Færsluflokkur: Bloggar
22.6.2015 | 15:57
Myndasýning
Á eyju einni langt langt í burtu, þar sem vindurinn blæs stanslaust, má finna einn Íslending meðal innfæddra. Hann hefur dvalist þar í tæpa sex mánuði við leik og störf ásamt því að taka ljósmyndir og semja tónlist. Af því tilefni er við hæfi að sýna myndskeið með ljósmyndum sem hann hefur tekið á ferðalögum sínum og undir hljómar tónlist eftir hann sjálfan en textinn er innblásinn af gamalli þjóðsögu. Sjálfsagt á hann eftir að sjá eftir því að hafa látið þetta fara svona út á óravíddir internetsins, enda upptökuaðstæður frumstæðar, en kannski hlær hann bara að því seinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2015 | 20:04
Hrólfsey
í gær tók ég ferjuna yfir til Hrólfseyjar (Rousay) og með í för var reiðhjólið mitt sem ég hef notað allt of lítið hér sökum stöðugs mótvindar, en í gær viðraði ágætlega til hjólreiða. Hrólfsey er hentug til hjólreiða að því leit að hringvegur er meðfram strönd eyjarinnar, um 23 km að lengd með hæðum og hólum. Rúmlega 200 manns búa á eyjunni, flestir bændur, en ég hafði ekki hjólað lengi þegar sauðfé á beit og reykur úr reykháfum mætti mér. Það er ekki góð blanda fyrir íslenskan hjólreiðamann af því að upp frá þessu komst aðeins eitt að hjá mér. Hangikjöt. til þess að dreifa huganum stoppaði ég við Miðhof (Midhowe) en þar er að finna stórmerkilegar fonminjar, 2000 ára gamalt grafhýsi og mannabústaður auk minja frá víkingaöld og miðöldum. Hrólfsey þykir einmitt afskaplega merkileg vegna fjölbreytni í fornminjum. Að skoðun lokinni hélt ég áfram að hugsa um hangikjöt og settist á hjólið og kláraði hringinn og tók fáeinar myndir. Afar hressandi í alla staði.
2000 ára gamal mannabústaður við Miðhof.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2015 | 21:35
Fiskur
Hér á Orkneyjum er það ekki tekið út með sældinni að fá góðan fisk í soðið en fiskveiðar eru ekki stór atvinnugrein hér eins og margir gætu samt haldið. Hér er það landbúnaðurinn sem gildir. Hér eru engir línu eða netabátar og ég hef ekki enn séð skuttogara hér en mér skilst samt að það séu skráðir þrír togarar hér, þeir landa bara alltaf annarsstaðar, til að mynda á Hjaltlandseyjum eða í Péturshöfða (Peterhead). Einu skiptin sem þeir eru í heimahöfn er á jólunum og eins og okkur finnst jólalegt að fá jólasnjó, þá finnst Orkneyingum jólin vera komin þegar togararnir þrír eru komnir í höfn og búnir að draga upp jólaseríurnar. Smábátaúterð er stunduð að einhverju marki hér en helst eru það bátar sem einn eða tveir eru á og flestir stunda þeir veiðar á krabba eða humri með þar til gerðum gildrum, nú eða þá að þeir reyna við makrílinn. Þeim fer þó fækkandi þar sem þetta er erfið vinna og lítið upp úr þessu að hafa.
Engin fiskvinnsla er á eyjunum en mér skilst að áður fyrr hafi verið unninn fiskur hér og m.a. var síld söltuð á Sandey. Fiskveiðar voru líka stundaðar í meira mæli hér áður fyrr en fiskistofnar hér við eyjarnar og Skotland hrundu eftir að Evrópusambandsbátum var hleypt inn í lögsöguna. Skoskum sjómönnum var bannað að veiða smáfisk en veiðar Spánverja, Frakka og Þjóðverja voru óheftar og skotarnir horfðu á þá sjúga upp úr sjónum allan þann fisk sem hægt var án tillits til stærðar eða tegundar. Skoskir sjómenn hafa ekki fyrirgefið þetta ennþá.
Hér kostar fiskur mikið út úr búð og það þýðir ekkert að rölta niður á bryggju og betla einn og einn fisk af sjómönnunum af því að hér er nánast engin veiði eins og áður sagði. Í Teco kosta fersk flök 3200 kr/kg roðlaust og beinlaust. Frosnir Ýsu og Þorskbitar eru heldur ódýrari eða 1700 kr/kg og svo er hægt að fá frosna Alaskaufsabita á 800 kr/kg, veiddir í Norðursjó og pakkað í Póllandi. Auðvitað fannst mér þetta kjarakaup til þess að nota í íslenska plokkfiskinn en nískan borgar sig ekki alltaf. reiðarslagið dundi yfir þegar ég var búinn að þíða bitana upp, þá var lyktin af þeim svo hroðaleg að ég hafði enga lyst á að elda þá og þar sem ekki var snúið aftur með plokkfiskinn fór ég og keypti fersk flök það dýrasta sem var í boði. Sennilega er ég ekki alvöru nískupúki af því að alvöru nískupúki hefði látið sig hafa það að elda ónýta fiskinn. Fyrir þann sem er alinn upp í sjávarþorpi á Íslandi þar sem alltaf er hægt að nálgast glænýjan fisk og mikil áhersla er lögð á gæði við veiðar og vinnslu þá kemur það flatt upp á sjávarþorparann að ónýtur fiskur skuli vera á boðstólum á sjálfum Orkneyjum. Já nískan var mér dýrkeypt í þetta skiptið. Ég sé ennþá eftir þessum pening.
Nú horfir samt allt til betri vegar með þetta af því að ég er búinn að komast í samband við tvo Orkneyinga sem eru nýlega búnir að kaupa sér bát og eru að prófa sig áfram með veiðar og þeir ætla að gauka að mér fiski öðru hvoru en þeir reikna með að veiða bæði þorsk og ýsu.
Hér er reyndar líka hægt að fá saltfisk og marineraða síld, ég veit ekki hvaðan það fiskmeti kemur en mig grunar að Norðmenn hafi náð að pranga þessu inn á sklausa Orkneyingana. Norðmenn geta nefnilega verið ansi slóttugir þegar kemur að viðskiptum með fisk. Um er að ræða saltaðan þorsk, saltaða löngu,saltaðan ufsa, og saltaða ýsu og þetta kostar skildinginn eða um 3200 kr/kg óútvatnað.
Já og í síðustu viku áskotnaðist mér pakki af harðfiski þegar einn af starfsmönnum SSF kom úr ferðalagi frá Noregi og hafði gripið þetta með sér vitandi að ég er Íslendingur en við Íslendingar erum einna frægastir hér á Orkneyjum fyrir furðulegheit þegar kemur að matvælum. Pakkinn innihélt sumsé norskan harðfisk, framleiddan á Íslandi og án nokkurs vara er þetta besti fiskur sem ég hef smakkað eftir að ég kom hingað til eyjanna skosku og það þrátt fyrir að ég hafi hugsað allan tímann að nú væru norðmenn að reyna að gera íslenska harðfiskinn að sínum. Ég bauð nokkrum vinnufélaganna að smakka en þeim bauð við lyktinni og treystu sér ekki í smakk sem betur fer þannig að ég sat einn að þessu góðgæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2015 | 06:44
Hin dularfulla dys á Kolviðarhóli
Á sunnudagskvöld fékk ég mér göngutúr upp að dysinni á Kolviðarhóli (Cuween hill cairn) en þar er um að ræða 5000 ára gamalt grafhýsi sem stendur á hæð einni stutt frá Finnsbæ sem er um 10 km frá Kirkjuvogi. Til þess að komast inn í grafhýsið þarf að ganga upp stíg sem liggur frá veginum, þar til komið er að girðingu og hliði. Innan girðingarinnar eru tvö upplýsingaskilti og lítill trékassi með með vasaljósi sem gestir geta tekið með sér inn í grafhýsið. Grafhýsið sjálft er hlaðið úr grjóti og tyrft yfir þannig að úr fjarlægð lítur þetta út eins og hóll. Inngangurinn í grafhýsið er þannig að maður þarf að skríða í gegn um þröng göng þar til inn í hvelfinguna er komið en of lágt er til lofts í göngunum til þess að hægt sé að skríða á fjórum fótum, inn af hvelfingunni eru svo fjórir smærri klefar. Talið er að grafhýsið hafi verið notað til þess að jarðsetja ábúendur svæðisins en hvernig það var nákvæmlega notað er ekki að fullu ljóst. Grafhýsið fannst fyrir rúmum eitthundrað árum síðan og þar fundust líkamsleifar a.m.k. átta manns auk 24 hundahauskúpna og annarra dýrabeina. Þegar grafhýsið var uppgötvað hafði því verið lokað vel og vandlega utan frá sem þykir benda til þess að e.t.v. hafi það ekki verið í stöðugri notkun. Nokkur önnur álíka grafhýsi eru hér á Orkneyjum, allavega veit ég um ein þrjú önnur þannig að þetta er enn ein fornminjin, eða fornleifin.
Annars er það að frétta úr vinnunni að við erum enn að koma kvíum fyrir, sterkir straumar og vindur eru helst að tefja okkur nú þessa dagana en þetta myndband sýnir kannski hvernig straumarnir eru þarna. Þetta er tók ég við höfnina á Sandey þar sem straumurinn þykir lítill, sérstaklega núna þar sem er smástreymt, en í augum Íslendings er þetta eins og stórfljót.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2015 | 18:37
Sunnudagspistill
Góðan dag. Fyrri hluti vikunnar hér var afskaplega rólegur, lítið að gera í vinnunni og lítið við að vera utan vinnu. Svona stundir leiða það af sér að maður fer að hafa meiri tíma til að hugsa heim og sakna þeirra sem þar eru. Seinni hluta vikunnar rættist svo úr þegar meira varð að gera og meira að segja það mikið að helgarvinna var óumflýjanleg. Það varð til þess að ég gat ekki mætt til keppni í hálfmaraþoni á Háey (Hoy) í dag en ég skráði mig til leiks í hlaupið í febrúar í þeirri von að ég yrði í fríi þessa helgi. Ég er því búinn að hlaupa eins og andskotinn síðan þá til þess að koma mér í form fyrir stóra daginn. Það tókst, ég hefði léttilega klárað mig af hálfu maraþoni en nú virðast öll þessi hlaup til sinskis þar sem ég gat ekki mætt til leiks. Nei, nei ekki alveg til einskis, ég er allavega í ágætis hlaupaformi og hver veit nema að maður finni annað hlaup einhversstaðar til þess að taka þátt í í staðinn.
Ég náði að sjá síðari hálfleikinn í leik Íslands og Tékklands en hann var sýndur hér á einni af Sky rásunum og mikið var nú ánægjulegt að sjá Íslendingana tylla sér á topp riðilsins. Ég náði líka seinni hálfeik í leik Írlands og Skotlands og það var ágætis leikur líka, sérstaklega fyrir þær sakir að þar var hart barist og spilað með hjartanu, menn féllu ekki í grasið við litla eða enga snertingu líkt og Suarez og Neymar og þegar menn voru tæklaðir þá stóðu menn strax upp og héldu leik áfram í stað þess að gera sér upp meiðsli. Alveg til fyrirmyndar, svona eiga knattspyrnumenn að vera.
Veðrið hér er búið að vera alveg ágætt, sólskin og hiti 10 - 13°C og að sjálfsögður vindur, sem sagt góðir dagar, eða eins og við Skotar segjum gjarnan "bonnie days".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2015 | 17:42
HMS Hampshire, Marvíkurhöfði, Viský.
Við fyrstu sýn virðist lífið hér á Orkneyjum vera stórfenglegt, viðburðaríkt og merkilegt og jú það verður að viðurkennast að eitt og annað drífur á dagana hér þó að ekkert jafnist nú á við austfirði. Þar sem við höfðum farið með hraðbátinn okkar yfir í Scapa, þurfti að koma honum til baka til Kirkjuvogs á þriðjudag og nú ákváðum við að fara vestur fyrir Orkneyjar, sú leið er álíka löng og býður upp á skemmtilegra útsýni og leiðinlegra sjólag. Í þessari ferð sigldum við yfir aðra vota gröf en vestan við Marvíkurhöfða liggur flak HMS Hampshire á hafsbotni og mér finnst saga þess stórmerkileg eins og margra annarra herskipa sem sukku hér í kring á síðustu öld.
Byrgishöfði, Marvíkurhöfði fjær.
HMS Hampshire var breskt herskip smíðað árið 1909 og gegndi stóru hlutverki í heimsstyrjöldinni fyrri en í gær voru liðin 99 ár frá því að skipið sökk. Skipið lagði af stað frá Scapa flóa þann 5. júní klukkan 16:45 áleiðis til Archangelsk ásamt tveimur fylgdarskipum. Um borð var stríðsmálaráðherrann Kitchener Marskálkur sem ætlaði til fundar við rússneska ráðamenn. Eftir um klukkutíma siglingu fór veðrið að versna og var ákveðið að snúa fylgdarskipunum við þar sem þau héldu ekki í við HMS Hampshire þar sem það sigldi upp í norðvestan storminn enda þótti ekki líklegt að kafbátar myndu láta til skarar skríða í þessu veðri. klukkan 19:40 þegar skipið var statt u.þ.b. 1,5 sjómílu frá landi, milli Byrgishöfða og Marvíkurhöfða, varð sprenging. skipið hafði rekist á tundurdufl, stórt gat kom á síðuna stjórnborðsmegin. Skipverjar reyndu að láta björgunarbátana síga í sjóinn en þeir brotnuðu á skipshliðinni í óveðrinu. Skipið sökk á 15 mínútum og af þeim 662 sem um borð voru björguðust aðeins 12.
Ýmislegt fleira höfum við verið að stússast í vikunni, fórum m.a. upp á eiðey til þess að draga kvíar og svo var COSHH námskeið ein það er námskeið í meðferð efna sem geta verið hættuleg heilsu manna (Control of Substances Hazardous to Health).
Í dag fór ég svo í göngutúr upp á fyrrnefndar Marvíkurhöfða og það verður að segjast eins og er að útsýnir er gott og björgin eru tilkomumikil þar sem þau rísa tugi metra úr sjó. Þar svífa allrahanda sjófuglar um loftin og efst uppi á höfðanum er minnisvarði, 12 metra hár turn, um Kitchener marskálk.
Marvíkurhöfði.
Að gönguferðinni lokinni heimsótti ég svo nágranna mína í Highland Park en það er önnur af tveimur Viskýverksmiðjum hér á Orkneyjum. Verksmiðjan er í göngufæri, nokkurhundruð metra frá heimili mínu, já það eru ekki allir sem eru með viskýverksmiðju í bakgarðinum. verksmiðjan hefur verið starfrækt frá árinu 1798 og þeir telja sig framleiða besta Viský í heimi og styðja það með þeim rökum að þeir hafi fengið fjölda verðlauna auk þess sem segjast vera smekkmenn og að þeir hafi sjálfir ekki bragðað betra Viský. Boðið var upp á skoðunarferð um verksmiðjuna og að henni lokinni var boðið upp á smakk. Þeir hafa jú nokkuð til síns máls, viskýið þeirra er alls ekki svo slæmt, eiginlega afbragðsgott bara.
Viskýtunnur í Highland Park
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2015 | 10:17
Orkneyingar - persónuvernd
Orkneyingar eru hið ágætasta fólk. Dæmigerður Orkneyingur er kurteis, vingjarnlegur, ófríður, vinnusamur, drekkur te og á hund. Þeir eru löghlýðnir, hér þarf fólk ekki að hafa áhyggjur þó að húsið sé skilið eftir ólæst eða lyklarnir skildir eftir í bílnum.
Kannski hefur það eitthvað að segja með þessa almennu löghlýðni að nöfn fólks sem brýtur af sér eru birt í staðarblaðinu sem gefið er út á hverjum fimmtudegi. Dæmi: Réttað verður yfir manni sem sakaður er um að hafa ógnað og veist að lögregluþjóni. Hinn fjörutíu og tveggja ára Kristófer Kelly, til heimilis að Buttquoy Palace 4 í Kirkwall neitar því að hafa látið ósæmileg orð falla í garð lögregluþjóns sem og að hafa síendurtekið öskrað á hann og hótað honum og öðrum lögregluþjóni að heimili mannsins þann 26. febrúar síðastliðinn. Réttað verður yfir manninum þann 1. júlí.
Þetta finnst mér vera til fyrirmyndar og mætti taka upp á Íslandi. Þetta yrði eflaust mörgum víti til varnaðar en á Íslandi er allt of mikið pukur með svona, persónuverndin er tekin fram yfir almannahagsmuni. Það má ekki koma mynd í blöðunum af bíl sem lagt er ólöglega án þess að búið sé að þurrka út bílnúmerið. Auðvitað á frekar að láta bílnúmerið sjást og jafnvel birta nafn og heimilisfang þess sem brýtur lögin. Billy bátasmiður í Arklow vill jafnvel ganga svo langt í refsingum að þeir sem fremja alvarlega glæpi, s.s. kynferðisafbrotamenn og eiturlyfjasmyglarar, verði látnir sæta þeirri refsingu að útlimur verði fjarlægður af þeim og ef þeir halda áfram þá missi þeir fleiri útlimi þar til ekkert er eftir. Það ætti að kenna þeim lexíu. Kannski svolítið harkalegt en umhugsunar vert.
Hversu langt nær þessi svokallaða persónuvernd í raun? Ef maður fer inn á síðu einhvers fyrirtækis, booking.com kemur strax upp í hugann, þá gerist hið ótrúlega, að auglýsingar frá viðkomandi fyrirtæki fara í kjölfarið allt í einu að birtast á facebook. Ætti það að gerast ef persónuvernd myndi virka sem skyldi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2015 | 22:04
Roal Oak
Þessi vika er búin að vera skemmtileg og gefandi. Hraðbáturinn okkar, Cubbie Roo, hefur verið notaður óspart, m.a. til þess að fara norður til Sandeyjar og Vigurs. Í dag fórum við Erlendur, hinn hundtryggi aðstoðarmaður minn, í skemmtilegt ferðalag en við þurftum að sigla frá Kirkwall austur fyrir Orkneyjar suður í Pentilinn svokallaða, sem er sundið milli Skotlands og Orkneyja, um 6 mílna breitt og alræmt fyrir sterka hafstrauma. Þegar komið var suður fyrir Suður-Rögnvaldsey var sveigt til norðurs og til hafnar í Scapaflóa. Ástæðan fyrir þessu ferðalagi okkar var sú að forstjóri SSF ásamt skoskum þingmönnum á breska þinginu ætla að heimsækja okkur á mánudag og áætlað er að skoða fiskeldisstöðvar í Scapa flóa. Þó að aðeins séu um fjórir kílómetrar landleiðina á milli hafnarinnar í Kirkwall og hafnarinnar í Scapa er ekki hægt að sigla þarna á milli öðruvísi en að fara um 45 sjómílna leið (ca 80 km) og það tók okkur um tvær og hálfa klukkustund. Ekki er hægt að komast á milli eyjanna sunnan meginlandsins vegna hindrana sem Churchill setti upp í heimstyrjöldinni síðari til þess að takmarka aðgengi kafbáta að flóanum.
Á leiðinni mættum við hollensku skútunni Oosterschelde sem er þriggja mastra skúta, 50 metra löng en því miður var hún búin að fella seglin þegar við mættum henni. Hægt er að kaupa sér ferðir með henni, t.d. siglir hún til Grænhöfðaeyja um næstu jól ef einhver hefur áhuga. Spennandi er það. Skömmu áður en komið var til hafnar í Scapa ákváðum við að sigla yfir flak breska herskipsins Royal Oak sem var skotið niður af þýskum kafbát í heimsstyrjöldinni síðari og það var mjög sérstakt að sjá flakið birtast á dýptarmælinum þar sem það liggur á 30 m dýpi en efsti hluti flaksins nær upp á 5 m dýpi.
Saga Royal Oak er stórmerkileg og fyrir þá sem hafa áhuga er m.a.hægt að kynna sér hana á Wikipedia en í stórum dráttum er hún þannig að Royal Oak var eitt af stærstu herskipum breska sjóhersins í heimsstyrjöldinni síðari og í áhöfn voru hvorki fleiri né færri en 1.234 manns. Smiði skipsins lauk árið 1916, það var 189 m langt og 27 m breitt. Aðfaranótt 14. október 1939 náði þýskur kafbátur að lauma sér inn í Scapa flóa um mjótt og grunnt sund milli Lambhólma og meginlands Orkneyja. Kafbáturinn skaut fyrst einu skoti sem lenti á stefni skipsins án þess að valda skaða en hristi skipið og vakti áhöfnina sem taldi að sprenging hefði orðið í skotfærageymslu. Kafbáturinn sneri við og skaut aftur en hitti ekki. Í þriðja sinn skaut kafbáturinn þremur skotum sem öll hæfðu markið og Royal Oak sökk á u.þ.b. 15 mínútum. Af 1234 manna áhöfn týndu 833 manns lífi. Kafbáturinn náði að forða sér úr flóanum sömu leið og hann kom og Churchill ákvað í framhaldinu að byggja kafbátahindranir milli nokkurra eyja í flóanum. Flak Royal Oak er friðað og minningarathöfn er haldin á hverju ári en enn þann dag í dag má sjá olíu stíga upp frá skipinu.
Kolbeinsey
Mylluhöfði
Skotbyrgi við Hoxa. Þaðan var skotið á skip og báta Þjóðverja ef þau reyndu að komast inn í Scapa flóa í heimsstyrjöldinni síðari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2015 | 12:20
Neikvæðni og nöldur vs jákvæðni og hamingja.
Nú eru að verða liðnir fimm mánuðir frá því að ég tók skrefi stóra, að yfirgefa Íslandið góða, yfirgef minn kæra heimabæ og mína vini og vandamenn og ég tala nú ekki um fjölskyldu, til þess að dveljast meðal Skota á Orkneyjum. Ekki var þetta gert til þess að flýja Ísland og finna betra líf og grænna gras annarsstaðar, heldur einvörðungu til þess að öðlast meiri reynslu og þekkingu í fiskeldi og jú kannski lífinu almennt.
Eftir að ég kom hingað út hef ég, auk þess að læra helling, fylgst með fréttum á netinu sem er mögnuð lífsreynsla. Það er eftirtektarvert hvað íslenskt samfélag er gegnsýrt af neikvæðni og nöldri, eitthvað sem ég tók ekki eftir þegar ég var á Íslandi, kannski vegna þess að fólk í mínum heimabæ og vinir og kunningjar fylgja ekki norminu og er þess í stað jákvætt og skemmtilegt. Kannski er það líka hinn háværi minnihluti sem skrifar fréttirnar og kommentar á þær og póstar þeim á samfélagsmiðla. Er ég kannski sjálfur orðinn neikvæður af því að ég er að nöldra yfir þessu? Fólk er mjög gjarnt á að nöldra yfir pólitík, fólk lætur pólitík fara í taugarnar á sér en hefur ekki pólitík alltaf verið þannig að hún veldur manni vonbrigðum? Ég man allavega ekki eftir öðru. Það sem hefur kannski breyst síðustu ár er að flestir stjórnmálamenn, sama hvaða flokki þeir tilheyra, virðast skv fjölmiðlum eyða mestu af sínum tíma í að moka skít yfir hvern annan í stað þess að vinna vinnuna sína sem er að sjálfsögðu að gera eitthvað gagn fyrir land og þjóð. Enginn ætti að láta pólitík eða neikvæða umræðu stjórna lífi sínu.
Ég er farinn að taka minna og minna mark á fjölmiðlum, það gerir engum gott að láta mata sig af neikvæðni og nöldri. Jákvæðni og gleði er það sem allir þurfa á að halda. Ég vildi óska að allir myndu vakna með það hugarfar að reyna sitt besta til þess að gera sérhvern dag að fullkomnum degi fyrir sjálfa sig og þá sem eru í kringum mann. Til dæmis var ég núna að enda við að gæða mér á heimabökuðu rúgbrauði með kæfu, sem er frábært, og nú fæ ég að fara í vinnuna og hitta allskonar fólk og leysa allskonar verkefni, með bros á vör. Eftir vinnu ætla ég svo að fara út og skokka nokkra kílómetra og í lok dags mun ég fara að sofa ánægður með daginn. Takk fyrir allt, góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2015 | 00:13
Orkney Folk festival
Hér hefur allt iðað af lífi síðustu daga en á fimmtudaginn hófst hér á Orkneyjum þjóðlagahátíð (Orkney Folk Festival) og stendur hún fram á sunnudag. Hátíðin samanstendur af 32 tónleikum og á þeim koma fram 54 hljómsveitir eða tónlistarmenn.
Sekkjapípusveit í Straumnesi.
Ég lét verða af því að fara á eina tónleika og keyrði suður í Hólm þar sem fjórar þjóðlagahljómsveitir komu fram. Ég vissi svo sem ekki alveg við hverju ég átti að búast þar sem á auglýsingunni stóð "Ceilidh and dance". Það var bara ein leið til þess að komast að því. Kíkja í orðabók. Ég fór sumsé þangað suðreftir en tónleikarnir og dansleikurinn voru haldin í Félagsheimili staðarins, sem var eiginlega alveg eins og alíslenskt félagheimili, eins og tildæmis Félagslundur. Borðum var raðað meðfram veggjum, stólar sitt hvoru megin en pláss skilið eftir á miðju gólfi fyrir dansþyrsta. Hljómsveitirnar sem stigu á svið spiluðu allar skoska þjóðlagatónlist, sem er ekki ósvipuð írskri þjóðlagatónlist en stór hluti af lögunum sem flutt voru atti rætur á Orkneyjum eða Hjaltlandseyjum og fiðlan var í aðalhlutverki í öllum tilfellum. Hún virðist gegna svipuðu hlutverki hér um slóðir og harmónikkan gerði á Íslandi á síðustu öld.
Ég hafði ekki setið lengi þegar tvær rosknar konur hlömmuðu sér við hliðina á mér og gerðust ræðnar mjög og spurðu um heima og geima. Kannski hefur Ginið og Tónikið sem rann ljúflega niður kverkar þeirra losað um málbeinið og þær vildu endilega fá mig til þess að þiggja hjá sér gin og tónik en ég stóðst freistinguna og afþakkaði. Fyrsta hljómsveitin hét (Með því að smella á nafnið á hljómsveitunum ætti að spretta upp tóndæmi) Hullion og var skipuð heimafólki, næst steig á svið hljómsveitin Haltadans frá Hjaltlandseyjum. Þá var gert hlé á tónleikum og dregið í happadrætti tónleikagesta en um tíu vinningar voru í boði. Sessunautar mínir, ginsysturnar hrepptu tvo vinninga og voru alveg himinlifandi með þetta happakvöld. Að loknu happadrætti stigu á svið Orkneysku systurnar Wrigley sisters og að lokum norsk, sænsk, hjaltlandseyska fiðlutríóið Nordic Fiddlers bloc þrir drengir og enginn þeirra spilaði það sama en þetta hljómaði virkilega vel og var greinilega afskaplega vel samæft. Að loknum tónleikum þustu svo fram konur með svuntur og skelltu á borðin bökkum með samlokum, bökkum með heimabökuðu sætabrauði, kaffi, djús og að sjálfsögðu te í ómældu magni. Konurnar með ginið fóru nú að gorta af afrekum sínum og m.a. sagðist önnur þeirra vera flugumferðarstjóri en kannski hefur það verið ginið sem vara farið að tala á þessum tímapunkti. Á meðan tónleikagestir belgdu sig út af bakkelsi gerði ballhljómsveitin sig tilbúna með þrjá fiðluleikara í fararbroddi. Eyjarskeggjar dönsuðu einhvern hringdans með hoppum og sporum fram og til baka um salinn. Vinkonur mínar voru farnar að verða spenntar fyrir að stíga dans og þá sá ég fram á að nú væri kominn tími til að tvista, nei hypja mig heim. "Hvaða, hvaða kvöldið er rétt að byrja" sögðu þær, en mér tókst að sleppa án þess að móðga neinn. "þakka yður fyrir kvöldið dömur mínar og verið þér sælar" og með það fór ég.
Eurovision söngvakeppnin hefur að mestu farið fram hjá mér en ekki er mikill áhugi fyrir henni hér og ég var alveg sáttur við þessi skipti í kvöld, þjóðlagahátíð versus Eurovision.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar