Færsluflokkur: Bloggar
30.1.2015 | 21:00
Fucking eldhúsborð og fucking pulsur
Hér á eyjunum sem kenndar eru við seli er nóg að gera og margt að hugsa um en það kemur sér vel þegar maður dvelst fjarri ástvinum og fósturjörð.
Á miðkvikudag komu brettin þrjú með dótinu mínu sem ég sendi af stað frá Djúpavogi í byrjun janúar. Eftir að hafa verið hér úti allslaus nánast og haft það býsna fínt sér maður hvað maður safnar miklu óþarfa drasli að sér, dótaríi sem má vel komast af án. Nú er ég semsagt ekki lengur einstæðingur á erlendri grund án mikilla veraldlegra þæginda heldur er ég einstæðingur á erlendri grund með ýmis veraldleg þægindi. Það sem einna helst hefur breyst til batnaðar er að nú þarf ég ekki lengur að borða standandi, eða sitjandi uppi á hillu inni í stofu, nú get ég setið við eldhúsborð og borðað morgunmat og kvöldmat. Ef þið prófið að taka einn til tvo matast standandi daga þá skiljið þið hvers konar umskipti hafa orðið á þægindum á þessu nýja heimili mínu. Sjónvarpið er líka komið á hilluna inni í stofu þannig að það væri töluvert bras og jafnvel hættulegt að reyna að klöngrast þar upp á með... segjum heita súpuskál, brauðsneið og glas af vatni. Sjónvarpið mun væntanlega veita mér aukna afþreyingu frá og með næstu viku en þá á ég von á því að fulltrúar bresku sjónvarpsstöðvarinnar SKY komi í heimsókn og veiti mér aðgang að sjónvarpi og interneti. Ég er ekki enn búinn að setja saman rúmið enda er blái sófinn í stofunni jafn þægilegur og hann er ljótur og mér liggur því ekki á að komast í betra bæli þó að e.t.v. verði af því um helgina. Eldhúsborð og internet, ætli einstæðingur þurfi eitthvað meira?
Stundum langar mig í eitthvað að borða sem er alvanalegt að fá á Íslandi en erfitt hér á eyjunum norður af Skotlandi. Pulsur. Ég gerði tilraun til að elda pulsur á þriðjudaginn. Það kom aðallega til vegna þess að ég rakst á pulsubrauð á tilboði og fannst tilvalið að nýta það til að útbúa hinn rammíslenska þjóðarrétt, pulsur með öllu. Tómatsósu og sinnep er auðvelt að finna í verslunum hér en þar með er það upp talið. Pulsur eru nauðsynlegar ef maður ætlar að elda pulsur og ég fann niðursuðudós með einhverju sem líktist íslensku pulsunni. Þær pulsur sem Skotar kalla sausages eru töluvert frábrugðnar hinni íslensku frænku skosku pulsanna og því tók ég niðursoðnu pulsurnar fram yfir. Þrátt fyrir all ítarlega leit fann ég hvorki steiktan lauk né remúlaði en hins vegar fann ég majónes með karamelliseruðum lauk og því taldi ég að með því að fjárfesta í þessari majonsósu sem samanstóð af helsta hráefni steikts lauks og remúlaðis væri ég kominn með það sem til þurfti. Þegar eldamennskunni var lokið og ég gat sökkt tönnunum í lungamjúkt pulsubrauð með öllu (sem til var)lét árangur erfiðisins ekki standa á sér. Þetta var foráttu vont. Allavega langt frá því að líkjast þeirri pulsu sem maður er alinn upp við á íslandi og er manni nánast í blóð borin. Ég át þetta nú samt en eftir á leið mér einhvern veginn eins og ég hefði orðið fórnarlamb ofbeldis.
Ævintýrin gerast ekki aðeins í eldhúsinu eða stofunni. Í gær fór ég með þjónustubát SSF til að setja upp ramma fyrir kvíarnar, þ.e. ganga frá akkerum, tóum og festingum á tilvonandi eldisstöð. Það gekk eins og í sögu en í áhöfn þjónustubátsins sem heitir Northern Viking voru þrír Hjaltlandseyingar. Skipstjórinn eru mjög áþekkur Kolbeini kafteini úr Tinnabókunum í útliti, annar nánast tvífari Árna heitins Tryggvasonar sem m.a. lék Lilla klifurmús í Dýrunum í Hálsaskógi og sá þriðji var keimlíkur Fossa birni úr Prúðuleikurunum. Til að byrja með var afskaplega erfitt að átta sig á hvað þeir voru að segja vegna hins sterka Hjaltlandseyjahreims þeirra. Þarna var ég sem sagt staddur með Kolbeini kafteini, Lilla klifurmús og Fossa birni og augun í mér hringsnerust þegar ég var að einbeita mér að því að skilja það sem þeir voru að segja. Það kom nú reyndar mjög fljótt enda samanstóð orðaforði þeirra fyrst og fremst af blótsyrðum. Til dæmis sögðu þeir fucking í u.þ.b. öðru hverju orði shit eða shyte í c.a. þriðja hverju orði og svo var fyllt upp í annað með orðum eins og twat, bastard og fleiru í þeim dúr. Ekki svo að skilja að þeir hafi haft allt á hornum sér. Þvert á móti þetta eru lífsglaðir náungar sem geisluðu af kátínu og á milli þess sem þeir blótuðu skellihlógu þeir svo að skein í tedrykkjugular tennurnar. Dagurinn var hinn besti í alla staði, allt gekk að óskum enda ekki við öðru að búast þegar félagsskapurinn er góður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2015 | 18:47
Borgarvík og Burns
Helgin var fremur róleg, á laugardag fór ég ekki út fyrir Kirkjuvog en á sunnudag ók ég til syðstla hluta Orkneyja, alla leið til Borgarvíkur (Burvick) sem er syðst á Syðri-Rögnvaldsey (South Ronaldsay). Ekki þarf að taka ferju til að komast þangað en frá Meginlandinu er farið yfir brú yfir á Lambhólma (Lambholm), þaðan yfir aðra brú til Borgeyjar (Burray) og svo yfir þriðju brúna til að komast yfir á Syðri-Rögnvaldsey. Þar er lítill fallegur bær sem heitir Höfði heilagrar Margrétar (St Margaret's Hope)og þar er hægt að daka ferju til Skotlands.
St Margaret's hope:
Ögn sunnar er Borgarvík. Þar er enginn bær en engu að síður er þar bryggja og þangað gengur líka ferja frá Skotlandi. Aðeins eru um 15 km (u.þ.b. 8 sjómílur) yfir til Skotlands þaðan og því fljótlegt að skreppa yfir.
Skotlandsströnd:
Þaðan sést líka til nyrsta odda Skotlands sem heitir Cape Wrath en það kann að hljóma kunnuglega í sumra eyrum.
Frá Kirkjuvogi tekur ekki nema um hálftíma að keyra að syðsta eða nyrsta odda aðaleyjarinnar sem er ekki mjög stór. Mér gengur orðið ágætlega að keyra öfugu megin og ég lendi æ sjaldnar í því að mæta bílum þar sem bílstjórinn situr með uppglennt augu og skelfingarsvip af því að rauður Landrover Discovery kom æðandi á móti viðkomandi á öfugum vegarhelmingi. Það hendir mig samt stundum að ég fer fyrst að farþegahurðinni þegar ég ætla að setjast í bílstjórasætið.
Annars er það að frétta að ég missti af Burns night í gær en það er víst hefð hér í Skotlandi að halda upp á afmæli skáldsins Robert Burns sem var fæddur 25. janúar en það er gert með því að snæða Haggis og drekka Viský. Hvernig í ósköpunum gat þetta farið fram hjá mér? Af hverju lét mig enginn vita? Þetta verður sko aldeilis bætt upp á næstu vikum. Robert Burns þessi var og er eitt helsta ljóðskáld Skota, svona nokkurs konar Jónas Hallgrímsson þeirra. Hann var uppi á 18. öld og lést aðeins 37 ára að aldrei, svona svipað og Jónas. Eitt frægasta ljóð hans Auld lang syne er sungið víðast hvar í hinum enskumælandi heimi um hver áramót en margir kannast við lagið með íslenska textanum Hin gömlu kynni gleymast ei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2015 | 16:03
Kirkjuvogur
Sumir gætu ef til vill haldið, miðað við þær myndir sem ég hef verið að birta héðan frá Orkneyjum, að ég sé sestur að í einhverjum útnára fjarri allri siðmenningu og lífsþægindum. En nei, því er nú alls ekki þannig farið. Hér á þessum suðrænu eyjum (allavega suðrænni en föðurlandið fríða) er allt til alls. Hér í Kirkjuvogi búa 8600 manns og hér eru þrjár stórar verslunarkeðjur með matvöruverslanir, þ.e. Tesco sem er ein stærsta matvörukeðja Bretlandseyja, LIDL sem er þýsk matvörukeðja sem hefur verið að dreifa úr sér um Breska konungveldið og veitir breskum matvörukeðjum harða samkeppni. Hér er líka COOP verslun og slatti af kaupmönnum á hornum. Ég geri flest öll mín innkaup í Tesco, þar er meira úrval en annarsstaðar og allt einhvern veginn þægilegra en sennilegra er LIDL eitthvað aðeins ódýrara. Annars er matvöruverðið hagstætt, allavega nokkuð lægra en á Íslandi.
Svo er hér verslunargata með takmarkaðri bílaumferð:
Hér er líka Miðstöð norrænna fræða en þar blasir íslenski fáninn við:
Höfnin er nokkuð stór og þar eru allskonar bátar, ferjur, fiskibátar og hinir ýmsir þjónustubátar. Þetta er hluti af höfninni þar sem smærri bátar lúra:
Eitt helsta kennileiti Kirkjuvogs er dómkirkja heilags Magnúsar sem stendur í miðbænum. Bygging hennar hófst árið 1137 og tók um 300 ár. Hún er skírð í höfuðið á Magnúsi sem Noregskonungur skipaði jarl hér á Orkneyjum ásamt Hákoni jarli. Magnús var friðsamur en Hákon var vondi karlinn og til að gera langa sögu stutta ákváðu Magnús og Hákon að gera með sér friðarsamkomulag en Hákon sveik það loforð og lét einn af sínum mönnum drepa Magnús. Það sem er kannski athyglisvert við það er að sá sem drap Magnús hét Lífólfur. Skyldi það eitthvað tengjast Lífólfsskeri sem liggur í minni Berufjarðar?
Fleira er í boði hér við voginn Orkneyska. Til að mynda er hér starfrækt einskonar félagsheimili sem er opið alla daga vikunnar. Þar má til dæmis finna sundlaug, íþróttasali, þreksal, kvikmyndahús, veggtennis, kaffihús og þar í bakgarðinum eru knattspyrnuvöllur, rugbyvöllur og tjaldstæði. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þar. Hér eru líka nokkrir skólar og meira að segja háskóli, bókasafn, sjúkrahús, flugvöllur, veitingastaðir já bara hreinlega allt sem maður þarf og rúmlega það svei mér þá. Já og alls ekki má gleyma því að hér eru pöbbar og hér er bruggað Whiskey sem kallast Highland Park. Þó að Kirkjuvogur sé nokkurþúsundmannabær eru hér engir glæpir, hér eru allir vingjarnlegir og hjálpsamir og það væri örugglega óhætt að skilja bílinn eftir ólæstan sem og húsið og enginn myndi hreyfa við neinu.
Það sem ég finn helst fyrir að er síðra hér á Orkneyjum er að netsamband er lakara en á Íslandi. Það er t.d. hvergi hægt að stóla á netsamband á símum nema þar sem hægt er að tengjast WiFi kerfi. Ég er ekki enn kominn með netsamband í húsinu sem ég bý í og hef þurft að fara t.d. á bókasafnið (þar sem ég sit og skrifa þetta) eða í vinnuna til að komast á netið en nú hef ég gert samning við fyrirtæki að nafni SKY um að setja upp fyrir mig netsamband heima. Öllu heldur hef ég gengist undir þá skilmála sem SKY setur gegn því að setja upp netið hjá mér. Mér skilst að ég verði orðinn nettengdur fyrstu vikuna í febrúar. Í næstu viku fæ ég líka afhent hitt og þetta sem ég sendi að heiman áður en ég lagði upp í þetta ævintýri. Þar é meðal er rúm en ég er farinn að kunna svo vel við aða sofa í bláa sófanum að ég er ekki viss um að ég vilji skipta. Sjáum til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2015 | 10:43
Aberdeen - Ketiltóftir
Á mánudag fór ég ásamt svæðisstjóra SSF á Orkneyjum til Aberdeen í þeim tilgangi að kanna gang mála við smíði á fóðurpramma fyrir nýju stöðina sem ég verð á. Eftir að lent var í Aberdeen var ekið til Banff þar sem höfuðstöðvar McDuff skipasmíðastöðvarinnar eru. Þar inni er sami ilmur og í smiðjunni hjá Smástál en munurinn er sá að þarna tala allir eins og Alex Ferguson. Að þessu verkefni loknu var ekið áfram, m.a. í gegnum Portsoy sem er einn fallegasti bærinn á Norðaustur Skotlandi og fyrir ykkur sem eruð oft að þvælast á þessum slóðum, endilega komið við þar, það er þess virði. Næst var stoppað í Buckie þar sem sjálf smíðin á prammanum fer fram og það var mjög gaman að sjá þetta 100 tonna flykki standa hálfklárað á fjórum litlum stólum inni í smiðjunni vitandi að þetta er væntanlegur vinnustaður manns eftir 2 - 3 mánuði. Við áttum svo flug heim aftur frá Aberdeen um hálf sjö en fluginu var frestað til hálf tíu og mér skilst að starfsfólk Loganair sé ekkert allt of mikið að stressa sig á einhverjum bévítans tímaáætlunum. Flugið frá Aberdeen tók um hálftíma og aumingja flugfreyjan mátti hafa sig alla við til að ná að fara yfir öryggisreglur, yfirfara sætisólar, bera fram kaffi (hlaupandi) fyrir 30 manns taka saman og ganga frá (hlaupandi) á þessum stutta tíma sem flugið tók.
Á þriðjudag var ég sendur í leiðangur til Sandeyjar (Sanday) þar sem kvíasmiðir voru að gera sig klára að hefja smíði á þeim 12 kvíum sem verða á stöðinni okkar. Mér var falið það verkefni að ganga úr skugga um að þeir hefðu tilskilin leyfi og réttindi og að þeir færu eftir þeim kröfum sem gerðar eru af hálfu SSF. Farþegaferjan Þorfinnur jarl (Earl Thorfinn) flutti mig til Sandeyjar og fyrir hádegi var ég búinn að koma öllu á hreint hjá kvíasmiðunum en þar sem ferjan fór ekki til baka fyrr en rúmlega sex var ekki annað fyrir mig að gera en að skoða mig um á Sandey. Ég hafði ekki ekið lengi þegar ég ók fram hjá bóndabæ þar sem kona gekk yfir túnið með stóran heybagga á bakinu. Það er nefnilega það sem konur á Sandey gera á meðan karlarnir eru einhversstaðar í rólegheitum. Þrátt fyrir sína þungu byrði brosti hún og veifaði mér. Nokkrum bílum mætti ég og allir bílstjórarnir brostu og veifuðu. Það virðist sem sagt vera einstaklegar glaðlegt og vingjarnlegt fólk þarna. Leiðin á svo til Ketiltófta (Kettletoft) þar sem hægt var að fá sér í svanginn og auðvitað kom vertinn (ekki Per samt) og spjallaði um heima og geima (ekki rafgeyma) á meðan húsfreyjan eldaði. Sandey er um 50 ferkílómetrar að stærð, þar búa tæplega 500 manns og dregur eyjan nafn sitt af stórum hvítasandsfjörum sem víða má finna þar.
Flestir íbúar Sandeyjar eru bændur en hér á Orkneyjum eru margir bændur sem stunda sauðfjár eða nautgriparækt. Þessar síðhærðu beljur voru vinalegar og ég er ekki frá því að þær hafi brosað og veifað
Ég hef ekki enn gefið mér tíma til að heimsækja einn af slátrurum bæjarins en hver veit nem að maður geti eldað sér íslenska kjötsúpu eða steikt kótilettur í raspi. Það er samt áhyggjuefni að hér gæti reynst erfitt að komast yfir súpujurtir í kjötsúpuna eða að finna Ora grænar baunir og rabbabarasultu með kótilettunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2015 | 20:18
865 km
Fyrsta helgin á hinum vindbörðu Orkneyjum, 865 km suðsuðaustur frá Djúpavogi, er að líða hjá. Ég var í fríi þessa fyrstu helgi og notaði tímann til að skoða mig um í Kirkjuvogi og nágrenni, skrapp meira að segja yfir í Straumnes (Stromness) í dag en Straumnes er næst stærsta byggðarlagið hér á Orkneyjum með um 2.200 manns. Kirkjuvogur er stærsta bæjarfélagið en hér búa um 8.600 manns og allt í allt búa um 21.000 manns á eyjunum. Eyjarnar eru um 70 talsins en aðeins er búið á um 20 eyjum enda margar eyjarnar mjög litlar og myndu sennilega ekki kallast annað en hólmi eða sker á Íslandi.
Regnbogi við Steinsneslög (Loch Stenness).
Ég held að Orkneyjar séu óttalegt rokrassgat en hér hefur verið mismikill vindur alla daga frá því ég kom og sól og rigning til skiptis, hitinn frá 1-4°C. Orkneyingar nýta vindinn til rafmagnsframleiðslu en hér eru vindmyllur út um allt og Orkneyingar eru sjálfum sér nógir með raforku. A vísu liggur rafstrengur milli Orkneyja og Skotlands, um 16 km leið, en ekki er þörf á að nýta aukaraforku frá meginlandinu í suðri. Minni raforkunotkun er á nóttunni en daginn og þess vegna er rafmagnið ódýrara á nóttinni og þá nota Skotarnir, sem að mér skilst að hafi orð á sér fyrir nízku, tækifærið og setja þvottavélarnar, þurrkarana og önnur orkufrek raftæki í gang.
Stundum verður vindurinn það mikill að vindmyllurnar fjúka og spaðarnir á öðrum skemmast.
Fyrstu kynni mín af frændum okkar Skotum og Skotlandi var í gegnum bókmenntirnar en ein af hinum ódauðlegu Tinnabókum, Svaðilför í Surtsey, gerist í Skotlandi. Þar á Tinni í höggi við Dr. Müller og félaga sem stunda peningafölsun á Surtsey. Í eyjunni þurfa Tinni og Tobbi ekki aðeins að kljást við peningafalsara heldur er þar líka ófreskjan Glámur, eða Glámug eins og hinn þýskættaði Dr. Müller segir það. glámur er einhverskonar Górillufyrirbæri sem gætir eyjarinnar og hræðist ekkert nema köngulær og auðvitað ná Tinni og Tobbi að vinna hann á sitt band og koma höndum á skúrkana. Mér skilst að það sé Tinnasafn í Belgíu, heimalandi höfundarins Hergé og ef maður á einhvern tímann eftir að heimsækja frændur okkar Belga, yrði ekki leiðinlegt að kíkja á tinnasafnið.
Tinni í Skotapilsi á leið út í Surtsey.
Á morgun fer ég til Aberdeen til þess að skoða fóðurpramma sem McDuff skipasmíðastöðin er að smíða fyrir SSF, það verður fróðlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2015 | 21:48
Skapalón
Híbýli mín eru smátt og smátt að hitna og í nótt gat ég sofið án fara. Það er mikill munur. Deginum í dag var að mestu eytt á skrifstofunni við undirbúning allrahanda námskeiða sem ég og aðrir starfsmenn þurfa að sækja áður en eldisstöðin fer í gang. Mér telst til að það séu 15 námskeið sem ég þarf að fara á en SSF gerir miklar kröfur varðandi öryggi, heilsu og færni starfsfólks. Það skilar sér margfalt til baka, starfsfólkið fær aukna þekkingu og réttindi og afkoma fyrirtækisins verður betri. Sem dæmi má nefna að fyrir tveimur árum setti fyrirtækið upp nýja stöð við Eiðey (Eday) og inn á hana voru eingöngu ráðnir starfsmenn með enga fiskeldisreynslu. Þeir voru skólaðir til og eftir rúmt ár fékk stöðin verðlaun frá Marks & Spencer fyrir framúrskarandi árangur.
Skrifstofurnar fyrir Orkneyjar eru við Skapalón (Scapa flow) en hér á Orkneyjum vinna um 35 manns hjá SSF. Skapalón er frægur staður úr heimstyrjöldunum tveimur en hér á hafsbotni liggja fjölmörg skipsflök, m.a. þýsk herskip sem báru nöfn eins og SMS Dresden, SMS Karlsrühe, SMS Köln, og SMS Markgraf. Einnig liggja þarna ensk skip og má þar nefna HMS Vanguard sem sprakk í loft upp í fyrri heimstyrjöldinni og fórust þar 804 manns og Royal Oak sem var skotið niður af þýskum kafbát og með því fórust 834 manns. Hér við lóðina á skrifstofunni er einmitt minningarreitur um þá sem fórust með Royal Oak. Skapalón er mjög vinsæll köfunarstaður og hver veit nema maður eigi eftir að kafa niður í eitt af þessum flökum.
Sandfjara við botn Skapalóns, skrifstofa SSF er lengst til hægri:
Orkneyski fáninn er eins og sá norski nema að í staðinn fyrir hvítt er gult:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2015 | 22:44
Skotasund
Dagurinn í dag fór að mestu í að heimsækja eina af eldisstöðvum SSF sem staðsett er við Skarphéðinsey (Shapinsay)en eftir volkið á sjónum fannst mér tilvalið að fara í sund en mér var tjáð að hér í Kirkjuvogi væri hin ágætasta sundlaug. Það er samt að ýmsu leiti öðruvísi að fara í sund hér miðað við í hefðbundinni íslenskri sundlaug.
Fyrst ber að nefna að það eru ekki sér karla og kvennaklefar. Nei hér eru allir saman í klefa. Samstarfsmenn mínir voru búnir að segja mér að samfélagið hér væri gott og þetta væri eins og ein stór fjölskylda en ekki hafði ég látið mér detta í huga að fólk væri svona náið. Auðvitað bregður manni og það vakna ýmsar spurningar þegar maður er að afklæðast og stúlka á fermingaraldri gengur framhjá manni á sundbolnum og blikkar ekki auga eins og ekkert væri sjálfsagðara. Hvað á maður frá Íslandi að halda? Hún er of gömul til þess að þurfa að láta pabba sinn hjálpa sér, ekki nema hún eigi við fötlun að stríða og geti það ekki sjálf. Er ég kannski í vitlausum klefa? Er þessi kona sem kemur þarna gangandi rennandi blaut staðfesting á því? Hún er örugglega ekki á þeim aldri að hún þurfi hjálp. Það fór áreiðanlega eldri maður hér inn áðan. Úff í hverju er ég lentur? uuuuu kvennaklefanum? Á ég nú að hætta við og hlaupa út í bíl? Af hverju segir enginn neitt? Jæja, ég klæði mig þá bara úr fötunum og athuga hvort einhver segir eitthvað ef ég geng nakinn um húsakynnin býð nýjan dag velkominn, strýk framan úr mér mesta hárið.
Nei auðvitað er þetta þannig að það eru klefar fyrir hvern og einn, allir inni í sama rými og enginn gengur um nakinn en karlar og konur fara saman í sturturnar á sundfötunum þó. Það eru hvergi skilti með áletrunum á borð við "Alle gæster må vaske sig uden badetöj" eða "Alle gästemüssen sich ohne badeanzug waschen" eða hvernig sem þetta er nú á Íslandi. Kannski maður komið með svoleiðis skilti næst og athugi hvað gerist.
Sundlaugin sjálf er fín venjuleg 25m laug auk barnalaugar með fullt af leiktækjum og horni með nuddi fyrir fullorðna fólkið en barnalaugin er samt frekar köld miðað við þær íslensku, jafnvel ísköld. Svo þarf líka að kaupa sér passa til að komast í heitan pott, sauna eða gufubað þannig að sundferðin hjá mér var styttri í annan endann fyrir vikið. Í sama húsi er líka stærðarinnar líkamsræktarsalur þar sem boðið er upp á óskaplega margar tegundir af líkamsrækt og þar er líka frjálsíþrótta og fótboltavöllur. Ég var einna spenntastur fyrir að fara í sundzúmba, hver veit nema að maður mæti í það einn daginn. Að sundi loknu er svo hægt að kíkja á kaffihús eða bíó en þetta er allt þarna undir sama þaki í þessari afþreyingarmiðstöð sem heitir Pickaquoy.
Að sundi loknu er svo tilvalið að fá sér fish'n'chips og IrnBru enda fátt breskara en það.
IrnBru er reyndar skuggalega líkur uppþvottalegi:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2015 | 21:45
Frá Djúpavogi til Kirkjuvogs
Þá er ævintýrið hafið. hvað er maður að hugsa? Að taka sig upp þegar allt er í góðu og flytja úr landi, burt frá öllu sem manni þykir vænt um. Þetta er auðvitað ákveðin bilun. En samt ekki. Sambland af metnaði og ævintýraþrá rekur mann af stað. ekki skyndilausn, ekki leit að betra lífi, ekki af því að allt er ómögulegt, ekki af því að grasið er grænna hinu megin, heldur leit að meiri reynslu og þekkingu, leið til að verða betri í því sem maður starfar við og að verða betri og víðsýnni manneskja. Svipað því að fara í skóla. Vonandi tekst það. Ég er sumsé kominn til Kirkwall á Orkneyjum, eða Kirkjuvogs eins og bærinn hét upphaflega og farinn að vinna hjá stóru laxeldisfyrirtæki sem heitir Scottish Seafarms en þar bauðst mér að taka við stöðu stöðvarstjóra á nýrri eldisstöð sem verið er að standsetja við eyjuna Vigur (Wyre). Þetta er að sjálfsögðu mjög spennandi og hjá fyrirtækinu er vandað til verka að öllu leiti.
Ég lenti í Kirkjuvogi á mánudag eftir millilendingu í Glasgow en hér er alþjóðaflugvöllur. Svo var farið að ná í bílaleigubíl en bíllinn sem fyrirtækið mun skaffa mér verður ekki tilbúinn fyrr en á mánudag. Ég fékk því Landrover Discovery til að nota fram yfir helgi en þá skipti ég yfir á Toyota Hilux. Það er frekar undarlegt að keyra alltaf vinstra megin og sitja alltaf öfugu megin í bílnum miðað við það sem maður er vanur en ætli þetta verði ekki fljótt að venjast. Maður ætlar samt alltaf öfugu megin inn og teygir sig í vitlausa átt eftir öryggisbeltinu. Vonandi er maður samt ekki öfugu megin í lífinu að örðu leiti.
Hér eru öll hús grá að lit en bæjaryfirvöld ráða lit húsanna og þeirra stefna er að hafa útlit bæjanna einsleitt. Á Íslandi er þessu öfugt farið, þar er eins og maður hafi dottið ofan í Smarties skál. húsið sem ég fékk úthlutað er því grátt og stendur við Reid Crescent nr 35. Það hafði ekki verið kynt í töluverðan tíma og því var ískalt þar fyrsta sólarhringinn en það er þannig hér að rafmagn er mun ódýrara á nóttunni og þess vegna er ekki hægt að hafa kyndinguna í gangi nema á nóttunni. Þar að auki eru engir ofnar í húsinu en húsið er hitað upp með lögnum í gólfinu og það fyrirkomulag er þess valdandi að húsið er óratíma að hitna og óratíma að kólna þegar að því kemur (kannski í vor) auk þess sem steinninn sem húsið er byggt úr er ekki sérlega móttækilegur fyrir hita. Það bjargar þó málum að í stofunni er rafmagnsarinn og þar sem ég er ekki búinn að fá rúmið mitt frá Íslandi sef ég í sófa í stofunni við hliðina á arninum. fyrstu nóttina svaf ég í öllum fötunum auk þess að klæða mig í flíspeysu og ullarsokka til að mér yrði ekki kalt, enda var hiti við frostmark annarsstaðar í húsinu og þeir sem hafa komið í fjallaskála að vetri til vita að þar getur verið ansi kuldalegt til að byrja með og eins gott að vera vel klæddur. Þetta var svipað. Nóttin var samt hin ágætasta og nú tveimur sólarhringum síðar er þetta að verða bærilegt, allavega eftir nóttina í nótt ætti þetta að vera orðið gott. Þetta er líka gott í bili.
Bátur í höfninni í Þingvöllum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2013 | 07:46
Náttúruhamfarir
Orðsporið fjúki ekki út í veður og vind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2013 | 21:17
Heyskap að ljúka
finn ilminn af nýsleginni töðunni berast inn um gluggann. Nú er bara eftir að hirða og svo er að bíða eftir töðugjöldunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar