenskum mat eins og kæstri skötu, hákarli, súrmat og fleira í þeim dúr. "Mikið hlýtur þér að finnast breskur matur leiðinlegur, hann hefur nú orð á sér fyrir að það er lítið í hann varið" varð honum að orði og jú ég tók undir það. Og ég fór að hugsa, hvað af breskum mat þykir mér góður? Og það var eiginlega bara tvennt. Haggis og breskt beikon. Haggis gæti ég haft í öll mál og kannski er Haggis eitthvað sem ég á eftir að sakna þegar ég sný aftur til Íslands en hver veit nema að góð skosk húsmóðir geti laumað að mér leiðbeiningum um hvernig á að útbúa Haggis. Svo gæti nú Google veitt einhverja aðstoð. Beikonið er náttúrulega alls staðar gott en beikonið hér í sameinaða konungsveldinu er mun betra en hið íslenska vegna þess að hér eru kjötmiklar hryggjarsneiðar notaðar sem hráefni í stað rifjasneiða á Íslandi.
Annað kom ekki upp í hugann yfir þann mat sem mér þykir góður. Hins vegar kom ýmislegt upp í hugann sem er gott.
Pæ. Ég hata pæ. Sérstaklega Shepherds pæ.
Skosk egg. Reyndar áhugaverður réttur en um er að ræða harðsoðin egg, hjúpuð með kjötfarsi og brauðraspi og svo steikt. Ekki kannski vont en ekki gott. Allir ættu samt að prófa og mynda sér sína eigin skoðun.
Sausage roll. Sperðlar sem Bretar kalla sausages innbakaðir í smjördeig. Pólskur vinnufélagi minn sem finnst bresk matargerðarlist....nei ekki list, bresk matargerð fyrir neðan allar hellur, sagði að þegar hann komst fyrst í tæri við sperðla þessa kom upp í huga hans pappír sem búið er að bleyta í með uppþvottalegi. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þessa tegund matar en Bretum finnst þetta víst gott.
Lorne. Innvolsið úr sperðlunum selt í sneiðum á stærð við jólakökusneiðar og svo steikir maður þær á pönnu eða í ofni og bragðast að sjálfsögðu eins og sperðlar.
Fish'n'chips. Jafnast alls ekki á við fisk og franskar á Íslandi, en þeir bjarga miklu með því að gluða ediki yfir allt heila klabbið.
Black pudding. Er reyndar alls ekki slæmt, nánast alveg eins og blóðmör. Hverjum nema Bretum dettur samt í hug að kalla slátur búðing? Hvurslags rugl er þetta.
Já Bretar eru heppnir að Indverjar hafa flutt í stríðum straumum til Bretlands og flutt með sér matargerð sína og karrý en annars hefðu þeir væntanlega átt það á hættu að verða hungurmorða. Ég er ákaflega hrifinn af indverskum mat og hér í Kirkjuvogi eru tveir indverskir matsölustaðir. Þeir eru góðir. Annar er reyndar í sama húsi og gæludýraverslun. Kurma kjúklingurinn þar er mjög góður (allavega stendur á matseðlinum að þetta sér kjúklingur en í gæludýraversluninni fást bæði kanínur og naggrísir) og ef maður biður um salat þar þá getur maður valið um tvennt, steiktan lauk eða marineraðan lauk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar