Færsluflokkur: Bloggar

Flatey

Þessa helgi átti ég frí og hún var m.a. notuð til að hlaupa, en nú er um mánuður í hálfmaraþonið á Háey.  Í gær fór ég 10 mílur (16 km) og í dag tók ég þátt í almenningshlaupi, 10K á Flatey (Flotta).  Á Flatey búa um 80 manns en hundruðir breskra hermanna dvöldust þar í heimsstyrjöldunum.  Þar er stór olíubirgðastöð sem er tengd við olíuborpalla í Norðursjónum en Flatey tengdist ekki raforkudreifikerfi fyrr en árið 1977 og vatnslögn til eyjarinnar var ekki lögð fyrr en árið 1970.  Búið er að leggja niður skólann á eyjunni af því að þar eru ekki lengur nein börn.  Til þess að komast út í Flatey þarf að taka ferju og ég fór með tvíbytnu sem er með sæti fyrir um 60 manns, einstaklega þægileg í alla staði og gengur ábyggilega 16 - 18 mílur.  Kannski væri hún upplögð fyrir Vestmannaeyinga.  Á bryggjunni biðu okkar nokkrar rosknar konur á Renault og Vauxhall smábílum og skutluðu okkur sem vorum að fara í hlaupið upp að Félagshimili eyjarinnar.   Haupið fór fram í hífandi roki og var m.a. hlaupið framhjá leifum gamals kvikmyndahúss sem var reist og notað í heimsstyrjöldinni síðari.  Að hlaupi loknu var öllum boðið í pottrétt og pasta í Félagsheimilinu og þar voru líka eldri konur með basar þar sem m.a. var hægt að kaupa lesnar bækur, handavinnu, kökur, sælgæti, bjór, gos, heimagerða sultu og fleira.  Að lokinni verðlaunaafhendingu var svo happadrætti, sem sagt ekta dreifbýlisviðburður með innfæddum.  Ætli maður verði ekki að heimsækja hina gestrisnu Flateyinga aftur í sumar í góðu veðri og skoða sig aðeins betur um, ekki svona á hlaupum.

Flotta10 (Large)


Nýjar kvíar, nýr bátur

Fyrsta heila vinnuvikan eftir frí er að baki.  Fyrri hluta vikunnar var verið að draga kvíar yfir á eldisstöðina okkar en nú er kvíasmíðin langt komin eftir stopp vegna þess að við máttum ekki setja út akkeri og festingar og ekki er viturlegt að smíða kvíar nema að búið sé að ganga frá  því öllu saman.  Það var athyglisvert að berjast við strauminn sem er á milli eyjanna en suðvestan við Eiðey er straumtunga þar sem straumhraðinn er um 17 hnútar enda er verið að gera tilraunir með sjávarfallavirkjanir á þessum slóðum.  Allavega við þurftum að komast í vestur frá Eiðey u.þ.b. fimm sjómílur en þegar við komum út í straumröstina rak okkur 3 sjómílur í hásuður.  Þetta tókst engu að síður á endanum en tók auðvitað töluvert lengri tíma fyrir vikið.

Á miðvikudag fengum við svo afhentan nýjan hraðbát sem smíðaður er úr plaströrum af Seahorse Marine í Hull.  Báturinn er níu metra langur, með sætum fyrir 8 farþega, 420 hestafla Iveco vél, jet drifi og öllum helstu siglingatækjum.  Hann er fyrst og fremst hugsaður til fólksflutninga til og frá stöðinni en þó er smá dekkpláss og burðargeta upp á um 2 tonn.  fimmtudagur og föstudagur voru svo teknir í námskeið en til þess að mega stýra hraðskreiðum bát hefur fyrirtækið þá stefnu að senda þá sem munu nota bátinn á til þess gert námskeið, m.a. til þess að draga úr líkum á bakmeiðslum sem ku vera nokkuð algeng hjá þeim sem vinna á bátum af þessu tagi.  Í gær var bóklegi hlutinn auk nákvæmnisæfinga í höfninni en bátar með jet drifi hegða sér aðeins öðruvísi en bátar með skrúfu og stýri.  Í dag var svo fjögurra tíma ferðalag norður fyrir Eiðey og víðar til þess að prófa aðrar aðstæður en skjólgóða höfn.  Báturinn hefur fengið nafnið Cubbie Roo (Kolbeinn hrúga) í höfuðið á víkingahöfðingja sem bjó á eyjunni Vigur (Wyre) þar sem eldisstöðin er staðsett.

CR VII (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

20150513_084934 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

20150513_084909 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sea Shepherd hefur boðað komu sína til Orkneyja í sumar, að sögn forsvarsmanna samtakanna til þess að fylgjast með selveiðum en þeir trúa því að sjómenn og fiskeldismenn ljúgi til um hversu margir selir eru skotnir.  Hjá SSF eru utanaðkomandi aðilar fengnir til verksins, allar skráningar þar að lútandi eru mjög nákvæmar og vottaðar af opinberum aðilum.  Það verður engu að síður fróðlegt að fylgjast með framgöngu samtakanna hér um slóðir.

Annars er sumarið hægt og bítandi að halda innreið sína hér, trén eru orðin laufguð, hér eru skemmtiferðaskip í hverri viku og veðrið almennt nokkuð gott.  að vísu er spáð rigningu og roki á morgun en ég ætla engu að síður að nota helgina til þess að hlaupa þar sem að ég er víst skráður til leiks í hálfmaraþon sem verður á Háey (Hoy) 14. júní þannig að það er eins gott að ná nokkrum góðum hlaupum fyrir þann tíma.


Kominn aftur.

Já nú er fríinu lokið og ég hef snúið aftur til Breska heimsveldisins eftir dásamlega dvöl á landinu sem eitt sinn hét Garðarshólmi.  Ekki hefði hendinni verið slegið á móti lengri dvöl en það var ekki í boði að þessu sinni og það er óneitanlega skemmtilegra að láta Ívar Orra litla vekja sig með því að kalla látlaust "pabbi matna" (pabbi vakna) heldur en að heyra hann segja í símann "pabbi dondu" (pabbi komdu). 
 

Næsta heimsókn verður seinni partinn í júlí og þá verður stoppið vonandi aðeins lengra.  Auk minninganna tók ég með mér íslenskt pipp og súpujurtir þannig að nú verður fljótlega elduð Orkneysk/Íslensk kjötsúpa.  Á föstudaginn fann ég reyndar verslun niðrí bæ sem selur súpujurtir og mér til mikillar gleið er nú hægt að fá skyr i Tesco sem bragðast eins og íslenskt skyr þrátt fyrir að vera framleitt í Þýzkalandi.

Frá Íslandi hélt ég rakleiðis til Írlands og gisti þar í tvær nætur en tilgangurinn var að heimsækja skipasmíðastöðina sem er að smíða vinnubátinn okkar.  Við komum með nokkrar smávægilegar breytingatillögur sem vonandi gera bátinn betri.  Að heimsókn lokinni var flogið til Orkneyja með viðkomu í Inverness sem stundum er kölluð höfuðborg hálandanna.

Daginn eftir heimkomu snerist svo allt um kosningar hér í Stóra-Bretlandi þar sem leiðtogi vor, David Cameron, og Íhaldsflokkur hans fékk meirihluta.  Kosningakerfið hér er nokkuð sérstakt og sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja asnalegt, en Bretlandi er skipt upp í 650 kjördæmi og aðeins einn frambjóðandi úr hverju kjördæmi kemst á þing, sem sagt einmenningskjördæmi.  Þetta þýðir að þó að einn flokkur fái ágætis hlutfallskosningu er alls óvíst að nokkur frambjóðandi viðkomandi flokks komist á þing.  Til dæmis fékk skoski þjóðarflokkurinn (SNP) 56 þingsæti með 5% atkvæða en UKIP fékk aðeins eitt þingsæti með 13% atkvæða.  Það er líka athyglisvert að hér í Skotlandi eru fleiri Pandabirnir en þingmenn frjálslyndra demókrata.  Kjósendur virðast hafa litið á Cameron sem álitlegan leiðtoga þjóðarinnar fremur en Ed Miliband helsta keppinaut hans auk þess sem vaxandi andstaða við skrifræðisskrímsli Evrópusambandsins gæti hafa haft áhrif en Cameron lofaði að árið 2017 yrði kosið um hvort Bretar ættu að segja skilið við ESB eða halda áfram.

Annars er sumarið komið hér, nú tekur við nokkuð hefðbundin vinna, þjálfun og áframhaldandi uppsetning eldisstöðvarinnar.  Krákurnar eru í óða önn að unga út en þær byrja hreiðurgerð í byrjun mars og velja sér hreiðurstað í trjákrónum.  Ætli það sé þess vegna sem engar krákur eru á Íslandi?


Heppni og óheppni, þrír mánuðir að baki.

Ég tel mig vera þokkalega vel mæltan á enska tungu og í flestum tilfellum gengur mér vel að skilja fólk hér um slóðir þrátt fyrir sérstakan hreim eyjarskeggja en auðvitað er fólk misskýrmælt eins og gengur og gerist. Eins og t.d. Villi úr Bandið hans Bubba:

 Sem dæmi þá fór ég að skokka um daginn með skokkhóp hér í Kirkjuvogi og í það skiptið slóst roskinn hlaupari frá Aberdeen í hópinn. Hann hljóp við hliðina á mér dágóðan hluta leiðarinnar og var bísna ræðinn, talaði um heima og geima (held ég) en það var mjög erfitt að skilja hann, í fyrsta lagi af því að hann var með sterkan skoskan hreim og í öðru lagi af því að hann var svo móður.  Það sem ég heyrði hlj´ðomaði einhvern veginn svona: "mhrfumurifmfurdmv" og mhuerivbvyor Iceland" og "ohnrvinmundrim". Ég reyndi eftir bestu getu að svara rétt ef ég hélt að hann væri að spyrja að einhverju.  Yes indeed, Oh no never o.s.frv og ég held að það hafi tekist bærilega.  Hann hætti samt að hlaupa við hliðina á mér þegar u.þ.b. 1/4 af leiðinni var eftir.  Kannski hefur hann bara verið orðinn þreyttur.

Framburður Orkneyinga hefur eitt mjög sérstakt einkenni, en orð sem Englendingar bera alla jafna fram með "Á" hljóði bera rkenyingar fram með "Ú" hljóði.  House (hás) verður því "hús" out verður "út", down verður "dún", now verður "nú" o.s.frv.  Þeir eru líka með fáein orð sem Englendingar nota almennt ekki, orð eins og peedie sem þýðir lítið, birn sem þýðir börn, bonnie sem þýðir gott og lassie sem þýðir stúlka.

Ég var svo heppinn að eiga frí um helgina og því tók ég mér hjólatúr í dag upp á Breiðavaðshæð (Wideford Hill) þaðan sem útsýni yfir Kirkjuvog, Skapalón og eyjarnar í kring er gott.  Ég hafði ekki hjólað lengi þegar ég varð fyrir því óláni að annar pedallinn losnaði þannig að í óefni stefndi.  Ég var samt svo heppinn að hafa sexkantasett meðferðis þannig að ég gat lagað þetta til bráðabirgða.  Í því sem ég var að klára að herða boltann heyrði ég sagt yfir öxlina á mér, "Er allt í lagi, get ég aðstoðað"?  Þegar ég leit við stóð þar ungur maður brosandi með óhemju gisnar tennur. Ég sagði honum hvers kyns var og þá kom í ljós að hann vinnur á hjólreiðaverkstæði í Kirkjuvogi.  Hverjar eru líkurnar á því að hitta hjólaviðgerðarmann í Kirkjuvogi, nákvæmlega á þeim stað og þeirri stund þegar hjólið bilar?  Þetta kalla ég heppni.  Hann sagði reyndar að hann vissi til þess að pedalar gætu losnað á nýlegum hjólum en það væri frekar óheppni en einhver verksmiðjugalli.

Kirkwall (Large)

 

 

 

 

 

Kirkjuvogur frá Breiðavaðshæð.

Nú er framundan hjá mér enn lengra ferðalag en ferðin upp á Breiðavaðshæð af því að á miðvikudag flýg ég til Íslands í tíu daga frí.  Mikið verður nú gott að komast heim og hitta fólk eftir þessa þriggja mánaða löngu dvöl á erlendri grund.  Ívar Orra hef ég ekki hitt síðan í janúar og þegar ég kvaddi kunni hann örfá orð, sennilega innan við tíu, en nú eru allar flóðgáttir að opnast og orðin streyma eins og íslenskur fjallalækur í leysingum að vori.  Þessir þrír mánuðir hafa engu að síður verið lærdómsríkir, það er dýrmæt reynsla sem ég hef fengið nú þegar við að vinna hjá alvöru fiskeldisfyrirtæki, reynsla sem hvergi er í boði á Íslandi.  Auðvitað hafa samt komið tímar sem maður hefur spurt sjálfan sig "Af hverju kom ég mér í þessar aðstæður, hvað í fjandanum var ég að hugsa"? En þega upp verður staðið verður þetta ómetanlegt.  Næsta blogg verður að öllum líkindum ekki fyrr en ég kem til baka í byrjun maí.

 


Eday

Á laugardag fór ég norður í Eiðey (Eday) til þess að aðstoða við slátrun og gisti þar í tvær nætur.  stöðin á Eiðey hefur aðeins verið í gangi í þrjú ár og þeir höfðu aldrei notað flotlínu við að tæma kví þannig að Phil, stöðvarstjórinn óskaði eftir nærveru minni..

Á Eiðey búa um 130 manns, þar er verslun sem er opin tvo tíma á dag, bílaleiga, hostel, læknir og ferjuhöfn.  Þar með er þjónustan upptalin.  Nei ég gleymdi einu, það er flugvöllur þar sem heitir London airport.  Prestur kemur einu sinni í viku frá nærliggjandi eyju í litlum fiskibát í hvaða veðri sem er.  Netsamband og sjónvarpssamband á eynni er mjög takmarkað og því var lítið samband við umheiminn á meðan á dvölinni stóð. 

vatnið og þorpið (Large)

 

 

 

 

 

 

Millulögur (Mill Loch) og þéttbýliskjarninn á Eiðey í baksýn, sjö hús held ég.

heilsugæslustöðin á Eday (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heilsugæslustöðin á Eiðey.

Ég fékk herbergi í húsalengju sem SSF leigir á norðurhluta eyjarinnar, á stað sem frægur sjóræningi, John Gow að nafni, var handsamaður og fluttur til London og hengdur.  Herbergið var alveg ágætt, með baðherbergi og eldunaraðstöðu en að sjálfsögðu ekki net eða sjónvarp.  Í lýsingu sem fylgir herberginu er m.a. tekið fram að dýralífið þarna sé fjölskrúðugt og það stóð heima.  Skordýralífið í þessu litla herbergi var með fjölbreyttasta móti, að minnsta kosti þrjár tegundir sem sjást vel með berum augum:  Grápöddur (woodlice), köngulær og húsflugur, nokkrir einstaklingar af hverri tegund.  Það fór svo sem ekki í taugarnar á mér að hafa þessi meinlausu grey á rölti þarna í herberginu en samt var það nú þannig að þegar könguló skreið yfir sængina mína þegar ég var lagstur til hvílu fyrra kvöldið fór mig í framhaldinu að klæja hingað og þangað um líkamann.  Á handarbakinu, á síðunni, á ristinni, milli læranna, milli rasskinnanna,  á vinstra gagnauganu.  Engu að síður sofnaði ég fljótlega og svaf vært alla nóttina án þess að hafa hugmynd um hversu líflegt var í herberginu um nóttina. 

Sunnudagurinn var svo undirlagður í vinnu við kvíarnar og þegar ég lagðist á koddann upp úr miðnætti lognaðist ég út af án þess að verða var við litlu herbergisfélaga mína.  Báða dagana byrjaði ég samt á því að tína upp fáein stykki af gólfinu.  Í morgun vaknaði ég reyndar óþarflega snemma og þar sem ég hafði smá tíma dreif ég mig út í göngutúr og skoðaði m.a. stone of setter og Vinquoy tomb.  Stone of setter er einn af þessum steinum sem hafa verið reistir hingað og þangað um Orkneyjar.  Þjóðsagan segir að Óðalsbóndi einn hafi ákveðið að reisa steininn og lét því grafa holu til þess að láta steininn standa í. Bóndinn og menn hans náðu að koma öðrum enda steinsins fram yfir brúnina en hann var of þungur til þess að þeir næðu að koma honum alla leið.  Óðalsbóndinn brá þá á það ráð að kalla á kerlingu sína og fékk hana til þess að setjast á endann sem stóð út af brúninni og hossa sér og hún var nógu þung til þess að steinninn reis upp á rönd en svo óheppilega vildi til að kerlingin lenti undir steininum og dó.  Mönnunum fannst ekki taka því að reyna að ná henni undan steininum og létu hana því eiga sig þannig að e.t.v. eru bein hennar grafin þarna undir.  Vinakví (Vinquoy tomb) er 4000 ára gamalt byrgi hlaðið úr grjóti og tyrft yfir.  til þess að komast inn í byrgið þarf að skríða í gegnum þröng göng og þar inni kemur í ljós rými með fjórum útskotum sem einhvern tímann hefur verið mannabústaður.

DSC_0251 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stone of Setter, Rauðhöfði (Red head) í baksýn.

Nú er kominn háttatími hér, voðalega klæjar mig á framhandleggnum, klæjar þig líka?


Hull

Í fyrradag var ég sendur til Hull til þess að fara yfir fáein atriði með bátasmiðum sem eru þar að smíða hraðbát fyrir stöðina okkar.  Um er að ræða fyrirtækið Seahorse Marine og er þeir að smíða bát úr PE plaströrum og plastplötum, 9 metra langan, 3 metra breiðan, með díselvél og jet drifi, yfirbyggðan með sætum fyrir 8 manns, hámarkshraði rúmlega 30 sjómílur á 60mín.  Smíðin gengur vonum framar og reiknað er með að báturinn verið tilbúinn fyrir næstu mánaðamót. 

Hull, þessi gamalgróna hafnarborg, kom mér á óvart.  Ég bjóst við meiri iðnaðarborg en þar býr líka fólk.  250.000 stykki.  Hull er í austur Jórvíkurskíri og sendur við Humber sem er flói sem gengur inn í austanvert mið England.  Hluti af borginni er undir sjávarmáli og þar eru flóðavarnir, svokallaðar hafnarlokur (hljómar eins og skyndibiti)sem verja heimili um 10000 manns fyrir sjávarföllum og flóðum.  Í borginni er lítið um gamlar byggingar af því að Hull varð verst úti allra borga í Englandi í síðari heimsstyrjöldinni en um 95% allra húsa í Hull voru jöfnuð við jörðu.  Í Hull ríkti velmegun fram eftir síðust öld en eftir þorskastríðið milli Englendinga og Íslendinga varð efnahagsleg hnignun í borginni, svokölluð kreppa, en nú hefur hún náð sér á strik aftur þó að nú sé ekki einn einasti fiskmarkaður þar og engin útgerð.  Þeir eru líka ófáir íslensku sjómennirnir sem hafa farið í siglingu til Hull, komist í kynni við innfædda og komið heim með litasjónvörp eða önnur heimilistæki og varning sem var erfitt að fá á Íslandi eða var of dýr þar.  Ég varð aldrei svo frægur að komast í siglingu.  eitt helsta kennileiti borgarinnar er brúin yfir Humber en byggingu hennar lauk árið 1982 og var hún á þeim tíma stærsta hengibrú í heimi, 155m há og 2,2 km löng, stórfenglegt mannvirki.  Í Bretlandi eru eins og flestir vita hinir frægu rauðu símaklefar.  En ekki í Hull.  Þar eru þeir hvítir af því að Hullverjar eiga og reka sitt eigið símafyrirtæki og geta því ráðið litnum á símaklefunum.  Ég er reyndar alveg gáttaður á öllum þessum símaklefum hér á Bretlandseyjum.  Þeir eru út um allt. Ég hefði haldið að allir væru komnir með lítinn sætan síma til að hafa í vasanum.  Ég man t.d. bara eftir einum símaklefa á Íslandi og hann er á Egilsstöðum.

Humber (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

Ekið yfir brúna.

Hull (Large)

 

 

 

 

 

Úr Hótelglugganum.

Í Hullborg gisti ég á hóteli og það er stundum svolítið sérstakt að gista á hóteli.  T.d. er á herbergjunum hægt að hita sér kaffi eða te, strauja, og svo er biblía og stundum nál og tvinni.  Auðvitað sest maður niður og les í biblíunni og saumar á meðan maður sötrar teið í nýstraujuðu buxunum sem maður er búinn að hafa áhyggjur af allt ferðalagið að séu óstraujaðar.  Já og auðvitað með nýblásið hárið.  Eins og Eyjólfur Kristjánsson var í denn.

Ekki náði ég að skoða eða gera mikið í Hullbæ en þó var bátasmiðurinn svo vinsamlegur að bjóða mér á veitingastað í miðbæ Hull.  Veitingastaður þessi heitir Wings og er einn af þeim betri sem ég hef farið á um ævina.  Þar eru hlaðborð. Ítalskt hlaðborð, Indverskt hlaðborð, Kínverskt hlaðborð, tælenskt hlaðborð, japanskt hlaðborð, breskt hlaðborð, eftirréttahlaðborð og aukaréttahlaðborð, allt hólfað niður þannig að einkenni hvers og eins nær að halda sér og maturinn var unaðslega góður.  Þarna er hægt að velja á milli um 150 rétta en ég náði ekki að smakka "nema" svona 10 og ég var líka saddur fram að hádegi í dag.

Sólsetur norðan við Newcastle (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sólsetur norðan við Newcastle.

 

 

 


Páskar

Hér er páskastemmingin í algleymingi.  Fjölskyldan er í mörghundruð kílómetra fjarlægð og hvað gerir þá einbúinn til þess að gera páskana hátíðlega?  Jú, hann fer í messu, ekki aðeins hátíðleikans vegna heldur líka af því að hann er forvitinn um siði innfæddra.  Klukkan 11:15 hófst páskamessa í St Magnus Cathedral, sem er hrein listasmíð, sérstaklega ef haft er í huga að arkitektar og verkfræðingar fyrir 900 árum höfðu ekki Autocad eða annan tæknibúnað sem hönnuðir nútímans nota. 

st magnus (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athöfnin byrjaði á því að prédikarinn og kórinn komu sér fyrir aftast í kirkjunni, prédikarinn sagði fáein orð og kórinn hóf upp söng og á meðan kórinn söng sálminn gekk öll hersingin inn kirkjugólfið og kom sér fyrir aftan við altarið ásamt prédikaranum.  Prédikarinn var ekki í hempu eða öðrum prestsklæðum, þess í stað var hann þjóðlega klæddur í skotapilsi og viðeigandi jakka og hátíðarklæðum og auðvitað talaði hann með sterkum skoskum hreim.  Á bekknum hinum megin við ganginn sátu eldri hjón og þegar u.þ.b. sex mínútur voru liðnar af athöfninni var maðurinn steinsofnaður.  Athöfnin var framan af nokkuð svipuð þeim athöfnum sem við þekkjum á Íslandi, prédikarinn renndi sér í gegnum nokkrar bænir og ritningarvers ásamt því að ítreka boðskap kristninnar að við ættum að vera góð hvert við annað og reyna eftir fremsta megni að vera góðar manneskjur.   Svo í miðri athöfn voru allir látnir standa upp og heilsa þeim sem voru nálægt og óska þeim velfarnaðar í lífinu.  Maðurinn sem hafði fram að þessu sofið vært spratt á fætur, ruddi konu sinni til hliðar svo að hann gæti tekið í höndina á mér og óskað mér alls hins besta.  Honum hefur án efa fundist ég líta út fyrir að þurfa á hvatningu og góðum straumum að halda.  Að þessu var ekki gengið til altaris og ekki þjónað fyrir altari, heldur gengið frá altari.  Hópur fólks tók að sér að útdeila brauði og messuvíni til kirkjugesta.  Fyrst kom brauðið sem var alvöru heimabakað brauð, ekki pappabrauð eins og heima á klakanum.  Svo kom vínið og ég tók stóran sopa, enda þyrstur eftir morgunskokkið, ég kunni samt ekki við að biðja um meira.  Að athöfn lokinni var svo boðið upp á súpu og brauð og allir fengu þrjár páskaliljur með sér heim og mínar standa nú í notaðri Mango Chutney krukku í eldhúsinu og svei mér þá ef páskadagur er ekki bara örlítið hátíðlegri en aðrir dagar hér. 

Páskasteikin var svo elduð síðdegis og að sjálfsögðu varð lambalæri fyrir valinu, því miður ekki íslenskt, ekki einu sinni Orkneyskt, heldur Nýsjálenskt af því að það var svo ódýrt. Það jafnast auðvitað ekkert á við íslenska lambakjötið og vonandi fara menn ekki að taka upp á þeirri vitleysu að flytja lambakjöt til Íslands alla leið frá Nýja-Sjálandi.  Mjöðurinn sem var notaður til að skola steikinni niður með var hins vegar góður, bruggaður hér á Orkneyjum og heitir Hrafnaöl (Raven ale).  Gleðilega páska öll sömul.


Skarphéðinsey og Borgarnes

Þá er komið páskafrí hér, en páskafríið er á morgun.  Skotarnir virðast ekki taka páskana of hátíðlega, hér er allt opið alla helgina, skírdagur er venjulegur dagur og svo má reikna með vinnu á páskadag og annan í páskum.  1. apríl fór líka alveg framhjá þeim. Vikan hefur einna helst einkennst af sllappleika vegna flensu sem nú virðist vera á undanhaldi en nú lekur hor út um nasir og eyru.  Ég hef allavega ákveðið að segja skilið við slappleika og vera frekar æðislegur.

Það bar helst til tíðinda í vinnunni að ég heimsótti Skarphéðinsey (Shapinsay)á mánudag til þess að leita að hentugri lendingu fyrir lítinn bát í fjörunni á norðurhluta eyjarinnar.  Lendingin fyrirfinnst ekki þar en ég þyrfti að skjótast aftur þangað yfir með hjólið í góðu veðri til þess að skoða mig betur um, t.d. heimsækja Balfour kastala og prófa pöbbinn sem er staðsettur í kastalahliðinu.

DSC_0172 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Pöbbinn í kastalahliðinu á Skarphéðinsey.

 

Eftir vinnu í dag fór ég upp í Borgarnes (Broch of Gurness) en þar er gamalt (það segir sig nú sennilega sjálft) Víkingaþorp.  Þorpið fannst fyrir tilviljun þegar einhver dúddi var að þvælast þarna með teiknidót og stól og var að teikna, en þegar einn stólfóturinn sökk á bólakaf í jörðina stóð hann upp og bölvaði en fór svo að kanna hverju þetta sætti og fann þá heilt víkingaþorp þarna undir.  Þá hefur hann væntanlega bölvað aftur.  Þorpið samanstendur af stórum turni og fullt af smábyggingum þar í kring.  Það er reyndar talið að þarna hafi verið byggð áður en víkingarnir komu allt frá því 500 BC.  Já, hérna á eyjunum sem kenndar eru við seli er mikið af fornminjum sem margar hverjar hafa fundist fyrir tilviljun (væntanlega með tilheyrandi bölvi) og enn eru menn að finna fornar minjar hér.

Broch of Gurness IV (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Broch of Gurness V (Large)


Snakk

Bretar eru agalega miklar snakkætur. Hér er litið á snakk sem mat.  Hér er skólabörnum gefið snakk í nesti. Hér er snakk til sölu í skólum.  Hér taka menn snakk með sér í nesti í vinnuna.  Það er líka mikið úrval af allskonar brögðum og þess vegna tók ég það að mér að gera örlitla könnun á þessum brögðum en passaði mig þó að gæta hófs í neyslu, heilsunnar vegna. Í úrtakinu voru 7 tegundir, hver annarri furðulegri.

Fyrst ber að nefna þjóðlegt skoskt snakk, kartöfluflögur með haggis og pipar.  Það bragðaðist merkilega vel, sennilega best af þeim tegundum sem könnunin náði til.  Ef við yfirfærum þetta til Íslands mætti e.t.v. hefja framleiðslu á kartöfluflögum með blóðmörs og piparbragði, það myndi án efa slá í gegn.

20150319_201222 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næsta viðfangsefni var snakk, ekki úr kartöflum, heldur rauðrófum, sætum kartöflum og nípum. Sem sagt rófu eða rótarsnakk. Nípur eru aflangar hvítar rætur sem eru í boði allstaðar hér þar sem grænmeti er til sölu.  Þetta var alls ekki vont en svo sem ekkert gott heldur, bara svona lala.  Ég er samt viss um að rófusnakkið frá Karlsstöðum verður frábært.  En af hverju eru ekki til nípur á Íslandi og af hverju eru ekki ræktaðar rauðrófur á Íslandi?

20150328_142216 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En áfram með snakkið, næst í röðinni var snakk með villibráðar og trönuberjabragði.  Það var ekki slæmt en bragðaðist eins og snakk með salti og pipar.  Kartöfluflögur með hreindýra og bláberjabragði væri góður mótleikur hjá Íslendingum.

20150328_142236 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hefði ekki getað ímyndað mér að snakk með rækjubragði væri gott en það er mesta furða, kannski næst best snakkið af þeim tegundum sem í úrtakinu voru, enda stórir snakkframleiðendur á borð við Walkers (a.k.a. Lays) og Pringles sem framleiða snakk með rækjubragði. Harðfiskurinn er auðvitað sjávarréttasnakk okkar Íslendinga, besta snakk í heimi, en ef kartöfluflögur með skötubragði eða signum fiski væri í boði væri það vel þess virði að prófa.

20150401_152813 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kartöfluflögur með sultuðum lauk og ediki eru alveg ágætar en ef edik er ekki í uppáhaldi fellur þessi tegund ekki í kramið.  Þetta heitir meira að segja "Óneitanlega sultaður laukur og ekta breskt edik", af hverju veit ég ekki.  Ef íslenskt systkin þessarar tegundar væri til þyrfti það að vera eitthvað niðursoðið og þá er nú fátt þjóðlegra en ORA grænar baunir  "Óneitanlega ORA grænar baunir" stæði þá utan á pokanum. Hljómar vel.

20150401_152800 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í könnuninni var líka prófað snakk með tómatsósubragði, ekki náðist mynd af því af því að það kláraðist svo hratt en það var samt ekkert mjög gott, bara eins og venjulegt snakk með tómatsósu ef þið viljið prófa sjálf.

Það sem kom verst út úr þessari hávísindalegur könnun var ekki kartöfluflögur, heldur poppkorn með ediki.  Já poppkorn með ediki.  Það var ekki gott, allt of mikið edik sem varð til þess að ég svitnaði á enninu og táraðist (eða þá að svitinn lak niður í augu eða hvort tveggja).

20150327_165324 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það eru svo sem fleiri furðulegar snakktegundir hér en ég ákvað að láta þetta duga.  Það er samt greinilegt að möguleikar í snakkgerð eru óþrjótandi og engin takmörk nema þau sem hugmyndaflugið setur.


Fundir og flensa

Það fór eins og mig grunaði, ég varð flensunni að bráð.  Um miðja viku var ég með stór plön um að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt um helgina en eftir að flensa gerði vart við sig ákvað ég að gera eitthvað óspennandi og óskemmtilegt.  Allavega í dag.  Aðallega samt að taka því rólega og safna kröftum til þess að verða orðinn góður á mánudag.  Á morgun (sunnudag) er ég ekki alveg viss klukkan hvað ég ætti að vakna en hér verður klukkunni flýtt um eina klukkustund á miðnætti.  Það er víst alltaf gert síðasta sunnudag í mars og það verður án efa athyglisvert en heima á Íslandi hefur verið umræða um að taka upp þennan sið, eða ósið, eftir því hvaða skoðun menn hafa á þessu.  Hér eru reyndar skiptar skoðanir um þetta líka en ég skal taka að mér að kanna af eigin raun hvort þetta sé betra eða verra fyrirkomulag, læt ykkur svo vita og þá þarf ekki að rífast meira um þetta.

Síðastliðinn miðvikudag var árlegur fundur hjá Umhverfisvinnuhóp SSF hér á Orkneyjum en þar fara stöðvarstjórar, svæðisstjóri, heilbrigðismálastjóri og umhverfismálastjóri yfir allt sem máli skiptir í umhverfismálum.  Í gær var svo stöðvarstjórafundur þar sem verið var að yfirfara fjárhagsáætlanir og uppgjör, þar var samt ekki rætt um krónur og aura.  Bara pund og pens.

Næsta vika fer væntanlega að mestu leiti í undirbúning fyrir seiðamóttöku en nú er sá árstími að renna upp hér um slóðir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband